Seðlabanki Svíþjóðar undirbýr útgáfu rafkrónu
27.10.2018 | 07:56
Nýlega birti sænski Seðlabankinn yfirlýsingu um að bankinn athugaði í fullri alvöru upptöku á rafrænni krónu í stað myntar og seðla. Tekur bankinn upp sænska krónu sem rafkrónu verður það í fyrsta skipti í heiminum sem slíkt verður gert af opinberum aðila.
Ekki er verið að ræða svindlpeninga eins og bitcoin heldur alvöru gjaldmiðil gefinn út af sænska ríkinu. Ekki er víst að allir einkabankar séu hrifnir af hugmyndinni, þótt þeir ýti sjálfir undir peningalaust samfélag með sífellt meiri kortanotkun. Seðlabankinn fyrirhugar nefnilega að opna reikninga í rafkrónum fyrir almenning og spyrna þannig á móti sífellt minni tryggingu fjármálafyrirtækja í minnkandi bindiskyldu við Seðlabankann.
Margir aðilar í ferða- og hótelgeiranum taka einungis við kortagreiðslum í dag í Svíþjóð. Ef þú gleymir kortinu heima en ert með seðla á þér áttu samt á hættu að verða neitað t.d. um hádegismat á veitingastað eða kaffi á kaffihúsum. Svíþjóð er trúlega það land í heiminum sem notar minnst seðla og mynt í dag eða um 1% af efnahaginum. Í Evrópu er notkun myntar um 10%.
Bankarnir skapa peninga við útlán en eru háðir bindiskyldu við Seðlabankann. Sú kjölfesta hefur minnkað stöðugt undanfarin ár og vilja sum fjármálafyrirtæki afnema bindiskyldu með öllu. Það mun þó ekki stöðva banka sem eru í óreiðumálum að leita á náðir Seðlabankans. Seðlabankinn sér tilgang í viðhaldi fullveldi gjaldmiðilsins í höndum ríkisins sem tryggingu í fjármálakrísum og bregst því við með hugmyndinni um rafkrónu.
Í dag hafa bankarnir gert viðskiptavinum sínum erfitt fyrir að taka út peninga í seðlum. Hraðbönkum hefur fækkað og einungis hægt að taka út litlar upphæðir. Flest bankaútibú skylta með að þar sé enga seðla að fá. Rafkróna myndi auðvelda viðskiptavinum bankanna að taka út peninga sem aftur á móti yki þrýsting á bankana að tryggja viðskiptalega kjölfestu. Verður spennandi að fylgjast með framvindu málsins og hvenær rafkrónan verður sett í umferð.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkar: Fjármál, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 09:09 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.