Bloggfærslur mánaðarins, október 2015

Góð mynd - Góðir menn

qbzxbrq4Afar ánægjulegt að sjá forsætisráðherra Bretlands og Íslands standa saman á tröppum Alþingishússins. Táknræn mynd fyrir batnandi samskipti þjóðanna og eins og venja er fer það eftir mönnunum hver árangurinn verður.

Íhaldsflokkur Camerons verður ekki ásakaður fyrir handvömm og firrtan æðibunugang sósíaldemókratanna í ríkisstjórn Gordon Browns sem lýstu eitt elsta lýðræðisríki heims og eina af friðsömustu þjóðum jarðar sem hryðjuverkamönnum í stíl við Al Qaeda.

Svöruðu vættir skjaldamerkisins með Eyjafjallajökli sem frægt er orðið: You ask for cash - we pay with ash! (Sumir hafa þó gengið lengra og sagt að forseti Íslands hafi rauða hnappa merktum öllum helstu eldfjöllum Íslands á skrifborðinu og setji í gang eldgos með einum putta).

Hið besta mál, að þjóðirnar stilli saman strengi og líti til framtíðarinnar, sérstaklega líka vegna góðra frétta um uppgjör gömlu bankanna eftir hrun. Þar hefur íslenska ríkisstjórnin unnið afar gott starf og mokað flórinn eftir vinstra volæðið og lítur út fyrir að flórinn verði þokkalega hreinn á eftir. 

Hvenær fá Reykvíkingar að upplifa, að borgarstjóri þeirra standi við hlið forsætisráðherra Íslands sem tákn um samvinnu eins og góðu mennirnir á myndinni? 

Varla verður slíkt mögulegt með þeim Degi, sem breytt hefur Reykjavík í valdabæli fjármálaóstjórnar og ólýðræðis og lítur á það sem aðalverkefni sitt að vera í daglegu stríði við ríkisstjórnina.


mbl.is Ræddu Churchill í þinghúsinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkir Ásmundur fyrir að verja heiður Alþingis

4223028834_89353aaf29_bÞakka ber þingmanni Sjálfstæðismanna, Ásmundi Friðrikssyni, fyrir skýr skilaboð um bankarætur spillingarinnar á Íslandi og fyrir að halda heiðri Alþingis á lofti. Það síðarnefnda er einkar mikilvægt eftir að vinstrimönnum tókst að blinda hluta þjóðarinnar, sem var í losti eftir stórsvindl útrásarvíkinga og hrun íslenska bankakerfisins 2008. Það er kominn tími á að lyfta fram alþingismönnum með metnað fyrir heiðarlegum vinnubrögðum, gagnsæi og grundvallaratriðum siðferðis og faglegra vinnubragða eins og gefið heit þeirra um að standa vörð um stjórnarskrána felur í sér. 

Svona mættu fleiri þingmenn tala í stað þess að vinna skemmdarverk á daglegum störfum Alþingis og ónýta tíma þeirra, sem eru að vinna störfin sín.  

Ásmundur hefur burði til að leiða uppgjör Sjálfstæðismanna við sögusagnir sem allt of lengi hafa loðað við ýmsa valdamenn flokksins fyrir þáttöku í fyrirtækjarekstri.

Á því máli eru reyndar fleiri en ein hlið. Eitt er, að það er mikill kostur að fá stjórnmálamenn á þing með reynslu úr atvinnulífinu, því þeir geta deilt með sér þekkingu og mikilvægum tengslum við venjulegt fólk. Annað er, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur beðið tjón vegna spilltra bankamanna, þeirra sem voru skjólstæðingar fyrrverandi ríkisstjórnar og í dag verma bekkinn á Litla-Hrauni. 

Stöðugt samtal við grasrótina gefur flokknum styrk en pukur á bak við tjöldin dregur hann niður. Við sjáum það best í Vestmannaeyjum, hvernig góð tengsl almennings og yfirvalda skapar farsælt samstarf öllum til hagsbóta.

Að halda þeim tengslum stöðugt lifandi og jafnframt mæta öllum vafaatriðum jafnskjótt með skýrum svörum er farsæl leið til að endurheimta traust flokksins að fullu eftir bankahrunið.

Sjálfstæðisflokkurinn ætti að fylgja dæmi Móderata í Svíþjóð og mála stór eyru á sendiferðabíla og senda þá um landið, þar sem flokksleiðtogar og flokksmenn í ábyrgðarstörfum ræða við venjulegt fólk. Torgfundir, viðræðuheimsóknir til venjulegs fólks, þar sem flokkurinn ber mikilvæg málefni beint undir landsmenn mun að sjálfsögðu efla sjálfstæðistaugina í Íslendingum og gefa flokknum ómældan styrk. 

 

 


mbl.is Óþolandi „bankaskítafýla í loftinu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þýzki útflutningshagnaðurinn er "stórslys"

merkel

Samkvæmt skilgreiningu breska Capital Economics hefur evran skapað útflutningsskrýmsli í Þýzkalandi á sama tíma og neytendur halda að sér hendinni. Roge Bootle stofnandi Capital Economics og fyrrum yfirmaður bankarisans HSBC segir, að þróunin hafi blásið út gríðarlegan útflutningshagnað Þýzkalands á kostnað annarra evruríkja.

Roger Bootle heimsótti Stokkhólm nýlega og sagði þá, að "þetta væri stórslys fyrir efnahagslíf Evrópu og fyrir efnahag alls heimsins." Hann gengur lengra en aðrir málflytjendur og útmálar Þýzkaland sem raunverulega orsök evrukreppunnar.

Með eigin gjaldmiðil hefði Þýzkaland þurft að vinna fyrir sér með hækkandi gjaldmiðli sem myndi leiða til aukins kaupmáttar neytenda í stað einhliða uppsöfnunar gróða hjá útflutningsfyrirtækjum eins og reyndin er með evruna. Í ár er hagnaður útflutnings Þýzkalands 8% umfram innflutning. 

Jennifer McKeown hagfræðingur hjá Capital Economics segir að 2% munur á útflutningshagnaði Þýzkalands og annarra evrulanda sé ögrandi: "Þetta er geysilega mikill munur, þegar tillit er tekið til lágrar eftirspurnar. Með eigin gjaldmiðil væri Þýzkaland örugglega með halla gagnvart t.d. Ítalíu og Frakklandi sem ekkert hafa vaxið síðustu árin." Hún meinar að lykillinn að auknum hagvexti í evrulöndunum sé í höndum Þýzkalands. Sérstaklega myndu kreppulöndin fá draghjálp ef að hluti útflutningstekna Þýzkalands lenti í vösum 80 miljóna Þjóðverja.

"Miðað við að Þýzkaland hefur litla ríkisskuld 75% af vergri þjóðarframleiðslu gæti Berlín t.d. lækkað tekjuskatt eða virðisaukaskatt."

Þýzka ríkisstjórnin gæti líka aukið verulega ríkisfjárfestingar, sem hafa verið þær sparsömustu í Evrópu í tvo áratugi. Skv. reikningum AGS myndi hækkun fjárlaga t.d. til vegaframkvæmda um 0,5% af vergri þjóðarframleiðslu varla verða merkjanlegar í ríkisfjármálum Þýzkalands en hefðu örvandi áhrif á allt evrusvæðið.

Byggt á grein i Dagens Industri 


mbl.is Gæti stutt úrsögn úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pútín tekur gífurlega áhættu til að styrkja al-Assad

Skärmavbild 2015-10-01 kl. 01.59.46Enginn þarf að taka trúanlegar yfirlýsingar forseta Rússlands Vladimir Pútíns um að hernaðarleg uppbygging Rússa í Sýrlandi sé til þess að stöðva framgang IS eða eins og Pútín sjálfur sagði: "Það verður að stöðva hryðjuverkamennina annars koma þeir til Rússlands." Þessi orð Pútíns eru ætluð til heimabrúks enda koma nú fréttir um, að hann hafi sjálfur sagt í samtölum m.a. er það haft eftir Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO, að markmið Rússa sé að styrkja stöðu al-Assad ríkisstjórnar Sýrlands. Pentagon óttast nú, að stjórnarher al-Assad fái beinan aðgang að öllum hertólum Rússa, sem breytt geti gangi mála í stríðsátökunum í Sýrlandi.

Loftárásum Rússa í gær var fyrst og fremst beint gegn Frelsisher Sýrlendinga, sem berst gegn al-Assad. Flugárásir voru ekki gerðar á bækistöðvar IS eða yfirráðasvæði þeirra, þvert á gefin loforð Pútíns og fagurgala um "hernaðarbandalag gegn hryðjuverkasveitum IS". Rússar gáfu út yfirlýsingu um að þeir hefðu skotið á birgðarstöðvar IS í Sýrlandi en myndir og frásagnir vitna í Sýrlandi sýna annan veruleika. 37 manns létu lífið í árásunum, þar á meðal konur og börn. Sveitir studdir af Bandaríkjamönnum sögðu, að rússneskar herþotur hafi gert árásir á sig en opinberlega hefur það ekki verið staðfest.

Bandaríkjamenn hafa verið slegnir út af borðinu vegna lyga Pútíns. Pútín og Rússar hafa tekið frumkvæmðið með nýju "hernaðarbandalagi" Rússlands, Kína, Sýrlands og Írans. Í dag eru því tvö hernaðarbandalög í Sýrlandi, sem bæði segjast berjast gegn hryðjuverkasveitum ÍS en með andstæð markmið varðandi lausn stríðsins: Bandaríkjamenn, Saudi-Arabar og bandamenn þeirra vilja fá al-Assad stjórnina burt en Rússar, Kínverjar, Íranir og bandamenn þeirra líta á al-Assad sem sinn fremsta bandamann og vilja tryggja völd hans í Sýrlandi. 

Samtals taka nú þrettán þjóðir þátt í flugárásum í Sýrlandsstríðinu: USA, Ástralía, Barain, Kanada, Frakkland, Sameinaða Arabaemíratið, Jórdanía, Qatar, Saudi-Arabía, Bretland, Tyrkland, Sýrland og núna Rússland. Á jörðu niðri berjast margir hópar studdir af umheiminum gegn eða fyrir ríkisstjórn Sýrlands eins og t.d. IS, stjórnarher Sýrlendinga, Hizbollah frá Líbanon sem styður al-Assad, Kúrdar gegn al-Assad og fjöldi hópa stjórnarandstöðunnar eins og Frelsisher Sýrlands sem var skotmark Rússa í gær. Skv. sænska Aftonbladet taka allt að eitt þúsund mismunandi hópar þátt í stríðinu í Sýrlandi.

Í fréttatíma sænska sjónvarpsins í gærkvöldi kom fram í viðtali við Gudrun Persson, Rússlandssérfræðing hjá rannsóknarstofnun sænska hersins, FOI, að Rússar hefðu undirbúið árásina vel og lengi og væri hún hátindur í ferli, þar sem Rússar þvinguðu fram pólitískar lausnir í skjóli hervalds: "Enginn hefði trúað því fyrir nokkrum vikum, að Pútín og Obama héldu sameiginlegan fund en það hefur gerst. Núna notfæra Rússar sér, að bandalag Bandaríkjamanna gegn IS hefur ekki verið sérlega árangursríkt." Gudrun sagði, að Pútín tæki gífurlega áhættu með aðgerðum sínum, þar sem minnsti misskilningur eða slys gæti hleypt öllu í bál og brand. "Markmið Rússa er að sýna, að Rússland er aðili að reikna með í heimsmálunum og hér beita þeir hernaðarmætti til að ná fram betri samningastöðu fyrir al-Assad." Gudrun taldi það afar hættulegt, þegar tvö hernaðarbandalög berjast á afmörkuðu svæði, sem gæti leitt til ófyrirsjánlegra atburða, sem hleyptu öllu í loft upp: "Við höfum áður heyrt Rússa tala um "takmarkaðar" aðgerðir í Afganistan en stríðsástand lifir eigin lífi og óútreiknanlegir atburðir gerast allt í einu, sem breyta ástandinu og gera það verra." 


mbl.is Hvað eru Rússar að gera í Sýrlandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband