Gott að hreinsa borðið á sumarþingi

Alþingi þarf ekki að hafa áhyggjur af nafnalista um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald aðlögunarviðræðna við ESB. Málið hefur aldrei komið í hendur þjóðarinnar nema í síðustu Alþingiskosningum. Þá fleygði þjóðin stjórn aðildarsinna á dyr með eftirminnilegum hætti. Þá kusu 96.627 einstaklingar tvo stærstu flokka Íslands á þing, sem báðir lýstu því yfir, að aðildarviðræðum yrði ekki áfram haldið.  

Alþingi eitt á aðildarferlið - Alþingi eitt á að ljúka því 

Málið er alfarið á ábyrgð meirihluta fyrrverandi Alþingis, sem nú er orðinn að töluverðum minnihluta. Það er á herðum Alþingis að ljúka málinu á sómasamlegan hátt með afturköllun umsóknarinnar. Þeir einstaklingar, sem nú krefjast áframhaldandi stefnu fyrri ríkisstjórnar, sem gafst upp á málinu, geta heldur ekki reitt sig á að forsetinn komi þeim til aðstoðar, þar sem honum (ekki frekar en þjóðinni) var boðið í umsóknarferlið. Forsetinn, sem stöðvaði Icesave og hefur margoft lýst því yfir að Ísland eigi að fylgja Grænlandi og Noregi að málum og halda sér utan við ESB, - var endurkjörinn með trúverðugum meirihluta en forsetaframbjóðandi aðildarsinna Þóra Arnórsdóttir náði ekki kjöri. 

Meirihluti þjóðarinnar styður framtíð Íslands án aðildar að ESB 

Coat_of_arms_of_Iceland.svg

Það er vilji meirihluta þjóðarinnar að Ísland verði utan við ESB. Björn Bjarnason hjá Evrópuvaktinni hefur sýnt fram á, að ESB stöðvaði aðlögunarferlið með því að neita að opna sjávarútvegsmálakaflann. Þá "hægði" fyrri ríkisstjórn á aðlöguninni að eigin sögn en umsóknin var sjálfdauð, því skilmáli Íslands um að halda yfirráðum yfir sjávarlögsögunni er ekki umsemjanleg skv. ESB.

Spurningin er því: HVERS VEGNA DREGUR ALÞINGI EKKI TIL BAKA UMSÓKN FYRRI MEIRIHLUTA ALÞINGIS? Við hvað eru ríkisstjórnarflokkarnir hræddir? Frekjur á Austurvelli sem veifa ESB-fánanum og krefjast endurtekningu Alþingiskosninganna? 

Holland hótaði að yfirgefa evruna ár 2012

Sífellt berast sögur frá ESB um stjórnmálaátök og neikvæða þróun evruríkjanna nema Þýzkalands. Reuters birti nýlega grein, sem skýrir frá því að forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, hafi hótað Herman van Rompuy að Holland gengi úr evrusamstarfinu 2012, ef kröfur Brussels um "umbótasamninga" aðildarríkjanna til að koma jafnvægi á evruna yrði haldið til streitu. Tillögurnar voru m.a. um að gera undanþágu á Maastricht sáttmálanum (leyfa meira en 3% fjárlagahalla) og færa hluta bankaskulda grískra banka yfir á önnur evruríki. Lítið fylgi er við slíkum hugmyndum í mörgum löndum ESB. Herman van Rompuy sagði í blaðaviðtali, að hann hefði fengið áfall, þegar honum var ljóst hversu víðtæk andstaðan var við hugmyndum ESB: "Holland var á móti samningunum en það var ekki bara Holland: Ég varð agndofa yfir því, hversu víðtæk andstaðan var."

Seðlabanki Hollands með viðbragðsáætlun við hruni evrusvæðisins 

Klaas Knot yfirmaður Hollenska Seðlabankans sagði í sjónvarpsviðtali að bankinn hefði skissað viðbragðsáætlun við hugsanlegu hruni evrusvæðisins ár 2012. Yfir 27 miljónir manna lifa án atvinnumöguleika í ESB og fer sífellt fjölgandi á sama tíma og eymdin breiðir úr sér. Að halda áfram aðlögunarferli Íslands er svo öfugsnúið við þessar aðstæður, að eina þjóðaratkvæðagreiðslan sem á rétt á sér, er að þjóðin fái að kjósa um það, hvort leyfa skuli stjórnarandstöðunni að sitja áfram á þingi út kjörtímabilið. Sem arftaki verstu ríkisstjórnar lýðveldisins hefur stjórnarandstöðunni tekist að viðhalda hefðinni og er nú orðin að verstu stjórnarandstöðu Íslands í ómuna tíð.

Ríkisstjórnin þarf að fara að standa í báðar lappirnar og taka af skarið og sýna umbjóðendum sínum þá lágmarkskurteisi, að standa við gefin kosningaloforð.


mbl.is Óljóst hvort ESB-tillaga klárast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

í huga mínum gaf ég þeim tíma,því það tekur meira á hjá þeim en forverum þeirra, sem ekki hirtu um skömm né heiður. En nú verða þeir að efna loforðið,þeir eru nú tveir öflugustu flokkar Íslands og ekkert að vanbúnaði.

Helga Kristjánsdóttir, 1.5.2014 kl. 03:00

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Takk Helga fyrir athugasemd. Vonin lifir að flokkarnir standi við gefin fyrirheit.

Gústaf Adolf Skúlason, 1.5.2014 kl. 10:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband