Fyrirmyndarforsætisráðherra
3.10.2013 | 23:01
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er forsætisráðherra til fyrirmyndar. Hann hefur háleit markmið og vill landi og þjóð aðeins hið besta. Sýn hans um fyrirmyndarlandið ætti að vera samsýn flestra Íslendinga. Hún er hvetjandi, hefur afl langt út fyrir núverandi ástand og er mynd, sem hægt er að skapa og er eftirsóknarvert að ná. Hinn ungi ráðherra er fullhæfur í því þýðingarmikla hlutverki að leiða endurreisnarferil landsmanna eftir efnahagsveltu útrásarvíkinga og ömurlegustu ríkisstjórn Íslandssögunnar.
Fjármálaráðherrann Bjarni Benediktsson boðar staðfestu í ríkisfjármálum. Það verður góð kjölfesta þetta kjörtímabil. Það eitt að stöðva skuldasöfnun er sjálfsagt markmið og sýnir ábyrga afstöðu. Fyrri ríkisstjórn var að keyra allt í kaf með skuldasöfnun sinni enda starfaði hún undir móttóinu, að ef landsmenn vildu ekki fara inn í ESB með góðu, þá skyldu skuldafjötrar Icesave og AGS-lána duga til að reira það fast um þjóðina að hún heyrði nafnið Jesú í hvert sinn og forseti Evrópusambandsins væri nefndur á nafn. Tilsamans eru Sigmundur og Bjarni fyrirmyndar parhestar fyrir þá framsókn, sem nauðsynleg er landsmönnum öllum til að snúa skútunni af ójafnaðarbraut íslenskra krata.
Bumbusláttur ungkrata á Austurvelli sýnir hroka og vanvirðingu við lýðræðið skömmu eftir að þjóðin fleygði móðurflokki þeirra endilöngum á haug sögunnar. Málflutningi stjórnarandstöðunnar hefði allteins getað verið útvarpað frá reikistjörnunni Mars vegna botnlausrar veruleikafirringar. Kratar og sósíalistar hafa breyst í súrrealískt landslag. Ástæða er til að óska nýrri ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks alls farnaðar á kjörtímabilinu. Setningarræða forseta Íslands á Alþinig var söguleg og snerti sjálfstæðistaugar þjóðarsálarinnar. Sameining landsmanna, þings og þjóðar er verðugasta verkefnið um þessar mundir. Alltaf gott að heyra vitnað í Jón Sigurðsson og þörf lýðræðisáminning á tímum vaxandi nýnasisma, fasisma og rasisma á meginlandinu. Alþingi fer hressilega af stað. Ferskleikinn og sóknarhugurinn endist vonandi út kjörtímabilið.
Eitt atriði varpaði skugga á setningarræðu fyrirmyndarforsætisráðherrans. Hann nefndi ekki fyrirætlanir ríkisstjórnarinnar varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu. Hann nefndi ríkisstyrktar ránveiðar ESB, sem er hárrétt. Í nýlegu viðtali við færeyska sjónvarpið leit sjávarútvegsráðherra ESB, María Damanaki út eins og þjófur, sem staðinn er að verki með höndina í sultukrukkunni. Hún setti fram sögulega lygi um síldarveiðar ESB í Norðursjó og taldi Færeyjar og Ísland vera stór ríki vegna fiskiveiða sinna á meðan ESB var bara smáríki til samanburðar. Hún iðaði í stólnum eins og áll og augnaráðið flökti um gólfið og sjaldnast til spyrjandans.
Varla eru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Bjarni Benediktsson hræddir við hefndaraðgerðir ESB ef þeir manna sig í að draga tilbaka aðildarumsókn vinstri stjórnarinnar að ESB? Ætlar ríkisstjórnin virkilega að láta þessa umsókn, sem gerð var að þjóðinni forspurðri, hanga yfir þjóðinni út kjörtímabilið? Hvað er svona viðkvæmt við þetta mál, að ekki var hægt að minnast á það í setningarræðunni? Er ríkisstjórnin búin að semja við stjórnarandstöðuna, að umsóknin verði ekki dregin til baka á kjörtímabilinu? Sigmundur og Bjarni þurfa að taka á þessu máli eins og menn og sýna, að þeir séu hæfir til að taka við kefli þjóðarinnar um óskorað fullveldi og sjálfstæði Íslands. Þjóðin vill ekki dingla í hengingaról evrukratanna.
Ísland getur orðið fyrirmyndarland | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Breytt 4.10.2013 kl. 05:50 | Facebook
Athugasemdir
Sæll Gústaf
Ég er þér hjartanlega sammála þéir félagar munu standa sig þei að mér sínist fastir fyrir,En það þarf að leifa fólkinu í landinu að kjósa um þetta ESB kjaftæði því þá er það úr söguni því ekki trúi ég að þjóðin segi annað en NEI VIÐ ESB.
Jón Sveinsson, 4.10.2013 kl. 07:41
Þakka þér vinsamleg orð Jón. Spurningin er hvað á að kjósa um. Ekki þarf að kjósa um aðildarumsóknina, því hún er ekki á vegum þjóðarinnar heldur fyrrverandi Alþingismeirihluta, sem nú er fallinn. Þess vegna getur Alþingi nú með einni ályktun numið umsóknina úr gildi án aðkomu þjóðarinnar. Ekki á að hefja aðildarferli að nýju nema að spyrja þjóðina, hvort hún vilji það. Núna þarf að draga umsóknina til baka, svo hún hangi ekki yfir þjóðinni í lengri tíma.
kærar kveðjur
Gústaf Adolf Skúlason, 4.10.2013 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.