Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016
Besta svarið
30.3.2016 | 18:40
Ný þingsályktunartillaga Framsóknarflokksins er lykillinn að endanlegu uppgjöri við bankahrunið. Verði tillagan samþykkt munu dyrnar að leyniherbergi Alþingis verða opnaðar fyrir þjóðina.
Það er reginhneyksli fyrir lýðræðið í landinu að Alþingi hýsi gögn í herbergi sem þingmenn fá leyfi gegn þagnarskyldu að fara einn í einu og sækja upplýsingar um afhendingu tveggja banka til hrægammasjóða.
Þjóðin beið gríðarlegt tjón við þennan gjörning og norræna velferðarstjórnin setti 110 ára birtingarbann á gögnin. Slíkt vekur náttúrulega spurningar um eðli og markmið uppgjörs þrotabúanna, þegar þjóðinni er meinaður aðgangur að upplýsingunum lengur en Þyrnirós svaf svefni sínum. Ekki bætir úr skák að myrkríður fyrri ríkisstjórnar lýstu sér sem fulltrúum "gegnsærrar opinberrar stjórnsýslu".
Þingflokkur Framsóknarmanna á heiður skilinn fyrir frumkvæðið, vonandi láta Sjálfstæðismenn ekki sinn hlut eftir liggja að greiða ályktuninni brautargengi á Alþingi.
Sár þjóðarinnar fá möguleika til lækninga, þegar leyndinni verður aflétt.
Og að lokum:
Vilja aflétta leyndinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2. Snertið ekki forsætisráðherrann minn!
28.3.2016 | 07:44
Greinilega er sjálfstætt hugsandi forsætisráðherra eitur í beinum landsölufólks og niðurrifsafla lýðveldisins og gerir það ástæðuna að fylkja sér enn þéttar að baki forsætisráðherranum í baráttunni ekki minni. Þjóðin er heppin að hafa þvílíkan baráttumann og framkvæmdamann sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er. Arftakar Jóns gegn Davíð virðast hafa orðið fangar myrkursins og í hvert skipti sem einhver lýsir upp með nafninu Davíð hefst hávær og páskatruflandi kveingrátur.
Samantekt forsætisráðherrans ber kennimerki Indefence og er málefnaleg, þar sem settar eru fram allar helstu spurningarnar og svör gefin við þeim. Þetta er ekki aðeins yfirgripsmikil og fullnægjandi útskýring heldur lýsir hún einnig heiðarleika og einlægni forsætisráðherrahjónanna til að ræða og útskýra málið. Fordæmagefandi vinnubrögð fyrir alla þá, sem vilja láta taka sig alvarlega. Kærar þakkir Sigmundur og Anna og vonandi getið þið fengið smá frí með fjölskyldunni eins og við hin á meðan enn er eftir af páskum.
Niðurrifsöfl lýðveldisins á Íslandi taka ekki málefnalegri umræðu. Þau kasta bara leðju. Leita allan tímann eftir að ausa leðju á þá sem vinna þjóðinni gagn.
Svo ég ætla að leyfa mér að lána hjá góðum sænskum vini mínum Thomasi Gur, sem er ágætis samfélagsbloggari í Svíþjóð, mynd sem mér finnst vera táknræn fyrir ástand umræðunnar á Íslandi:
The Good, The Bad, The Ugly and The Confused.
Gleðilega páska og munið:
Snertið ekki forsætisráðherrann minn!
Hvað snýr upp og niður? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
Snertið ekki forsætisráðherrann minn!
27.3.2016 | 09:27
Atlagan að forsætisráðherra Íslands Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er sú nýjasta í sundrungarstarfsemi sósíaldemókratískra og vinstri sinnaðra ESB-sinna, landsölumanna, sem gera allt til að koma lýðveldinu Ísland á kné. Allar götur fyrir og eftir bankahrun (sem þetta fólk átti stóran þátt í að búa til með glæpum sínum), hefur verið reynt að eyðileggja fyrir heiðarlegum embættismönnum þjóðarinnar. Ekkert hefur verið heilagt, Hæstiréttur, Alþingi, forseti Íslands, Seðlabankinn, stjórnarskráin; alla þessa innviði lýðveldisins átti að méla niður í andstöðu við samkomulag þjóðarinnar um að lýðveldið sé rétta skipulagið fyrir okkar litlu, sjálfstæðu þjóð.
Icesave varð aðalátakalínan, þar sem landsölumenn reyndu að gera kynslóðir Íslendinga að skuldaþrælum til að borga fyrir stórþjófnað bankaræningja.
Davíð Oddsson, Geir Haarde, Ólafur Ragnar Grímsson, Jón Bjarnason, Vigdís Hauksdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Lilja Mósesdóttir eru aðeins örfá nöfn þeirra sem staðið hafa í fremstu varnarlínu þjóðarinnar og mætt eyðileggingarárásum landsölufólksins.
Landssölufólkið reyndi að komast yfir Bessastaði með framboði Þóru Arnórsdóttur sjónvarpskonu gegn Ólafi Ragnari Grímssyni og var sjónvarpið misnotað á meðvitaðan, grófan hátt til að breiða út myndina af forseta Íslands sem "gömlum, rugluðum manni" í andstöðu við ímynd sjónvarpskonunnar sem hins "hreina, ferska valkosts". Allt síðan Jóni Gnarr tókst að blekkja kjósendur með kvikmyndahandriti um borgarstjóra Reykjavíkurborgar, hafa landsölumenn reynt að leika sama leikinn. Hreyfingarnar eru margar: Samfylking, Vinstri grænir, Besti flokkurinn, Björt framtíð, Píratar....Við eigum eftir að sjá meira af slíku og nýja einstaklinga sem hafa það eitt að marki að tálga gull af landsmönnum í formi launa og stöðuígilda og skilja eftir sig holótt lýðveldið. Framboð margra einstaklinga til Bessastaða nú er tilraun landsölufólks til að komast yfir embættið og taka forseta Íslands af þjóðinni. T.d. er Halla Tómasdóttir fyrrverandi fulltrúi Baugsveldisins og klappstýra JÁ-Icesave. Engar stofnanir lýðveldisins fá að vera í friði fyrir tilraunum landsölumanna að taka völdin og ef það tekst ekki, þá er reynt að eyðileggja fyrir þeim sem rétt kjörnir eru og vilja vinna störf sín vel í þágu þjóðarinnar.
Eiginkona forsætisráðherrans erfði fé af föður sínum sem varð efnaður á því að flytja inn og selja Toyota bíla. Ekkert óheiðarlegt við það. Forsætisráðherrann hefur verið manna ötulastur við að leiða þjóðina til endurreisnar í hatrammri baráttu gegn þeim sem reyndu að stela peningum landsmanna í bankahruninu. Hefði ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fengið völdin fyrr hefðu hrægammasjóðir aldrei orðið eigendur krafna á venjulegt fólk en það hefur framlengt fjármálakrísuna á Íslandi. Það eru ekki gögn núverandi ríkisstjórnar sem eru á bakvið luktar dyr í hundrað ár.
Það eina sem gerir forsætisráðherranum erfitt fyrir er að féð er fyrir utan landssteinana á stað sem bendlaður er við skattaskjól. Hins vegar hefur eiginkona forsætisráðherrans sér það til framdráttar, að nafn hennar var ekki á keyptum lista fjármálaráðherrans með nöfnum Íslendinga sem hugsanlega væru að svíkjast undan skatti á Íslandi. Eiginkona forsætisráðherrans hefur alla tíð gert grein fyrir eignum sínum og borgað af þeim skatta til íslenska ríkisins. Slíkt geta því miður ekki allir státað af sem eiga fé í "skattaskjólum" erlendis.
Ég er glaður yfir því að hafa Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem forsætisráðherra þjóðarinnar. Hann vinnur góð störf fyrir þjóðarhagsmuni Íslands.
Snertið ekki forsætisráðherrann minn!
Gleðilega Páska.
Er hugsi yfir forsætisráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Valdheimild forseta nauðsynleg vegna öryggis Íslands
17.3.2016 | 07:36
Björg Thorarensen prófessor staðfestir beinlínis það sem ég skrifaði í grein í Mbl. laugardaginn 12. mars: "Framsölumönnum tókst ekki að fá samþykkta tillögu um afnám valdheimilda forseta Íslands, en verði tillaga stjórnarskrárnefndar um 15% regluna samþykkt mun sú regla verða ákölluð sem stærsta ástæða framtíðarinnar til að taka völdin af forseta Íslands. Myndi það tryggja sigur fjárglæframanna yfir þjóðinni".
Í frétt Morgunblaðsins um málþing Lagastofnunar HÍ og Lögfræðingafélags Íslands um tillögur stjórnarskrárnefndar 16. mars s.l. segir að Björg Thorarensen telji lítinn tilgang með tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu að frumkvæði kjósenda á meðan engar breytingar eru gerðar á 26. grein stjórnarskrárinnar sem tekur á málskotsrétti forseta: "Ég hefði talið blasa við að þetta nýja ákvæði um þjóðaratkvæði að kröfu kjósenda ætti að leysa af hólmi málskotsrétt forseta.
Mér finnst full ástæða í þessari umræðu að jafnframt ítreka, að við höfum haft heimsstyrjaldir og aðrar hremmingar og engin tryggin er til staðar að slík óáran geti ekki orðið að nýju. Þar á ég við hertöku Íslands eða yfirtöku Alþingis með valdi sem gerði Alþingi óstarfhæft. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands samtvinnar embætti forsetans við lögboðnar valdheimildir sem gera forseta Íslands kleyft að mynda ríkisstjórn á lýðræðislegum grundvelli sem lögbundnum fulltrúa þjóðarinnar við hertöku landsins eða valdayfirtöku Alþingis og sitjandi ríkisstjórnar.
Við höfum skýrt dæmi úr sögunni um slíka valdbeitingu, þegar Hákon VII Noregskonungur flúði til Lundúnarborgar og leiddi þar löglega útlæga ríkisstjórn Noregs á meðan nazistar tóku völdin í Noregi og stjórnuðu Stórþinginu.
26. grein stjórnarskrárinnar tekur því yfir mun stærri og alvarlegri mál en telur afstöðu kjósenda í ýmsum dægurmálum. Það yrði stórhættulegt fyrir og skerðing á öryggi þjóðarinnar ef þessi valdheimild forseta yrði afnumin.
Leið forsetans greiðari | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Allt rétt hjá Íslendingum nema verðtryggðu húsnæðislánin
11.3.2016 | 09:22
Ég birti hér viðtal sem ég tók við ástralska prófessorinn Steve Keen sem er yfirmaður hagfræði- og efnahagssögudeildar Kingston Háskóla í London. Viðtalið var sent að stærsta hluta til í útvarpi Sögu fyrir nokkru.
Steve Keen er virkur gagnrýnandi hefðbundinnar hagfræði. Hefðbundnum hagfræðingum tókst ekki að sjá fyrir fjármálakreppuna 2008. Ekki vegna þess að hún væri ófyrirsjáanlegur Svartur Svanur heldur vegna rangra fyrirframskoðana sem sniðganga orsakir kreppunnar, þ.e.a.s. að bankarnir lána frekar fé til fjárglæfraspilamennsku en heilbrigðra fjárfestinga. Keen sá fyrir kreppuna vegna þess að hann styðst við eigið líkan sem mælir skuldir og peninga sem samtvinnaðan þátt hagfræðinnar. Ýmsum hefðbundnum hagfræðingum finnst Steve Keen meira líkjast verkfræðingi en hagfræðingi og segist hann vera stoltur af því. Í bók sinni Debunking Economics (Afhjúpandi hagfræði) útskýrir hann margar skynsamlegar staðreyndir hagfræðinnar án þess að nota stærðfræðilegar útskýringar. Steve Keen hefur skrifað fjölda greina um hagfræði og er mjög virkur í umræðu heimsins um efnahagsmál. Hann er jafnframt tíður gestur í sjónvarps- og útvarpsviðtölum.
Heimurinn fer í gegnum verðhjöðnunarskeið líkt og Japan s.l. 25 ár
Hvernig getum við breytt peningakerfinu, telur þú að við séum að fá aðra risaefnhagsbólu sem springur núna í heiminum?
Mest allur vestræni heimurinn er í ferli eftir stóru efnahagsbóluna 2008, við lifum í tíma eftirstöðvanna. Eina stóra landið sem á eftir að fara í gegnum stækkandi fjármálabólu sem hlýtur að springa og er líklega að því á þessarri stundu er Kína. Við sjáum því fram á fjármálahrun í Kína og efnahagsörðuleika í heiminum samfara því. Að öðru leyti fer heimurinn í gegnum langdregið verðhjöðnunarferli eins og ríkt hefur í Japan um 25 ára skeið, sem er samdráttar- og stöðnunarskeið vegna of mikillar aukningu einkaskulda og annarra skulda.
Skuldaaukning OECD ríkjanna nemur 35% eftir 2007. Hvað hefur þú að segja um það?
Þetta er blanda bæði einka- og opinberra skulda. Ég beini sjónum að einkaskuldum sem helsta orsakavaldinum í því efnahagsferli sem við erum í og ríkisskuldum sem letjandi þátt í öllu saman. Það virðist vera reglan, að þegar einkaskuldir aukast þá minnka ríkisskuldir, vegna þess að einkaskuldir í auknum mæli hafa örvandi áhrif. Þegar efnahagurinn vex myndast aukið undirlag fyrir ríkisfjárlög og skuldir ríkisins minnka. Þegar kreppa skellur á eins og árið 2008 dragast einkaskuldir saman af mörgum ástæðum eins og t.d. við gjaldþrot á meðan skuldir ríkisins aukast. Þetta er ekkert jafnvægisferli þar sem einn þáttur stækkar og annar skreppur saman í jöfnum mæli. Raunverulega hættan vex, þegar einkaskuldirnar stækka.
Ef við tökum t.d. Bandaríkin, þá var ríkisskuldin um 60% af vergri þjóðarframleiðslu, þegar fjármálakreppan byrjaði. Núna er ríkisskuldin um 100% af vergri þjóðarframleiðslu og hefur því stækkað um 40%. Einkaskuldir voru 170% af vergri þjóðarframleiðslu í byrjun kreppunnar en hafa fallið niður í 145%. Í heildina hafa skuldir Bandaríkjanna aukist að meðaltali. Fremstu ástæður kreppunnar í dag er samdráttur efnahagslífsins frekar en há skuldastaða ríkisins.
Ég hef lesið skrif þín um Quantative Easing (magnbundna íhlutun). Seðlabankar Bandaríkjanna og Evrópu hafa dælt milljörðum dollara og evra inn í kerfið. Hefði átt að fara öðru vísi að?
Ef við líkjum efnahagslífinu við bíl, þá setjum við bensín á bílinn til að geta keyrt hann áfram og koma honum á ferð. Smurolíu notum við til að smyrja vélina og gírkassann til að auðvelda skiptingu milli gíra. QE má líkja við að mikilli olíu hafi verið dælt á gírkassann til að reyna að keyra bílinn hraðar. Þú getur þrefaldað magn olíu á bílnum en það mun ekki hafa mikil áhrif á að bíllinn fari áfram. Til þess þarf nýtt bensín á tankinn.
