"You can´t handle the truth!"

bankrutt.pngOrð úr sígildri kvikmyndasenu með Jack Nicholson gæti verið kjörorð ríkis- og Baugsmiðla á Íslandi og þannig ver Seðlabanki Evrópu sig gegn fréttastofunni Bloomberg, sem krafist hefur gagna, sem fréttastofan telur að sýni, hvað SE vissi um stöðu Grikklands áður en skuldabólan sprakk. Bankinn neitar að afhenda gögnin, því "það grefur undan trausti almennings á efnahagsstefnunni, sem framkvæmd er innan ESB og Grikklands." Bloomberg vill fá svar við tveimur einföldum spurningum:

1. Hvenær varð SE ljóst, að Grikkland fegraði skuldastöðu sína?
2. Hvað vissi SE um gæði trygginga grísku ríkisstjórnarinnar á lánum frá SE?

Á wobbing.eu er því haldið fram, að málaferli Blomberg gegn Seðlabankanum geti aðeins endað illa fyrir SE, þrátt fyrir að SE hafi unnið fyrri hálfleik í EU-dómstólnum:

a) Ef bankinn þekkti til tölusvindlsins lendir hluti ábyrgðarinnar á SE.
b) Ef bankinn þekkti það ekki, er hægt að segja, að SE brást skyldu sinni að fylgja reglum myntbandalagsins (EMU).

Dómstóllinn telur, að það varði ekki "almannahag" að vita, hvort SE sé illa eða vel upplýstur. Dómstóllinn vísaði til reglu, sem gefur SE réttinn að birta ekki skjöl, sem skaðað geta almannahag. Með öðrum orðum: Best er að fólk sé hamingjusamlega óvitandi um, hversu slæmt ástandið er.

Þetta er ekki í fyrsta skipti, sem Bloomberg fer til dómstóla til að fá upplýsingar. 2008 kærði fréttastofan Seðlabanka USA og krafðist gagna, sem sýndu hverjir hefðu fengið neyðarlán. Federal Reserve neitaði að birta gögnin en tapaði málinu. Upplýsingarnar gjörbreyttu myndinni af því, sem raunverulega gerðist haustið 2008, þegar Federal Reserve lánaði stóru bönkunum á Wall Street 1200 miljarði dollara.

Svo þykjast valdhafarnir í Brussel vera hissa, hvers vegna almenningur ESB er hættur að treysta þeim.

(byggt á grein Cervenka í Sænska Dagblaðinu)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Það er útilokað annað en að SE hafi vitað af þessu. Allir og amma hans vissu af grísku bokhaldsbrellunum.

Ragnhildur Kolka, 4.5.2013 kl. 23:37

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Mario Draghi var nú bara aðstoðarforstjóri hjá Goldman Sachs þegar þeir útbjuggu þessa afleiðusamninga fyrir Grikkland.

Þess má geta að Hagsmunasamtök heimilanna hafa höfðað kærumál fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál vegna synjunar Fjármálaráðuneytis Íslands og FME um að veita aðgang að gögnum um verðmat á þeim lánasöfnum sem flutt voru úr gömlu bönkunum yfir í á nýju. Talsverðir hagsmunir eru undir í málinu því talið er að gögnin sýni og sanni að lán almennings voru keypt á rúmlega hálfvirði, sem myndar þannig stofn eignarnámsbóta yrði farið út í þvingaða leiðréttingu á lánunum.

Það verður forvitnilegt að sjá hver útkoman verður í báðum þessum tilfellum. Hvort að leyndin færa að halda velli.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.5.2013 kl. 12:35

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

"When it becomes serious, you have to lie." Jean Claude Juncker, þáverandi "forseti" Eurosvæðisins

Er líklega með "skemmtilegri" tilvitnunum síðari ára.

En auðvitað var vitað um fiff Grikklands.  Að taka Grikkland inn í Eurosvæðið var ein af þessum pólítísku ákvörðunum.

Ef ég man rétt voru skuldir bæði Belgíu og Ítalíu yfir 100% af landsframleiðslu þegar þau tóku upp euroið.  Það var litið fram hjá því.  Pólítíkin hefur ráðið för.

G. Tómas Gunnarsson, 5.5.2013 kl. 13:40

4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakka góðar athugasemdir, það verður fróðlegt að fylgjast með þessum málum, sem geta veitt innsýn í það, sem hefur gerst. Annars er erfitt að ræða málin á grundvelli staðreynda. Málið er, að það þýðir lítið að vera með "reglur" í gangi, ef ekki þarf að fylgja þeim eða sá, sem sterkastur er ákveður, hvenær reglurnar gilda og fyrir hverja.

Gústaf Adolf Skúlason, 5.5.2013 kl. 15:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband