Lýðræðið fótum troðið

efling-og-400x250"Aðeins 769 af 7.950 studdu verkfallið, flestir kusu ekki, aðrir greiddu atkvæði gegn verkfalli" (Staksteinar Mbl. 2. mars).

Sé það rétt að 20% kosningaþáttöku er krafist skv. lögum, þá er þetta í fyrsta lagi ólögleg ákvörðun. Í öðru lagi er þetta ekkert annað en valdníðsla á lýðræði meðlimanna að 9% þeirra ákveði bindandi aðgerðir fyrir félagið. 20% er að auki allt of lág tala til að tryggja að lýðræði ráði. Það eina sem tryggir lýðræði er að meirihluti félagasmanna eða 3.976 þeirra styðji aðgerðirnar. Þess vegna ætti að breyta lögum og krefjast yfir 50% virks stuðnings félagsmanna til að ákvörðun sé bindandi.

Höfundur Reykjavíkurbréfs víkur að því, að lögbundið er á Íslandi að vera meðlimur í verkalýðsfélagi: "Fyrir löngu er orðið tímabært að nútímavæða þessa skipan mála eins og aðra þætti þjóðfélagsins." (Reykjavíkurbréf 2. mars 2019)

Vinur minn Torgny Gustafsson eigandi farandheimilis á Gotlandi, Svíþjóð, stóð í rammri deilu við sænsku verkalýðshreyfinguna fyrir mörgun árum síðan sem reyndi að þvinga hann til að fylgja skilmálum sameiginlegu samninganna (kollektivavtalet). Deilan varð hatröm og lágu verkalýðsforkólfar m.a. að næturlagi með sjónauka í kringum kaffistofu hans til að reyna að komast að því, hver henti ruslinu á nóttinni en félagið hafði bannað meðlimum á ruslabílum bæjarins að sækja ruslið. Átti að sanna verkfallsbrot sem enn yku á sekt Torgnys og "glæp" hans gegn starfsmönnunum. Málið vakti gríðarlega athygli í Svíþjóð og snérist þjóðin á eitt með Torgny gegn verkalýðshreyfinni. Flykktust Svíar til Gotlands til að fá sér kaffi og tóku sinn skerf af ruslinu með sér þegar þeir yfirgáfu staðinn. Gustafsson var ekki meðlimur atvinnurekendasamtaka og allir nema einn starfsmanna hans án aðildar að verkalýðsfélagi. Ekki tókst verkalýðshreyfingunni að sýna fram að að hann borgaði minni laun en þau sem greiða átti skv. almennum kjarasamningum. Málið endaði hjá Mannréttindadómstól Evrópu sem ítrekaði rétt einstaklingsins til að velja að standa utan við félagssamtök. 

Í Svíþjóð ríkir félagafrelsi, bæði til að stofna hagsmunasamtök en einnig frelsi einstaklingsins til að velja - eða hafna - að vera með. Sænska verkalýðshreyfingin var frá upphafi hluti Verkalýðsflokks Sósíaldemókrata og svo seint sem í fyrra mánuði tilkynnti Félag opinberra starfsmanna að það hætti fjárgreiðslum til krataflokksins. Margir Íslendingar sem gengu með í sænsk verkalýðsfélög áður fyrr urðu hissa, þegar þeir fengu flokksskírteini Sósíaldemókrataflokksins sent í pósti ásamt félagsskírteini verkalýðsfélagsins. Þessu sambandi hefur í orði verið slitið til að sporna við sífellt minni þáttöku verkafólks í verkalýðsfélögum. Margar eru sögur um óheftaða mafíustæla verkalýðsforingja sem miskunnarlaust níðast á ófélagsbundnum og brjóta öll heilög markmið verkalýðshreyfingarinnar. Við í fjölskyldunni höfum margsinnis orðið vitni að því, hvernig verkalýðsfélög brjóta mannréttindi á starfsmönnum sem standa utan félaganna. Því miður eru verkalýðsfélög í pólitískri valdabaráttu einungis til fyrir forkólfana sjálfa sem vilja glansa "með þeim stóru" eitt augnablik á þjóðfélagssenunni.

Íslenska leiðin með lögboðna þáttöku í verkalýðsfélögum er brot á mannréttindum einstaklingsins. Rétturinn að velja sjálfur að vera með í félagi tekur líka yfir réttinn að hafna að vera með í félagi. Sú hlið mannréttinda eru þverbrotin á Íslandi og furðu sætir að það skuli hafa gengið í svo langa tíð. Á Norðurlöndum er þáttaka í verkalýðsfélögum yfir 60%, í Bretlandi um 25%, Í Þýzkalandi og Japan undir 20% og í Bandaríkjunum um 11% og 8% í Frakklandi. Velferð almennra borgara er því ekki í beinu hlutfalli við aðild í verkalýðsfélögum.

Að ekki náist nema í 11% starfsmanna til að tjá sig um verkfallsaðgerðir sýnir hversu langt frá lýðræði hægt er að komast með valdboði.

Fyrirtæki sem verða fyrir tjóni á vegum Eflingar ættu að kæra félagið fyrir ólöglegar aðgerðir og krefjast skaðabóta. Það á ekki að geta gengið að forkólfar verkalýðsfélaga geti níðst á mannréttindum félagsmanna og notað saklausa einstaklinga fyrir eigin valdabaráttu vegna þvingaðrar félagsþáttöku.

 


mbl.is Efling boðar frekari verkföll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband