Færsluflokkur: Evrópumál
Mundir þú borga Herði Torfasyni 107 þús.kr. fyrir að fá að sitja til borðs með honum á veitingahúsi, sem hann velur sjálfur?
10.2.2013 | 16:14
Ekki verður Hörður Torfason sakaður um neinn trúarskort á sjálfum sér. Mér barst fyrirspurn erlendis frá um hver þessi Hörður Torfason frá Íslandi væri, sem ætlaði að boða lýðræðisfagnaðarerindi á Nýja Sjálandi. Í kynningu um manninn á ensku var sagt (í lausri þýðingu):
"Hordur Torfason er íslenskur lýðræðisaktívisti sem endurskapaði stjórnmála- og efnahagskerfi landsins FRIÐSAMLEGA með eftirfarandi árangri: 1. Ríkisstjórnin sagði öll af sér. 2. Bankar voru þjóðnýttir. 3. Fólk gat tekið efnahagslegar ákvarðanir í þjóðaratkvæðagreiðslum. 4. Þeir seku voru settir í fangelsi. 5. Þjóðin endurnýjaði stjórnarskrána í gegnum Twitter, Facebook o.s.frv."
Skv. þessarri lýsingu er engu líkar en aðrir þáttakendur búsáhaldabyltingarinnar hafi verið heilalausar skepnur, sem hinn friðsami Che Guevara gat notað til að bylta Kúbu Norðursins. Samanber meðfylgjandi póstkort sem Torfason býður til sölu á 2.136 kr. á sérstakri Nýsjálenskri facebooksíðu sinni: https://www.facebook.com/HordurTorfasonNzTour
Á sömu síðu kostar um 8 þús. kr. að fá að bera fram fyrstu spurninguna í umræðum og fyrir 10.680 kr er hægt að fá Hörð til að vera með á ljósmynd. En vilji maður sem sagt komast í dýrðina og snæða málsverð með Herði Torfasyni þarf maður að punga út tæplega 107 þús krónum - líklegast ofan á matarkostnaðinn - á veitingahúsi sem hann hefur valið.
Mikil hlýtur gleði þjóðarinnar að vera, að fá að njóta hans núna við að koma hinni endurnýjuðu, tvístruðu, facebookstjórnarskrá í gegn, sem tryggir Evrópusambandinu yfirráð yfir auðlindum og fullveldi Íslands. Ef það tekst ekki missir Hörður niður sjálfstitilinn Hinn friðsami Che Guevara Kúbu Norðursins???
Er hægt að treysta svefnlausum leiðtogum?
8.2.2013 | 20:27

"Samningaviðræður, evrukreppusirkus, amerískt fjárlagarifrildi. Enn eitt ár af örlagaríkum ákvörðunum liggur frammi fyrir fótum okkar. Eitt eiga þær sameiginlegt. Líklegast verða þær teknar af fólki, sem ekki er algjörlega í sambandi."
Þannig hefst pistill skríbents Svenska Dagbladets Andreas Cervenka fyrir nokkrum dögum sem hefur fengið mjög góðar viðtökur t.d. hafa tæplega 800 mans mælt með greininni á Facebook. Ef við snúum ímynduðu dæmi yfir á Ísland sem aðildarríki:
"Varir íslenska fjármálaráðherrans hreyfðust en enginn blaðamaður skildi það sem hann sagði. Í staðinn voru augu þeirra föst á flöskunni, sem fjármálaráðherrann veifaði og fékk sér slurk af á milli þess, sem hann lagði út textann um, hvað Ísland hafði grætt á næturfundinum. Óþægilegt andrúmsloftið var nógu þykkt til að vera skorið með hníf. Fréttamennirnir litu vandræðalega hver á annan. Þorðu þeir einu sinni að skrifa heim um það, sem hálffullur ráðherra hefði samið um fyrir hönd Íslands?
Því er strax hægt að slá föstu, að strætisvagnabílstjóri, flugmaður eða hjartaskurðlæknir sem fer beint í vinnuna eftir næturdrykkjuna er þegar í stað sendur heim með pokann sinn. Þar ríkir engin miskunn, því heilinn verður að virka 100% í störfum þeirra. Í öðru samhengi, þar sem tugir, hundraða þúsundir miljarða króna liggja í vogarskálinni ásamt framtíð fleiri miljón manns, þá eru kröfurnar miklu lægri.
Málið er einfaldlega svefn. Of lítill svefn hefur fljótt mikil áhrif á heilabúið eins og fjöldi vísindaathugana sýnir. Manneskja sem gengið hefur tuttugu og fjóra tíma án svefns er með álíka dómgreind og sá sem mælist með 1 prómille alkóhól í blóðinu. Það mótsvarar sex vínglösum sem fullorðinn karlmaður sturtar ofan í sig á einum klukkutíma. Að taka mikilvægar ákvarðanir í svefnleysi er því algjörlega óhæft. Þegar tvelr breskir vísindamenn létu fólk í tilraunaskyni spila fjármálaspil og skapa lausnir undir álagi sem kröfðust aðlögunarhæfni og meðtöku nýrra upplýsinga, þá voru niðurstöðurnar sláandi. Eftir svefnlausa nótt stirðnaði hugsunin og fólk hélt fast í gamlar hugmyndir, þrátt fyrir að þær virkuðu ekki og áttu í afgerandi erfiðleikum með að finna nýjar. Eftir 36 stunda vöku höfðu allir farið í gjaldþrot. Samkvæmt prófessor och svefnrannsakanda Torbjörn Akerstedt hjá Karolinska Institutet er það ótrúlega erfitt fyrir manneskju sem ekki hefur sofið á nóttunni að muna eftir og meta það, sem aðrir segja t.d. í samningalotu. Og það hljómar ekki vel, þegar verið er ganga frá nýjum fjármálareglum hjá ESB. Nýjar athuganir sýna einnig, að þreyttar manneskjur eru tilfinningalega valtari og bregðast við af illsku eða ruglingi út af smáatriðum.
Þrátt fyrir þessa þekkingu virðist það vera óskrifuð regla í heimi stjórnmála og efnahagslífs að allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar í morgunsárinu. Alþjóðlegir toppfundir, múltimiljarðaviðskipti eða björgunaraðgerðir til að hjálpa fyrirtækjum í vanda: samningur án 12 hektolítra af slæmu kaffi og nábleikum yfirmönnum sem ganga um með sand í augum í sjálfsmorðshugleiðingu virðist vera einskis virði. Einungis viðvaningar láta sér detta í hug að taka stórar framtíðaákvarðanir fyrir hádegi eftir tíu tíma í lúxusrúmi og góðan ávaxtagraut í morgunverð.
Sígild mynd frá misheppnuðum umhverfissamningum í Kaupmannahöfn 2009 sýnir Barack Obama síðla kvölds umvafinn af leiðtogum heimsins, sem voru allt annað en hressir að sjá, þar á meðal Angela Merkel, Friðrik Reinfeldt og Nicolas Sarkozy. Uppgefin ásýnd franska forsetans virtist senda frá sér þögulan boðskap: "Ég gef frat í þótt jörðin verði hundrað gráðum heitari í næstu viku bara ef ég fæ að sofna."
Á öllum tíma fjármálakreppunnar hefur næturstarfið verið löggilt. Fyrrum fjármálaráðherra USA, Hank Paulsson, skrifar í minningum sínum hversu krónísku svefnleysi hann þjáðist af ekki síst í kringum fall Lehman Brothers. Í eitt skipti var hann svo ruglaður, að hann hélt að smiður gamallar móður hans að nafni Warren Hansen hefði hringt í sig, sem urðu snögg umskipti í öllu saman. Það sýndi sig að hér var á ferðinni allt annar Warren nokkur Buffett, sem hringdi til að láta vita um aðferð sem gæti bjargað fjármálakerfinu frá algjöru hruni. Í Evrópu hafa allir kreppufundirnir verið haldnir langt inn á morguntímana. Og árangurinn þekkja allir. Það eru meira að segja til athuganir sem benda á að svefnleysi hafi að hluta til orsakað kreppuna. Á ameríska Duke háskólanum sýndi tilraun að persónur sem missa af einnar nætur svefni hafa tilhneigingu að taka stærri áhættur þegar peningar eru með í dæminu. Varkár endurskoðandategund getur skyndilega breyst í áhættuspilara eftir kalda sturtu heila nótt. Borið saman við Wall Street, þar sem ekki beinlínis ræður ríkjum sú menning að það sé jákvætt að fara heim um fimmleytið, þá er ekki ósennilegt að samband sé á milli þessarra hluta.
Svo ef við tökum saman niðurstöðuna. Fjármálakreppan var búin til af hópi manna, sem meira og minna var ruglaður allan tímann. Fólkið, sem á að finna lausnirnar, velur að tímasetja mikilvægustu vinnuna, þegar öruggt er að öll hnífapörin finnast ekki í skúffunni.
Þegar Friðrik Reinfeldt fær orðið um fjárlög ESB á toppfundi vikunnar, þá getur hann kanski hoppað yfir enn eina útlegginguna á mikilvægi meiri greiðslumórals í ólívbeltinu og kostina með bókfærslu a la suedoise. Í staðinn gæti hann sett fram skoðun sem enn frekar þjónar hagsmunum Svíþjóðar: "Halló, hæ, hvað finnst ykkur um að við getum sofið á þessu?"
![]() |
Útgjöld ESB lækka milli ára |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Óhjákvæmilegt að evran leysi upp Evrópusambandið
7.2.2013 | 13:51
Í samtali hjá fréttaþætti hollenska sjónvarpsins Nieuwsuur lýsti múltimiljarðamæringurinn George Soros áhyggjum sínum af evrukreppunni á eftirfarandi hátt:
"Ég hef verulegar áhyggjur af því, að evran sé bókstaflega að eyðileggja ESB. Það er raunveruleg hætta til staðar, að lausnir efnahagsvandans skapi mjög djúpstæðan stjórnmálaágreining."
Spurður um hvaða breytingar þyrftu að koma til svaraði hann:
"Þýzkaland verður að skilja, að sú stefna að leggja fram áætlun um niðurskurð á evrusvæðinu vinnur gegn framleiðslustörfunum. Hún getur alls ekki heppnast. Í augnablikinu er þeim (suðurríkjum Evrópu) ýtt áfram - ekki af illum huga - en afleiðingin er að þeim er ýtt áfram inn í langvarandi efnahagslægð eins og er að gerast núna í Evrópu. Þetta getur enst í meira en áratug, gæti í raun og veru orðið til frambúðar eða þar til sársaukinn er orðinn það mikill að hugsanlega kæmi til uppreisnar og afneitunar á ESB. Slíkt þýddi eyðileggingu ESB, sem er hræðilega hátt verð fyrir að viðhalda evrunni sem einungis var ætlað að þjóna ESB."
Hvort evran lifir?
"Hún gæti enst mjög lengi á sama hátt og Sovétríkin sem entust í 70 ár með sínu hryllilega fyrirkomulagi. Samt held ég að hún sundri óhjákvæmilega Evrópusambandinu. Þeim lengri tíma sem það tekur og það getur tekið kynslóðir, sem þá verða án stjórnmálfrelsis og efnahagslegrar velferðar. Þessi lausn virðist mér vera hræðilegur sorgarleikur fyrir ESB. Og þetta er að gerast hjá þróuðustu, opnum samfélögum heimsins. Mér finnst þetta vera hryllilegur sorgarleikur án bófa, vegna þess að ég held ekki, að Þjóðverjar geri þetta af vondum huga en þetta er að gerast vegna skilningsleysis á mjög svo flóknum vandamálum."
Svo mörg voru þau orð. Sífellt fleiri líkja ESB við Sovétríkin sálugu og vara við komandi hörmungum ef ekki verður gripið í taumana. Fyrir fjölda manns í jaðarríkjum Evrópusambandsins er því miður skaðinn þegar skeður.
![]() |
Vilja ekki gengisstefnu fyrir evruna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
"Ömurleg kjör" starfsmanna ESB
5.2.2013 | 19:33

Vesalings 55.000 starfsmenn ESB, sem verið er að "þjarma" svo að, að þeir "neyðast" til að fara í "alvöru" kjarabaráttu gegn niðurskurðinum með tveggja daga verkfalli á meðan verið er að ræða fjárlögin.
ESB hefur birt greinargerð með lista yfir "ömurleg kjör" starfsmanna sinna, sem eru að kikna undir 37,5 stunda vinnuviku og fara einungis á 70% ellilaun orðnir 65 ára gamlir.
Ekki er langt síðan Jóhanna Sigurðardóttir sló hnefanum í borðið með forsætisráðherrum Norðurlanda á fundi í Stokkhólmi og sagði: "Þegar mamma mín var 100 ára gömul vann hún fullt stjórnmálastarf." Efni fundarins: "Hvernig fáum við fólk að vinna lengur en til 65 ára aldurs." Það á greinilega ekki við um starfsmenn ESB.
Á meðan ESB skipar harkalegan niðurskurð í löndum Suður-Evrópu þar sem atvinnuleysi, fátækt og eymd er farin að líkjast því sem var á tíma Kreppunnar Miklu fyrir seinni heimsstyrjöld eru ekki margir sammála mati starfsmanna ESB á eigin mikilvægi en þeir vilja meina, að Evrópa stöðvist, ef þeir mæti ekki til vinnu.
Þegar svo margir starfsmenn eru á hærri launum en þjóðarleiðtogar, þegar reiknað er með öllum fríðindum eins og skattleysi, greiddum ferðakostnaði, skólagjöldum barna, m.fl. þá er það ekkert annað en himinhrópandi frekja að fara í verkfall, þótt auka þurfi vinnutímann um eina og hálfa klukkustund svo fullum vinnutíma sé skilað eins og flestir aðrir gera.
Í Grikklandi var enn verið að skerða laun um 25% hjá starfsmönnum lesta og strætisvagna. Þar rak vopnuð lögregla liðið aftur í vinnu. Kannski eitthvað fyrir elítuna í Brussel að taka eftir svo þeir fái að bragða eigið lyf sjálfir?
![]() |
Með lægri laun en embættismenn ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Til hamingju ÍSLAND!
28.1.2013 | 11:53
Nú fara skötuhjúin endanlega niður með hringnum
TIL HAMINGJU ÍSLAND!
Stórglæsilegur sigur og um leið útskýring á meingölluðu regluverki ESB, sem skorti innbyrðis samræmingu á þeim tíma. Þar fyrir utan var tryggingasjóðurinn aldrei hugsaður til að taka við áfalli, þegar heilt bankakerfi færi á hliðina.
Núna þarf ESB að hugleiða áhrif dómsins á tryggingarkerfi bankanna í öllu ESB.
Þetta er stórkostlegur sigur fyrir íslensku þjóðina og sýnir, að þjóðin hafði á réttu að standa á meðan ESB-aðildarsinnar og Icesave áróðursmenn fóru með kolrangt mál. Núna þarf þjóðin að sækja í sig veðrið eftir þessu góðu tíðindi og halda markvisst áfram á braut sjálfstæðis og eigin atvinnuuppbyggingar, skuldalausn heimilanna og leggja bæði aðildarumsókn að ESB og stjórnarskrármál til hliðar.
Þjóðin ætti að verðlauna þá embættismenn sérstaklega með æðstu orðum lýðveldisins sem settu á neyðarlögin, sem björguðu henni á ögurstundu.
Þakkir til allra, sem stóðu í baráttunni og gáfust ekki upp þrátt fyrir volæðisáróður um eymd og Kúbu norðursins. Góðar kveðjur til forsetans okkar fyrir einstaklega skelegga baráttu og frammistöðu í málinu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
"Það versta á eftir að koma." Leggja til að samkeppnishæfari löndin yfirgefi evruna.
25.1.2013 | 16:50
Í gær héldu hugveiturnar Open Europe og New Direction athyglisverðan fund í Brussel þar sem samstöðustefnuyfirlýsing fyrir Evrópu var undirrituð af framámönnum og sérfræðingum. Þar er lagt til að evrusvæðinu verði skipt á skipulegan hátt og löndin í suðri skilin eftir með evruna, sem hægt væri þá að gengisfella. Án slíks möguleika er spáð a.m.k. 10 ára versnandi kreppu á evrusvæðinu. Þeir sem settu nöfn sín á skjalið eru m.a. fyrri fjármálaráðherra Póllands Stefan Kawalec, fyrri forseta iðnaðarsamtaka Þýskalands Hans-Olaf Henkel, fyrri yfirhagfræðingur Evrópska Fjárfestingarbankans Alfred Steinherr, hagfræðiprófessor Brigitte Granville og fyrri yfirmaður Ítalíudeildar Deutsche Bank. Þau ásamt fleirum sérfræðingum skrifuðu undir skjalið "Stefnuyfirlýsing um samstöðu Evrópu" þar sem lagt er til að evrusvæðinu verði "skipulega skipt upp" og evran verði einungis notuð í löndunum Suður-Evrópu svo hægt sé að gjaldfella hana og koma þannig verst settu evruríkjunum til hjálpar. Fyrrum forseti Iðnaðarsamtaka Þýzkalands sagði "Við trúum því, að það versta sé eftir." Hann meinar, að verði ekki gripið til aðgerða til að fá hjólin að snúast í verst settu evruríkjunum muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Evrópu alla, sem halda mun áfram að hrapa í hyldýpið í heiminum.
Hér fyrir neðan er stefnuyfirlýsingin í lausri þýðingu.
"Samstaða Evrópu gegn kreppu evrusvæðisins
Skipulögð uppskipting evrusvæðisins til að varðveita mikilvægasta árangur af sameiningu Evrópu
Kreppa evrusvæðisins grefur undan tilveru Evrópusambandsins og sameiginlega markaðsins.
Myndun Evrópusambandsins og sameiginlega markaðsins er einn veigamesti árangur á sviði stjórnmála og efnahagsmála í Evrópu eftir stríð. Þessi góði árangur af sameiningu Evrópu er afleiðing þess fyrirmyndarsamstarfs sem gagnaði öllum aðildarríkjum en ógnaði engu.
Reiknað var með að evran yrði annað mikilvægt skref á vegferð betri velferðar í Evrópu. Þess í stað hefur evrusvæðið í núverandi mynd breyst í alvarlega ógnun gegn sameiningu Evrópu. Lönd evrusvæðisins í suðri eru föst í gildru efnahagslægðar og geta ekki endurheimt samkeppnisstöðu sína með gengisfellingu. Löndin í norðri eru á hinn bóginn beðin um að gefa eftir fjármálaleg gildi og virka sem "djúpir vasar" sem endalaust er hægt að ganga í og sækja fjármagn til björgunaraðgerða suðurríkjanna. Þessi staða felur í sér áhættu á þjóðfélagslegum átökum í Suður-Evrópu og grefur djúpt undan stuðningi almennings við sameiningu Evrópu í löndum Norður-Evrópu. Í stað þess að styrkja Evrópu skapar evran sundrungu og átök sem grafa undan Evrópusambandinu sjálfu og hinum sameiginlega markaði.
Skoðun okkar er að sú stefna, sem best tryggir björgun Evrópusambandsins og verðmætan árangur af sameiningu Evrópu, er skipulögð uppskipting evrusvæðisins með sameiginlegri ákvörðun um útgöngu samkeppnishæfustu þjóðanna. Evran verður þá eftir - um stundarsakir - sem sameiginlegur gjaldmiðill þjóða með minni samkeppnishæfni. Þetta myndi óhjákvæmilega þýða afturhvarf til þjóðlegra gjaldmiðla eða ólíkra gjaldmiðla þeirra ríkjahópa, sem eru í efnahagssamstarfi.
Þessi lausn yrði tákn um samstöðu í Evrópu. Veikari evra myndi auka samkeppnisstöðu landanna í Suður-Evrópu og hjálpa þeim að flýja frá efnahagslægðinni og endurreisa efnahagsvöxt. Það drægi einnig úr hættu á bankaáhlaupi og hruni bankakerfis i löndum Suður-Evrópu, sem óhjákvæmilega yrði reyndin ef löndin neyddust til að yfirgefa evrusvæðið eða myndu ákveða að gera það vegna þrýstings almennings heima fyrir áður en samkeppnishæfustu löndin gengju út úr evrusvæðinu.
Samstaða Evrópu yrði betrumbætt með samkomulagi um nýtt gjaldmiðilskerfi í Evrópu í því skyni að koma í veg bæði fyrir gjaldmiðlastríð og gjaldmiðlasveiflur milli landa í Evrópu.
Það er augljóst að afskrifa verður skuldir (haircut) a.m.k. í nokkrum löndum í suðri. Stærð slíkra afskrifta og kostnaður skuldareigenda yrði samt minni en ef löndin verða áfram á evrusvæðinu og efnahagur þeirra þjáist af efnahagslægð og miklu atvinnuleysi. Þessi leið þýðir ekki að samkeppnishæfustu löndin beri ekki kostnaðinn við skuldaminnkun kreppulandanna. Það mun gerast en slík aðstoð hjálpar ríkjunum að koma efnahagsvexti í gang í stað núverandi björgunaraðgerða, sem skila okkur ekkert áfram.
Hvers vegna er þessi leið svo mikilvæg?
Það er næstum óþarfi að benda á það en það eru hagsmunir okkar allra, að Evrópusambandið hefji hagvöxt á nýjan leik, sem er besta tryggingin fyrir stöðuleika og velferð í Evrópu. Leið skipulagðrar uppskiptingu evrusvæðisins gerir þann árangur mögulegan á stytstan máta."
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Farsælt komandi ár með betri tíð og blóm í haga fyrir Ísland
31.12.2012 | 10:29

Þessi fallega mynd er tekin af jólaskreytingu á Sergels torg í hjarta Stokkhólmsborgar. Jólaskreytingarnar setja mikinn svip á miðbæinn og auka gleði vegfarenda.
Ég óska öllum landsmönnum Farsæls komandi árs og þakka Morgunblaðinu fyrir gott og málefnalegt blað á árinu, sem er að líða. Ég hef verið að prófa bloggið hér og eignast nokkra góða bloggvini. Lifandi umræða er frískleikamerki, þótt umræðustíllinn sé ekki alltaf fullkominn í bloggheimum. Þá eru síður Morgunblaðsins betri og áhrifameiri og full ástæða til að gleðjast með lesendum blaðsins yfir aldarafmæli Morgunblaðsins 2. nóvember n.k. Morgunblaðinu hefur tekist í heila öld að vera "áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað," svo vitnað sé í tilgang blaðsins í fyrsta tölublaði þess. Þar birtist einnig skáldsagan Svörtu gammarnir eftir Övre Richter Frich, þar sem sagt er frá dulafullu undirskriftarlausu skeyti frá Hamborg með textanum: Beware of the vultures. Gætið yðar við gömmunum.
Það jákvæðasta við 2013 fyrir Íslendinga er að þá verða alþingiskosningar og hægt að setja eina alræmdustu ríkisstjórn landsins í möppu sögunnar. Það er bráðnauðsynlegt til að þjóðin fái komið málum sínum í lag á ný og hægt verði að hefja raunverulega endurreisn efnahagslífsins. Raus Jóhönnu Sigurðardóttur í Morgunblaði dagsins er byggð á blindu hatri hennar gegn sjálfstæðismönnum og lýsir vel því einkenni "vinstri" manna, að snúa öllu á hvolf og kenna sjálfstæðismönnum um allt sem slæmt er undir sólinni. Fyrst og fremst fyrir að koma í veg fyrir áframhaldandi setu sósíalista í ríkisstjórn. Hatrið er svo blint að venjulegt verkafólk, sem vill lifa í frjálsu landi með eigin hugsun og sköpun lífsmöguleika af eigin dugnaði, er ásakað um að vera svartasta íhald og auðvald. Á sama tíma er raunveruleikinn sá, að þeir sem þykjast í orði vera málsvarar lítilmagnans, vinna sleitulaust fyrir skjólstæðinga sína í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Þannig er því víða farið á fleiri stöðum en á Íslandi. T.d. er einn af aðaltalsmönnum sósíaldemókrata Svíþjóðar, Thomas Östros núverandi formaður Bankafélags Svíþjóðar og sem slíkur verjandi hærri arðs til bankastjóra og eigenda sænsku bankanna. Þar tala sænskir sósíaldemókratar gegn ríkisstjórn Fredrik Reinfelds, sem vill lækka og stöðva um sinn bankastjórabónusa. Þrátt fyrir þessar staðreyndir halda sænskir sósíaldemókratar áfram að ráðast á stjórnarandstæðinga sína, sem "kolsvart íhald og auðhyggjufólk".
Allt er því ekki sem sýnist samkvæmt orðanna hljóðan. T.d. segir danski Evrópuþingmaðurinn Morten Messerschmidt í nýarsávarpi sínu, að:
"Grundvallargildum okkar er ógnað. Við erum undir því, sem ég vil kalla "borgaralegt valdarán". Ekki árás með ofbeldi og ofurveldi eins og við höfum áður séð í sögunni. Heldur valdaráni, sem framkvæmt er með sáttmálum undirskrifuðum með pennum kjörinna fulltrúa okkar."
Morten Messerschmidt líkir Evrópuþinginu við Rómarríkið:
"Það sem er að gerast í augnablikinu í Brussel, ... er stöðug aðför til að tæma land okkar af lýðræðiskrafti sínum. Ekki síðan á tímum Rómarríkis hafa svo mikil völd verið í höndum svo fárra eins og málum er háttað í Brussel í dag. Búið er að aftengja almenning í Evrópu."
Messerschmidt heldur áfram:
"Barroso og Rumpoy hafa lýst því skýrt yfir, að markmiðið er sambandsríki. Og okkar eigin forsætisráðherra lýsti því nýverið yfir, að Danmörk er 18. evrulandið. Er hægt að hugsa sér stærri niðurlægingu frá nokkrum forsætisráðherra en að sniðganga nei dansks almennings við sameiginlegu myntinni?"
Svo mörg voru þau orð. Sem betur fer sjá sífellt fleiri, að Fjórða Ríkið er ekki það sem íbúar evruríkjanna vilja. Kratastjórnir Evrópusambandsins hafa leikið þjóðir sínar grátt með því að framfylgja fyrirmælum Charles Dallara, forstjóra Alþjóðlegu Fjármálastofnunarinnar IIF (Institute of International Finance), sem "ráðlagt" hefur þjóðum heims í fjármálakröggum að bjarga bönkunum, hvað svo sem það kostar. Núna, þegar ESB er á hraðferð með evruland í hyldýpi kreppunnar vegna bankabjörgunarstarfsins vakna ýmsir upp og segja hingað og ekki lengra.
Það er auðvelt að sveiflast milli vonar og ótta um, hvað nýja árið færir fólki í okkar heimshluta. Fyrir Ísland gengur best að kjósa sér nýja ríkisstjórn og halda sér fyrir utan efnahagsstríðið og fylkingamyndun "hinna stóru" í heiminum. Best að vera lítill og ráða eigin för en kasta sér í faðminn með öflum, sem skyndilega geta breyst í öfga og vopnuð átök. Ég mun kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna stjórnmálastefnu flokksins um frelsi einstaklingsins til skoðana og athafna. Ég vona, að sem flestir Íslendingar geti sameinast undir merki þess flokks, sem samofin er sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í aldanna rás. Tímabil smælkisstefnuhópa eins og Hreyfingarinnar er liðinn. Hægri Græn, Kristni flokkurinn, Björt framtíð, Besti flokkurinn og hvað þetta heitir nú allt saman ristir ekki djúpt í hina raunverulega stjórnmálaáru, sem umlykur þjóðarsálina. Þetta eru aðeins efasemdarraddir augnabliksins, sem skipta álíka miklu máli og hrukka í morgunsárið, þegar kíkt er í spegilinn.
Evran hefur sundrað Evrópu. Evrópusambandið er að riðlast sundur. Það hindrar samt ekki sósíalista nútímans frá þeirri heimsvaldastefnu sinni að sameinast með fjármálaöflunum til að byggja upp 4.a ríkið. Ég spái því, að hópur ríkja mun ganga í sæng með Þýzkalandi og 4.a ríkið verða að veruleika á meðan önnur ríki Evrópusambandsins verða látin sigla sinn sjó. Margir af 6 þúsund bönkum Evrópu eru gjaldþrota en haldið í gangi á fölskum forsendum. Mörg ríki ESB eru gjaldþrota en fá ekki að fara í gjaldþrot enn þá. Sú leið sem Alþjóðlega Fjármálastofnunin fer, er að breyta fólki í skuldaþræla, sem lifa bara til að draga andann og borga vexti og afborganir svo hægt sé að framlengja lífi gjaldþrota banka. Íslendingar kannast við þetta í gegnum Icesave. Eurosave er sami hluturinn bara svo hrikalega miklu stærri og með svo skelfilegum afleiðingum, að nýnazisminn veðrar morgunloft og vex með ógurhraða.
Þess vegna á boðskapur hins dularfulla símskeytis í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins svo vel við í dag:
Gætið yðar við gömmunum!
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Evra með gati. Stjörnurnar hafa mattast.
Árlega birtir danski SAXO bankinn viðvaranir við 10 stærstu ólíklegustu hlutunum, sem líklegast gætu fellt heiminn. Aðalhagfræðingur bankans Steen Jakobsen segir, að þrátt fyrir að hlutir líti ólíklega út, geti þeir engu að síður verið líklegri til að gerast en við reiknum með.
"Áður en allir dæma okkur úr leik sem dómsdagsspámenn og svartsýnisrausara, viljum við benda á, að það ríkir þegar efnahagslegt styrjaldarástand. Skuldir vesturlanda og fjárlagahalli eru svo háar, að slíkt hefur ekki sést síðan í lok seinni heimsstyrjaldarinnar," skrifar Steen Jakobsen.
Við upphaf 2013 hefur SAXO bankinn mest áhyggjur af blöndu sjálfupptekinna yfirmanna og vaxandi þjóðfélagslegum óróleika sem ógni til lengri tíma pólitískum og fjármálalegum stöðugleika. "Við munum ef til vill ekki berjast í skotgröfunum en bráðum getum við slegist á götunum," skrifar Steen Jakobsen og heldur áfram: "Occupy Wall Street er bara upphafsstafurinn á því sem bíður okkar, ef við breytum okkur ekki." SAXO bankinn tekur undir að listinn sé ekki opinber spá bankans fyrir 2013. "En áður en við eigum viðskipti verðum við að þekkja til þess versta, sem getur gerst."
10 ólíklegir hlutir, sem líklega gætu fellt heiminn 2013:
1. Þýzki verðbréfamarkaðurinn hrynur með 33% Þýzki verðbréfamarkaðurinnn var einn af þeim bestu í heiminum 2012, en útflutningsveislu Þýzkalands lýkur, þegar Kína stígur á bremsurnar. Slæmur efnahagur og óvissa um Angelu Merkel fær DAX-vísitöluna að hrapa 33%.
2. Japan þjóðvæðir risafyrirtækin Japanska Sharp, Sony og Panasonic blæða peningum, vegna samkeppni Suður-Kóreu með Samsung í fremstu línu. Tapið neyðir japanska ríkið að yfirtaka fyrirtækin á sama hátt og Bandaríkin tóku yfir stóru bílafyrirtækin.
3. Verðið á sojabaunum ríkur upp Saxo Bankinn heldur að slæma veðrið 2012 hafi ollið usla í matvælaframleiðslunni og sojabaunir verða afar viðkvæmar fyrir veðurfarinu 2013.
4. Gullverðið snarlækkar Ef ameríkanska efnahagslífið nær sér á strik samtímis og eftirspurn minnkar í Indlandi og Kína getur gullverðið dalað verulega frá núverandi verðlagi um 1.650 dollara fyrir únsuna.
5. Verðið á amerískri hráolíu hrynur Ný tækni eykur orkuframleiðslu USA og framboð amerískrar hráólíu stóreykst. Olíuverðið lækkar á sama tíma og efnahagslífið í heiminum er á sparloga.
6. Japanska yenið verður ofursterkt Nýrri ríkisstjórn Japans mistekst að lækka yenið. Yenið verður sterkasti gjaldmiðill í heiminum.
7. Svissneski frankinn hverfur frá tengingu við gengi evrunnar Kreppan í PIIGS-löndunum versnar, peningarnir flýja til Sviss, sem neyðist til að skera á bindingu frankans við gengi evrunnar og tekur þess í stað upp galdeyrishöft.
8. Hongkong verður gjaldeyrismiðstöð heimsins Tenging Hongkong og USA dollara verður rofin og Hongkongdollarinn tengist kínverska renminbin í staðinn. Mörg Asíulönd fylgja á eftir og kínverski gjaldmiðillinn verður ofsasveiflukenndur. Hongkong verður miðstöð gjaldeyrisviðskipta í heiminum.
9. Spönsku vextirnir hækka upp í 10% Geysilegt atvinnuleysi, svæðisbundinn óróleiki og stækkandi skuldafjall neyðir Spán í gjaldþrot, þegar vextirnir ná 10%.
10. Tvöfaldir vextir á 30-ára amerískum ríkisskuldabréfum Vegna lágra vaxta yfirgefa fjárfestar ríkisbréf og flýja til hlutabréfa. Það leiðir til kröftugra vaxtahækkana.
(Byggt á frétt í Dagens Industri)
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 17:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Sænska ríkisstjórnin lækkar hagvaxtarspá um meira en helming fyrir 2013
21.12.2012 | 14:36
Anders Borg fjármálaráðherra Svíþjóðar hefur lækkað áætlun um hagvöxt og þjóðarframleiðslu Svía um meira en helming eða frá 2,7% til 1,1% fyrir næsta ár. Dagens Nyheter greinir frá þessu 21. desember. Þá hefur áætlun hagvaxtar fyrir árið 2014 verið lækkuð úr 3,7% niður í 3%, sem ýmsir telja of bjartsýna spá.
Ríkisstjórn Svíþjóðar reiknar með að atvinnuleysi hækki úr 7,7% upp í 8,2% næsta ár og haldi áfram að vaxa árið 2014.
"Það er nokkur mögur ár framundan," sagði Anders Borg á blaðamannafundi. "Endurreisnin verður hæg og rýr. Vinnumarkaðurinn verður magur og veikur þessi ár," sagði Borg.
Samkvæmt fjármálaráðherranum er erfitt að dæma, hversu djúp þessi efnahagslægð verður. Þess vegna kemur til greina að koma með aðgerðir til að hvetja vöxtinn bæði fyrir næsta ár sem og árin 2014 og 2015.
Ríkisstjórnin hefur verið gagnrýnd fyrir að vera of bjartsýn um sænskan efnahag og vanmeta afleiðingar fjármálakreppunnar. Í þessum nýju áætlunum er Anders Borg nálægt öðrum stofnunum eins og Seðlabanka Svíþjóðar sem spáir 1,2% hagvexti næsta ár og 8,1% atvinnuleysi á meðan Efnahagsstofnunin fyrr í vikunni spáði 0,8% hagvöxt og 8,3% atvinnuleysi næsta ár.
Fjármálaráðherrann reiknar með halla á fjárlögum næstu þrjú árin með - 1,3% árið 2013. Ekki er ástæða í augnablikinu að grípa til hvetjandi aðgerða en ríkisstjórnin sænska mun ræða það við fjárlagagerð næsta vor.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ljósglæta?
19.12.2012 | 10:08

Loksins, loksins, smáljós vonar frá nýja sjálfsaftökustað Íslendinga Alþingi.
Zombístjórn krata og fjárglæframanna hefur breytt Alþingi í forað ólaga samkvæmt reglunni: með ólögum skal landi eyða. Stjórnarandstaðan reynir af veikum mætti að halda uppi lágmarks heiðri elsta lýðræðisstofnunar okkar heimshluta en hefur verið breytt í mínútuþræla samkvæmt nýjum "umræðu"reglum Alþingis.
Ríkisstjórn "jafnaðar"manna (hvar eru konurnar hér frú mín góð?) og Vinstri-Grænna er í sautjánda sinn sprungin á pakkanum. Þetta var þá bara púðurkerling eftir allt saman. Eftir alþjóðlegt fjármálahrun, glæpastörf féflétta, galla peningakerfis og meingalla ESB bankalaga kom fimmta og stærsta plága landsmanna: ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur.
Einkenni þessarar stjórnar hefur verið að ljúga og flækjast fyrir í 80% af verkum sínum. Hanga með í 20%. Þar af leiðandi hefur 80% af skattfé landsmanna farið í súginn á tímabilinu. Og allir uppteknir af að reyna að milda skaðann, sem hefur tekist misjafnlega vel.
Íslenskir "jafnaðar"menn trúa svo illa á sjálfan sig að þeir kunna ekki að segja sannleikann. Þess í stað setja þeir ígang "pakka" og skipa stjórnlagaráð í stað þess að segja hreint út að þeir séu að aðlaga Ísland að aðildarkröfum ESB og breyta þurfi stjórnarskránni til að afsala fullveldi lýðveldisins til búrókratanna í Brussel.
Enn eina ferðina fær Ögmundur Jónasson og hirðfélagar hans í stjórninni "tækifæri" til að láta á reyna lygaorð sín um að "láta kjósa um aðildarferlið". Ögmundur og félagar hans eru fyrir löngu búnir að selja sál sína fyrir ráðherratitilinn. Samfylkingin er fyrir löngu búin að selja þjóðina fyrir eigin draum um að festast á ljósmyndum með elítunni í Brussel.
Þjóðin þarf að rasskella þetta lið í næstu kosningum. Gefa Samfylkingunni aldarlangt frí frá Alþingi, svo fólkið og nýkjörnir foringjar geti endurreist virðingu Alþingis og sess í hjarta þjóðarinnar.
Og haldið áfram uppbyggingu lýðveldisins á grundvelli núverandi stjórnarskrár, sem í fullu hefur sannað gildi sitt á erfiðleikatímum.
Einungis einu atriði þyrfti að breyta:
Bæta við málsgrein um, að ef þjóðin fellir lög sitjandi ríkisstjórnar eins og gerðist í Icesave, þá verður ríkisstjórnin að segja af sér og Alþingiskosningar boðaðar. Samþykki þjóðin lögin, þá verður forseti að segja af sér og nýjar forsetakosningar boðaðar.
Slík regla hefði sparað þjóðinni þrjú makalaus ár af lygum og stanslausum árásum á lýðveldið og grundvallaratvinnuvegi þess.
![]() |
Viðræðurnar verði settar á ís |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)