Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
Íslamska ríkið - "sterkasta ríki í heimi" ...?
12.2.2016 | 01:04
Allir segjast vera í stríðinu í Sýrlandi til að berjast gegn íslamska ríkinu. Stríðið er búið að vera í 5 ár og 470 þúsund manns eru fallin. Samt virðist enginn endir á hversu margar þjóðir og hernaðarbandalög ætla inn og berjast gegn íslamska ríkinu. Virðist endalaust pláss vera fyrir heimsins heri og hertól "til að berjast gegn ÍSIS"
Sádi Arabar hafa lýst yfir að þeir ætli inn með landher "til að berjast gegn ÍSIS".
NATO lýsir yfir að þeir ætli sem hernaðarbandalag að "taka þátt í stríðinu gegn ÍSIS".
Rússar fóru með sín hertól til Sýrlands "til að berjast gegn ÍSIS".
Kína er á leiðinni "til að berjast gegn ÍSIS".
Ef eitthvað er að marka yfirlýstan tilgang með stríði heimsins gegn ÍSIS í Sýrlandi, þá er ÍSIS sterkasta ríki heims.
Sannleikurinn er að sjálfsögðu allt annar. ÍSIS er fyrirsláttur.
Rússar eru í hlutverki Basharsböðla og kasta sprengjum á saklausa íbúa Sýrlands.
Þeir vita að Sádí arabar eru bandamenn Bandaríkjanna og stjórnarandstöðunnar gegn Bashar og hóta þess vegna heimsstyrjöld til að hræða Bandaríkjamenn og Sádí frá Sýrlandi svo þeir sjálfir geti eins og Frakklandsforseti benti á í gær: "aðstoðað Bashar al-Assat að brytja niður sitt eigið fólk."
Þess vegna vilja Rússar ekki vopnahlé núna eins og Bandamenn leggja til. Í staðinn vilja Rússar hafa vopnahlé 1. mars, því þá hafa þeir náð að brytja niður 300 þúsund manns sem þeir eru búnir að króa af í Apello og neita alþjóðlega rauða krossinum um að færa mat og nauðsynjar.
Owen Jones skrifar í The Guardian, að þótt Pútín hafi ekki í byrjun haft í huga að kála ESB, þá sé hann og ESB komin í störukeppni um hvort falli fyrst. ESB vegna allra kreppna eða Rússland vegna fyrirsjáanlegs gjaldþrots. Sjóðir Rússa eru tómir og traust Pútíns heima fyrir er bundið efnahagslegum stöðuleika sem einungis er tímaspursmál hvenær hrynur.
Viðbót að morgni föstudags: Fréttir um "vopnahlé" er einungis taktík Basharsböðlanna til að geta sagt að þeir séu mannúðlegir með því að "leyfa hjálparstofnunum" að aðstoða íbúana. En til öryggis tilkynna bæði USA og USSR að vopnahléið sé nú bara "á pappírnum."
50 þúsund íbúar hraktir á flótta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 07:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Efnahagur Kína er svartur kassi
8.1.2016 | 07:50
Þannig lýsir besti fjármálaskríbent Norðurlanda Andreas Cervenka efnahag Kína í nýlegri grein í Sænska Dagblaðinu.
Á einni viku hefur mörkuðum í Kína verið lokað tvisvar sinnum eftir skamma stund viðskipta, þegar fall verðbréfamarkaðarins hefur farið yfir 7% strikið. Kínverjar tóku bremsuna úr sambandi í morgun og hafa stórar hreyfingar upp og niður átt sér stað eftir opnun. Margir telja að bremsan hafi þveröfug áhrif og auki á upplausn og frekari fall. Andreas Cervenka telur ríkisafskipti fjármálamarkaða með bremsum eins og þeirri kínversku vera álíka áhrifamikið og að stinga veðurfræðingum í steininn til þess að minnka vetrarhörkuna.
Kínverjar hafa á undanförnum árum byggt upp óheyrilega yfirbyggingu í iðnaði, t.d. geta þeir framleitt yfir 8 milljónum fleiri bíla en þeir geta selt árlega að mati UBS bankans. Meiri hluti þessarrar yfirbyggingar hefur verið fjármagnaður með lánum og hefur Kína kópíerað skuldarekna hagvaxtarvél vesturlanda og sett heimasmíðað túrbó á vélina. Skv. McKinsey fjórfölduðust skuldir Kína frá 7 þúsund miljörðum dollara árið 2007 upp í 28 þúsund miljarði dollara árið 2014 sem er um 280% af vergri þjóðarframleiðslu Kína. Í fyrra varaði Yu Yongding fyrrum háttsettur yfirmaður seðlabanka Kína við blöndu hárra lána, lélegs ávinnings og hárra vaxta, sem myndu leiða til að skuldir fyrirtækja yrðu 350% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2030.
Opinberlega segja Kínverjar að slæm lán séu 1,5% af lánamarkaðinum. Kínasérfræðingurinn Charlene Chu telur slæmu lánin hins vegar vera yfir 20%. Hann sagði við Japan Times að "Kína stendur frammi fyrir skuldavanda af þeirri stærð sem heimurinn hefur aldrei séð áður."
Stærsta vandamál Kína eru ekki aðeins tölurnar heldur líka fólkið. Peningarnir hafa flúið Kína á ljóshraða að undanförnu, yfir 500 miljarði dollara yfirgáfu Kína árið 2015. Mörg stór fyrirtæki hafa sagt upp fólki eins og t.d kolarisinn Longmay sem sagt hefur upp 100 þús manns.
Cervenka telur að vandamál kínverska verðbréfamarkaðarins sé ekki núverandi fall heldur geðveikur uppgangur fyrir fallið. Frá opnun markaða í Kína 2014 og fram á mitt sumar 2015 hækkuðu verðbréfamarkaðir í Kína með yfir 150%. Þrátt fyrir núverandi fall er index samt sem áður 50% hærra en fyrir tveimur árum síðan. Cervenka telur einnig að líkja megi árásum stjórnmálamanna á matsfyrirtæki sem lækka fjármálaeinkunnir landa við það að hætta að sturta niður á klósettinu og úða góðilmi í loftið í staðinn.
Kínverskir markaðir á uppleið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Blóðug mannréttindabrot engin mótstaða til að fá formannsstólinn hjá mannréttindastofnun SÞ
4.1.2016 | 22:47
Formaður Mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna kemur of seint á fund í ráðinu. "Afsakið seinkunina, ég var upptekinn við að afhausa nokkrar manneskjur"
Sádi Arabía hefur klippt öll bönd við Íran: stjórnmálasamband, viðskipti og flugsamgöngur hafa verið stöðvaðar.
Skv. Reuters sagði utanríkisráðherra Sádí, Adel al-Jubeir, að "Sádi-Arabía ætti að njóta viðurkenningar fyrir aftökurnar á laugardaginn í stað þess að vera gagnrýnt".
Adel al-Jubeir segir að síamúslímski leiðtoginn og stjórnargagnrýnandinn Nimr al-Nimr hafi verið hryðjuverkamaður og tekið þátt í hryðjuverkaaðgerðum. Nimr al-Nimr hefur skv. öðrum heimildum alltaf talað skýrt fyrir gagnrýni án ofbeldis.
Sádi Arabía hefur áður beitt aðgerðum m.a. til að fá Bandaríkjamenn til að sýna lit í deilum í Miðausturlöndum. Íranir hafa löngum horft hýru auga á olíuríkidóm Sádi Araba. Eftir útspil Sádi hafa friðatilraunir í Sýrlandi verið jarðaðar.
Pútín hefur staðsett eldflaugakerfi í Sýrlandi sem getur skotið niður allar gerðir herflugvéla nema tveggja nýrra bandarískra tegunda og er þar með ókrýndur konunugur loftrýmis yfir aðalátakasvæðinu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Framvinda mála í þessum heimshluta verða sífellt áhugaverðari en gæti jafnframt orðið þeim mun skelfilegri í nánustu framtíð.
Deila Íran og Sádí Arabíu harðnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Hvernig ESB gæti hrunið 2016
29.12.2015 | 18:05
Í grein í The Telegraph skrifar Leo McKinstry um hvernig Evrópusambandið, sem á að verja Evrópubúa er sjálft orðið að stærstu hættu álfunnar.
"2016 gæti orðið árið þegar ESB liðast sundur og gerir þjóðaratkvæðagreiðslu Breta þarflausa. Efnahagsmálin munu örugglega hafa afgerandi þýðingu í sérhverju hrunaferli. Þrátt fyrir endalausan jákvæðisáróður frá Brussel og jafnframt meiri stjórnun miðstýrðra peningamála hafa vandkvæði evrunnar ekki horfið. Hagvöxtur er áfram líflaus, aðeins 0,3 prósent á þriðja ársfjórðungi á meðan atvinnuleysisbótabiðraðirnar er jafn langar og áður. Atvinnuleysi á Spáni, sem stundum er hampað sem "kraftaverki" evrusvæðisins er 23%. Í Grikklandi er talan yfir 25%.
ESB getur ekki leyst hina langvarandi efnahagskreppu vegna þess að það er sjálft hluti vandamálsins. Hinn sameiginlegi gjaldmiðill var reyndar aldrei neitt efnahagslegt frumkvæði. Þvert á móti var hann pólitískt stjórntæki til að ná markmiðum stórveldisins. Að þvinga saman jafn ólíkar efnahagsstærðir og Þýzkaland og Grikkland var dæmt frá byrjun til að enda í skuldum og athafnaleysi."
Og áfram skrifar McKinstry:
"Yfirhangandi skellur efnahagsstefnunnar blandast saman við áframhaldandi stórslys flóttamannastefnunnar sem er að rífa félagsmálaverksmiðju Evrópu á hol. Í stað þess að að verja evrópska menningu hefur ESB orðið að farartæki eyðileggingar á arfi okkar og auðkennum með leiðsögn opinna landamæra og fjölþjóðamenningar í bílstjórasætinu."
Á heimasíðu The Telegraph er spurt: Á Íhaldsflokkurinn að berjast fyrir úrsögn Breta úr Evrópusambandinu? Svörin má sjá að ofan: 61% segja að flokkurinn eigi undir öllum kringumstæðum að berjast fyrir úrsögn Breta úr ESB, 27% vilja að flokkurinn geri það, ef Cameron tekst ekki að ná viðunandi samningum við ESB og einungis 12% segja nei.
Árið 2016 verður greinilega ár stórra atburða.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 18:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Þáttaka Rússa og Kínverja í Sýrlandsstríði mun fá víðtækar afleiðingar fyrir heimsbyggðina
26.11.2015 | 09:47
Myndin ofan er ekki tekin úr kvikmyndinni Wargames heldur úr nýopnaðri herstjórnstöð Rússlands í Moskvu. Risamyndaskermar prýða veggina og geta Rússar fylgst með öllu og stjórnað herliði sínu héðan, hvar sem er í heiminum.
Rússar halda áfram vígbúnaðaruppbyggingu í Sýrlandi til stuðnings al-Assads Sýrlandsforseta. Eru Rússar stærsta ástæða þess að böðullinn al-Assad situr áfram við völd. Rússar segjast berjast gegn ISIS en berjast miskunnarlaust gegn andstæðingum al-Assads, hverjir sem þeir eru. ISIS er ekki höfuðóvinur al-Assads heldur Frelsisher Sýrlands sem hefur að markmiði að koma al-Assad frá völdum. Bandamenn styðja Frelsisherinn og bein stríðsátök milli Frelsishersins og Sýrlandshers er um leið átök milli Bandamanna og Rússa og Kínverja sem nota morð ISIS á kínverskum ríkisborgara sem ástæðu til að senda flugmóðurskip upp Súez skurðinn til Miðjarðarhafs að Sýrlandi til að taka þátt í stríðinu þar.
Alþjóða fjármálakreppan í bakgrunni vaxandi stríðsátaka í heiminum
Sundurliðun Evrópusambandsins vegna evrukreppu, stjórnmálakreppu og flóttamannakreppu skýrir að hluta hernaðarleg viðbrögð Frakka, sem kasta sér í beinar aðgerðir við hlið Rússa í Sýrlandsstríðinu eftir árás ÍSIS á París. Frakklandsforsetinn Hollande hefur einnig fengið Kanslara Þýzkalands í lið með sér að virkja hernaðargrein Lissabonssáttmálans fyrir myndun hers Evrópusambandsríkjanna. Mun sú ákvörðun flýta fyrir upplausn Evrópusambandsins sem mun skiptast í ríki með skilyrðislausan stuðning við Þjóðverja og Frakka og aðra sem ekki geta eða vilja taka beinan hernaðarlegan þátt í þriðju heimsstyrjöldinni.
Rússland rambar á barmi gjaldþrots vegna olíukreppunnar með lágum tekjum sem engan vegin mótsvara útgjöldunum. Eru sjóðir Rússa þurrausnir og efnahagshrun blasir við. Sömu sögu er að segja frá Kína, sem er í andaslitrum brjálæðislegrar efnahagsbólu, þar sem fáranlegir hlutir eins og miljónaborgir hafa verið byggðar sem eftirlíking vestrænna stórborga án þess að nokkur búi í þeim.
Alþjóðabankakerfið hefur breytt lögum banka á þann veg að framvegis er alþjóðlega stórum bönkum heimilt að taka innistæður viðskiptavina t.d. lífeyrissjóða og tryggingafélaga, ef bankanum vantar peninga. Ef það dugir ekki til má bankinn einnig taka inneignir smásparenda upp í skuldir bankans. Eru þessi lög sett, þar sem andstaða við ríkisvæðingu bankaskulda hefur dreifst út og er í reynd óframkvæmanleg vegna skuldastöðu ríkja heims. Við nýlega úttekt á greiðslustöðu banka kom í ljós í USA, að nokkra af stærstu bönkum landsins vantaði a.m.k. 120 miljarða dollara í búin til að geta mætt næsta áfalli. Sömu sögu er að segja í Evrópu með fjölda banka byggða á Baugsgrunni með verðlausum pappírum. Verður mikið ramaskrí, þegar verðbréfamarkaðir hrynja um allan heim og fólk uppgötvar, að það hefur engan pening vegna þess að greiðslukortakerfi virka ekki.
Þessi bakgrunnur er aðalástæðan fyrir stríðsmögnun heimsins í dag. Fara þeir stóru í stríð hver við annan til að ná yfirráðum og hlutdeild í þeirri orku og þeim svæðum sem framleiða orku í heiminum.
Kínverjar á leið í stríðið
Skv. Daily Express hefur Xi Jinping forseti Kína lýst yfir stríði við ÍSIS eftir að kínverskur ríkisborgari var tekinn af lífi af ÍSIS fyrir skömmu. Hefur blaðið skv. heimildum frá Sýrlandsher, að Kína muni taka þátt í stríðinu "á næstu vikum". Skv. hernaðarupplýsingum er flugmóðurherskip Kína, Lianoning, á leið til Sýrlands gegnum Súez skurðinn með J-15 herþotum til að taka þátt í stríðinu í Sýrlandi með Rússum og al-Assad. Í Rússlandi hefur Igor Morozov meðlimur alþjóðanefndar Rússlands staðfest við rússneska fjölmiðla að Kínverjar hafi þegar sameinast her Rússa í Sýrlandi með "hersérfræðingum" á staðnum og að kínversk herskip og flugmóðurskip hafi þegar komið inn á Miðjarðarhaf með stefnu á Sýrland. Þessar upplýsingar hafa enn ekki fengist staðfestar af kínverskum yfirvöldum. Kínverjar hafa hagsmuni að gæta í olíuframleiðslu í Íran og Sýrlandi.
Rússar og Kínverjar munu neyða Vesturlönd út í þriðju heimsstyrjöldina
Ef upplýsingar Daily Express reynast réttar mun þáttaka Rússa og Kínverja, sem eru í nýstofnuðu hernaðarbandalagi með Íran í stríðinu í Sýrlandi, að endingu draga NATÓ með sér í alþjóðlegt uppgjör stórveldanna með vopnum. Verður þá allt sem gerist í dag einungis atburðir í uppbyggingu vegs heljar, sem heimurinn stendur frammi fyrir.
Og enn er bakgrunnsmyndin sú sama: Peningakerfi í höndum glæpamanna í stað rétt þjóðkjörinna fulltrúa fólksins.
Breytið strax um stefnu til suðurs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Allahu Akbar í stað Heil Hitler!
21.11.2015 | 17:24
Hróp íslamistanna Allahu Akbar er sambærilegt við hróp nazista Heil Hitler! Orðin klingja á mismunandi tungum en þýða í raun það sama: Algjör undirgefni eigins lífs fyrir málstaðinn og guðinn eða foringjann. Bæði í nazismanum og íslamismanum fórnar fólk lífi fyrir málstaðinn, telur sjálft sig vera æðri öðrum kynstofnum eða trúarbrögðum. Drepur miskunnarlaust andstæðinga á hrottalegan hátt til að skapa hræðslu við sig og tryggja þjóðfélagsleg völd.
Markmið Íslamismans er að stinga kíl milli múslíma og allra annarra á Vesturlöndum til að þvinga múslíma til að gerast vígamenn ríkis Íslams. Kveikja hatur okkar á múslímum sem hóp, þótt flestir múslímar styðji ekki íslamismann. Þetta má aldrei takast.
Eftirfarandi bréf skrifaði Antoine Leiris á Facebook. Hann missti konu sína í árás hryðjuverkamannanna í tónleikahöllini Bataclan í París fyrir rúmri viku. Hér má sjá og heyra bréfið lesið upp á ensku:
Í lausri þýðingu (lesið upp í morgunútvarpi Sögu): "Á föstudagskvöldið tóku þið líf einstakrar manneskju, ást lífs míns, móður sonar míns en þið munuð ekki fá hatur frá mér.
Ég veit ekki hverjir þið eruð og ég vill ekki vita það, - þið eruð dauðar sálir. Ef guðinn sem þið drepið fyrir í algjörri blindni hefur gert okkur að afmynd sinni, þá er sérhver kúla í líkama konu minnar sár í hjarta hans.
Þess vegna mun ég ekki gefa ykkur þá gjöf að ég hati ykkur. Þið sækist augljóslega eftir því en að mæta hatri með vonsku væri að falla fyrir því sama og hefur gert ykkur að þeim sem þið eruð. Þið viljið að ég sé hræddur? Að ég horfi grunsamlegum augum á mína samferðamenn? Að ég fórni frelsinu fyrir öryggi mitt. Þið hafið tapað. Sami leikmaður, sami leikur.
Loksins sá ég hana í morgun eftir bið í daga og nætur. Hún var jafn fögur og hún var þegar hún fór á föstudagskvöldið. Jafn falleg og þegar ég varð óstjórnlega ástfanginn af henni fyrir meira en 12 árum síðan. Að sjálfsögðu er ég yfirbugaður af sorg - þann litla sigur gef ég ykkur. En hann verður ekki langvarandi. Ég veit að hún verður með okkur alla daga. Og við munum hittast aftur í paradís frjálsra sálna. Þangað sem þið komist aldrei.
Við erum aðeins tveir sonur minn og ég. En við erum sterkari en herir heimsins. Ég ætla ekki að eyða meiri tíma í ykkur núna, því ég ætla til baka til Melvils, sem er nývaknaður eftir síðdegisblundinn. Hann er aðeins 17 mánaða gamall. Hann mun borða eins og venjulega alla daga, svo munum við leika okkur eins og alla aðra daga. Þessi litli drengur mun móðga ykkur með hamingju og frelsi.
Því þið munuð ekki heldur fá hatrið hans."
Grípi til allra nauðsynlegra aðgerða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Hvíl í friði, englar - Við munum aldrei gleyma ykkur
16.11.2015 | 10:44
Hér er bréf Isobel Bowdery frá Suður Afríku, sem þóttist vera dáin í meira en einn klukkutíma innan um fólk sem kvaddi ásvini sína með lík þeirra í örmum sér á meðan hryðjuverkamennirnir hlupu um allt og skutu á fólk í tónlistarsalnum Le Bataclan. Í bréfi sem núna dreifist um allt á Facebook deilir hún tilfinningum sínum: Ég barðist fyrir því að gefa ekki þessum mönnum þá hræðslu sem þá langaði mest af öllu að sjá.
Bréf Isobel Bowdery í lauslegri þýðingu:
Maður heldur aldrei að neitt komi fyrir mann sjálfan. Þetta var venjulegt föstudagskvöld á rokkhljómleikum.
Stemningin var afslöppuð og fín, allir dönsuðu og hlógu og þegar mennirnir komu inn og byrjuðu að skjóta héldum við í barnaskap okkar, að það væri hluti af sýningunni. Þetta var ekki bara hryðjuverkaárás, þetta var slátrun. Tugir manns voru skotin fyrir framan augun á mér. Blóðpollarnir runnu yfir gólfið. Fullorðnir karlmenn héldu líkömum ástkvenna sinna og grétu, kveinstafir þeirra bergmáluðu í þröngum salnum. Á einu augnabliki var framtíð þeirra slegin sundur og fjölskyldur þeirra urðu harmi slegnar.
Í geðshræringu og algjörlega einsömul þóttist ég vera dáin í meira en klukkutíma, mitt á meðal fólks sem sá sína nánu og kæru liggja líflausa. Ég hélt andanum og reyndi að liggja alveg kyrr, reyndi að halda grátnum niðri. Ég vildi ekki sýna þessum mönnum þá hræðslu sem þeir sóttust eftir. Ég var ótrúlega heppin að komast lifandi af. Horfði á fólk sem var rænt lífinu. Saklaust fólk sem kom á hljómleikana af sömu ástæðu og ég, til þess að eiga skemmtilegt og ánægjulegt föstudagskvöld.
Heimurinn er vondur staður. Ódæði sem þetta sýnir víst hnignun mannsskepnunnar. Myndirnar í huga mér af mönnunum sem sveimuðu í kringum okkur eins og gámar munu elta mig það sem eftir er æfinnar. Hvernig þeir miðuðu vandlega og skutu á fólkið í kringum mig án neinnar tillitssemi til mannslífs. Þetta var óraunverulegt. Ég beið allan tímann eftir því, að einhver myndi segja mér að þetta væri martröð. En eftir að hafa lifað af þennan hryllig fæ ég möguleika að segja frá hetjunum.
Manninum sem talaði rólega við mig og hætti lífinu til þess að grátstafir mínir og hræðsla myndi ekki heyrast. Parinu sem sagði síðustu kærleiksorðin hvert við annað, sem gerir mér kleift að halda áfram að trúa á það góða í heiminum. Lögreglunni sem tókst að bjarga hundruðum manns. Óþekkta fólkinu, sem tók mig burtu af staðnum og hughreysti mig á þeim 45 mínútum, sem ég var þess fullviss um að ástvinur minn væri dáinn. Skaðaði maðurinn, sem ég hélt af mistökum að væri ástvinur minn , - sem faðmaði mig og sagði að allt myndi lagast aftur, þegar ég skildi að hann var ekki Amaury og hann var sjálfur einsamall og hræddur. Konunni sem opnaði dyrnar og hleypti inn þeim sem komust af. Vininum sem skaut yfir mig húsaskjóli og keypti ný föt fyrir mig svo ég þyrfti ekki að vera í blóðugum fötum. Öll þið sem veittuð mér traust ykkar og stuðning þið fáið mig til að trúa því, að heimurinn getur verið betri, að þetta muni aldrei gerast aftur.
Þegar ég leggst niður í spillt blóð annarra og bíð eftir kúlunni, sem mun binda endi á tuttugu og tveggja ára líf mitt, þá sé ég andlit fólksins sem ég elska fyrir framan mig. Ég hvísla til þeirra aftur og aftur, að ég elski þau og hugsa samtímis um alls þess góða sem ég hef notið. Ég óskaði mér að þau myndu skilja, að hvað svo sem kæmi fyrir mig, þá yrðu þau að halda áfram að trúa á mannkærleikann í brjóstum fólks. Látum ekki þessa menn sigra.
Í gærkvöldi breyttist lífið hjá svo mörgum. Það er undir okkur komið að verða að betri manneskjum. Að fá að lifa því lífi sem hin saklausu fórnarlöm í þessum harmleik dreymdi um en á sorglegan hátt fá aldrei að lifa. Hvíl í friði, englar. Við munum aldrei gleyma ykkur."
Tugir skotnir fyrir framan mig | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Íslamisminn hugmyndafræði ofbeldis eins og fasisminn
14.11.2015 | 13:44
Skelfilegt blóðbað Íslamska ríkisins í París í gærkvöldi og nótt lætur engan ósnertan. Um er að ræða stærsta hryðjuverk eftir seinni heimsstyrjöldina í Frakklandi og trúlega í Vesturheimi öllum. Ódæði sem þessi geta því miður gerst hvar sem er í hinum vestræna heimi og enginn er óhultur. Markmið hryðjuverkamannanna er að drepa eins marga saklausa, óvopnaða borgara og mögulegt er áður en þeir taka sitt eigið líf eða falla fyrir kúlum lögreglu- eða hermanna.
"Sofandi sellur" hryðjuverkamanna eru staðsettar um öll Vesturlönd og bíða bara skipana um að framkvæma hryðjuverk. Íslamska ríkið hefur beðið ósigra að undanförnu m.a. féll Móhammed Emwazi þekktur undir nafninu "Heilagastríðs Jón" nýlega og Kúrdar endurheimtu hinn mikilvægi bæ Sinjar mitt á milli Mósúl og Ragga í gær og kann það að hafa leyst út skipun um árásirnar í París.
Flestir nágrannar sem sænska sjónvarpið talaði við í nágrenni eins árásarstaðsins kenndu frönsku ríkisstjórninni um að draga á sig hryðjuverk Íslamska ríkisins með þáttöku sinni í stríðinu í Sýrlandi og Írak. Sögðu Frakkar á götunni, að Frakkland hefði ekkert að gera með þáttöku í stríði í Miðausturlöndum og er sá boðskapur í skærri andstöðu við boðskap ríkisstjórnar Frakklands og Hollande Frakklandsforseta, sem lýsti yfir þriggja daga þjóðarsorg og gaf út stríðsyfirlýsingu gegn Íslamska ríkinu í kjölfar árásarinnar. Enginn getur séð fyrir áhrifum og afleiðingum árásarinnar en þau munu verða víðtæk og langvarandi. Í nótt bárust fréttir af íkveikju búða flóttamanna við Calais, þar sem þúsundir flóttamanna hafa aðsetur í þeirri von að þeim takist að komast yfir til Bretlands.
Sænska sjónvarpið tók áhugavert viðtal við Haras Rafiq í nótt sem lýsti vel hvernig leyniþjónustu Vesturlanda hefði verið kunnugt um í nokkur ár að sofandi sellur sem eru þjálfaðar fyrir hryðjuverk af þessu tagi eru staðsettar á Vesturlöndum og bíða skipana. Hann sagði að yfirvöld Vesturlanda yrðu að fara að taka fyrir róttækni ungra múslíma til sérstakrar athugunar, því íslamisminn væri ofbeldishugmyndafræði líkt og fasisminn. Haras Rafiq sagði að vegna frásagnar vitna um að árásarmennirnir hefðu hrópað "Allah akbar" og "Þetta er fyrir Sýrland!" að þá væri þetta árás íslamismans þótt ekki hefði værið ljóst í nótt, hvort um væri að ræða ÍSIS eða Al Qaeda eða fylgismenn Al Qaeda, sem hefðu gengið í lið með ÍSIS. Síðar tók Íslamska ríkið á sig ódæðið.
Hans Rafiq hjá brezku hugmyndaveitunni Quilliam gegn hryðjuverkum sagði:
"Við aðgreinum íslamisma, sem er pólitísk hugmyndafræði, frá íslam sem eru trúarbrögð á sama hátt og við greinum orðið social, hvernig við erum í félagslegu samhengi, frá sósíalisma sem er pólitísk hugmyndafræði. Við þurfum sem samfélag, bæði múslímir og ekki múslímir, að gera íslamismann álíka óvinsælan og gamaldags eins og fasisma, rasisma og aðra þá hluti, sem við viljum ekki hafa í samfélagi okkar. Samfélagið verður að byggja upp andstöðu gegn þessu á sama tíma og yfirvöld í gjörvöllu ESB verða að starfa betur saman til að hindra að svona árásir geti gerst aftur."
Annar sérfræðingur í hryðjuverkum Magnus Ranstorp hefur í mörg ár rannsakað róttækniferli, sem breyta ungum múslímum í hryðjuverkamenn. Honum hefur orðið áfátt í Svíþjóð, þar sem það hefur ekki verið talið pólitískt rétt að beina kastljósinu að ungum múslímskum karlmönnum sérstaklega. Í síðasta hefti Foreign Policy í Washington skrifar Ranstorp, að Gautaborgarhverfið "Angered hefur orðið að miðstöð fyrir heilagstríðsmenn sem fara til Sýrlands". Honum finnst að áhugaleysi sænskra yfirvalda á íslamskri öfgastefnu og umræður í Svíþjóð sem glórifíera Íslamska ríkið og hryðjuverk þess í Sýrlandi vera "alfarið út í hött":
"Það er svo furðulegt að frá stjórnmálahliðinni hefur maður ekki séð það sem er að gerast. Það er virk dagskrá í gangi sem gengur út á að tóna niður öfgarnar og gera íslamískt ofbeldi verulegt. Mörg samtök múslíma neita að taka afstöðu gegn Íslamska ríkinu.
- Umræðan er framandi raunveruleikanum. Hún hefur þó skánað aðeins í seinni tíð, þar sem það er svo augljóst, að Íslamska ríkið stendur fyrir ógeðslegu og algjörlega óréttlætanlegu ofbeldi."
Ríki íslam lýsir yfir ábyrgð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 14:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
Þýzki útflutningshagnaðurinn er "stórslys"
5.10.2015 | 20:30
Samkvæmt skilgreiningu breska Capital Economics hefur evran skapað útflutningsskrýmsli í Þýzkalandi á sama tíma og neytendur halda að sér hendinni. Roge Bootle stofnandi Capital Economics og fyrrum yfirmaður bankarisans HSBC segir, að þróunin hafi blásið út gríðarlegan útflutningshagnað Þýzkalands á kostnað annarra evruríkja.
Roger Bootle heimsótti Stokkhólm nýlega og sagði þá, að "þetta væri stórslys fyrir efnahagslíf Evrópu og fyrir efnahag alls heimsins." Hann gengur lengra en aðrir málflytjendur og útmálar Þýzkaland sem raunverulega orsök evrukreppunnar.
Með eigin gjaldmiðil hefði Þýzkaland þurft að vinna fyrir sér með hækkandi gjaldmiðli sem myndi leiða til aukins kaupmáttar neytenda í stað einhliða uppsöfnunar gróða hjá útflutningsfyrirtækjum eins og reyndin er með evruna. Í ár er hagnaður útflutnings Þýzkalands 8% umfram innflutning.
Jennifer McKeown hagfræðingur hjá Capital Economics segir að 2% munur á útflutningshagnaði Þýzkalands og annarra evrulanda sé ögrandi: "Þetta er geysilega mikill munur, þegar tillit er tekið til lágrar eftirspurnar. Með eigin gjaldmiðil væri Þýzkaland örugglega með halla gagnvart t.d. Ítalíu og Frakklandi sem ekkert hafa vaxið síðustu árin." Hún meinar að lykillinn að auknum hagvexti í evrulöndunum sé í höndum Þýzkalands. Sérstaklega myndu kreppulöndin fá draghjálp ef að hluti útflutningstekna Þýzkalands lenti í vösum 80 miljóna Þjóðverja.
"Miðað við að Þýzkaland hefur litla ríkisskuld 75% af vergri þjóðarframleiðslu gæti Berlín t.d. lækkað tekjuskatt eða virðisaukaskatt."
Þýzka ríkisstjórnin gæti líka aukið verulega ríkisfjárfestingar, sem hafa verið þær sparsömustu í Evrópu í tvo áratugi. Skv. reikningum AGS myndi hækkun fjárlaga t.d. til vegaframkvæmda um 0,5% af vergri þjóðarframleiðslu varla verða merkjanlegar í ríkisfjármálum Þýzkalands en hefðu örvandi áhrif á allt evrusvæðið.
Byggt á grein i Dagens Industri
Gæti stutt úrsögn úr ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Pútín tekur gífurlega áhættu til að styrkja al-Assad
1.10.2015 | 00:23
Enginn þarf að taka trúanlegar yfirlýsingar forseta Rússlands Vladimir Pútíns um að hernaðarleg uppbygging Rússa í Sýrlandi sé til þess að stöðva framgang IS eða eins og Pútín sjálfur sagði: "Það verður að stöðva hryðjuverkamennina annars koma þeir til Rússlands." Þessi orð Pútíns eru ætluð til heimabrúks enda koma nú fréttir um, að hann hafi sjálfur sagt í samtölum m.a. er það haft eftir Stoltenberg framkvæmdastjóra NATO, að markmið Rússa sé að styrkja stöðu al-Assad ríkisstjórnar Sýrlands. Pentagon óttast nú, að stjórnarher al-Assad fái beinan aðgang að öllum hertólum Rússa, sem breytt geti gangi mála í stríðsátökunum í Sýrlandi.
Loftárásum Rússa í gær var fyrst og fremst beint gegn Frelsisher Sýrlendinga, sem berst gegn al-Assad. Flugárásir voru ekki gerðar á bækistöðvar IS eða yfirráðasvæði þeirra, þvert á gefin loforð Pútíns og fagurgala um "hernaðarbandalag gegn hryðjuverkasveitum IS". Rússar gáfu út yfirlýsingu um að þeir hefðu skotið á birgðarstöðvar IS í Sýrlandi en myndir og frásagnir vitna í Sýrlandi sýna annan veruleika. 37 manns létu lífið í árásunum, þar á meðal konur og börn. Sveitir studdir af Bandaríkjamönnum sögðu, að rússneskar herþotur hafi gert árásir á sig en opinberlega hefur það ekki verið staðfest.
Bandaríkjamenn hafa verið slegnir út af borðinu vegna lyga Pútíns. Pútín og Rússar hafa tekið frumkvæmðið með nýju "hernaðarbandalagi" Rússlands, Kína, Sýrlands og Írans. Í dag eru því tvö hernaðarbandalög í Sýrlandi, sem bæði segjast berjast gegn hryðjuverkasveitum ÍS en með andstæð markmið varðandi lausn stríðsins: Bandaríkjamenn, Saudi-Arabar og bandamenn þeirra vilja fá al-Assad stjórnina burt en Rússar, Kínverjar, Íranir og bandamenn þeirra líta á al-Assad sem sinn fremsta bandamann og vilja tryggja völd hans í Sýrlandi.
Samtals taka nú þrettán þjóðir þátt í flugárásum í Sýrlandsstríðinu: USA, Ástralía, Barain, Kanada, Frakkland, Sameinaða Arabaemíratið, Jórdanía, Qatar, Saudi-Arabía, Bretland, Tyrkland, Sýrland og núna Rússland. Á jörðu niðri berjast margir hópar studdir af umheiminum gegn eða fyrir ríkisstjórn Sýrlands eins og t.d. IS, stjórnarher Sýrlendinga, Hizbollah frá Líbanon sem styður al-Assad, Kúrdar gegn al-Assad og fjöldi hópa stjórnarandstöðunnar eins og Frelsisher Sýrlands sem var skotmark Rússa í gær. Skv. sænska Aftonbladet taka allt að eitt þúsund mismunandi hópar þátt í stríðinu í Sýrlandi.
Í fréttatíma sænska sjónvarpsins í gærkvöldi kom fram í viðtali við Gudrun Persson, Rússlandssérfræðing hjá rannsóknarstofnun sænska hersins, FOI, að Rússar hefðu undirbúið árásina vel og lengi og væri hún hátindur í ferli, þar sem Rússar þvinguðu fram pólitískar lausnir í skjóli hervalds: "Enginn hefði trúað því fyrir nokkrum vikum, að Pútín og Obama héldu sameiginlegan fund en það hefur gerst. Núna notfæra Rússar sér, að bandalag Bandaríkjamanna gegn IS hefur ekki verið sérlega árangursríkt." Gudrun sagði, að Pútín tæki gífurlega áhættu með aðgerðum sínum, þar sem minnsti misskilningur eða slys gæti hleypt öllu í bál og brand. "Markmið Rússa er að sýna, að Rússland er aðili að reikna með í heimsmálunum og hér beita þeir hernaðarmætti til að ná fram betri samningastöðu fyrir al-Assad." Gudrun taldi það afar hættulegt, þegar tvö hernaðarbandalög berjast á afmörkuðu svæði, sem gæti leitt til ófyrirsjánlegra atburða, sem hleyptu öllu í loft upp: "Við höfum áður heyrt Rússa tala um "takmarkaðar" aðgerðir í Afganistan en stríðsástand lifir eigin lífi og óútreiknanlegir atburðir gerast allt í einu, sem breyta ástandinu og gera það verra."
Hvað eru Rússar að gera í Sýrlandi? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)