Ástæðan fyrir því að QE setur ekki efnahagskerfið í gang er sú, að þar er aðallega verið að kaupa skuldabréf af einkabönkum eins og í Bandaríkjunum. Meiningin með að kaupa skuldabréf bankanna var að hluta til gert til að auka öryggi húsnæðislána og auka við fé m.a. gegnum vexti. En í stað þess að búa til peninga, þá sköpuðust engir nýir peningar. QE gefur bönkum þess í stað mögulega á að skipta á bókfærðum eignumum þ.e.a.s. húsnæðisbréfum fyrir ríkisskuldabréf sem eykur eigur þeirra bara á pappírnum. Þetta eykur ekki raunveruleg eignaverðmæti bankanna. Og þar sem engin verðmætaaukning á sér stað, þá getur bankinn heldur ekki tekið á sig meiri ábyrgð gagnvart innsetningum viðskiptavinanna í formi peninga. Á meðan ábyrgð bankanna eykst ekki verða engir peningar skapaðir og engum nýjum peningum er bætt í kerfið. Þessu má líkja við bílinn, þar sem þú smyrð vélina svo hún gangi liðlegra en þú hefur ekki bætt neinu á tankinn til að keyra bílinn áfram.
Brjálæðislega geðveik hugmynd
Ég var á nýlega á fundi í Stokkhólmi þar sem verið var að kynna og ræða bókina "Á sundi með hákörlum". Í dag er búið að breyta reglum banka þannig, að ef banki fer á hausinn getur hann tekið peninga viðskiptavinanna.
Þetta er brjálæðislega geðveik hugmynd. Hérna er verið að koma fram við okkur eins og fjárfesta sem erum að taka fjárfestingarákvörðun með því að leggja peninga inn á bankareikning. Þegar teknar eru ákvarðanir um fjárfestingu, þá er það eðlilegur hlutur að maður geti átt á hættu að tapa fénu ef fjárfestingin mistekst. En þegar fólk leggur peninga inn á bankabók og flytur á milli reikninga er það vegna þess að fólk lítur á bankann sem vöruhús fyrir peninga. Ef að bankinn myndi segja Við tökum 40% af peningunum þínum vegna þess að þú ert fjárfestir sem ert að taka áhættu með innsetningunni, þá eru skynsamlegustu viðbrögðin að taka peningana út af reikningnum og stoppa þeim undir dýnuna og nota þá þegar maður þarfnast þeirra. Þetta eyðileggur alveg hugmyndina um bankakerfið.
Þetta er vitlausasta hugmynd sem ég hef heyrt áratugum saman og þetta sýnir algjörlega hversu lítinn skilning búrókratar og hefðbundnir hagfræðingar hafa á því, hvernig peningarnir virka.
Evran er Frankensteinskrímsli
Talandi um búrókrata, þú hefur sagt að búrókratarnir í Brussel hafi búið til Frankenstein skrímsli úr evrunni. Getur þú útskýrt þetta nánar?
Hugmynd evrunnar er að trúa á að hægt sé að skapa einn gjaldmiðil fyrir Evrópu án þess að hafa sameiginleg fjárlög tengd gjaldmiðlinum. Við höfum Seðlabanka án fjármálaráðuneytis ásamt reglum um, að ríkisskuld megi ekki fara yfir 60% af vergri þjóðarframleiðslu eða að árlegur fjárlagahalli verði meiri en - 3%. Báður þessir hlutir eru spennitreyja í sjálfu sér. Það þýðir að þegar fjárhagurinn fer úrskeiðis og ríkisstjórnir þurfa að eyða meira fé en venjulega, þá verða þær samtímis að skera niður kostnaðinn. Þá sitjum við uppi með tvær takmarkanir í stað aðeins einnar.
Þetta er eins og að vera með loftkerfi sem dælir lofti inn í húsið og þegar kólnar úti heldur kerfið áfram að dæla inn köldu loftinu. Þetta er ótrúlaga slæmt kerfi og það er líka þess vegna sem við sjáum afleiðingar eins og t.d. í Suður Evrópu þar sem atvinnutölur eru langt yfir 10% í flestum ríkjanna og yfir 25% á Spáni og í Grikklandi. Þetta eru að mestu leyti bein áhrif lélegra reglna Maastricht sáttmálans og evrunnar. Það er hreint ótrúlegt að sjá hversu illa hlutunum er stjórnað í efnahagsmálum heimsins.
Hver er þá lausnin? Að taka upp þjóðlega gjaldmiðla á nýtt?
Þjóðlegir gjaldmiðlar er mun skynsamlegri en alþjóðlegur gjaldmiðill nema að þjóðirnar sameinist um eitt fjármálaráðuneyti sem getur þjónað öllu gjaldmiðlasvæðinu. Þá getur ríkið hlaupið tímabundið undir baggann þegar eitthvað fer úrskeiðis á einum stað og haldið hlutunum gangandi þar.
Bandaríkin eru heimsálfa með einungis einn gjaldmiðil. Það þýðir að ef t.d. Nebraska er með fjárlagahalla og verður peningalaust en vel gengur í Kaliforníu, þá geta yfirvöld tímabundið flutt hluta af skattapeningum Kaliforníu yfir til Nebraska til að leysa málin þar. Enginn yrði var við þetta, því ekki er haldið yfirlit yfir hvernig skattafé er varið milli ríkja í Bandaríkjunum. En í Evrópu er þeim málum haldið til haga þótt ekki sé til sameiginlegt fjármálaráðuneyti landanna. Þetta þýðir að þegar eitthvað fer úrskeiðis á evru svæðinu, þá gera reglur Maastrich sáttmálans ástandið enn verra. Það er því miklu betra fyrir löndin að taka upp þjóðlegan gjaldmiðil að nýju í stað þess að vera áfram í evrunni. Ekki nema að evrunni takist að brjóta sér leið út úr spennutreyjunni og burtu frá 3% reglunni - annars liggur leiðin beint í skipsbrotið.
Einhvers staðar á einhverju stigi mun einhver öfga hægri hópurinn birtast og leiða úrsögn úr gjaldmiðlinum og eftir þjáningar í byrjun - aðallega í stærri ríkjunum, þá mun hópurinn skjóta rótum og fá stefnu sína viðurkennda, af því að það var réttur hlutur að skilja við evruna.
Mér finnst þetta bara vera sorgarleikur. Evran átti að sameina Evrópu en hún býr til raunverulega sundrungu sem ekkert gefur eftir sundrungarástandinu 1930.
Allt rétt gert hjá Íslendingum nema verðtryggðu húsnæðislánin, þau þurfa að hverfa
Vegna þess að ég er Íslendingur þá er mér hugleikið að heyra álit þitt á hvernig þér finnst Íslendingum hafi tekist að bjarga sér út úr kreppunni og hvað íslenska krónan þýðir. Nýlega hlutu bankastjórar fangelsisdóma ....
Já það er stórkostlegt. Þetta er það sem hefði þurft að gera alls staðar í heiminum. Þið stingið bankastjórunum í steininn í staðinn fyrir að halda þeim á floti og réttlæta allt svindlið sem þeir hafa staðið fyrir síðustu áratugi. Þið neituðu líka að borga skuldir sem aldrei hefði upphaflega átt að stofna til. Þetta er ástæðan fyrir því, að Ísland kemur miklu betur út úr kreppunni en flest öll önnur lönd. Eina atriðið sem vandkvæði er á og þú verður að leiðrétta ef ég fer ekki rétt með, er að húsnæðislán ykkar eru verðtryggð og tengd verðbólgunni sem þýðir að ef verðbólgan hækkar um 10%, þá hækka húsnæðislánin um 10%. Þetta er fáránlega slæmt fyrirkomulag og þið ættuð að afnema þessa reglu og gera húsnæðislánin sjálfstæð, óháð verðbólgu. Burtséð frá þessu atriði, þá hafið þið gert allt saman rétt, hvernig þið hafið tekið ykkur gegnum kreppuna. Þið hafið sýnt öðrum í heiminum, hvernig þeir eiga að fara að hlutunum, sem er allt annað en þeir hafa gert fram að þessu.
Best að gera þveröfugt við ráðleggingar hagfræðinga
Það er mikil umræða í gangi um verðtrygginguna og ég vona að henni verði breytt. En hvað finnst þér Steve, ég hef heyrt að hagfræðibækur séu ekki alltaf réttar, hvernig kemur framtíð hagfræðiþekkingarinnar til okkar?
Hagfræðin er enn að miklu leyti í sporum 19.aldar hugsunar, þrátt fyrir tölvur og tækni nútímans. Hagfræðingar nota 19. aldar hugsun til að skilja efnahagslíf 21. aldarinnar. Þeir vilja frekar viðhalda venjulegum mistökum í stað þess að þróa hagfræðikenningarnar áfram. Við þurfum að uppfæra hagfræðina í öllum heiminum og nota dýnamískar aðferðar fyrir dýnamísk kerfi í stað ósveigjanlegs kerfis eins og hagfræðingar nota. Hefði það verið gert værum við nú þegar með efnahag sem þjónar tilgangi sínum.
Hagfræðin er svo léleg um þessar mundir að það er oftast best, þegar hagfræðingur er spurður ráða að gera þveröfugt við það sem hann ráðleggur manni.
Ha, ha, ha, er ástandið virkilega svona slæmt?
Já, það er það.
Ég þakka þér Steve Keen innilega fyrir samtalið og tímann til að ræða um þessi mál.
Það er sjálfsagt mál. Ég verð að heimsækja Ísland einhvern daginn. Það hefur orðið svo miklu áhugaverðara land eftir allt sem þið hafið gert til að vinna ykkur út úr kreppunni.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ESB hótar með heimskreppu og heimsstyrjöld gangi Bretar úr ESB
6.3.2016 | 14:28
ESB hefur hafið móðursjúka hræðsluherferð til að hræða Breta frá að ganga úr sambandinu. Hafi Íslendingar kynnst hótunum í sambandi við Icesave eru þær ekkert miðað við þá óþverraleðju, sem Evrópusambandið dælir yfir Breta. Forráðamenn sambandsins ásamt stórfyrirtækjum, stórbönkum á borð við Goldman Sachs hafa ákveðið að kremja Breta undir hæl áróðursstígvélsins svo þeir "kjósi rétt". Hótað er með heimskreppu og heimsstyrjöld hvorki meira né minna, sem skrifast á brezku þjóðina ef hún velur að fara úr ESB. Sem fyrr mun þvílíkur ofstopi aðeins leiða til andhverfu sinnar og stappa stálinu í fleiri Breta að fara frá rjúkandi rústum ESB sem hvort eð er getur engu bjargað, jafnvel þótt Bretar séu um borð.
Þýzki fjármálaráðherrann Wolfgang Schauble sagði í viðtali við BBC, að "Brexit gæti skapað heimskreppu, þar sem mörg ár erfiðra samninga um útgöngu Breta væru "eitur" fyrir efnahagslíf heimsins. Stórbankar keppa nú um að fylla alla miðla með hrakspám um stórfyrirtæki sem færu illa út úr Brexit bæði í Bretlandi og öðrum aðildarríkjum sambandsins.
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins Jean-Claude Juncker virðist alveg hafa tapað sér, hann skipaði gagnrýnendum evrunnar að heimsækja stríðsgrafir í Evrópu til að komast hjá því að eyðileggja frið á milli þjóða. Í örvæntingarkasti varar Juncker breska kjósendur við að endurtaka ekki "gríðarlegu heimsku" tveggja heimsstyrjalda. Telur Juncker að ESB hafi haldið uppi friði eftir seinni heimsstyrjöldina í Evrópu og ásakar Breta fyrir að "gleyma" þessu "mikilvæga hlutverki ESB".
Mike Hookem fyrrum hermaður og talsmaður Sjálfstæðisflokks Bretlands UKIP sagði að yfirlýsing Juncker skapaði ógleði. "Það er glögg innsýn í heilabúið á Mr. Juncker að honum finnist það hafa verið "gríðarleg heimska" að háð var stríð gegn skrímslum eins og Hitler og gegn einræði fasismans, þegar sannleikurinn er sá að þeir menn og konur sem börðust voru ótrúlega hugrökk og barátta þeirra gríðarlega mikilvæg. Samtímis sem við höldum upp á 100 ára afmæli Fyrstu heimsstyrjaldarinnar að Sommeslagnum meðtöldum ættum við að þakka upphátt öllum þeim sem börðust fyrir frelsi og til að losna úr heimsvaldaklóm Þýzkalands. Þessi áróður er framhald baráttunnar um að hræða fólk til að kjósa að vera áfram í ESB, því þeir vita að "efnahagslegu" rökin eru gagnslaus."
Dr. Liam Fox fyrrum varnarmálaráðherra Breta bætti við: "Hergrafir Evrópu eru minnisvarði um mistök meginlandsins til að halda öfgastefnu tuttugustu aldarannar í skefjum."
Talsmenn fyrir úrgöngu Breta úr ESB dæmdu ummæli Junckers sem "heimsku og móðgun við fórnir þeirra sem liggja í hergröfunum."
Juncker hefur hótað Bretum, að engir möguleikar verði á neinum nýjum aðildarsamningi, ef Bretar kjósi um að yfirgefa sambandið. "Ekki bara vegna þess að brezki forsætisráðherrann kaus gegn mér, þegar ég bauð mig fram sem framkvæmdastjóri ESB heldur líka vegna þess að hann varð svo glaður, þegar ég aðstoðaði hann við að ná stjórn á þessum sjálfsköpuðu vandamálum sínum."
Baráttan á eftir að harðna en varla að nein þvæla komist í hálfkvist við þessa dellu forseta framkvæmdastjórnar ESB, að úrsögn Breta muni orsaka þriðju heimsstyrjöldina. Hið sama gildir um heimskreppublaður fjármálaráðherra Þýzkalands, en evran ein hefur valdið þvílíkum hörmungum í suður Evrópu, að ekkert gefur eftir heimskreppunni fyrir seinni heimsstyrjöldina.
Byggt að hluta til á grein í Daily Express.
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 15:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Á byrjunarreit borgarstjórnar
1.3.2016 | 20:50
1 Eftir hrikalegar niðurstöður Gallups, sem sýndu að Reykjavíkurborg er með lélegustu þjónustu allra bæjarfélaga á Íslandi, ætlar borgin sjálf að sjá um skoðanakannanir í framtíðinni. Tryggt verður að enginn taki mark á þeim með því að birta niðurstöðurnar 1. apríl árlega.
2 Tillaga hefur komið fram um að spara upphitunarkostnað Reykjavíkurborgar vegna slæms fjármálaástands. Eiga starfsmenn borgarinnar með hita á milli 38-42 gráður að vera frammi á gangi á meðan aðrir með hærri hita verða lagðir í gluggakistur.
3 Ákveðið hefur verið að flytja innkaupastjóra Reykjavíkur yfir í hestadeild borgarinnar. Það hefur nefnilega komið í ljós, að í hvert skipti sem hann fer út í búð til að kaupa þvottavél þá kemur hann alltaf tilbaka með hest.
4 Meirihluti borgarstjórnar vinnur við að leysa erfitt reiknidæmi. Verið er að reikna út hversu mörg Instagröm eru í hverju kílói.
5 Píratar segjast hafa fundið lausn á neikvæðri fjármálastöðu borgarinnar. Þeir ætla að hala niður jákvæðu efnahagslífi.
6 Samfylkingarmenn segist hafa fundið lausn á neikvæðri fjármálastöðu borgarinnar. Þeir ætla að halda niðri jákvæðu efnahagslífi.
7 Starfsfólki við afgreiðslu matarpakka til aldraðra hefur verið ráðlagt að segja við kvartandi gamalmenni, að það geti ekki komið til greina að fiskurinn bragðist ekki eins vel og í síðustu viku, þetta sé nefnilega sami fiskurinn.
8 Ef maturinn bragðast eins og hundamatur, þá er það vegna þess að kattamaturinn er búinn.
9 Til að koma í veg fyrir að bæjarbúar geti rýnt í tölur borgarinnar á að setja gardínur á allar tölvur með windows.
10 Holuherferð borgarstjórnar er til að færa allt gatnakerfið á byrjunarreit þ.e.a.s. borg án vega.
Komið á byrjunarreit aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)