Hagsmunir þjóðarinnar ekki einkamál flokksleiðtoganna

Ellidi_OlfusÉg fagna viðbrögðum þess góða drengs Elliða Vignissonar bæjarstjóra í Ölfusi sem sér möguleika til að leiðrétta stjórnmálamistök Sjálfstæðisflokksins vegna víðtækrar og jákvæðrar umræðu þjóðarinnar um orkupakka 3. Eftir Icesave ætti enginn að vera hissa á hærra varúðarstigi hjá þjóðinni gagnvart þrjótum sem leggja nótt við nýtan dag til að finna leiðir til að véla þjóðina í ESB. Forysta Sjálfstæðisflokksins í dag er að verulegu leyti sú sama og lagði til Icesave samning sem þjóðin hafnaði. Flokksforystan hefur ekki gert það upp við sig hvað það þýðir stjórnmálalega að vera á annarri skoðun en þjóðin sem fékk staðfestingu á réttmæti afstöðu sinnar hjá alþjóðadómstól. Sú leiðsögn sem lýsti veg þjóðarinnar var jafn skörp og hún var einföld: Ekki á að borga skuldir óreiðumanna. Hefði það ekki verið vegna leiðsagnar fyrrum leiðtoga Sjálfstæðisflokksins þeirra Geirs Haarde og Davíðs Oddssonar og þáverandi forseta lýðveldisins Ólafs Ragnars Grímssonar, sem lögðu grunnninn að björgun þjóðarinnar, sæti þjóðin uppi í miðjum grískum harmleik; Íslendingar fjötraðir í skuldahlekki kynslóðir fram í tímann og nokkrir auðkýfingar hirtu arðinn af gögnum lands og sjávar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sem vann ötullega í InDefence að lausn vandans hélt áfram björgunarstörfum eftir sigur þjóðarinnar í Icesave. Núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins valdi heldur að sameinast Vinstri Grænum og rústum Framsóknarflokksins að því er virðist einungis til að koma í veg fyrir að Sigmundur Davíð kæmist á nýjan leik í stjórn. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er sá stjórnmálaleiðtogi þjóðarinnar sem óprúttnum fjármálaþrjótum er mest í nöp við sem segir allt um áhrif, hæfileika og getu þessa manns. Það er þess vegna fullkomlega eðlilegt að fylgið hrynji af núverandi forystu Sjálfstæðisflokksins en safnist saman um núverandi forystu Miðflokksins. Miðað við þöggunartilburði og hrækingar forystu Sjálfstæðisflokksins á þá sem taka þátt í umræðu um orkupakka 3 og ekki syngja HALELÚJA upphátt er forystan í óða önn að grafa sína eigin stjórnmálagröf. Fyrir andstæðinga orkupakka 3 er það einungis jákvætt, því það flýtir fyrir endalokum áhrifa þessa fólks sem skortir bæði skynjun, tilfinningar að ekki sé minnst á vísdóm til að vera í tengslum við þjóð sína og hlusta á og ræða við venjulegt fólk. 

Eftir vindhögg ríkisstjórnarinnar á alþjóðavettvangi og gólfmottuhegðun t.d. í réttindamálum eiturlyfjamafíu Filipseyja og þykjustu mannréttindum Sádí Arabíu m.fl., þá má alveg taka undir áhyggjur ritstjóra Morgunblaðsins af gæðum lögfræðimenntunar á Íslandi í dag. 

Ungt óreynt fólk í stjórnmálum má hafa hversu fínar gráður úr háskóla sem er, en þegar dómgreindin er ekki meiri en að hægt er að skrifa ótalda pistla um hvernig viðkomandi lítur á það sem hlutverk sitt að bjarga heiminum, þá hringja allar viðvörunarbjöllur. Þegar stjórnmálamenn líta á stjórnmál einungis sem spurningu um stöður, persónulegt framapot og til að hækka í launum, þá á hugtakið þjóð fáa möguleika. Slíkir stjórnmálamenn verða bæði þjóð og flokki sínum til skammar og fara létt með að rífa niður þann árangur sem áunnist hefur.

Miðað við síðustu fregnir virðist forysta Sjálfstæðisflokksins ekki á þeim buxunum að einu sinni hlusta á eigin flokksmen. Sú afstaða er ólík afstöðu fyrri forystumanna sem a.m.k. reyndu í orði kveðnu að viðhalda lýðræðislegum vinnubrögðum. Orkupakkahrokinn er slíkur að hann bendir til þess að örfáir fjárfestar ráði ferðinni og þá líklega þeir sem mestan hag hafa af því að koma þjóðinni í hendur ESB. 

Það er miður þegar jafn merkur stjórnmálaflokkur og Sjálfstæðisflokkurinn jarðar sjálfstæða hugsun og beitir offorsi til að tryggja hag örfárra á kostnað þjóðarinnar. 

Vonandi tekst góðum mönnum eins og Elliða Vignissyni og Styrmi Gunnarssyni að koma vitinu fyrir forystunni og hleypa venjulegum flokksmönnum að í þessu mikilvæga máli áður en það verður um seinan. 


mbl.is Gjá milli þingflokks og grasrótar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Hrífandi pistill Íslendings í Svíþjóð! Hafðu bestu þökk fyrir.

Helga Kristjánsdóttir, 23.7.2019 kl. 16:18

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Takk Helga!

Gústaf Adolf Skúlason, 23.7.2019 kl. 19:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband