Bloggfærslur mánaðarins, október 2018
Svíar þurfa á hjálp að halda
31.10.2018 | 01:29
Ekkert bólar á neinni ríkisstjórn í Svíþjóð nær tveimur mánuðum eftir kosningar.
Vonandi gefur eftirfarandi lýsing smá innsýn í þá erfiðleika sem við er að etja.
Hluti nafna íslenskaður:
Stefán er Stefan Löfven formaður Sósíaldemókrata
Jón er Jan Björklund formaður Frjálslyndra
Anna er Annie Lööf formaður Miðflokksins
Bandalagið er hægri blokkin þ.e.a.s. Móderatar, Kristdemókratar, Miðflokkur og Frjálslyndir.
Jimmý er Jimmy Åkesson formaður Svíþjóðardemókrata
Úlfur er Ulf Kristersson formaður Móderata
Ebba er Ebba Busch Thor formaður Kristdemókrata
Jónas er Jonas Sjöstedt formaður Vinstri flokksins.
Gústaf og Ísabella eru málsmenn Umhverfisflokksins, Gustav Fridolin og Isabella Lövin.
- Stefán vill ekki tala við Jón og Önnu og þau vilja ekki tala við Stefán.
- Bandalagið vill tala við Stefán en hann vill ekki tala við Bandalagið.
- Jimmý vill tala við Úlf en Úlfur vill bara tala við Ebbu, Jón og Önnu.
- Jimmý vill tala við alla en enginn vill tala hvorki við Jimmý eða Jónas.
- Stefán vill fá aðstoð Jónasar en þá getur Stefán ekki talað við Jón eða Önnu þar sem þau tala ekki við Jónas.
- Ef Úlfur eða Ebba fara að tala við Jimmý, þá hætta Anna og Jón að tala við Úlf og Ebbu - og Anna og Jón byrja í staðinn að tala við Stefán að því tilskildu að hann hætti að tala við Jónas.
- Enginn talar við Gústaf og Ísabellu, þar sem þau vilja ekki tala við neinn annan en Stefán.
Getur ekki einhver góður sálfræðingur aðstoðað?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Andreas Norlén ræðir fjóra stjórnarmöguleika við forystumenn annarra stjórnmálaflokka en Svíþjóðardemókrata og Vinstri
29.10.2018 | 17:40
Andreas Norlén forseti sænska þingsins stendur í ströngu. Hann er viðkunnanlegur og varkár stjórnmálamaður sem gengur skipulega til verka, þótt allir séu ekki alveg sammála aðferðinni. Eftir viðræður við flokksleiðtoga stjórnmálaflokkanna í dag mánudag 29. okt. lýsti Norlén því yfir að morgundagurinn yrði nýttur til að ræða við stjórnmálamenn fleiri en einn í einu og þá til að ræða fjóra möguleika til stjórnamyndunar: - stærra bandalag með Sósíaldemókrötum, Umhverfisflokknum og hægri blokkinni, - miðjustjórn Sósíaldemókrata, Umhverfisflokksins, Miðflokksins og Frjálslyndra, - hægri blokkin í samstarfi við Umhverfisflokkinn, - einhver s.k. 3-2-1 möguleika Móderata. Vonast Norlén til að hægt sé að fækka valkostum svo unnt verði að hefja í alvöru stjórnarmyndunarviðræður um vænlegasta kostinn.
"Skoðun mín er sú að aukakosningar væru mikill ósigur fyrir stjórnmálakerfið. Slíkt myndi skaða traust almennings. Við berum einfaldlega ábyrgð á að leysa málin".
Þrýstingur eykst bæði utan og innan þingsins fyrir því, að forsetinn láti reyna á forsætisráðherratillögur í beinni atkvæðagreiðslu á þinginu. Til þess eru fjórir möguleikar og ef ekki ekki tekst að fá fram forsætisráðherra sem þingið "þolir", þ.e.a.s. greiðir ekki vantraust gegn, þá verða sjálfkrafa aukakosningar.
Sjö vikur eru liðnar frá kosningum og staðan er einsdæmi í sögu Svíþjóðar. Jimmy Åkesson hefur margsinnis ítrekað stuðning við ríkisstjórn þeirra flokka sem eru tilbúnir að semja við Svíþjóðardemókrata en bæði hægri og vinstri blokkin vilja halda Svíþjóðardemókrötum og Vinstri flokknum útfrystum frá stjórnarmyndunarviðræðum. Þessum flokkum hefur því ekki verið boðið til viðræðna á morgun.
Jimmy Åkesson lýsti því yfir í dag að Svíþjóðardemókratar hefðu ekkert á móti aukakosningum en honum þætti betra að leiðtogar flokkanna ræddu beint við Svíþjóðardemókrata. Bauð hann Móderötum að koma skilaboðum til sín í nafnlausu bréfi ef það gæti lægt öldurnar innan Móderata en hann býst við fylgisaukningu frá Móderötum ef af aukakosningum verður.
Fordæmalaus staða í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Seðlabanki Svíþjóðar undirbýr útgáfu rafkrónu
27.10.2018 | 07:56
Nýlega birti sænski Seðlabankinn yfirlýsingu um að bankinn athugaði í fullri alvöru upptöku á rafrænni krónu í stað myntar og seðla. Tekur bankinn upp sænska krónu sem rafkrónu verður það í fyrsta skipti í heiminum sem slíkt verður gert af opinberum aðila.
Ekki er verið að ræða svindlpeninga eins og bitcoin heldur alvöru gjaldmiðil gefinn út af sænska ríkinu. Ekki er víst að allir einkabankar séu hrifnir af hugmyndinni, þótt þeir ýti sjálfir undir peningalaust samfélag með sífellt meiri kortanotkun. Seðlabankinn fyrirhugar nefnilega að opna reikninga í rafkrónum fyrir almenning og spyrna þannig á móti sífellt minni tryggingu fjármálafyrirtækja í minnkandi bindiskyldu við Seðlabankann.
Margir aðilar í ferða- og hótelgeiranum taka einungis við kortagreiðslum í dag í Svíþjóð. Ef þú gleymir kortinu heima en ert með seðla á þér áttu samt á hættu að verða neitað t.d. um hádegismat á veitingastað eða kaffi á kaffihúsum. Svíþjóð er trúlega það land í heiminum sem notar minnst seðla og mynt í dag eða um 1% af efnahaginum. Í Evrópu er notkun myntar um 10%.
Bankarnir skapa peninga við útlán en eru háðir bindiskyldu við Seðlabankann. Sú kjölfesta hefur minnkað stöðugt undanfarin ár og vilja sum fjármálafyrirtæki afnema bindiskyldu með öllu. Það mun þó ekki stöðva banka sem eru í óreiðumálum að leita á náðir Seðlabankans. Seðlabankinn sér tilgang í viðhaldi fullveldi gjaldmiðilsins í höndum ríkisins sem tryggingu í fjármálakrísum og bregst því við með hugmyndinni um rafkrónu.
Í dag hafa bankarnir gert viðskiptavinum sínum erfitt fyrir að taka út peninga í seðlum. Hraðbönkum hefur fækkað og einungis hægt að taka út litlar upphæðir. Flest bankaútibú skylta með að þar sé enga seðla að fá. Rafkróna myndi auðvelda viðskiptavinum bankanna að taka út peninga sem aftur á móti yki þrýsting á bankana að tryggja viðskiptalega kjölfestu. Verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins og hvenær rafkrónan verður sett í umferð.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Aumkunarverð hylling kommúnismans á kostnað skattgreiðenda
25.10.2018 | 00:14
Það var eins og ég skrifaði í lokaorðum greinar minnar í Mbl. s.l. mánudag "Mér finnst bara sorglegt að sjá suma jafnaldra mína enn á sama stað eftir tæpa hálfa öld." Sorglegast að vita af bróður sínum í þessu.
Byltingarþríeykið skrifar:
"Sendiráðstakan í Stokkhólmi er fyrst og fremst minnisverður atburður um mótspyrnu og hugrekki".
Réttlæta þannig og hylla árásina á íslenska lýðveldið. Normalísera beitingu ofbeldis sem aðferð við að koma skoðunum sínum á framfæri.
Kannski var Gylfi Þ. Gíslason menntamálaráðherra of hógvær, þegar hann lýsti því yfir, að íslensk yfirvöld aðhefðust ekkert gegn ellefumenningunum "því þeir vita ekki hvað þeir gjöra". Hann benti réttilega á, að 11 námsmenn voru aðeins brot íslenskra námsmanna á Norðurlöndum. Það örbrot lýsti yfir sósíalískri byltingu við sendiráðstökuna.
Rauðhöfundar myndarinnar höfðu og hafa engan áhuga hvorki á kjörum námsmanna eða vinnandi fólks, afleiðingu heilaþvottar eða hættu af hryðjuverkastarfsemi. Breiða enn út byltingarrómantík og hylla opnar dyr hryðjuverkastarfsemi sem "fagrar hugmyndir sósíalismans". Kvikmyndin ristir ekki djúpt í gerð heimildarmynda. Verið er að kreista síðasta gloríudropann úr sítrónunni 50 árum seinna blandað með karlagrobbi og opinberum fréttaklippum.
Það sem eftir stendur er að almannafé er notað við framleiðslu myndar sem hyllir kommúnismann.
Aumkunarvert.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
Evrópa er heimili þjóðríkja enginn "bræðsluofn"
24.10.2018 | 03:43
Það fer vel á því, þegar einræðisherrar ESB hóta Ítölum grísku spennitreyjunni, að forsætisráðherra Ungverjaldands vari við stærstu hættunni sem steðji að Evrópu í dag.
Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands hélt ræðu 23. okt. á ársdegi ungversku uppreisnarinnar gegn kommúnismanum 1956. Sagðist hann ekki hafa trúað því, að 29 árum eftir fall Sovétríkjanna væri aftur uppi afgerandi ógn í Evrópu. Í þetta skipti kæmi hún að innan í stað erlendrar hernaðaríhlutunar.
"Brussel er í dag stjórnað af þeim sem vilja koma á fót evrópsku heimsveldi í stað sambands þjóða. En eins og sögubækurnar segja okkur, þá eru það heimsvaldahugmyndirnar - ekki þjóðirnar - sem leiða Evrópu á braut sjálfseyðingar".
ESB er á barmi fjármálahruns sem skýrir titringinn gagnvart sjálfstæðri Ítalíu. ESB er þegar heimsveldi, herrarnir í Brussel stjórna viðskiptum og fjármálum aðildarríkjanna.
Þegar lýðræðislega kjörnir embættismenn Ítala skrifa eigin fjárlög í Róm bregðast fulltrúar heimsveldisins við. Slíkt framhjáhlaup verður ekki liðið. Brussel-elítan fer í hart og hótar sömu aðferðum og beitt var gegn Grikkjum. Efnameiri Ítalir hafa þegar flutt fé frá ítölskum bönkum yfir í svissneska banka. Efnaminna fólk fær 50 evrur á dag, þegar Seðlabanki Evrópu skrúfar fyrir evruna til Ítalíu.
Hræðslan um afleiðingarnar af slíkum átökum á rétt á sér. ESB er í upplausn og ný evrukreppa mun kollsteypa sambandinu.
Trúlegast sjá herrarnir í Brussel sér þann leik á borði að stofna heimsvaldaríki ESB formlega með þáttöku þeirra þjóða sem vilja.
Hinar mega brenna á báli.
ESB hafnar fjárlögum Ítala | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 03:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kvikmyndasjóður og RÚV eyða almannafé í sjálfsuppskafningu vinstri manna
22.10.2018 | 10:09
Ekkert er eins ömurlegt og gamlir hippar í gömlum kroppum enn með allar tattúeringar og járnfleina í nösum og stálkeðjur bútaðar í líkamann.
Þótt bróðir minn Sigurður Skúlason leikari og vinur hans Hjálmtýr Heiðdal kvikmyndastjóri hafi ekkert slíkt að ég viti á sínum kroppum, þá er myndin "Bráðum verður bylting" jafn léleg og keðjuhristingur hálfáttræðs manns sem vill endurlifa augnablik diskóáranna í síðasta sinn áður en hann deyr.
Myndin ber með sér alla leiðina í gröfina að hún er bara gerð í þeim eina tilgangi að mjólka fé skattgreiðenda úr Kvikmyndasjóði og RÚV. Í því vinstra moði eru heimatökin hæg. Þrettán milljónir fyrir myndina og svo sýningaréttur RÚV að auki. Hver lokasumman verður, sem ofangreindir herrar fá í vasann til að í þykjustunni gera heimildarmynd um sendiráðstökuna í Stokkhólmi, á eftir að koma í ljós.
Nær hefði verið að gefa húsnæðislausum peningana en að henda í sjálfsuppskafningu vinstri herranna.
Ég valdi að segja ekki mína sögu á þessum heilaþvottarvettvangi. Morgunblaðið birtir í dag mína sögu sem var á staðnum sjálfur sem einn ellefumenninganna. Ég skildi síðar, að ég hafði ráðist á mitt eigið land. Ekki neitt sem hægt er að hrósa sér af. Ég hef haft tíma til að hugsa hvað það var sem ég gerði rangt. Og komist að niðurstöðu. Það hafa ekki allir s.k. ellefumenninganna gert. Bróðir minn og kvikmyndaleikstjórinn taka peninga skattgreiðenda til að koma dellunni í annað sinn á framfæri. Og lifa flott í kjölfarið.
Ég vona að mín saga verði öðrum víti til varnaðar. Og til aukins skilnings á því við hvers konar kringumstæður fyrirbæri eins og ellefumenningarnir geta orðið til.
Þetta getur nefnilega gerst aftur.
Og því miður á ofbeldissinnaðri hátt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Sósíalistar í Evrópu stefna í styrjöld um ESB
21.10.2018 | 10:30
Hugmyndin um alríki ESB á meginlandi Evrópu er greinilega ekki það "friðar" verkefni sem talsmenn ESB sungu upphaflega um sambandið. Þá hét það að ESB væri "trygging friðar" í Evrópu.
Sósíalistar með auðkýfing á borð við George Soros í sínum röðum nota hins vegar hvert tækifæri sem þeir geta til að kynda undir óróleika og kljúfa þjóðir í afstöðunni til ESB. Þeir krefjast skilyrðislausrar hlýðni við valdhafana í Brussel. Fórna sjálfsákvörðunarrétti og fullveldi þjóða sinna til að komast sjálfir að kjötkötlunum.
Framkvæmdastjórn ESB mun ekki hreyfa sig eitt fet þótt yfirgnæfandi meirihluti íbúa ESB-landanna lýsi andúð á hinu ólýðræðislega fyrirkomulagi í Brussel. Nú á að sýna öðrum þjóðum innan ESB að ekkert þýðir að samþykkja neitt annað en það sem einræðisherrarnir í Brussel ákveða.
Í gær fóru hundruðir þúsunda Breta í mótgmælagöngu í London gegn Brexit og kröfðust nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Fjármagnaðir m.a. af George Soros sem vill stöðva Brexit "vegna skaðlegra áhrifa á Evrópusambandið". Maðurinn sá rændi Breta um billjón dollara miðvikudaginn svarta 16. september 1992. Með aðstoð sósíalískra stjórnmálahreyfinga vill han skapa glundroða í Bretlandi og meginlandinu öllu til að komast í fjárhirslur meðborgaranna.
Rétt eins og fyrsta hreina vinstri stjórn Íslendinga hugðist gjöra varðandi Icesave. Íslenska þjóðin stöðvaði þá skaðræðisför. Núna er komið að Bretum að gera hið sama.
Tími friðargrímunnar er á enda. Við næsta horn byggir ESB eigin her á fullu.
Tíminn styttist í endurtekningu Sovét-innrásar í Ungverjaland.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Fjögurra daga vinnuvika skapar lélegan vinnumóral
20.10.2018 | 09:36
Í dag er laugardagur. Það þýðir Reykjavíkurbréf og besta dag vikunnar. Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins klikka aldrei. Kitla oft hláturstaugarnar og leyfa lesendanum að skyggnast inn í víðáttu sem oft er hulin venjulegu fólki. Í dag spurninguna um fjögurra daga vinnuviku sem sumir telja paradís - aðrir leið til hins verra. Spurningin um vinnu hlýtur þó alltaf að vera í hvað tíminn er notaður. Þeir sem eru andlega fjarverandi vinna ver en þeir sem einbeita sér og keppast við að ná árangri. Þetta verður mikilvægara í opinberum störfum en annars staðar, þar sem launin eru tekin úr sameiginlegum fjárhirslum meðborgaranna.
Þegar ég opnaði Sænska dagblaðið eftir lestur Morgunblaðsins sé ég svo viðtal við Bandaríska forstjórann Ryan Carson sem skapaði fyrirsagnir út um allan heim 2015, þegar fyrirtæki hans Treehouse tók upp fjögurra daga vinnuviku. Þá gat litla fyrirtækið hans skyndilega keppt um starfsfólk við risa eins og Google og Amazon. Þá lýsti Ryan Carson því sem "win-win" og að hann fengi meiri tíma með börnunum. Núna þremur árum seinna er hljóðið allt annað, - reynslan er skýr.
"Ég var opinbert nafn fyrir 32-tíma vinnuviku. En hún virkar ekki. Hún eyddi vinnumóralnum og olli starfseminni grundvallartjóni".
2016 hætti fyrirtækið við 32 tíma vinnuviku og tók aftur upp 40 stunda vinnuviku.
"Það var hræðilegt. Ég hafði skapað menningu sem ég varð að þvervenda. Sjálfur vinn ég í dag um 65 tíma á viku".
Aðrir sem mæla gegn styttingu vinnuvikunnar segja að stytting vinnuvikunnar skapi auka streitu þegar þarf að klára sömu vinnu á færri dögum. Grunnur ellilífeyris snarminnkar.
Ryan Carson segir að ekki sé hægt að stytta sér leið. "Þú verður að berjast til að ná árangri". Sjálfur vaknar hann 4.30 á hverjum morgni, snæðir morgunmat með fjölskyldunni og mætir til starfa 8.30. Vinnudeginum lýkur 4.45 og eftir það fer hann í ræktina til kl. 6.30.
"Ég vinn stanslaust. Tek engan hádegismat, engar pásur. Ég vinn bara stanslaust. Ég vinn mikið og einbeiti mér. En aldrei á kvöldin. Þú verður að leggja þig fram, allt annað er della."
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ef Dagur segir ekki af sér á að reka hann úr starfi
18.10.2018 | 08:45
Við getum öll glaðst yfir því, að glæta ljóss hefur loksins komist inn í andrúmsloft gjörspilltrar borgarstjórnar Reykjavíkur. Að öðrum ólöstuðum má þakka það ötulum frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sem leggja heiður sinn í árangursríkt og fórnfúst starf í þágu Reykvíkinga. Eyþór Arnalds og Vigdís Hauksdóttir ber þar hæst og er mikill akkur fyrir Reykvíkinga að hafa þau í störfum. Loksins er í alvöru tekist á við sukk og svínarí vinstri meirihlutans í borgarstjórn.
Andstaðan vinnur hárrétt með því að loka fyrir möguleika svindlaranna að jarða allt í þöggun. Það er ekki fallegt, það sem glyttir í, þegar Eyþór og Vigdís kíkja undir teppið. Sjálfsagt er það sem hingað til hefur sést af fjármálaspillingunni aðeins byrjunin og miklu meira á eftir að koma í ljós. Krafan um afsögn borgarstjórans er fyllilega réttmæt og mátti ekki seinni vera.
Þetta er svo ógeðfellt allt saman og vonandi verður hægt að kæra og dæma þá seku og svipta öllum embættum.
Undirskriftarsöfnun er hafin með áskorun um að Dagur B. Eggertsson segi af sér. Sjálfsagt biður hann einhvern vin sinn um að fórna sér og segja af sér í staðinn. Það færi því vel á því að víkja borgarstjóranum eins fljótt og mögulegt er úr embætti.
Enginn borgarstjóri hefur nokkurn tímann valdið íbúum höfuðborgarinnar jafn miklu tjóni og Samfylkingarmaðurinn Dagur B. Eggertsson. Það er súrt fyrir stritandi Reykvíkinga að þurfa að axla kostnaðinn eftir hann. Vegna stærðarinnar hefur spillingin í Reykjavík því miður einnig áhrif á landið allt og eftir er að fá þann reikninginn.
Svei þér Eyþór Arnalds | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þeir sem töpuðu kosningunum berjast núna um völdin
17.10.2018 | 04:05
Mynd sem gengur á sænskum félagsmiðlum og sýnir Stefan Löfven formann Sósíaldemókrata biðla til Annie Lööf formanns Miðflokksins.
Lotta Gröning hjá Expressen hefur skýra sýn á stjórnmálaástandinu í Svíþjóð:
"Eru það fleiri en ég sem skammast sín og ofbýður hvernig farið er með lýðræðið okkar og það rifið í tætlur? Þeir sem töpuðu kosningunum slást um hverjir þeirra eiga að fá völdin.
Við sem höfum borið höfuðið hátt vegna sænska lýðræðisins höfum ekkert eftir lengur til að vera stolt yfir. Búið er að troða lýðræðið niður í svaðið.
Hópur þeirra stjórnmálamanna sem töpuðu kosningunum telja núna að kosningaúrslitin fjölluðu um sex flokka í stað átta og þessir sex slást núna um völdin.
Staðreyndin er sú, að 1,1 milljónir manns kusu greinilega Svíþjóðardemókrata í mótmælaskyni. Umhverfisflokkurinn tapaði fjórum af hverjum tíu kjósendum. Sósíaldemókratarnir fengu lélegustu kosningaútkomu frá upphafi og hafa glatað trausti verkafólks. Móderatarnir hafa engar sannanir um að pólitík þeirra sé rétt. Samt sem áður sitja þessir aðilar í háum söðli sínum og líta á það sem sjálfsagðan hlut að þeir eigi að stjórna landinu. Þeir hafa lokað hurðinni gagnvart kjósendum sínum, hrína og kveina yfir hvernig stjórnmálamenn í lénum og sveitarfélögum sýna ábyrgð eftir kosningarnar. Bannlisti hefur verið sendur út um að ekki megi starfa með Svíþjóðardemókrötum. Verstur er Stefan Löfven sem hringir til sósíaldemókrata í sveitarfélögunum og skipar þeim að útiloka samstarf við Svíþjóðardemókrata".
Lotta Gröning lýsir því, hvernig tölvubréfin streyma til hennar frá venjulegum Svíum, sem hafa glatað trausti á stjórnmálastéttinni. Telur Lotta að stjórnmálaelítan breiði út rasisma, hræðslu og hatur í Svíþjóð, sem ógni lýðræðinu og skapi hættuástand í þjóðfélaginu.
Löfven spreytir sig við stjórnarmyndun | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 18.10.2018 kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)