Verður Gullin Dögun blóðugt sólarlag?

Skärmavbild 2013-09-30 kl. 04.27.44
Sífellt koma fram meiri upplýsingar um morðið á antirasistíska rapparanum Pavlos Fyssas og mótmælum Grikkja eftir morðið. Atburðarrásin hefur verið hröð með handtöku forráðamanna Gullinnar Dögunar, sem nú bíða eftir að verða yfirheyrðir og úrskurði yfirvalda um áframhaldandi gæsluvarðhald. Upplýsingar um morðið á Pavlos Fyssas eru mótsagnakenndar, en sænska sjónvarpið átti 29. sept. viðtal við Marios Avgoustatos, sem sagði að morðinginn hefði verið einn á ferð og stungið hníf í hjarta söngvarans.
 
Skärmavbild 2013-09-29 kl. 19.49.48
Nikos Dentias ráðherra lögreglumála lofaði Grikkjum að yfirvöld myndu fylgja eftir handtökunum og að réttlætinu yrði fullnægt. Gullin Dögun hafði um 15% fylgi en það virðist hafa dalað mjög við alla þá neikvæðu athygli, sem nýnasistaflokkurinn hefur fengið í kjölfar morðsins á Fyssas. Margar mótmælagöngur hafa átt sér stað eftir morðið og lögreglan skorist í leikinn. Óeinkennisklæddir nýnasistar réðust á mótmælendur með grjótkasti án þess að lögreglan skipti sér af því. 
Skärmavbild 2013-09-30 kl. 03.59.59
Birtar hafa verið myndir af tveimur mönnum, þar sem annar leiddi árásir gegn mótmælendum og hinn er talinn vera morðingi Fyssas. Sögur ganga um samstarf lögreglu og hers við Gullina Dögun. Talið er að meðlimir Gullinnar Dögunar hafi fengið aðstöðu hjá hernum til þjálfunar og undirbúnings fyrir innanlandsstyrjöld.
Skärmavbild 2013-09-30 kl. 03.32.08
Hundruðir innflytjenda og flóttamanna hafa horfið undanfarna mánuði og er talið að meðlimir Gullinnar Dögunar séu valdir að hvarfi þeirra. Í umræðu sænska sjónvarpsins, sagði Alexandra Pascalidou að grískt blóð hefði þurft að fljóta til þess að yfirvöld tækju loksins í taumana. Hún kallaði það hráskinnung, að yfirvöld teldu að lýðræðið hefði sigrað með handtöku meðlima Gullinnar Dögunar. Þeir sömu kölluðu innflytjendur og flóttamenn "ógnvalda Grikklands" fyrir síðustu kosningar og kenndu þeim um efnahagskreppuna.
 
Skärmavbild 2013-09-30 kl. 04.23.35
Morðið á rapparanum Pavlos Fyssas hefur vakið mikla reiðiöldu og lögreglan neyðst til að láta til skarar skríða gegn Gullinni Dögun. Pascalidou lýsti því, hvernig Gullin Dögun hefði byggt upp flokksstuðning með því að virka sem félagsmiðstöð og vinnumiðlun fyrir hreinkynjaða Grikki. M.a. var boðið upp á launuð störf til atvinnulausra að berja innflytjendur og flóttamenn. Gullin Dögun hefur einnig verið eins og lögregla í samvinnu við raunverulegu lögregluna, sem ekki hefur skipt sér af vaxandi ofbeldi í garð innflytjenda síðustu misserin. Þingmenn Gullinnar Dögunar njóta lögverndar og þarf að svipta þá þingtitlum til að hægt sé að sækja þá til saka fyrir glæpastörf nýnasistaflokksins.
 
Þótt handtökur meðlima Gullinnar Dögunar séu skref í rétta átt er enn of mikið óljóst til að segja um, hvort raunverulegur sigur lýðræðisins sé í höfn. Mat viðmælenda sænska sjónvarpsins var að líklega yrði nýr öfgaflokkur stofnaður í kjölfar aðgerðanna gegn Gullinni Dögun.
 
 
 
 
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Öll stjórnmálasamtök sem byggja á öfgum og ofbeldi eru af hinu slæma, svo er með Gullna dögun þeirra Grikkja. Því væri óskandi að sá félagsskapur breytist í blóðrautt sólarlag.

En við skulum ekki fagna of snemma. Lærifaðir þessara samtaka var sjálfur fangelsaður á sínum upphafsárum í pólitík. Samt náði hann nokkrum árum síðar fullum völdum yfir einn stæðstu þjóð Evrópu og skóp einhverja mestu hörmung sem mannkynið hefur orðið fyrir af mannavöldum.

Ástandið á Grikklandi er skelfilegt og við þær aðstæður þrífast öfgaöflin best. Sú staðreynd að nánast allir innan sérsveitar hers Grikkja og stór hluti lögreglu skuli aðhyllast stefnu þessara öfgasamtaka, er ekki beinlínis til að vekja miklar vonir.

Nú munu væntanega fara fram nýjar kosningar í landinu og þó Gullin dögun verði án sinna hellst forsvarsmanna má gera ráð fyrir að aðrir taki við keflinu og boði öfgatrúnna. Auðnist grískum stjórnvöldum að banna þennan stjórnmálaflokk, mun nýr rísa upp.

Því miður segir sagan okkur að þar sem hörmungar ríkja sigra öfgarnir fyrstu orusturnar. Það er ekki fyrr en þeim hefur tekist að valda nægri skelfingu með stríði eða sambærilegum hörmungum, sem hinum hófsömu tekst að ná aftur völdum. Að lýðræðið nær aftur yfirhöndinni.

Það er óskandi að þessum kafla í sögu Grikkja sé lokið og Gullin dögun verði blóðrautt sólarlag. En eins er víst að á hinn veginn geti farið, að annað hvort muni grísk þjóð kjósa hörmungarnar yfir sig eða herinn undir stjórn þessara öfgamanna taki völdin.

Gunnar Heiðarsson, 30.9.2013 kl. 09:09

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakka þér mjög góða athugasemd Gunnar. Það virðist vera of snemmt að spá um áframhaldið. Það er öfgakennt, að vagga lýðræðisins skuli næra eiturnöðrur við barm sinn, sem geta sogið kraftinn úr lýðræðinu á þennan hátt. Í þetta sinn hefur ESB veitt hjálp með því að skrúfa frá gullkrönum evrunnar í byrjun. Spillt fjármála- og embættismannakerfi hjálpar heldur ekki til. Arma gríska þjóð!

Gústaf Adolf Skúlason, 30.9.2013 kl. 09:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband