Atvinnuleysi eykst í Svíþjóð vegna evrukreppunnar
14.4.2013 | 20:54
Í viðtali í sænska sjónvarpinu 14.apríl sagði fjármálaráðherra Svíþjóðar Anders Borg, að Svíar mættu búast við langdreginni efnahagslægð og auknu atvinnuleysi vegna evrukreppunnar.
Ráðherrann er nýkominn frá fundi fjármálaráðherra ESB í Dublin þar sem neikvæðar horfur evrusvæðisins og ESB voru ræddar.
15.apríl leggur ríkisstjórn Svíþjóðar fram fjárlög með auknum framlögum til iðnmenntunar hjá fyrirtækjum, iðnskólum og lægri atvinnurekendagjöldum ungmenna en atvinnuleysi ungmenna er mjög hátt í Svíþjóð. Áður hafði ríkisstjórnin m.a. lagt fjármagn til samgönguframkvæmda og lægri skatta á fyrirtæki. Nú eru 427 þúsund Svíar atvinnulausir sem er 8,2%. Borg reiknar með halla á fjárlögum milli 1-2% í ár og næsta ár en endurtók nokkrum sinnum að erfitt væri að gera haldbæra áætlun með allri þeirri óvissu, sem ríkir hjá ESB.
Svíþjóð er eitt af best reknu ríkjum ESB með litlar ríkisskuldir og hefur getað lækkað skatta á vinnu, aukið einkavæðingu og lagt til hvata fyrir myndun smáfyrirtækja á meðan flest ríki evrusvæðisins skera niður, hækka skatta og eru með neikvæðan hagvöxt. Anders Borg sagði að lýsingar fjármálaráðherra evrusvæðisins gæfu ekki tilefni til bjartsýni um þróun evrusvæðisins og búast mætti við nýjum áföllum.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt 15.4.2013 kl. 06:05 | Facebook
Athugasemdir
Skil ekki alveg.. er vandamál Svía vegna evrukreppunnar eða vegna veru þeirra í ESB? Nú er Svíþjóð ekki í myntbandalaginu og sænskan krónan hefur styrkst verulega undanfarið vegna einmitt evrukreppunar.. Er það semsagt neikvætt fyrir sænskan efnahag?
Væri Svíþjóð í mun betri málum ef þeir væru ekki í ESB?
Ef svarið við því er já.. þá afhverju?
Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 22:13
Og hvaða peningakerfi er þetta sem þú minnist á? Er það þetta nýja internet peningakerfi sem verið hefur í gangi síðustu misseri?
Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 22:14
Sem land í Evrópu, heimaland margra alþjóðlegra evrópskra fyrirtækja að ég tali nú ekki um allan þann fjölda dótturfélaga sem slík félög reka í Svíþjóð.. Hvernig myndi t.d. það að vera ekki í ESB minnka t.d. áhrif kreppu á Evrusvæðinu í Svíþjóð - ég skil ekki alveg samhengið hjá þér..
Hvað er það nákvæmlega að þínu mati sem myndi núlla út áhrif efnahagsástands almennt í Evrópu ef Svíþjóð stæði utan ESB?
Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 14.4.2013 kl. 22:17
Sæll Jón, kreppan í evruríkjunum er orðin svo djúp að hún er farin að smita til landa eins og Svíþjóðar vegna minni eftirspurnar á vörum til fyrirtækja á evrusvæðinu og annarra ESB ríkja. Sænska krónan styrkist sem þýðir hærra verð fyrir sænskar útflutningsvörur. Það er jákvætt að kaupa inn vörur með sterkari krónu en Svíþjóð er háð útflutningi til evruríkja og með minnkandi eftirspurn þurfa fyrirtæki í Svíþjóð að loka og atvinnuleysi eykst.
Peningakerfið sem ég tala um er Betra Peningakerfi http://betrapeningakerfi.is Hugmyndin byggir á, að Seðlabanki víkki út einkaleyfið á gjaldmiðli til að ná yfir rafrænar krónur eins og seðla og mynt. Slíkt mundi þvinga bankana að hætta að búa til peninga sem skuldir og láta almenning taka áhættuna fyrir sig. Bitcoin er rafrænn gjaldmiðill á Internet, sem enginn Seðlabanki hefur stjórn á. (Ekki það sama og Betra Peningakerfi).
Ég sé enga möguleika á að "núlla út" efnahagsástand hjá þjóðum háðum inn og útflutningi burtséð frá því, hvort maður er með í ESB, evrunni eða ekki. Hins vegar er best að vera utan við ESB og evruna, því þá ræður viðkomandi ríki sjálft peningamálum sínum í stað búrókrata í Brussel. Eigin gjaldmiðil er hægt að láta "síga" þegar áföll koma eins og á Íslandi, Kýpur, Grikklandi, Spáni, Írlandi o.fl. löndum. Það geta evruríkin ekki gert heldur er fólk hneppt í skuldafjötra, sagt upp störfum og snarlækkað kaup svo ríkið geti greitt peninga til bankaeigenda. Ísland klárar sig langbest á eigin spýtum, við erum heppin að vera í matvælabransanum, því allir þurfa mat til að lifa svo sá markaður virkar lengst. En evrukreppan mun hafa áhrif á Ísland í margvíslegu formi og ástandið fer versnandi og er orðið að heimskreppu með afleiðingum um allan heim.
Gústaf Adolf Skúlason, 14.4.2013 kl. 23:54
Bæti aðeins við: T.d. Finnar eru með evru og neyðast til að taka þátt í "neyðar"lánum til annarra evruríkja. Öll evruríkin krosslána hvert öðru sem þýðir að ríkisskuldir allra hækka líka Finnlands, sem hefur lítið sem ekkert að gera með skuldir Grikkja. Svíar eru fyrir utan evruna og neita sameiginlegu bankabandalagi, sem þýddi, að Brussel gæti ákveðið að flytja fjármagn af fjárlögum Svía til t.d. Grikklands eða Spánar. Sænska ríkisstjórnin vill ekki gera það. En sem sagt kerfið er allt að leggjast á hliðina vegna evrunnar og við eigum eftir að sjá miklu verri hluti heldur en bankaránið á Kýpur, þar sem stolið er beint af fólki sem heldur að það sé tryggt með peninga sína í bankanum.
Gústaf Adolf Skúlason, 14.4.2013 kl. 23:59
"Það er jákvætt að kaupa inn vörur með sterkari krónu en Svíþjóð er háð útflutningi til evruríkja og með minnkandi eftirspurn þurfa fyrirtæki í Svíþjóð að loka og atvinnuleysi eykst."
Þannig að vandamálið hjá Svíum er það að vera ekki með sömu mynt og þau lönd sem það á sín viðskipti við?
"Brussel gæti ákveðið að flytja fjármagn af fjárlögum Svía til t.d. Grikklands eða Spánar."
Gæti Brussel gert hvað? Þetta er einfaldlega ekki rétt
Er þín skoðun sú að efnahagsástand Evrópu myndi batna ef hvert ríki tæki upp sína eigin mynt og færi að rukka tolla og vörugjöld við öll landamæri, flutningar fólks, vöru, þjónustu og fjármagns myndu hætta að vera frjálsar ásamt því að ríki færu að ríkisstyrkja eigin framleiðslu og þannig skekkja samkeppnisstöðu milli ríka?
Væri það framför í þínum huga?
Er alheimskreppan sem svotil öll ríki heims eru að glíma við í dag evrunni að kenna.. hefði engin evrópuþjóð lent í vandræðum ef ekki hefði komið fyrir hana?
Svo má nú alveg halda því til haga að Kýpur hefur í langan tíma verið skattaskjól og peningaþvottastöð fyrir rússneska olígarka og aðra sem eru í vafasömum viðskiptum - þeir geta nú kennt sjálfum sér meira um en evrunni
Jón Bjarni Steinsson (IP-tala skráð) 15.4.2013 kl. 07:01
Það er nú ekki svo einfalt að taka upp evruna leysi málin eins og þú spyrð. T.d. eru vextir mun hærri á útlánum til fyrirtækja í ríkjum Suður Evrópu eins og t.d. Grikklandi, Spáni o fl. löndum en lægri í Þýzkalandi svo ekki tryggir nú sameiginleg mynt sömu skilmála. SE er í Frankfurt og evran fylgir efnahagssveiflum Þýzkalands fyrst og fremst. Atvinnuleysi er útbreitt í Suður Evrópu meðan Þýzkaland græðir og minnkar atvinnuleysi. Kaupmáttur evrunnar er ekki sá sami í Suður Evrópu og í Norður Evrópu. Og fólkið er innilokað og getur sig hvergi hreyft. Ástandið er orðið skelfilegt, þegar læknar WHO eru farnir að skamma ESB vegna útbreiðslu sjúkdóma eins og AIDS og MALARÍU.
Ef Svíþjóð yrði aðili að bankasambandi ESB tæki ESB yfir fjárlög Svíþjóðar og gæti þvingað fé af fjárlögum Svíþjóðar í "neyðarsjóði" til björgunar evrunnar. Í dag er rætt um að gefa út evruskuldabréf sem Þjóðverjar eru á móti vegna laga gegn verðbólgu eftir seinni heimsstyrjöld. ESB er að verða að sambandsríki með einni fjármálastjórn í Brussel, þá verða fjárlög ríkja send til Brussel til athugunar og "leiðréttingar" áður en viðkomandi ríkisþing fær að bera þau fram til samþykktar. Ekki mikið sjálfstæði þjóða eða lýðræði það.
Það væri framför, að þjóðirnar héldu sjálfsákvörðunarrétti sínum og réðu eigin málum í stað miðstjórnar í Brussel. Við sjáum skelfilegar afleiðingar miðstýringarinnar á þeim löndum sem fram að þessu hafa fengið "hjálp" til að borga skuldir óreiðumanna. ESB er handrukkari fyrir gjaldþrota banka og málefni almennings og þjóða skiptir litlu sem engu máli. Þetta er að eyðileggja alla uppbyggingu eftir stríð og skapar áhættu á óeirðum og vopunuðum átökum. Ég er fyrir samvinnu en ekki á kostnað lýðræðis, almennings og þjóða. Frjáls verslun já, frjálsar þjóðir já, sambandsríki nei, miðstýring ósjálfráðra þjóða nei.
Ástand peningakerfisins í heiminum er mjög slæmt og í raun og veru á endastöð. Evran slítur sundur Evrópu og Evrópa er stór hluti heimsins svo áhrif evrukreppunnar smitar út frá sér til annarra hluta heimsins. Bankakerfi heimsins er svo samtvinnað að ef það byrjar að hrynja á einum stað fær það verkan í öllu heimskerfinu. Það þarf að leggja niður evruna og þjóðir eiga að vinna saman á sjálfstæðum grundvelli og það þarf að breyta peningakerfi hins vestræna heims með afnámi skuldamyndun með peningaframleiðslu.
Ef þú fylgist með Kýpur, þá veistu, að venjulegt fólk og smáfyrirtækjarekendur verða verst fyrir barðinu með atvinnuleysi og örbirgð. Verið er að bjarga óreiðumönnunum, sem sköpuðu skuldabólurnar og það hjálpar ekki venjulegum Kýpverjum að spilling sé í kerfinu með Rússagulli, venjulegt fólk hefur ekkert með það að gera frekar en venjulegt fólk á Íslandi hafði með Icesave að gera.
Það voru neyðarlögin, íslenska krónan ásamt staðfestu þjóðarinnar í Icesave sem bjargaði Íslandi fyrir horn frá gjaldþroti. Átökin um ESB á Íslandi eru átök þjóðarinnar m.a. við "útrásarvíkinga" sem vilja fórna þjóðinni vegna eigin viðskiptahagsmuna. Ég vona að þú standir frekar með þjóðinni.
Gústaf Adolf Skúlason, 15.4.2013 kl. 08:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.