Færsluflokkur: Evrópumál

Pöntun ríkisstjórnarinnar til að liðka fyrir ESB aðild

deb876ee-5303-478b-b5db-9f83011bf133_MEDIA

 

 

 

 

 

 

 

Í frétt Morgunblaðsins er sagt, að yfirmaður hjá heilbrigðis- og neytendavernd framkvæmdastjórnar ESB hafi beðið ESA að kanna, hvort innflutningshömlur Íslands á kjöti og kjötafurðum frá ESB gangi lengra en 13. gr EES-samningsins leyfir.

Lög um Evrópska efnahagssvæðið tóku gildi 1. janúar 1994 og hefur ríkt fullkominn skilningur og sátt um beitingu 13. greinarinnar um innflutningshömlur Íslands á kjöti og kjötafurðum frá ESB til Íslands í tæpan áratug. En ekki lengur.

Framkvæmdastjórn ESB pantar "könnun" hjá ESA (lesist: meint brot Íslands á 13. gr) eftir nær áratuga friðsamlega túlkun á greininni í viðskiptum Íslands og ESB-ríkjanna.

Erfitt er að ímynda sér að þessi pöntun sé gerð einhliða af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, þótt látið sé líta svo út. Nær er, að um sameignlega ákvörðunartöku af hálfu ríkisstjórnar Íslands og ESB sé að ræða.

Ríkisstjórnin vill komast inn í ESB og mætir hindrun bænda, sem ekki vilja leyfa innflutning lifandi dýra eða hrás kjöts vegna hættu á smiti milli landa. Slíkt hefur áður kostað landsmenn miklar búsifjar í kjölfar mæðu- og riðuveiki. Hér þarf ríkisstjórnin á aðstoð ESB að halda til að tukta óstýriláta og sjálfstætt hugsandi Íslendinga. 

ESB vantar á hinn bóginn viðskiptavöndul til að nota í makríldeilunni og hann fæst með niðurstöðu ESA um, að Íslendingar brjóti 13. gr. EES-samningsins. Hægt verður þá að skiptast á "lögbroti" Íslands á frjálsum kjötinnflutningi fyrir "eftirgjöf" á kröfum ESB í makríldeilunni.

Það er ömurlegt að sjá viðskiptin á þessu plani. Minnir alfarið á viðskipti kaupmannsins í Feneyjum sem krafðist kjötbita úr skuldara, sem ekki gat greitt með peningum. En skilyrðin eru ólík. ESB á bæði dómstólinn og dómarana.

Ríkisstjórn Íslands sker bita fyrir bita af fullveldi Íslands fyrir ESB, sem hefur allt ferlið í höndum sér og notar ráðherra landsmanna, sem afgreiðslustofnun við niðurrif lýðveldisins. 

Engin Landsdómur mun nokkru sinni komast yfir að dæma öll illverk ríkisstjórnarinnar.

Spurningin er, hvort nokkuð verði eftir af fjallkonunni nema beinagrindin, þegar ríkisstjórnin hefur lokið ætlunarverki sínu.

Guði sé lof, það styttist í stjórnarskipti.

 


mbl.is ESB biður ESA að skoða kjöthömlur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mottó evrukrata: Rjóminn fyrir okkur, niðurskurður fyrir skattgreiðendaskrílinn

eu-strike_2392883b

 

 

 

 

 

 

 

Nú hafa evrukratarinir fengið nóg. Eins dags verkfall í dag til að mótmæla niðurskurðartillögum David Camerons forsætisráðherra Breta og ráðamanna Svíþjóðar, Þýzkalands og Frakklands m. fl. gegn fyrirhuguðum hækkunum fjárlaga ESB fyrir árin 2014-2020.

Fyrsta verkfallið af mörgum eins daga verkföllum leiddi til þess að 18 fundum ESB var frestað í dag. Næsta verkfall er boðað 16. nóv. n.k. og búist er við, að það lami störf framkvæmdarstjórnarinnar.

Í bréfi þriggja starfsmannafélaga til ríkisstjórna ESB segir:

"Við krefjumst þess að aðildarríkin hafi manndóm í sér til að segja meðborgurum sínum, að minnkun á fjárlögum Evrópu þýðir hærri gjöld fyrir þá alla: Gjald engrar Evrópu eða gjald minni Evrópu." 

Cameron hefur hótað að beita neitunarvaldi, ef 11 % hækkun fjárlaga ESB verði ekki skorin niður og hann mun stöðva fjárlögin ef starfsmenn ESB taki ekki á sig einhverjar lækkanir eins og ESB krefst af starfsmönnum fjölmargra aðildarríkja.

Bara í Bretlandi eiga skattgreiðendur von á 1,5 miljarða punda hærra aðildagjaldi af áætlaðri hækkun fjárlaga ESB samtals um 12 miljarða punda.

Yfir 4000 starfsmenn ESB, um 16% af starfsliðinu, hafa yfir 100 000 € í árslaun. Ellilífeyriskostnaður ESB, sem er 57000 pund fyrir sérhvern evrukrata á eftirlaunum í dag mun tvöfaldast og verða samtals um 2 miljarði punda ár 2045.

"Flestir telja starfsmenn ESB ekki vera láglaunafólk og eru hissa á þessu verkfalli. Líklega munu verkfallsmenn ekki fara fram á samstöðu Grikkja, þar eru opinberir starfsmenn í mjög erfiðu ástandi," segir diplomati í Brussel.

Leiðtogi sjálfstæðismanna í Bretlandi Nigel Farage, sagði:

"Mottó evrukrata virðist vera 'Rjómi fyrir okkur, niðurskurður fyrir skattgreiðendaskrílinn.' Hungur evrukrata eftir peningum og völdum er ógnvekjandi."

(byggt á frásögn The Telegraph).


mbl.is Viðræður um fjárlög ESB í strand
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breska þingið ræðir úrsögn Breta úr ESB

_63736719_carswell

Douglas Carswell þingmaður Íhaldsflokksins flytur frumvarp sitt um að Bretland segi sig úr Evrópusambandinu á breska þinginu 26. október.

BBC segir frá því, að mikill þrýstingur sé á forsætisráðherra Breta um að leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu í Bretlandi um, hvort Bretar eigi að yfirgefa Evrópusambandið eða ekki.

Douglas Carswell hefur á grundvelli almennrar óánægju Breta með aðildina að ESB flutt frumvarp, þar sem Bretar afturkalli aðildarsamning sinn við ESB. Hann líkti aðildinni að ESB við að vera "hlekkjaður fastur við lík" og að umræður þjóðarinnar um að yfirgefa ESB væru aðalefnið en ekki samtal fárra. Frumvarp hans afturkallar/ógildir aðildarsamning Breta við ESB 1972 verði frumvarpið samþykkt. Carswell telur ekki, að frumvarp hans nái fram að ganga, en ráðandi öfl komist ekki lengur upp með að hunsa málið. 

Forsætisráðherra Breta, David Cameron, er andvígur uppsögn aðildar Breta að ESB en segist ætla að gera ferskan samning við bresku þjóðina, ef hann fær samþykki aðildarríkja ESB fyrir grundvallarbreytingum á ESB-samningi Breta. En margir þingmenn Íhaldsflokksins vilja, að forsætisráðherrann gangi lengra og efni til þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í ESB. 81 þingmenn Íhaldsflokksins risu upp gegn flokknum fyrir ári síðan og kröfðust þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Douglas Carswell sagði, að Bretar hefðu borgað meira til ESB en þeir fengu tilbaka öll árin fyrir utan eitt skipti og að á síðustu þremur árum hafii kostnaðurinn hækkað um 70%. Annar þingmaður Íhaldsflokksins, Philip Hollobone, óttast að "Bandaríki Evrópu séu handan við hornið." Margmiljarða punda framlagi Breta til ESB væri betur eytt til að ráða fleiri kennara, hjúkrunarkonur og lækna og góðri stjórn innflytjendamála væri ekki hægt að ná innan 27 aðildarríki ESB.

Afstaða íhaldsmanna hefur stöðugt harðnað gegn Evrópusambandinu eftir að evrukreppan byrjaði. Utanríkisráðherrann William Hague varaði við "stærstu vonbrigðum bresku þjóðarinnar" með ESB og menntamálaráðherrann Michael Gove sagði tíma vera kominn að segja við Evrópusambandið "skilið sjálfsákvörðunarréttinum okkar til baka eða við göngum út." 

 


Frumkvæði þjóðfundar 2010 breytt í aðlögun Íslands að ESB

Ekki er víst miðað við þær almennu spurningar, sem fólk var beðið að svara í gær, að allir sem svöruðu já við spurningunni um að leggja tillögur Stjórnlagaráðs til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá Íslands geri sér grein fyrir því, hvað felst í tillögunum. Spurningarnar virka í lýðræðisanda en ráðið skerðir aðkomu almennings að stjórnun landsins: skerðing þjóðaratkvæðisréttar, 5/6 einveldi þingmanna við breytingar á stjórnarskrá og vald þings að afsala fullveldi Íslands til erlendra ríkja.

Allir vita, að þrýstingur ríkisstjórnarinnar um að koma þessu máli í gegn fyrir næstu alþingiskosningar er að það er hennar eina mál að koma Íslandi inn í ESB. Það gerir stjórnlagaráðsmenn og ríkisstjórn hláleg, að þau halda öðru fram enda er stjórnarstíllinn sóttur til ESB. 

Allt fram á síðustu daga fyrir atkvæðagreiðsluna voru sérfræðihópar eins og Lögmannafélag Íslands að senda frá sér umsagnir. Þá hafa þingmenn í skertu málfrelsi tveimur dögum fyrir kosningar bent á fjölmörg veigamikil atriði, sem hvorki ríkisstjórnin né stjórnalagaráðsmenn sjálfir vilja fara hátt með.

Ég kastaði auga á umsögn LMFÍ og verð að játa að mér brá töluvert við lesturinn. LMFÍ gerir efnislegar athugasemdir í yfir 30 liðum og kemst að þeirri niðurstöðu, að "Laganefnd getur því ekki mælt með því að tillögur Stjórnlagaráðs verði samþykktar í óbreyttri mynd." Þetta er að sjálfsögðu algjör skellur fyrir tillögur hagfræðiprófessorsins og ríkisstjórnina, sem ætlar að leggja fram tillögur ráðsins sem frumvarp á Alþingi.  

Ég tek fáein dæmi:

  • eignarréttarvernd verður veikari en í núverandi stjórnarskrá
  • vernd gegn kaupum erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki fellur brott
  • dregið úr vernd almennings gegn afturvirkri eignaskerðingu í formi skatta
  • Félagsdómur einn sérdómstóla nýtur verndar stjórnarskrár
  • dregið úr sjálfstæði dómara
  • 5/6 hlutar þingmanna geta breytt stjórnarskrá
  • fjölmörg ákvæði þarfnast skýringar og boða réttarfarslega óvissu

Leikurinn með tillögur stjórnlagaráðs og ráðið sjálft er vondur leikur, þar sem verið er að láta líta svo út, að hugmyndir þjóðfundarins 2010 séu lagðar til grundvallar að nýrri stjórnarskrá. Einungis hverfandi hluti fulltrúa þjóðfundar óskaði eftir inngöngu í ESB. Framtíðarsýn fundarins var, að Ísland skuli áfram vera fullvalda þjóð og sjálfstæð með óskertan sjálfsákvörðunarrétt. 

Tillögur Stjórnlagaráðs miðast við að taka burtu þær "hindranir", sem stjórnarskrá lýðveldisins eru í götu ESB-aðildar. Verði þær samþykktar fellur árangurinn af stofnun lýðveldisins.

Sigur stjórnlagaráðs í kosningunum í gær er því sigur blekkingarinnar og áróðursmeistaranna yfir lýðræðinu og sjálfstæði þjóðarinnar.

Ísland hefur færst einu skrefi nær innlimun í Evrópusambandið.  

Gústaf Adolf Skúlason 


Skrái mig á blog.is

Ég hef prófað aðeins að skrifa hér á blog.is undir fullveldi.blog.is um tíma. 

Tek nú skrefið að opna eigið blog hér.

Ég mun mest skrifa um Evrópumál, alþjóðamál og málefni Íslands. Sem Íslending er mér ekki sama, hvað verður um landið okkar. Miklir óvissutímar eru framundan og það skiptir máli, að þjóðin sameinist um stefnu sína og varðveiti lýðræði og sjálfstæði sitt.

Ég er andstæðingur núverandi ríkisstjórnar, sem dag og nótt, leynt og ljóst er að véla valdið úr höndum landsmanna og koma því í hendur búrókrata í Brussel. Þar vilja menn komast yfir auðlindir landsins sérstaklega gjöful fiskimið Íslendinga.

Þessi svik við almenning grundvallast á alþjóðlegu samstarfi krata og vinstrimanna, sem telja, að almenningi sé aðeins borgið í þeirra höndum í nýju heimsveldi ESB. Barroso og félagar hans í framkvæmdastjórn ESB vinna eins og flokkssystkini þeirra á Íslandi í nánu bandalagi við spillt fjármálaöfl og eru að afnema sjálfsákvörðunarrétt þjóða og færa völdin yfir í eigin hendur í Brussel. Evran, sem ekki er sprottin úr efnahagslegu samstarfi, heldur er stjórnmálaákvörðun, er nú notuð sem svipa til að knýja þróun evruríkja til alríkis Evrópusambandsins. Við Íslendingar höfðum gæfu til að hafna Icesave en evrulöndin eru nú að taka á sig byrðar "Eurosave", þar sem ógrynni fjár skattgreiðenda er flutt til banka og fjármálafyrirtækja. 

Þessi þróun er orðin mjög háskaleg og þegar byrjuð að kosta mannslíf í suðlægari hluta álfunnar.

Íslendingar þurfa hið allra fyrsta að losa sig við valdagráðuga og spillta embættismenn og kjósa sér heiðarlega fulltrúa, sem skilja að hlutverk þeirra er að framfylgja stjórnarskrá og lögum og vinna fyrir hagsmuni landsmanna.

Ísland hefur tækifæri til sjálfstæðisstefnu til framtíðar, sem gerir þjóðina óháða valda- og stórveldabrölti umheimsins. Þótt núverandi ríkisstjórn hafi eyðilagt mörg tækifærin munu nýjir möguleikar birtast og með réttri stjórn og nýjum leiðtogum mun þjóðinni takast að rífa sig upp úr lægðinni.

Ég er núna að læra á blogkerfið og bið lesendur velvirðingar ef allt virkar ekki fullkomlega á meðan ég er að ná tökum á þessu.

Gústaf Adolf Skúlason 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband