Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014
Gott að hreinsa borðið á sumarþingi
30.4.2014 | 16:40
Alþingi þarf ekki að hafa áhyggjur af nafnalista um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðlögunarviðræðna við ESB. Málið hefur aldrei komið í hendur þjóðarinnar nema í síðustu Alþingiskosningum. Þá fleygði þjóðin stjórn aðildarsinna á dyr með eftirminnilegum hætti. Þá kusu 96.627 einstaklingar tvo stærstu flokka Íslands á þing, sem báðir lýstu því yfir, að aðildarviðræðum yrði ekki áfram haldið.
Alþingi eitt á aðildarferlið - Alþingi eitt á að ljúka því
Málið er alfarið á ábyrgð meirihluta fyrrverandi Alþingis, sem nú er orðinn að töluverðum minnihluta. Það er á herðum Alþingis að ljúka málinu á sómasamlegan hátt með afturköllun umsóknarinnar. Þeir einstaklingar, sem nú krefjast áframhaldandi stefnu fyrri ríkisstjórnar, sem gafst upp á málinu, geta heldur ekki reitt sig á að forsetinn komi þeim til aðstoðar, þar sem honum (ekki frekar en þjóðinni) var boðið í umsóknarferlið. Forsetinn, sem stöðvaði Icesave og hefur margoft lýst því yfir að Ísland eigi að fylgja Grænlandi og Noregi að málum og halda sér utan við ESB, - var endurkjörinn með trúverðugum meirihluta en forsetaframbjóðandi aðildarsinna Þóra Arnórsdóttir náði ekki kjöri.
Meirihluti þjóðarinnar styður framtíð Íslands án aðildar að ESB
Það er vilji meirihluta þjóðarinnar að Ísland verði utan við ESB. Björn Bjarnason hjá Evrópuvaktinni hefur sýnt fram á, að ESB stöðvaði aðlögunarferlið með því að neita að opna sjávarútvegsmálakaflann. Þá "hægði" fyrri ríkisstjórn á aðlöguninni að eigin sögn en umsóknin var sjálfdauð, því skilmáli Íslands um að halda yfirráðum yfir sjávarlögsögunni er ekki umsemjanleg skv. ESB.
Spurningin er því: HVERS VEGNA DREGUR ALÞINGI EKKI TIL BAKA UMSÓKN FYRRI MEIRIHLUTA ALÞINGIS? Við hvað eru ríkisstjórnarflokkarnir hræddir? Frekjur á Austurvelli sem veifa ESB-fánanum og krefjast endurtekningu Alþingiskosninganna?
Holland hótaði að yfirgefa evruna ár 2012
Sífellt berast sögur frá ESB um stjórnmálaátök og neikvæða þróun evruríkjanna nema Þýzkalands. Reuters birti nýlega grein, sem skýrir frá því að forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, hafi hótað Herman van Rompuy að Holland gengi úr evrusamstarfinu 2012, ef kröfur Brussels um "umbótasamninga" aðildarríkjanna til að koma jafnvægi á evruna yrði haldið til streitu. Tillögurnar voru m.a. um að gera undanþágu á Maastricht sáttmálanum (leyfa meira en 3% fjárlagahalla) og færa hluta bankaskulda grískra banka yfir á önnur evruríki. Lítið fylgi er við slíkum hugmyndum í mörgum löndum ESB. Herman van Rompuy sagði í blaðaviðtali, að hann hefði fengið áfall, þegar honum var ljóst hversu víðtæk andstaðan var við hugmyndum ESB: "Holland var á móti samningunum en það var ekki bara Holland: Ég varð agndofa yfir því, hversu víðtæk andstaðan var."
Seðlabanki Hollands með viðbragðsáætlun við hruni evrusvæðisins
Klaas Knot yfirmaður Hollenska Seðlabankans sagði í sjónvarpsviðtali að bankinn hefði skissað viðbragðsáætlun við hugsanlegu hruni evrusvæðisins ár 2012. Yfir 27 miljónir manna lifa án atvinnumöguleika í ESB og fer sífellt fjölgandi á sama tíma og eymdin breiðir úr sér. Að halda áfram aðlögunarferli Íslands er svo öfugsnúið við þessar aðstæður, að eina þjóðaratkvæðagreiðslan sem á rétt á sér, er að þjóðin fái að kjósa um það, hvort leyfa skuli stjórnarandstöðunni að sitja áfram á þingi út kjörtímabilið. Sem arftaki verstu ríkisstjórnar lýðveldisins hefur stjórnarandstöðunni tekist að viðhalda hefðinni og er nú orðin að verstu stjórnarandstöðu Íslands í ómuna tíð.
Ríkisstjórnin þarf að fara að standa í báðar lappirnar og taka af skarið og sýna umbjóðendum sínum þá lágmarkskurteisi, að standa við gefin kosningaloforð.
Óljóst hvort ESB-tillaga klárast | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 16:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Árni Páll Árnason vill ríkisrekna útgerð
28.4.2014 | 17:19
Það er með eindæmum, þegar busar eins og Árni Páll Árnason vilja þjóðnýta aðalgrundvallaratvinnugrein Íslendinga á þeirri forsendu, að greinin hafi "ókeypis" aðgang að auðlindunum.
Svona rétt eins og það séu allt saman þjófar og misyndismenn, sem hafa stundað útgerð og róið til fiskjar á Íslandi frá örófi alda, þangað til að Árni Páll kom auga á þjófnaðinn og lagði á refsitolla.
Sannleikurinn er sá að allir þeir hugrökku menn og konur sem hætt hafa lífi og limum til að skapa auð úr gulli sjávar hafa fært þjóðfélaginu ómældar tekjur í formi skatta og gjalda að viðbættum öllum störfum í fiskvinnslu í landi, vélsmiðjum auk allra annarra fyrirtækja, sem taka þátt í rekstri greinarinnar. Án þessa fólks alls og óeigingjarnrar vinnu þess væri ekki um neinn auð að ræða, hvorki fyrir Árna Pál eða nokkurn annan Íslending. Það þarf nefnilega öðruvísi fólk en landkrabba á borð við Árna Pál Árnason til að skapa þau verðmæti sem felast í því að sækja sjóinn, veiða þorskinn, flytja hann í land, verka og flytja út og selja á erlendum mörkuðum. Án vinnu allra þeirra, sem starfa við atvinnugreinina væri auðurinn enginn. Hrokafullur lögfræðingur sem aldrei hefur dýft hendi í kaldan sjó veit ekkert, út á hvað sjómannsstörfin ganga.
Sjómenn mega minnast þess, að Samfylkingin afnam viðurkenningu á áhættusömum og oft á tíðum afar erfiðum störfum þeirra með afnámi sjómannaafsláttarins. Réttast væri að leyfa Árna Pál að fá "ókeypis" aðgang að gulli sjávar með því að starfa á togara. Hætt er við að maðurinn fái sama andlit og grasið í fyrsta túr.
Fyrri ríkisstjórn var svo sannarlega úti á túni með ÁPÁlfinn á frekjuþekju.
Fyrri ríkisstjórn úti á túni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Ríkisstjórnin er kosin af þjóðinni og vinnur fyrir hana. Það skilja ekki öll sérhagsmunasamtök.
26.4.2014 | 16:34
Enn reyna samtök eins og Viðskiptaráð Íslands og samtök atvinnulífsins að fá ríkisstjórnina til að hlunnfara viðskiptavini banka og fjármálafyrirtækja.
Þessir sömu aðilar reyndu með aðstoð fyrri ríkistjórnar að þvinga skattgreiðendur til að bera kostnað af illræmdum viðskiptum Baugsmanna og annarra Bankstera með Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar. Þessir aðilar hafa hvað ákafast, - fyrir utan að koma misheppnuðum viðskiptum meðlima sinna yfir á þjóðina svo meðlimirnir kæmust undan ábyrgð gjörða sinna, einnig reynt að koma Íslandi í hendur Brusselbúrókrata með tilheyrandi afsali sjálfsákvörðunarrétts þjóðarinnar yfir samningum við erlend ríki, fjármálum og sjávarlögsögu Íslands.
Að hvetja Alþingi til að koma í veg fyrir uppfyllingu lagaákvæða með stjórnmálasamningum áður en látið er á reyna að lögum verði fullnægt jaðrar við lagabrot. Slík ráð gagna hvorki meðlimum samtakanna hvað þá þjóðinni. Icesave átti að afsala lögsögu Íslands í hendur Bretum sem nýverið höfðu skilgreint Ísland sem hryðjuverkasamtök. Sannleikurinn er sá, að Samspillingin, þ.e.a.s. samstarf óhreinna viðskiptaaðila og mútuspilltra stjórnmálamanna vildi gera þjóðina að Kúbu norðursins með inngöngu í ESB. Það er enn markmið þessa hóps að fá sleif úr aski Brussel. Ísland þyrfti að greiða himinhá "aðildargjöld" sem tekin verða af skattfé landsmanna. Hluti þess fjár er greiddur tilbaka í ýmis "verkefni" og með þeim koma "verkefnastjórar" og "ráðgjafar" sem taka féð til sín en árangur verkefna lítill sem enginn. Þess vegna vilja einstaklingar innan VÍ og SA endilega koma Íslandi inn í ESB svo þeir geti látið landsmenn halda áfram að vinna fyrir sig eftir að tilraunin með Icesave mistókst.
Mörg hundruð miljarðar ef ekki þúsundir hurfu í falli bankanna. Hvert fór það fé? Til peningahimnaríkis segir Björgólfur. Ég á fyrir diet kók segir Jón.
Það er kominn tími til fyrir bæði Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins að hreinsa út lögleysuna úr röðum sínum. Það er hreint ekkert að því að stunda heiðarleg viðskipti. Ríkisstjórnin okkar er að vinna hið þarfasta verk að rétta af skútuna eftir slagsíðu, síðubrot og kafsiglingu útrásarvíkinganna og kaffæringu samspillingarinnar.
Greiði frekar niður skuldir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Einhliða makrílkvóti Íslendinga "Jákvætt skref"
24.4.2014 | 13:15
Hafrannsóknarstofnunin hefur gefið út veiðiheimild fyrir ca 890 þús tonnum af makríl fyrir ár 2014. Nýjar tölur verða kynntar í lok maí eftir að stofnunin hefur gert ítarlegri mælingar á hrognum. Fyrri aðferðir stofnunarinnar hafa verið gagnrýndar m.a. af Íslendingum og ekki þótt gefa raunsannar upplýsingar um stærð stofnsins. Talið er að makrílstofninn sé mun stærri en áður hefur verið talið.
Samkomulag ESB, Norðmanna og Færeyinga hefur verið gagnrýnt harðlega af Íslendingum bæði vegna gerð samnings án þáttöku Íslendinga og jafnframt vegna úthlutun alls kvóta Hafrannsóknarráðsins og 17% betur til samningsaðila. Ég skrifaði grein um málið sem birtist í Morgunblaðinu Fiskur í sjó með stjörnur á maganum þar sem ég gagnrýndi framferði ESB og Norðmanna harkalega og taldi að ESB væri að kaupa Norðmenn og Færeyinga til að sjálft geta tekið sem mest og vegna fyrirhugaðs viðskiptabanns á Íslendinga.
Á meðan Hafrannsóknarstofnunin hefur ekki birt nýjar tölur er erfitt að skilja, hvernig talsmaður Damanaki telur það "jákvætt skref" af Íslendingum að lýsa einhliða yfir töku sem bætist ofaná þegar "tæmdan kvóta".
Hvers konar samningur er það sem gengur út frá umframveiðum áður en Hafrannsóknarstofnunin hefur fengið tækifæri til að koma með sínar niðurstöðu?
Eru dyrnar "opnar" til samninga um "einhliða makrílkvóta" Íslands? Er það "jákvætt" að Ísland hafi komið með tölu sem síðan á að lækka fyrir innan dyrnar?
Eitthvað hefur ekki enn komið upp á yfirborðið í þessu máli svo allur vari skal hafður.
Kanski sjávarútvegsráðherra Íslands geti útskýrt málið?
Tekur vel í einhliða makrílkvótann | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sjálfstæðisflokkurinn vex við hverja raun - Takk Morgunblaðið fyrir frábæran leiðara!
23.4.2014 | 06:56
Það var einstaklega ánægjulegt að vakna í morgun. Það sem gerði daginn svo góðan var lestur Morgunblaðsins með morgunverðarkaffinu. Leiðari Morgunblaðsins er afdráttarlaus í staðfestu og alhliða samhengis við ástand þjóðarinnar og reynslu Sjálfstæðisflokksins sem leiðandi stjórnmálaafls Íslands. Þar er tekinn af allur vafi um misheppnaða tilraun vinstri og hægri Evrópusinna að reyna að klína því á Sjálfstæðisflokkinn, að fulltrúar flokksins og kjósendur vilji ganga með í ESB.
Leiðarinn segir: "Enda dettur frekustu mönnum landsins, íslenskum Evrópusinnum, ekki annað í hug en að forysta Sjálfstæðiflokksins beygi sig fyrir þeim í ESB-málinu og láti það eftir þeim að Ísland verði áfram umsóknarríki í Evrópusambandið. En þar gera þeir sér þó of miklar vonir. Jafnvel forystumenn Sjálfstæðisflokksins vita að ef þeir bregðast í því máli núna, hafa þeir brennt allar brýr að baki sér. ESB-málið verður það fyrsta í langan tíma þar sem Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki gefast upp að óþörfu."
Um umsókn meirihluta Alþingis um að ganga í ESB segir:
"Þegar hvorki ríkisstjórn né meirihluti Alþingis vill ganga í Evrópusambandið kemur ekki til greina að Ísland sé áfram umsóknarríki. Þess vegna verður að afturkalla inngöngubeiðnina í Evrópusambandið með algerlega ótvíræðum hætti. "
Leiðarinn gerir skil þeim einstaklingum sem notað hafa stöður sínar til að vinna gegn stefnu Sjálfstæðisflokksins:
"Hinn fámenni en freki hópur hefur því valdið flokknum meiri skaða innan frá en hann getur nokkru sinni gert utan frá."
Evrópusinnar hvorki lesa né ræða ályktanir landsfundar Sjálfstæðisflokksins eða Lissabonsáttmálann. Það gerir hins vegar leiðarahöfundur Morgunblaðsins ásamt fjölmörgum af flokksmönnum, stuðningsmönnum og kjósendum flokksins.
Stefna Sjálfstæðisflokksins verður skýrari og betri með degi hverjum.
Rússneskar úrvalshersveitir á Krím miklu fyrr en áður var vitað
22.4.2014 | 22:43
Nýtt myndband, sem talið er koma frá rússneska hernum og sýnir rússneskar sérsveitir m.a. taka byggingar úkraínska sjóhersins og neðanjarðarloftvarnarmiðstöð, er frá 22. febrúar, þ.e.a.s. áður en Janukóvýtj forseti flúði frá Úkraínu.
Sænski hernaðarsérfræðingurinn Lars Gyllenhaal, sem hefur skrifað bókina Rússneskar úrvalssveitir, telur að myndböndin geti verið þau fyrstu frá beinum hernaðaraðgerðum, sem rússneska sérsveitin SSO hefur gert. SSO samanstendur av úrvalshermönnum frá ýmsum deildum úrvalssveita Spetsnaz. Hlutar myndbandsins eru filmaðir af einstaklingum, sem tóku þátt í aðgerðunum t. d. við yfirtöku Belbek loftvarnarstöðvarinnar.
Myndbandið heitir Greinargerð um niðurstöður verkefnis fyrir einingu nr. 0900 á tímabilinu 22. febrúar til 28. mars á AR landsvæði Krím. AR stendur fyrir autonom republik eða sjálfstætt lýðveldi. Lars Gyllenhaal telur dagsetninguna 22. febrúar vera athyglisverða fyrir þá sök, að fyrst daginn eftir hófust mótmælaaðgerðir aðskilnaðarsinna. Myndbandið greinir frá því, að viðkomandi sérsveit rússneska hersins byrjaði að leysa verkefnið daginn áður.
Við í vestri höfum talið að Rússar hafi fyrst sýnt viðbrögð eftir að mótmæli brutust út á Krím. En hér kemur fram, að Rússar hófu aðgerðir sínar þegar þann 22. febrúar. Og þá hefur skipulagningin hafist þó nokkrum dögum áður.
Lars Gyllenhaal telur myndina að öllum líkindum ekta jafnvel þótt erfitt sé að sannreyna dagsetningar. Líklega hafa Rússar sjálfir lekið myndinni á netið, sem vakið hefur aðdáun og umtal á félagsmiðlum þeirra. Upphafshljóðið er tekið burtu og músík lögð inn í staðinn. Hann telur að nýmynduð sérsveit rússneska hersins SSO frá úrvalssveitum Spetsnaz hafi tekið myndina:
Þetta hlýtur að vera fyrsta alvöru verk þeirra.
Endursagt að hluta eftir grein Mikaelu Åkerman Sænska dagblaðinu.
Gústaf Adolf Skúlason
Skutu á úkraínska herflugvél | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Páskaegg aðildarsinna: Völd til ESB ekki afturkræf
21.4.2014 | 18:19
Í viðleitni breskra ráðamanna að "endurbæta" ESB og fá aftur hluta af afsöluðum völdum Breta til ESB, lýsa forráðamenn ESB því skýrt yfir að um slíkt verði ekki að ræða.
Varaforseti framkvæmdastjórnarinnnar, Viviane Reding sagði nýlega:
"Engum völdum ESB verður skilað til baka. Þetta er ekki okkar vandamál; við tökum ekki ákvarðanirnar. Annað hvort ertu "inni" eða "úti".
Forseti framkvæmdarstjórnar ESB, Jose Manuel Barroso hefur varað við því, að tilraunir til að færa til baka völd til aðildaríkjanna séu dæmdar til að mistakast:
"Það, sem gerir þetta erfitt ef ekki ómögulegt, er að ef við reynum að færa til baka völd þá þýðir það að endurskoða verði sáttmálann og slíkt krefst samhljóða samþykktar. Af tíu ára reynslu minni, þá trúi ég því ekki að það muni virka."
Í svari við fyrirspurn Andrew Marr 16. feb. 2014 sagði Barroso:
"Ég verð að vera mjög heiðarlegur. Endurskoðun sáttmálans er afskaplega erfiður í Evrópusambandinu vegna þess að samhljóða atkvæðagreiðslu er krafist svo sérhvert atriði, sem Bretland vill gera umbætur á, krefst samþykki hinna 27 ríkjanna."
Íslendingar, sem telja hag sínum borgið með afsali fullveldis og sjálfsákvörðunarrétti Íslands í hendur ríkjasambands á meginlandinum ættu að huga að hag barna sinna og barna þeirra og komandi kynslóða Íslendinga, sem sviptir verða valkosti að snúa af leið, ef mönnum snýst hugur.
Sveinn Andri áfram í fótgönguliðinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Ófriðardagurinn langi
19.4.2014 | 09:49
Það tók ekki langan tíma eftir friðarsamkomulag stórveldanna Rússlands, USA og ESB á skírdag, þar til öllum varð ljóst að orð á pappír eru bara orð á pappír. Rússar ríða tveimur eyrum og andlitum og friður í orði er einungis til að vinna tíma til að hagræða heimsvaldaútþenslustefnu á borði.
Hin dugmikla fréttakona sænska sjónvarpsins Elin Jönsson hræðist ekki vopnaða grímuklædda menn né ógeðslega þuklandi fingur á líkamanum í leit að vopnum. Hún lét sig hafa það á föstudaginn langa að fara upp á efstu hæð stjórnarinnar í Dónetsk héraðinu og ræða þar við ráðið, sem nú stjórnar sjálfútnefnda alþýðulýðveldinu Dónetsk.
Leiðtogi ráðsins, Denis Pusjílín, sagði að enginn hreyfði sig fet, hvað þá fara að leggja niður vopn á meðan Arsenij Jatsenjuk forsætisráðerra og Oleksandr Turtjynov og ríkisstjórn þeirra sætu við völd. Þeir herramenn yrðu fyrst að yfirgefa ráðuneyti sín og ríkisstjórnina í Kíev. Strax eftir friðarfundinn mikla á skírdag byrjuðu Rússar að ásaka Bandaríkjamenn fyrir að brjóta samninginn. Leiðtogar USA undirbúa núna víðtækari viðskiptabönn gegn Rússlandi, þar sem augljóst er að enginn tekur mark á Skírdagssamningnum.
Ráðið í Dónetsk ætlar að halda þjóðaratkvæðagreiðslu 11. maí um sjálfstæði Alþýðulýðveldisins Dónetsk. Hvaða spurningar verða lagðar fram gátu leiðtogar ráðsins ekki svarað. Ekki heldur spurningum um hvaða markmið Alþýðulýðveldið hefði í nánustu framtíð. Eina svarið sem Elin Jönsson fékk við spurningum um, hvað þyrfti til að þeir yfirgæfu hina herteknu byggingu var Við viljum verða hluti Sovétríkjanna. Engin svör komu, hvað átt væri við með Sovétríkjunum, sem liðin eru undir lok. Elín segir að aðskilnaðarsinnarnir virðast líta vita, hvað þeir vilja sjálfir og margt bendir til að þeim sé stjórnað frá Rússlandi.
Allt í einu birtist fyrrverandi forsætisráðherra og forsetaframbjóðandi Úkraínu Júlía Týmósjenkó í Dónetsk. Hún segist ætla að ræða við úkraínska hluta hertökumanna og semja við þá um frið.
Föstudagurinn langi varð óvenju stuttur fyrir friðinn en langt þar til honum lýkur fyrir ófriðinn.
Vesturlöndin leggi sitt af mörkum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Orð á blaði gagnslaus ef ekki fylgt eftir í verki
17.4.2014 | 21:53
Utanríkisráðherra USA, John Kerry, sagði að loknum samningafundi USA, ESB, Rússlands og Úkraínu á skírdag í Genf:
Við gerðum samkomulag í dag um að:
allir ólöglega vopnaðir hópar verða að láta vopnin af hendi
allar ólöglega teknar byggingar verði afhentar réttmætum eigendum sínum aftur
allar ólöglega teknar götur, torg og opinberir staðir í úkraínskum borgum verði útrýmdar
Vinna dagsins hefur leitt til markmiða og verkefna og orða á pappír. Við erum þau fyrstu til að skilja og viðurkenna að orðin á pappírnum öðlast aðeins merkingu með þeim aðgerðum, sem fylgja í kjölfarið. Ég gerði Lavrov það ljóst, að ef við höfum ekki séð árangur um framkvæmd markmiðanna við næstu vikulok, þá eigum við engan annan kost en að láta Rússland borga enn hærra verð.
Samkvæmt frétt sænska sjónsvarpsins um samkomulagið eiga þeir sem afhenda vopnin að fá sakaruppgjöf. Öryggisstofnunin ÖSE fær höfuðhlutverk að fylgjast með framkvæmd samningsins sem jafnframt felur í sér að ríkisstjórn Úkraínu verður að breyta stjórnarskrá Úkraínu fyrir auknu sjálfstæði héraða landsins.
Vladímír Pútín forseti Rússlands sagði í fyrirspurnartíma rússneska sjónvarpsins fyrir Genfarfundinn, að fullyrðingar um rússneska hermenn í Úkraínu væri della og minnti samtímis á, að hann hefði úrskurð þingsins til að beita hernum gegn Úkraínu: Ég vonast til að þurfa ekki að notfæra mér þennan rétt. Hann viðurkenndi að rússneskir hermenn hefðu verið til staðar á Krímskaga áður en Krím var innlimað í Rússland.
Í kvöld berast fréttir frá Úkraínu um mótmælagöngur til að sameina Úkraínu þ.e.a.s. gegn aðskilnaðarsinnum en mikill meirihluti íbúa Austur-Úkraínu vilja ekki ganga Rússlandi á hönd en vilja sjálfstæða Úkraínu. Í Kramatorsk tókst lögreglu að stöðva Rússavini frá því að hindra slíka mótmælagöngu daginn fyrir skírdag en í annarri borg urðu mótmælendur að aflýsa göngu vegna hótana aðskilnaðarsinna. Elín Jönsson fréttakona sænska sjónvarpsins sagði í viðtali í kvöld, að það færi eftir því hverjir réðu yfir vopnuðum hópum, sem tekið hafa opinberar byggingar í a.m.k. tíu borgum í Austur-Úkraínu, hvernig gengi að framfylgja ákvæðum skírdagssamningsins. Þar sem Rússar réðu reyndi á raunverulegan vilja þeirra til að gefa eftir vopn, byggingar og svæði. Þar sem Úkraínubúar réðu reyndi á traust þeirra til stjórnarinnar í Kænugarði. Elín vildi meina að slíkt traust væri ekki til staðar. Kröfur hafa komið frá aðskilnaðarsinnum um að stjórnin í Kíev leggi niður vopnin áður en aðskilnaðarsinnar skili sínum vopnum.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Pútín er verri en Sovétleiðtogarnir
15.4.2014 | 17:57
Hún stendur í miðju heimsátaka með tárin í augunum. Antonía er 74 ára gömul og hélt aldrei að hún þyrfti að upplifa stríð aftur, núna heldur heimurinn andanum niðri yfir því sem getur gerst á götum hennar.
Tvær herþyrlur sveima yfir miðborg Donetsk í lítilli hæð. Einu áhrif þessarar vöðvasýningar er að mótmælendur á jörðu niðri hrópa og gefa fingurinn. Köll þeirra drukkna í þungu hljóði skrúfublaðanna.
Þegar þyrlurnar eru horfnar í sjóndeildarhringinn tekur Antónía, sem ekki vill segja eftirnafn sitt, aftur til máls.
Pabbi minn dó í stríðinu, þegar ég var barn, núna á ég sjálf barnabörn og sé hvernig ofbeldið kemur nær okkur. Ég hef ekki orðið svona hrædd í 60 ár.
Hún sker sig frá öðrum þar sem við erum. Hugguleg dama með handtösku á meðal manna með barefli, kylfur og ógnvekjandi augnarráð. Hún lætur sýn þeirra ekki trufla sig.
Skilningslausir piltar, þetta eru hugsunarlausir drengir.
Land okkar er heltekið spillingu
Í tvær vikur hafa mótmælendur hertekið stórt svæði í miðborg Donetsk og útnefnt sjálfstæðu alþýðulýðveldi. Ef piltarnir, eins og Antónía kallar þá, væru eina ógnin, mundu vopnaðar sveitir Úkraínu trúlega ekki bíða með hendina á gikknum. En alveg eins og á Krímskaga fyrir mánuði síðan er það hafið yfir allan vafa að valdameiri leikstjóri stendur að baki götuuppreisnarinnar í Donetsk.
Það nægir að kíkja upp til húsþakanna til að fá ískalda tilfinningu, um að allt annar eldkraftur er nálægur en götusteinar og mólótóvkokteilar. Sem litla díla hátt uppi á þökum sjáum við menn vaka yfir miðbæjarkjarnanum. Med sjónauka eða byssusikti. Í mörgum nágrannabæjum standa hálfhervæddir aðskilnaðarsinnar opið með byssur á götum úti.
En Antónía hræðist ekki að segja skoðun sína. Með hárri rödd útskýrir hún, að hún vilji tilheyra Úkraínu og ekki Pútín, þar sem hann er bæði óútreiknanlegur og hættulegur.
Ekki eins og gömlu Sovétleiðtogarnir, við vissum hvar við höfðum þá. Ég vil að barnabörnin mín fái að vaxa upp í frjálsu landi, en ég treysti ekki Sjálfstæðistorgshliðinni heldur, vandamálið er að landið okkar er gegnumsýrt spillingu.
Gamla daman gengur á braut. Fyrir innan víggirðinguna skerast slagorðin gegnum sprungna hátalara. Þjóðaratkvæði er eina orðið sem hægt er að skilja í hávaðanum.
Ég vonast eftir sjálfstæði
Alveg eins og á Krímskaganum vilja mótmælendurnir í Donetsk fá þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði frá Úkraínu.
Við viljum ekki tilheyra fasistunum í Kíev, segir leigubílstjórinn Nikoloy Martyuov. Han situr ásamt konu sinni Oksana og hitar sér við smábál.
Við komum hingað daglega, það er mikilvægt fyrir okkur.
Af hverju, þið lítið ekki út eins og þið séuð að fara að berjast?
Nei, en við erum með hjúkramenntun og ef ástandið verður hættulegt getum við hjálpað til. Nikoloy Martyuov líkar ekki spurningin um að hann sé þarna til að berjast. Kíktu í kringum þíg, það eru engir hryðjuverkamenn hér, þetta er venjulegt fólk sem líkar ekki að Kíev taki alla peningana okkar og við fáum ekkert í staðinn.
Orð Nikoloys endurkastast frá girðingunni fyrir framan hann. Haugar af götusteinum í stöflum, snyrtilega uppraðaðir tréstokkar til íkveikju brunaveggja og næsta vopn, sem aldrei er lengra í burtu en tvo metra.
Hinum megin við landamærin bíða rússneskar herdeildar tilbúnar.
Byggt á grein Erik Wiman i Aftonbladet 15. april 2014
Úkraínumenn grípa til vopna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)