Færsluflokkur: Viðskipti og fjármál
Stelsjúkt Þríeykið afhjúpar blekkingu evrunnar
20.3.2013 | 01:30
Kýpverjar höfnuðu tilraun hins stelsjúka Þríeykis að komast yfir hluta innistæðueigenda í bönkum Kýpur með 39 NEI á meðan 19 þingmenn sátu hjá. Mikill fögnuður braust út meðal Kýpurbúa, þegar niðurstaðan var kynnt.
Það er ekki laust við, að kunnur Icesave-fiðringur fari um magann við þessi góðu tíðindi. Kýpverjar hafa slegið á langa fingur Þríeykisins, sem ýmsir fjárfestar og bankamenn í Evrópu þ.á. m. Svíþjóð hafa gagnrýnt harkalega. Meðal annars fyrir stórfurðulega framkomu sem hleypir öllu fjármálatrausti innan ESB upp í loftið.
Sænski fjármálamaðurinn Sven Hagströmer kallar ránstilraun Þríeykisins hneyksli og stórhættulega "stelsýki": "Þetta skapar siðferðilega hættu, sem ég gat ekki einu sinni ímyndað mér að væri til."
Samkvæmt Lissabonákvörðuninni átti ESB að verða samkeppnishæfasta svæði heims þegar árið 2010. Tveimur árum seinna er það lélegur brandari, þegar lönd evrusvæðisins hrynja hvert á fætur öðru.
Þríeykið á einn leik, sem utanríkisráðherra Svíþjóðar Carl Bildt gæti upplýst þá um: Bæta einkavininum Össuri Skarphéðinssyni sem fjórða hjólinu undir vagninn. Árni Páll Árnason gæti borið ferðatöskurnar. Þríeykið yrði þar með Fjóreykið, sem gæti hraðað heljarför evrunnar. Og "stóru" karlarnir frá Íslandi fengju sekúndubrot til að komast í ljósadýrðina. Hugsið ykkur, þeir gætu jafnvel komist á ljósmynd með Madam Merkel og Lagarde. Það má fórna Kýpur og Íslandi fyrir minna.
Kýpur hafnar skatti á innistæður | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 01:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sömu lögmál gilda um traust og þungun - enginn verður hálfhafandi.
18.3.2013 | 19:37
Andreas Cervenka hjá Sænska Dagblaðinu skrifar um þá miklu áhættu, sem ESB-leiðtogarnir tóku með ákvörðun sinni um helgina að taka af sparifé innistæðueigenda á Kýpur upp í skuldir bankanna.
Hann telur, að ákvörðunin dragi dilk á eftir sér.
Í sama streng tekur Robert Bergqvist yfirhagfræðingur Sænska Enskilda Bankans, sem sagði í sænska sjónvarpinu í kvöld, að ESB hefði opnað Pandóruöskju með ákvörðuninni. Hann varar við, að almenningur í öðrum ESB-ríkjum taki út peninga sína úr bönkunum, sem jafnvel í litlum mæli gæti skapað öngþveiti og bankahrun.
Málið er TRAUST. Annað hvort finnst það eða ekki. Ef innistæðueigendur hætta að treysta bönkunum, þá hrynur kerfið.
Örlög banka og ríkja evrusvæðisins eru orðin svo hættulega samtvinnuð, að þau eru í lekandi skútu á ólgandi skuldasjó. Til að halda kreppuríkjunum fljótandi lánar Þríeykið út peninga gegn loforði um stálbað. En vandamálin leysast ekki, skuldirnar eru of stórar.
Þá finna leiðtogar ESB nýja aðferð til að komast yfir peninga: taka sparifé almennings.
Traust á kerfinu grundvallast á tryggingu sparifjár. En þá verður að vera til fé fyrir tryggingunni. Sá sem tekur fram vasatölvuna og leggur saman eigur banka, innistæður sparifjáreigenda og eignir ríkissjóða hjá löndum eins og Grikklandi, Spáni, Portúgal og Ítalíu kemst fljótt að þeirri óhugnanlegu niðurstöðu að peningarnir eru ekki til.
Það er engin tilviljun, að áætlun um evrópska bankasambandið felur í sér áætlun um sameiginlega innistæðutryggingu. Þess vegna er það heldur engin tilviljun, að lönd eins og Þýzkaland segja nei.
Um það bil 15 000 miljarðir evra eru á bankareikningum evrulandanna. Stærð ólíkra björgunarsjóða ESB verður eins og skiptimynt í samanburði. Fjármagnsflótti í stórum mæli mundi fljótlega leiða til efnahagslegrar úrbræðslu.
Viðskiptavinir banka í skuldsettum ríkjum Evrópusambandsins vakna í dag við nýjan raunveruleika. Hundrað evru seðill er ekki lengur andvirði hundrað evra. Kreppuherforingjar ESB ákveða hversu mikils virði seðillinn er.
Í Berlín og Brussel taka stjórnmálamenn sénsinn, að Kýpur gleymist fljótlega. "Þetta er einstök aðgerð" segja þeir. En hvað gerist, ef miljónir Evrópubúa hætta að treysta pólitíska heitloftinu frá toppfundum og byrja að reikna sjálfir? Ekki er hægt að sjá þær afleiðingar fyrir.
Eitt er ljóst: Evrukreppan er komin á nýtt stig.
Þetta getur endað, hvernig sem er.
Bönkum lokað fram á fimmtudag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
EUROSAVE: land nr. 5 fallið. Sparifjáreigendur rændir á Kýpur.
17.3.2013 | 01:18
Enn eitt "neyðar" lánið frá Trojkunni. Í þetta sinn til Kýpur, þar sem lögkjörnum fulltrúum landsins voru settir þeir úrslitakostir, að landið yrði gert gjaldþrota með tilheyrandi eignaupptöku á brunaútsölu til að fylla upp í skuldaholur bankanna. Að öðrum kosti fjárnám allt að 10 % sparifjár ásamt skattahækkunum á almenning og fyrirtæki, niðurskurði velferðamála og útsölu ríkisfyrirtækja. Með öðrum orðum operation EUROSAVE, þar sem almenningur er látinn taka á sig ábyrgð og borga fyrir glæpsamlega bankastarfsemi.
Þetta er ódýrasta lausnin fyrir bankaeigendur og ESB, sem þar með sleppa við útborgun tryggingu innistæðueigenda upp að 100 þús evrum. Þar með er enn einni þjóðinni fórnað til greiðslu á tapi vegna áhættusamrar starfsemi banka- og fjárglæframanna = SKULDUM ÓREIÐUMANNA. Og fórnað er sparnaði ellilífeyrisþega og núverandi kynslóðar og næstu og þarnæstu líka. Eins og reynt var að gera við Íslendinga með ICESAVE. Og ríkisstjórn Íslands er að takast með austri skattfjár í fjármálafyrirtækin, afhendingu banka til hrægammasjóða, skattaklyfjum á landsmenn og niðurskurði ríkisútgjalda.
Þessi aðgerð Trojkunnar mun hræða marga innistæðueigendur í öðrum evrulöndum frá því að treysta bönkunum fyrir sparifé sínu. Fróðlegt verður að sjá á næstu vikum, hver áhrifin verða og ýmsir spá reiði á þriðjudag, þegar bankarnir á Kýpur opna aftur. Fólk almennt innan ESB er orðið mjög mótfallið bönkunum og aðgerðum ESB í nafni evrunnar. Árásum á fyrirtæki, héruð og heilu löndin er í dag stjórnað með evru og banka að vopni. Þessar aðfarir eru að leggja evrulöndin í rúst og logarnir komnir undir allt ESB, vegna fallandi eftirspurnar, framleiðslu og almenns samdráttar. Og áfram er ferðinni haldið ofan í hyldýpið.
Í gær fór fólk út á götu í Madríd til að sýna samstöðu með íbúum Kýpur. Allan föstudaginn mótmæltu tugir þúsunda í Brussel framferði ESB og bankanna gegn íbúum evrusvæðisins og heljarstefnu ESB: EUROSAVE.
Stjörnurnar eru orðnar að hengingaról almennings á evrusvæðinu.
Það verður slegið til baka.
Í áfalli yfir harkalegum skilmálum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 03:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Nýju fjármálahruni spáð ásamt uppreisn í Evrópu
15.3.2013 | 16:37
Sífellt verður styttra milli alls konar viðvarana úr öllum áttum. Dagens Næringsliv í Noregi átti í vikunni viðtal við Albert Edwards i London City sem er yfirmaður greiningadeildar Société Générale bankans. Hann hefur stundum verið kallaður "Ofursvartsýnismaðurinn" en hann spáði rétt fyrir um fjármála- og skuldakrepppu heimsins. Albert Edwards segir að ástand fjármálamarkaða líkist mjög stöðunni 2007 og varar við nýju hruni og ísöld hlutabréfa og skuldabréfa í kjölfarið.
Hann hefur áður gagnrýnt Ben Bernanke, Seðlabankastjóra USA, sem Edwards meinar að "stefni á hættu að gera USA gjaldþrota" með fjármálapökkum sínum. "FED mun eyðileggja heiminn" eru skilaboð Edwards, sem segir það vera heimsku að halda, að Bandaríkin geti komist hjá samdrætti.
Á sama tíma segir svissneski fjárfestirinn Marc Faber í viðtali við CNBC, að sterk þróun bandaríska verðbréfamarkaðarins muni stöðvast af 20% bakslagi eða enn allvarlegri söluöldu. "Mér finnst, að fjárfestar sem nú þyrpast inn á verðbréfamarkaðinn ættu að minnast þess, að við höfum haft mikla hækkun."
Frá Evrópusambandinu sem nú heldur leiðtogafund í Brussel, þar sem tugir þúsunda mótmælenda hafa safnast saman til að mótmæla niðurskurðar-, skattahækkana- og atvinnuleysisstefnu sambandsins berast tölur úr öllum áttum, sem skrifa niður fyrri eftirvæntinganir um hagvöxt og ný störf. Þannig þurfti t.d. Þýzkaland að skrifa niður fyrri spár eftir að pantanir á iðnaðarvörum féllu óvænt um 4,1 % frá löndum evrusvæðisins í janúar. Innanlands féll eftirspurn 0,6% og 3 % frá útlöndum. Gerði þetta tæplega 2% samdrátt á meðan spáð hafði verið hagvexti upp á hálft prósent.
"Enginn stjórnmálaleiðtogi innan Evrópusambandsins getur verið ánægður með 26 miljón manna án atvinnu innan ESB," segir Enda Kenny forsætisráðherra Írlands, sem nú fer með formennsku ESB.
Bernadette Segol aðalritari verkalýðssamtaka Evrópu ETUC er mjög áhyggjufullur: "Við efumst um að hagvöxturinn komi nægilega fljótt til að almenningur róist en ekki markaðirnir. Atvinnuleysið eykst og eykst og eykst."
Hópur ungmenna héldu á borða þar sem á stóð skrifað á mörgum tungumálum:"Ef æskan væri banki væri búið að bjarga henni fyrir löngu síðan."
Þegar forsætistráðherra Lúxumborgar kom til fundarins í Brussel sagði hann: "Ég fullyrði ekki að við séum án áhættu á þjóðfélagsbyltingu, félagslegri uppreisn."
ESB eitt brýnasta kosningamálið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Endurskoðendur neita að skrifa undir reikningsskil ESB 18 árið í röð!
12.2.2013 | 15:33
Hversu mörg ár þurfa lögskipaðir endurskoðendur að neita að staðfesta reikninga ESB til þess að menn fara að sjá, að stórfellt svindl er í gangi? Af hverju á venjulegt fólk, smáfyrirtæki og aðrir að skila skattaskýrslum og bera ábyrgð upp á einseyring á gjörðum sínum, þegar stóru strákarnir í ESB komast upp með að svindla í rekningsskilum beint fyrir framan augum okkar? Ekki bara í eitt ár, tvö ár eða þrjú ár heldur í átjánda árið í röð!!
Fjármálaráðherra Svía, Anders Borg segir að ekki sé hægt að samþykkja reikningana á meðan svo stórar villur séu í þeim og að villurnar stækki þar að auki ár frá ári. Í dag ræða fjármálaráðherrar ESB "hvað hægt sé að gera" í málunum.
Á sama tíma hafa endurskoðendur í Hollandi sent frá sér skýrslu með svíðandi gagnrýni á ESB fyrir að hafa ekki meira eftirlit með því í hvað peningarnir fara. Einungis fjögur aðildarríki geta gert nægilega grein fyrir reikningunum vegna endurskoðendaskyldu. Endurskoðendurnir segja, að þar sem meginhluti aðildargjalda og peningastreymi sambandsins sé nýttur af aðildarríkjunum, sé ekki hægt að fullyrða miðað við núverandi stöðu "að peningar skattgreiðenda séu notaðir á þann hátt, sem meiningin er." Það væri ágætt fyrir okkur Íslendinga að minnast þessara orða og bera saman við notkun IPA-styrkja á Íslandi, sem mér skilst að utanríkisráðuneytið í samvinnu við Evrópustofu ESB á Íslandi stjórni.
Þá gagnrýna hollensku endurskoðendurnir harðlega, að ekkert eftirlit sé með um 240 miljarða evru neyðarlánum úr stöðuleikasjóði ESB EFSF. 240 miljarðir evru eru um 41 biljónir 348 miljarðir íslenskra króna ef reiknivélin mín reiknar rétt. Að mati endurskoðendanna er spurningin, hvort um löglega notkun fjármunanna sé að ræða, að það sé haft eftirlit með þeim. Annars getur hvort eð er enginn gert grein fyrir í hvað peningarnir fara.
Ofan á þetta bætist svo önnur ný skýrsla um útlán banka á evrusvæðinu sem eru í vanskilum og þau eru fjallhá og engin merki um sýnilegan bata í nákominni framtíð. Talið er að allt að þúsund miljarðir evra að minnsta kosti séu í ónýtum lánum. Búið er að skrúfa verulega fyrir lán til fyrirtækja og almennings, sem eykur enn frekar á hið neikvæða ferli í nánustu framtíð.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 18:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Er hægt að treysta svefnlausum leiðtogum?
8.2.2013 | 20:27
"Samningaviðræður, evrukreppusirkus, amerískt fjárlagarifrildi. Enn eitt ár af örlagaríkum ákvörðunum liggur frammi fyrir fótum okkar. Eitt eiga þær sameiginlegt. Líklegast verða þær teknar af fólki, sem ekki er algjörlega í sambandi."
Þannig hefst pistill skríbents Svenska Dagbladets Andreas Cervenka fyrir nokkrum dögum sem hefur fengið mjög góðar viðtökur t.d. hafa tæplega 800 mans mælt með greininni á Facebook. Ef við snúum ímynduðu dæmi yfir á Ísland sem aðildarríki:
"Varir íslenska fjármálaráðherrans hreyfðust en enginn blaðamaður skildi það sem hann sagði. Í staðinn voru augu þeirra föst á flöskunni, sem fjármálaráðherrann veifaði og fékk sér slurk af á milli þess, sem hann lagði út textann um, hvað Ísland hafði grætt á næturfundinum. Óþægilegt andrúmsloftið var nógu þykkt til að vera skorið með hníf. Fréttamennirnir litu vandræðalega hver á annan. Þorðu þeir einu sinni að skrifa heim um það, sem hálffullur ráðherra hefði samið um fyrir hönd Íslands?
Því er strax hægt að slá föstu, að strætisvagnabílstjóri, flugmaður eða hjartaskurðlæknir sem fer beint í vinnuna eftir næturdrykkjuna er þegar í stað sendur heim með pokann sinn. Þar ríkir engin miskunn, því heilinn verður að virka 100% í störfum þeirra. Í öðru samhengi, þar sem tugir, hundraða þúsundir miljarða króna liggja í vogarskálinni ásamt framtíð fleiri miljón manns, þá eru kröfurnar miklu lægri.
Málið er einfaldlega svefn. Of lítill svefn hefur fljótt mikil áhrif á heilabúið eins og fjöldi vísindaathugana sýnir. Manneskja sem gengið hefur tuttugu og fjóra tíma án svefns er með álíka dómgreind og sá sem mælist með 1 prómille alkóhól í blóðinu. Það mótsvarar sex vínglösum sem fullorðinn karlmaður sturtar ofan í sig á einum klukkutíma. Að taka mikilvægar ákvarðanir í svefnleysi er því algjörlega óhæft. Þegar tvelr breskir vísindamenn létu fólk í tilraunaskyni spila fjármálaspil og skapa lausnir undir álagi sem kröfðust aðlögunarhæfni og meðtöku nýrra upplýsinga, þá voru niðurstöðurnar sláandi. Eftir svefnlausa nótt stirðnaði hugsunin og fólk hélt fast í gamlar hugmyndir, þrátt fyrir að þær virkuðu ekki og áttu í afgerandi erfiðleikum með að finna nýjar. Eftir 36 stunda vöku höfðu allir farið í gjaldþrot. Samkvæmt prófessor och svefnrannsakanda Torbjörn Akerstedt hjá Karolinska Institutet er það ótrúlega erfitt fyrir manneskju sem ekki hefur sofið á nóttunni að muna eftir og meta það, sem aðrir segja t.d. í samningalotu. Og það hljómar ekki vel, þegar verið er ganga frá nýjum fjármálareglum hjá ESB. Nýjar athuganir sýna einnig, að þreyttar manneskjur eru tilfinningalega valtari og bregðast við af illsku eða ruglingi út af smáatriðum.
Þrátt fyrir þessa þekkingu virðist það vera óskrifuð regla í heimi stjórnmála og efnahagslífs að allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í morgunsárinu. Alþjóðlegir toppfundir, múltimiljarðaviðskipti eða björgunaraðgerðir til að hjálpa fyrirtækjum í vanda: samningur án 12 hektolítra af slæmu kaffi og nábleikum yfirmönnum sem ganga um með sand í augum í sjálfsmorðshugleiðingu virðist vera einskis virði. Einungis viðvaningar láta sér detta í hug að taka stórar framtíðaákvarðanir fyrir hádegi eftir tíu tíma í lúxusrúmi og góðan ávaxtagraut í morgunverð.
Sígild mynd frá misheppnuðum umhverfissamningum í Kaupmannahöfn 2009 sýnir Barack Obama síðla kvölds umvafinn af leiðtogum heimsins, sem voru allt annað en hressir að sjá, þar á meðal Angela Merkel, Friðrik Reinfeldt og Nicolas Sarkozy. Uppgefin ásýnd franska forsetans virtist senda frá sér þögulan boðskap: "Ég gef frat í þótt jörðin verði hundrað gráðum heitari í næstu viku bara ef ég fæ að sofna."
Á öllum tíma fjármálakreppunnar hefur næturstarfið verið löggilt. Fyrrum fjármálaráðherra USA, Hank Paulsson, skrifar í minningum sínum hversu krónísku svefnleysi hann þjáðist af ekki síst í kringum fall Lehman Brothers. Í eitt skipti var hann svo ruglaður, að hann hélt að smiður gamallar móður hans að nafni Warren Hansen hefði hringt í sig, sem urðu snögg umskipti í öllu saman. Það sýndi sig að hér var á ferðinni allt annar Warren nokkur Buffett, sem hringdi til að láta vita um aðferð sem gæti bjargað fjármálakerfinu frá algjöru hruni. Í Evrópu hafa allir kreppufundirnir verið haldnir langt inn á morguntímana. Og árangurinn þekkja allir. Það eru meira að segja til athuganir sem benda á að svefnleysi hafi að hluta til orsakað kreppuna. Á ameríska Duke háskólanum sýndi tilraun að persónur sem missa af einnar nætur svefni hafa tilhneigingu að taka stærri áhættur þegar peningar eru með í dæminu. Varkár endurskoðandategund getur skyndilega breyst í áhættuspilara eftir kalda sturtu heila nótt. Borið saman við Wall Street, þar sem ekki beinlínis ræður ríkjum sú menning að það sé jákvætt að fara heim um fimmleytið, þá er ekki ósennilegt að samband sé á milli þessarra hluta.
Svo ef við tökum saman niðurstöðuna. Fjármálakreppan var búin til af hópi manna, sem meira og minna var ruglaður allan tímann. Fólkið, sem á að finna lausnirnar, velur að tímasetja mikilvægustu vinnuna, þegar öruggt er að öll hnífapörin finnast ekki í skúffunni.
Þegar Friðrik Reinfeldt fær orðið um fjárlög ESB á toppfundi vikunnar, þá getur hann kanski hoppað yfir enn eina útlegginguna á mikilvægi meiri greiðslumórals í ólívbeltinu og kostina með bókfærslu a la suedoise. Í staðinn gæti hann sett fram skoðun sem enn frekar þjónar hagsmunum Svíþjóðar: "Halló, hæ, hvað finnst ykkur um að við getum sofið á þessu?"
Útgjöld ESB lækka milli ára | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Óhjákvæmilegt að evran leysi upp Evrópusambandið
7.2.2013 | 13:51
Í samtali hjá fréttaþætti hollenska sjónvarpsins Nieuwsuur lýsti múltimiljarðamæringurinn George Soros áhyggjum sínum af evrukreppunni á eftirfarandi hátt:
"Ég hef verulegar áhyggjur af því, að evran sé bókstaflega að eyðileggja ESB. Það er raunveruleg hætta til staðar, að lausnir efnahagsvandans skapi mjög djúpstæðan stjórnmálaágreining."
Spurður um hvaða breytingar þyrftu að koma til svaraði hann:
"Þýzkaland verður að skilja, að sú stefna að leggja fram áætlun um niðurskurð á evrusvæðinu vinnur gegn framleiðslustörfunum. Hún getur alls ekki heppnast. Í augnablikinu er þeim (suðurríkjum Evrópu) ýtt áfram - ekki af illum huga - en afleiðingin er að þeim er ýtt áfram inn í langvarandi efnahagslægð eins og er að gerast núna í Evrópu. Þetta getur enst í meira en áratug, gæti í raun og veru orðið til frambúðar eða þar til sársaukinn er orðinn það mikill að hugsanlega kæmi til uppreisnar og afneitunar á ESB. Slíkt þýddi eyðileggingu ESB, sem er hræðilega hátt verð fyrir að viðhalda evrunni sem einungis var ætlað að þjóna ESB."
Hvort evran lifir?
"Hún gæti enst mjög lengi á sama hátt og Sovétríkin sem entust í 70 ár með sínu hryllilega fyrirkomulagi. Samt held ég að hún sundri óhjákvæmilega Evrópusambandinu. Þeim lengri tíma sem það tekur og það getur tekið kynslóðir, sem þá verða án stjórnmálfrelsis og efnahagslegrar velferðar. Þessi lausn virðist mér vera hræðilegur sorgarleikur fyrir ESB. Og þetta er að gerast hjá þróuðustu, opnum samfélögum heimsins. Mér finnst þetta vera hryllilegur sorgarleikur án bófa, vegna þess að ég held ekki, að Þjóðverjar geri þetta af vondum huga en þetta er að gerast vegna skilningsleysis á mjög svo flóknum vandamálum."
Svo mörg voru þau orð. Sífellt fleiri líkja ESB við Sovétríkin sálugu og vara við komandi hörmungum ef ekki verður gripið í taumana. Fyrir fjölda manns í jaðarríkjum Evrópusambandsins er því miður skaðinn þegar skeður.
Vilja ekki gengisstefnu fyrir evruna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Til hamingju ÍSLAND!
28.1.2013 | 11:53
Nú fara skötuhjúin endanlega niður með hringnum
TIL HAMINGJU ÍSLAND!
Stórglæsilegur sigur og um leið útskýring á meingölluðu regluverki ESB, sem skorti innbyrðis samræmingu á þeim tíma. Þar fyrir utan var tryggingasjóðurinn aldrei hugsaður til að taka við áfalli, þegar heilt bankakerfi færi á hliðina.
Núna þarf ESB að hugleiða áhrif dómsins á tryggingarkerfi bankanna í öllu ESB.
Þetta er stórkostlegur sigur fyrir íslensku þjóðina og sýnir, að þjóðin hafði á réttu að standa á meðan ESB-aðildarsinnar og Icesave áróðursmenn fóru með kolrangt mál. Núna þarf þjóðin að sækja í sig veðrið eftir þessu góðu tíðindi og halda markvisst áfram á braut sjálfstæðis og eigin atvinnuuppbyggingar, skuldalausn heimilanna og leggja bæði aðildarumsókn að ESB og stjórnarskrármál til hliðar.
Þjóðin ætti að verðlauna þá embættismenn sérstaklega með æðstu orðum lýðveldisins sem settu á neyðarlögin, sem björguðu henni á ögurstundu.
Þakkir til allra, sem stóðu í baráttunni og gáfust ekki upp þrátt fyrir volæðisáróður um eymd og Kúbu norðursins. Góðar kveðjur til forsetans okkar fyrir einstaklega skelegga baráttu og frammistöðu í málinu.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
"Það versta á eftir að koma." Leggja til að samkeppnishæfari löndin yfirgefi evruna.
25.1.2013 | 16:50
Í gær héldu hugveiturnar Open Europe og New Direction athyglisverðan fund í Brussel þar sem samstöðustefnuyfirlýsing fyrir Evrópu var undirrituð af framámönnum og sérfræðingum. Þar er lagt til að evrusvæðinu verði skipt á skipulegan hátt og löndin í suðri skilin eftir með evruna, sem hægt væri þá að gengisfella. Án slíks möguleika er spáð a.m.k. 10 ára versnandi kreppu á evrusvæðinu. Þeir sem settu nöfn sín á skjalið eru m.a. fyrri fjármálaráðherra Póllands Stefan Kawalec, fyrri forseta iðnaðarsamtaka Þýskalands Hans-Olaf Henkel, fyrri yfirhagfræðingur Evrópska Fjárfestingarbankans Alfred Steinherr, hagfræðiprófessor Brigitte Granville og fyrri yfirmaður Ítalíudeildar Deutsche Bank. Þau ásamt fleirum sérfræðingum skrifuðu undir skjalið "Stefnuyfirlýsing um samstöðu Evrópu" þar sem lagt er til að evrusvæðinu verði "skipulega skipt upp" og evran verði einungis notuð í löndunum Suður-Evrópu svo hægt sé að gjaldfella hana og koma þannig verst settu evruríkjunum til hjálpar. Fyrrum forseti Iðnaðarsamtaka Þýzkalands sagði "Við trúum því, að það versta sé eftir." Hann meinar, að verði ekki gripið til aðgerða til að fá hjólin að snúast í verst settu evruríkjunum muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Evrópu alla, sem halda mun áfram að hrapa í hyldýpið í heiminum.
Hér fyrir neðan er stefnuyfirlýsingin í lausri þýðingu.
"Samstaða Evrópu gegn kreppu evrusvæðisins
Skipulögð uppskipting evrusvæðisins til að varðveita mikilvægasta árangur af sameiningu Evrópu
Kreppa evrusvæðisins grefur undan tilveru Evrópusambandsins og sameiginlega markaðsins.
Myndun Evrópusambandsins og sameiginlega markaðsins er einn veigamesti árangur á sviði stjórnmála og efnahagsmála í Evrópu eftir stríð. Þessi góði árangur af sameiningu Evrópu er afleiðing þess fyrirmyndarsamstarfs sem gagnaði öllum aðildarríkjum en ógnaði engu.
Reiknað var með að evran yrði annað mikilvægt skref á vegferð betri velferðar í Evrópu. Þess í stað hefur evrusvæðið í núverandi mynd breyst í alvarlega ógnun gegn sameiningu Evrópu. Lönd evrusvæðisins í suðri eru föst í gildru efnahagslægðar og geta ekki endurheimt samkeppnisstöðu sína með gengisfellingu. Löndin í norðri eru á hinn bóginn beðin um að gefa eftir fjármálaleg gildi og virka sem "djúpir vasar" sem endalaust er hægt að ganga í og sækja fjármagn til björgunaraðgerða suðurríkjanna. Þessi staða felur í sér áhættu á þjóðfélagslegum átökum í Suður-Evrópu og grefur djúpt undan stuðningi almennings við sameiningu Evrópu í löndum Norður-Evrópu. Í stað þess að styrkja Evrópu skapar evran sundrungu og átök sem grafa undan Evrópusambandinu sjálfu og hinum sameiginlega markaði.
Skoðun okkar er að sú stefna, sem best tryggir björgun Evrópusambandsins og verðmætan árangur af sameiningu Evrópu, er skipulögð uppskipting evrusvæðisins með sameiginlegri ákvörðun um útgöngu samkeppnishæfustu þjóðanna. Evran verður þá eftir - um stundarsakir - sem sameiginlegur gjaldmiðill þjóða með minni samkeppnishæfni. Þetta myndi óhjákvæmilega þýða afturhvarf til þjóðlegra gjaldmiðla eða ólíkra gjaldmiðla þeirra ríkjahópa, sem eru í efnahagssamstarfi.
Þessi lausn yrði tákn um samstöðu í Evrópu. Veikari evra myndi auka samkeppnisstöðu landanna í Suður-Evrópu og hjálpa þeim að flýja frá efnahagslægðinni og endurreisa efnahagsvöxt. Það drægi einnig úr hættu á bankaáhlaupi og hruni bankakerfis i löndum Suður-Evrópu, sem óhjákvæmilega yrði reyndin ef löndin neyddust til að yfirgefa evrusvæðið eða myndu ákveða að gera það vegna þrýstings almennings heima fyrir áður en samkeppnishæfustu löndin gengju út úr evrusvæðinu.
Samstaða Evrópu yrði betrumbætt með samkomulagi um nýtt gjaldmiðilskerfi í Evrópu í því skyni að koma í veg bæði fyrir gjaldmiðlastríð og gjaldmiðlasveiflur milli landa í Evrópu.
Það er augljóst að afskrifa verður skuldir (haircut) a.m.k. í nokkrum löndum í suðri. Stærð slíkra afskrifta og kostnaður skuldareigenda yrði samt minni en ef löndin verða áfram á evrusvæðinu og efnahagur þeirra þjáist af efnahagslægð og miklu atvinnuleysi. Þessi leið þýðir ekki að samkeppnishæfustu löndin beri ekki kostnaðinn við skuldaminnkun kreppulandanna. Það mun gerast en slík aðstoð hjálpar ríkjunum að koma efnahagsvexti í gang í stað núverandi björgunaraðgerða, sem skila okkur ekkert áfram.
Hvers vegna er þessi leið svo mikilvæg?
Það er næstum óþarfi að benda á það en það eru hagsmunir okkar allra, að Evrópusambandið hefji hagvöxt á nýjan leik, sem er besta tryggingin fyrir stöðuleika og velferð í Evrópu. Leið skipulagðrar uppskiptingu evrusvæðisins gerir þann árangur mögulegan á stytstan máta."
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Farsælt komandi ár með betri tíð og blóm í haga fyrir Ísland
31.12.2012 | 10:29
Þessi fallega mynd er tekin af jólaskreytingu á Sergels torg í hjarta Stokkhólmsborgar. Jólaskreytingarnar setja mikinn svip á miðbæinn og auka gleði vegfarenda.
Ég óska öllum landsmönnum Farsæls komandi árs og þakka Morgunblaðinu fyrir gott og málefnalegt blað á árinu, sem er að líða. Ég hef verið að prófa bloggið hér og eignast nokkra góða bloggvini. Lifandi umræða er frískleikamerki, þótt umræðustíllinn sé ekki alltaf fullkominn í bloggheimum. Þá eru síður Morgunblaðsins betri og áhrifameiri og full ástæða til að gleðjast með lesendum blaðsins yfir aldarafmæli Morgunblaðsins 2. nóvember n.k. Morgunblaðinu hefur tekist í heila öld að vera "áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað," svo vitnað sé í tilgang blaðsins í fyrsta tölublaði þess. Þar birtist einnig skáldsagan Svörtu gammarnir eftir Övre Richter Frich, þar sem sagt er frá dulafullu undirskriftarlausu skeyti frá Hamborg með textanum: Beware of the vultures. Gætið yðar við gömmunum.
Það jákvæðasta við 2013 fyrir Íslendinga er að þá verða alþingiskosningar og hægt að setja eina alræmdustu ríkisstjórn landsins í möppu sögunnar. Það er bráðnauðsynlegt til að þjóðin fái komið málum sínum í lag á ný og hægt verði að hefja raunverulega endurreisn efnahagslífsins. Raus Jóhönnu Sigurðardóttur í Morgunblaði dagsins er byggð á blindu hatri hennar gegn sjálfstæðismönnum og lýsir vel því einkenni "vinstri" manna, að snúa öllu á hvolf og kenna sjálfstæðismönnum um allt sem slæmt er undir sólinni. Fyrst og fremst fyrir að koma í veg fyrir áframhaldandi setu sósíalista í ríkisstjórn. Hatrið er svo blint að venjulegt verkafólk, sem vill lifa í frjálsu landi með eigin hugsun og sköpun lífsmöguleika af eigin dugnaði, er ásakað um að vera svartasta íhald og auðvald. Á sama tíma er raunveruleikinn sá, að þeir sem þykjast í orði vera málsvarar lítilmagnans, vinna sleitulaust fyrir skjólstæðinga sína í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Þannig er því víða farið á fleiri stöðum en á Íslandi. T.d. er einn af aðaltalsmönnum sósíaldemókrata Svíþjóðar, Thomas Östros núverandi formaður Bankafélags Svíþjóðar og sem slíkur verjandi hærri arðs til bankastjóra og eigenda sænsku bankanna. Þar tala sænskir sósíaldemókratar gegn ríkisstjórn Fredrik Reinfelds, sem vill lækka og stöðva um sinn bankastjórabónusa. Þrátt fyrir þessar staðreyndir halda sænskir sósíaldemókratar áfram að ráðast á stjórnarandstæðinga sína, sem "kolsvart íhald og auðhyggjufólk".
Allt er því ekki sem sýnist samkvæmt orðanna hljóðan. T.d. segir danski Evrópuþingmaðurinn Morten Messerschmidt í nýarsávarpi sínu, að:
"Grundvallargildum okkar er ógnað. Við erum undir því, sem ég vil kalla "borgaralegt valdarán". Ekki árás með ofbeldi og ofurveldi eins og við höfum áður séð í sögunni. Heldur valdaráni, sem framkvæmt er með sáttmálum undirskrifuðum með pennum kjörinna fulltrúa okkar."
Morten Messerschmidt líkir Evrópuþinginu við Rómarríkið:
"Það sem er að gerast í augnablikinu í Brussel, ... er stöðug aðför til að tæma land okkar af lýðræðiskrafti sínum. Ekki síðan á tímum Rómarríkis hafa svo mikil völd verið í höndum svo fárra eins og málum er háttað í Brussel í dag. Búið er að aftengja almenning í Evrópu."
Messerschmidt heldur áfram:
"Barroso og Rumpoy hafa lýst því skýrt yfir, að markmiðið er sambandsríki. Og okkar eigin forsætisráðherra lýsti því nýverið yfir, að Danmörk er 18. evrulandið. Er hægt að hugsa sér stærri niðurlægingu frá nokkrum forsætisráðherra en að sniðganga nei dansks almennings við sameiginlegu myntinni?"
Svo mörg voru þau orð. Sem betur fer sjá sífellt fleiri, að Fjórða Ríkið er ekki það sem íbúar evruríkjanna vilja. Kratastjórnir Evrópusambandsins hafa leikið þjóðir sínar grátt með því að framfylgja fyrirmælum Charles Dallara, forstjóra Alþjóðlegu Fjármálastofnunarinnar IIF (Institute of International Finance), sem "ráðlagt" hefur þjóðum heims í fjármálakröggum að bjarga bönkunum, hvað svo sem það kostar. Núna, þegar ESB er á hraðferð með evruland í hyldýpi kreppunnar vegna bankabjörgunarstarfsins vakna ýmsir upp og segja hingað og ekki lengra.
Það er auðvelt að sveiflast milli vonar og ótta um, hvað nýja árið færir fólki í okkar heimshluta. Fyrir Ísland gengur best að kjósa sér nýja ríkisstjórn og halda sér fyrir utan efnahagsstríðið og fylkingamyndun "hinna stóru" í heiminum. Best að vera lítill og ráða eigin för en kasta sér í faðminn með öflum, sem skyndilega geta breyst í öfga og vopnuð átök. Ég mun kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna stjórnmálastefnu flokksins um frelsi einstaklingsins til skoðana og athafna. Ég vona, að sem flestir Íslendingar geti sameinast undir merki þess flokks, sem samofin er sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í aldanna rás. Tímabil smælkisstefnuhópa eins og Hreyfingarinnar er liðinn. Hægri Græn, Kristni flokkurinn, Björt framtíð, Besti flokkurinn og hvað þetta heitir nú allt saman ristir ekki djúpt í hina raunverulega stjórnmálaáru, sem umlykur þjóðarsálina. Þetta eru aðeins efasemdarraddir augnabliksins, sem skipta álíka miklu máli og hrukka í morgunsárið, þegar kíkt er í spegilinn.
Evran hefur sundrað Evrópu. Evrópusambandið er að riðlast sundur. Það hindrar samt ekki sósíalista nútímans frá þeirri heimsvaldastefnu sinni að sameinast með fjármálaöflunum til að byggja upp 4.a ríkið. Ég spái því, að hópur ríkja mun ganga í sæng með Þýzkalandi og 4.a ríkið verða að veruleika á meðan önnur ríki Evrópusambandsins verða látin sigla sinn sjó. Margir af 6 þúsund bönkum Evrópu eru gjaldþrota en haldið í gangi á fölskum forsendum. Mörg ríki ESB eru gjaldþrota en fá ekki að fara í gjaldþrot enn þá. Sú leið sem Alþjóðlega Fjármálastofnunin fer, er að breyta fólki í skuldaþræla, sem lifa bara til að draga andann og borga vexti og afborganir svo hægt sé að framlengja lífi gjaldþrota banka. Íslendingar kannast við þetta í gegnum Icesave. Eurosave er sami hluturinn bara svo hrikalega miklu stærri og með svo skelfilegum afleiðingum, að nýnazisminn veðrar morgunloft og vex með ógurhraða.
Þess vegna á boðskapur hins dularfulla símskeytis í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins svo vel við í dag:
Gætið yðar við gömmunum!
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)