Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014
Sex þingflokkar í Svíþjóð í bandalagi gegn Svíþjóðardemókrötum
27.12.2014 | 20:54
Það hefur verið með eindæmum að fylgjast með fréttum dagsins í Svíþjóð, fyrst blaðamannafundi núverandi ríkisstjórnarflokka Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins ásamt fyrri ríkisstjórnarflokkum Móderata, Miðflokksins, Kristdemokrata og Alþýðuflokksins og síðar umræðum í fjölmiðlum og á félagsrásum.
Tvö kjörtímabil
Með samkomulagi flokkanna undir heitinu Desembersamkomulagið binda flokkarnir sig til að standa ekki í vegi fyrir fjárlagafrumvarpi minnihluta ríkisstjórna, hvort sem um hægri eða vinstri stjórn er að ræða. Það sem vekur furðu margra er, að samkomulagið er tímasett tvö kjörtímabil fram í tímann, þ.e.a.s. fram til kosninganna árið 2022. Þýðir samkomulagið, að núverandi stjórnarandstöðuflokkar að undanskildum Svíþjóðardemókrötum tryggja áframhaldandi setu ríkisstjórnar vinstri stjórnar Löfvens út kjörtímabilið og gert er ráð fyrir að ný minnihlutastjórn taki við eftir kosningarnar 2018. Vinstri stjórnin mun leggja fram nýtt fjárlagafrumvarp næsta vor, sem tekur gildi frá áramótum 2015-16 en verður að fylgja fjárlögum stjórnarandstöðunnar 2015.
Að mínu mati er þetta merkilegasti stjórnmálkollhnís þessarra sex flokka í áraraðir og í reynd ekkert annað en samkomulag um að halda Svíþjóðardemókrötum utan við þingræðislega þáttöku, þótt þeir séu þriðji stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar. Býst ég við, að fylgi Svíþjóðardemókrata stóraukist í kjölfar Desembersamkomulagsins.
Ótti við nýjar þingkosningar og fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata
Tveir af fjórum flokkum fyrri ríkisstjórnar, Kristdemókratar og Miðflokkurinn, hafa rokkað í skoðanakönnunum um og yfir 4% lágmarkið, sem lög krefja að stjórnmálahreyfingar hafi til að vera gjaldgengar til þings. Ótti þessarra flokka við nýjar kosningar og jafnframt ótti við fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata hefur ráðið afstöðu þeirra til að koma í veg fyrir aukakosningar. Það sama gildir Umhverfisflokkinn en hins vegar er það með öllu óskiljanlegt, að Móderatar binda hendur sínar gagnvart sósíaldemókrötum, þar sem ekki virðist vera tekið tillit til hvaða niðurstaða muni fást í næstu alþingiskosningum. Hér virðist hræðslufókus vera á framgangi Svíþjóðardemókrata í stað þess að fókusera á þau málefni sem kjósendur vilja að tekin séu fyrir á sænska þinginu eins og t.d. vaxandi áhyggjur af getu Svíþjóðar að taka á móti stórum og stríðum straumi flóttafólks. Mörg sveitarfélög Svíþjóðar hafa sagt að mælirinn sé fullur og þau geti ekki tekið við fleirum en mjög er misskipt milli sveitarfélaganna hér eins og ríkja ESB, hversu mörgum er hleypt inn og hvort hurðir standi opnar. Má allt eins búast við að ásetningur flokkanna sex um að halda Svíþjóðardemókrötum utan fyrir þingræðislegar ákvarðanir virki í staðinn eins og olía á eld og stórir skarar kjósenda flykki sér um Svíþjóðardemókrata í næstu kosningum til að mótmæla einelti og þeim ólýðræðislegum vinnubrögðum sem birtast í nafni lýðræðis í Desembersamkomulaginu.
Vantrauststillaga á Stefan Löfven
Talsmaður Svíþjóðardemókrata Björn Söder sagði í fréttatíma sænska sjónvarpsins í kvöld, að Svíþjóðardemókratar væru orðnir einir í stjórnarandstöðu eftir Desembersamkomulagið. Hann sagði, að þeir mundu axla það verkefni og það fyrsta, sem þeir myndu gera, er þing kemur saman eftir jólahelgina væri að leggja fram vantrauststillögu á forseta Svíþjóðar Stefan Löfven. Heyrst hefur frá talsmönnum Miðflokksins, að slík tillaga muni ekki ná fram að ganga, þar sem aðrir stjórnarandstöðuflokkar muni leggja niður atkvæði og tillagan þá vera felld með meirihlutaatkvæðum ríkisstjórnarflokkanna. En þar sem ástandið er svo sérkennilegt á líðandi stundu er eins gott að halda engu fram í þeim málum. Fyrrum ríkisstjórnarflokkar lögðu áherslu á, að samkomulagið fæli einungis í sér samkomulag um þá stjórnarfarslegu reglu, að minnihlutastjórnir gætu stjórnað og komið fjárlagafrumvörpum í gegn fram til 2022 í Svíþjóð. Tekið var fram, að þetta væri ekki samkomulag gegn Svíþjóðardemókrötum heldur væri verið að tryggja hefðbundið fyrirkomulag minnihlutastjórna í Svíþjóð. Samtímis á að koma á fót þingnefnd til að athuga með breytingu á stjórnarskrá til samræmingar við samkomulagið. Að auki var sagt að flokkarnir sex ætli að vinna saman í varnarmálum, málum ellilífeyrisþega og orkumálum. Það eru engin nýmæli, þar sem hefð er fyrir breiðum sáttum í þessum málaflokkum.
Stjórnarandstaðan hefur gefist upp
Fyrrum formaður Móderata Ulf Adelsson gagnrýndi Desembersamkomulagið harðlega. Í viðtali við Aftonbladet sagði hann: "Vogaraflið hefur verið afhent Vinstriflokknum með útréttri hönd en þeir hafa rætur í kommúnismanum. Stjórnarandstaðan hefur gefist upp. Þetta er stórkostlegur ávinningur fyrir Sósíaldemókratana og Löfven." Á samskiptarásum Sænska Dagblaðsins höfðu nokkrir lesendur á orði að þingkosningar í Svíþjóð væru óþarfar eftir þetta samkomulag.
Kosningum afstýrt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.12.2014 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Með fálkakveðju frá Stokkhólmi
25.12.2014 | 20:04
Hnarreistir standa hirtirnir á Sergelstorgi Stokkhólmsborgar.
Svíar halda upp á jólin eins og þau séu þau síðustu. Búist var við aukinni jólasölu sem sló öll fyrri met í fyrra með innkaupum yfir 66 miljarði sænskra króna eða um 1100 miljarði íslenskra króna. Sænsku stjórnmálin eru í kreppu með ríkisstjórn krata og grænna sem ekki tókst að koma fjárlögum gegnum þingið. Mikið gengur á bak við tjöldin til að afstýra yfirlýstum kosningum en auglýst hefur verið, að ákvörðun um aukakosningar verði tekin á ríkisstjórnarfundi fyrir áramót.
Spennandi er að fylgjast með atburðarrásinni í Svíþjóð ekki síður en á Íslandi en þar hefur hinn farsæli forsætisráðherra Íslands Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fengið stórkross fálkaorðunnar úr hendi forseta Íslands þ. 13. des s.l. Er hann verðugur krossins eins og fyrirrennarar hans sem björguðu Íslandi úr klóm fjármálahrappa sem settu íslensku bankana á höfuðið 2008. Þar er ég að tala fyrst og fremst um þá mætu menn Davíð Oddsson og Geir Haarde sem settu neyðarlögin og aðskildu bankastarfsemina þannig að þrátt fyrir allt höggið var hægt að halda áfram kortaþjónustu og öðrum lágmarksviðskiptum og ríkissjóður tók ekki á sig skuldir bankasnillinganna.
Allir þessir góðu drengir hafa helgað starfskröftum sínum í þjónustu almennings. Ég hef áður lagt til, að bæði Geir og Davíð ættu að fá sérstaka viðurkenningu þjóðarinnar fyrir björgunarstörf þeirra við kollsteypu fjármálakerfisins. Finnst mér að hanna ætti sérútgáfu stórkrossins með bandi fyrir þessi afrek til að sýna þakklæti þjóðarinnar.
Sendi þess vegna orðunefnd þá hugmynd með sérstöku þakklæti og fálkakveðju frá Stokkhólmi.
Sigmundur sæmdur fálkaorðu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Rússar stefna í stórslys með "myrkvuðum" njósnaflugvélum
13.12.2014 | 17:25
S.l. föstudag var farþegaflugvél nærri árekstri við erlenda herflugvél sem hafði slökkt á sendara sínum. Vélin var rússnesk segir varnamálaráðherra Svía, Peter Hultqvist, við sænska útvarpið. Atburðurinn gerðist strax fyrir hádegið föstudag í nánd við Kastrup. Farþegaflugvélin hafði rétt lyft, þegar flugumferðastjórnin varaði við "ósýnilegri" vél á svæðinu.
Flugstarfsmenn sænska hersins sáu að um stórslys yrði að ræða og höfðu samband við flugumferðastjórn farþegaflugsins. "Við gáfum fyrirmæli um að beygja undan og það gekk fljótt fyrir sig."
Sænska ríkisstjórnin hefur fengið staðfestingu frá sænskum stríðsflugmönnum, að rússnesk njósnavél hafi verið á ferð. "Þetta er alvarlegt. Þetta er óhæft. Þetta er beinlínis hættulegt," segir Peter Hultqvist.
3. mars átti sams konar atburður sér stað, þegar SAS farþegaflugvél frá Kastrup á leiðinni til Rómarborgar var einungis 90 metrum frá árekstri við rússneska njósnaflugvél. Sænski herinn gat forðað stórslysi þá eins og nú.
Rússarnir haga sér æ oftar á "örvæningarfullan" hátt og augljóst er að hættan á flugárekstri minnkar ekki með fleiri rússneskum njósnavélum sem fljúga um án þess að vera "sýnilegar". Fjöldi "næstumþví" slysa hefur stóraukist í ár og einungis tímaspursmál að mínu mati, þangað til Rússum tekst að granda annarri farþegaflugvél með þessum hætti.
Svíar ræða í fullri alvöru að innleiða herskyldu á ný í Svíþjóð og veitir ekki af miðað við vaxandi ögranir björnsins í austri.
Tæki 10-15 ár að byggja upp varnir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
ESB í sjálfheldu - getur hvorki komist afturábak, áfram né staðið í stað.
11.12.2014 | 23:33
Enn á ný kemur skýrsla um Evrópusambandið sem leggst ofan á allar hinar sem segja nákvæmlega sama hlut: Traust íbúa ESB á Evrópusambandinu er á hverfandi hveli. Hagfræðingarnir Luigi Guiso, Paola Sapienza og Luigi Zingales hafa skilgreint fjögurra áratuga opinber gögn Eurobarometer og komist að þeirri niðurstöðu, að Evrópa er í sjálfheldu og enginn vilji hvorki til að bakka né halda áfram og slakur efnahagur leyfi ekki að staðið sé í stað. ESB er fast í momenti 22.
Það eru einkum þrír atburðir, sem hagfræðingarnir telja að hafi haft neikvæð áhrif á viðhorf almennings: Maastricht sáttmálinn 1992, útvíkkun ESB til Austur-Evrópu 2004 og evrukreppan 2010. Sérstaklega hefur evrukreppan haft neikvæð áhrif, t.d. féll stuðningur við ESB frá 54% niður í 44% í Suður-Evrópu nánast hjá öllum þjóðfélagshópum. Evrópusambandið er ekki einungis að tapa fótfestu á heildina litið heldur hefur unga fólkið sem áður var jákvætt hugmyndinni snúist gegn ESB.
Jaean-Claude Juncker mun ekki takast að stilla reiði Grikkja, Spánverja, Frakka og Ítala eða annarra gagnvart búrókrötum í Brussel sem tekið hafa völdin af ríkjum og fjárlögum þeirra.
Jean Monnet stofnfaðir ESB sagði í ævisögu sinni, að "Evrópa verður smíðuð í kreppum og verður að samnefnara þeirra lausna sem fundnar verðar til að leysa þær kreppur." Monet sá fyrir sér að samruna Evrópuríkja yrði stjórnað af Evrópusambandssinnaðri búrókratískri elítu. Verkefnið var hannað til að vera aðskilið frá hagsmunum kjósenda og algjörlega óafturkræft. Ekki var litið á kreppur sem hindranir heldur sem tæki til að hraða samþjöppun valds í höndum Evrópusambandsins.
Nýjasta fjármálakreppa hefur einmitt gefið Brussel eitt slíkt tækifæri að auka völd búrókratanna yfir aðildarríkjum, velferðarmálum þeirra og efnahagsstefnu. Verið er að flytja síðasta orðið yfir fjárlögum ríkjanna til Brussel.
Skýrslan sýnir síminnkandi meirihluta íbúanna sem styðja evruna og vilja viðhalda henni sem gjaldmiðli. Almenningur er alfarið á móti frekari samruna ríkjanna og andstaðan við ESB vex fiskur um hrygg.
Niðurstaða skýrslunnar er að sérhvert skref til samþjöppunar frekari valds til Brussels sé óskynsamleg ráðdeild. Þess í stað á að leyfa aðildarríkjum að bjarga því sem hægt er að bjarga af eftirstöðvum ímyndar ESB með mörgum litlum skrefum í átt frá samruna ríkjanna.
Á línuritinu sést, að stuðningur almennings í suður Evrópu var yfir 75% árið 2002 en er kominn niður í rúm 20% ár 2013 sem er um 55% fall á 11 árum. Íbúar mið Evrópu studdu ESB mest rúm 60% ár 2007 en tæp 40% sex árum síðar. Íbúar norður Evrópu stuttu ESB flestir tæp 60% árið 2007 og eru ár 2013 komnir niður í u.þ.b. 35%.
Evrópumál | Breytt 12.12.2014 kl. 06:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Kratar í krampakasti í Svíþjóð
6.12.2014 | 19:00
Skjáskot af sjónvarpi Dagens Nyheter með viðtali við Björn Söder flokksritara Svíþjóðardemókrata, sem nú krefjast opinberrar afsökunar Stefans Löfvens forsætisráðherra Svíþjóðar fyrir að kalla þá nýfasistíska.
"Þetta bendir til mikillar örvæntingar" segir Björn Söder og bætir við: "Það er ekki hægt að taka mark á því, þegar einkennandi orð af þessu tagi eru notuð í stjórnmálaumræðu."
Söder bendir á, að sósíaldemókratar hafi ekki átt í neinum erfiðleikum með að taka hluta út úr fjárlögum bandalagsstjórnarinnar og fella hann með aðstoð Svíþjóðardemókrata á sínum tíma. "Þá var ekki svo mikilvægt að fylgja hefðbundnum reglum."
Åsa Romson umhverfis- og aðstoðarforsætisráðherra, talsmaður samstarfsflokks sósíaldemókrata, Umhverfisflokksins, finnst ekkert óeðlilegt við það, að aðrir kalli Svíþjóðardemókrata nýfasískan flokk en sjálf vill hún frekar meta hvað innihaldið í stefnu Svíþjóðardemókrata þýði fyrir Svíþjóð en nota þá lýsingu.
Oscar Sundevall flokksritari Annie Lööf, formanns Miðjuflokksins, segir að Miðjuflokkurinn vilji heldur ræða málefnin á efnislegum grunni en að ræða stimpla af ólíkum gerðum.
Oscar Karlflo, flokksritari hjá Móderötum segir, að það sé óheppilegt að fjármálaráðherrann og forsætisráðherrann skrúfi upp hljóðið í stjórnmálaumræðunni í stað þess að ræða þá alvarlegu stöðu, sem komin er upp.
Flokksleiðtogi Alþýðuflokksins Jan Björklund telur of langt gengið að kalla Svíþjóðardemókrata "nýfasískan flokk." "Mér finnst Svíþjóðardemókratar vera mótfallnir útlendingum en maður verður að vera varkár í orðavali. Mér finnst þetta benda til þess, að forysta Sósíaldemókrata sé núna undir afar miklu álagi."
Formaður Vinstri flokksins Jonas Sjöstedt vill ekki sjálfur nota orðið nýfasískur, þótt honum finnst það ekki rangt að einhverjir aðrir gera það.
Persónulega finnst mér sjálfum, að kratarnir hafi málað sig útí horn með fjárlög stjórnarandstöðunnar í fanginu. Það er aumkunarvert að horfa á þá valdaháðu ríghalda í stólana, þegar þeir vita að þeir njóta ekki meirihluta á þingi til að koma málum sínum í gegn. Ef Stefan Löfven hefði verið maður með mönnum hefði hann beðist lausnar fyrir sig og ríkisstjórnina. Í staðinn velur hann að æða um allt eins og mæðuveik rolla í leit að athygli og fylgni. Sænskir kratar hafa aldrei verið niðurlægðir á jafn afdráttarlausan hátt og nú og erfitt að sjá, hvernig þeim á að takast að rétta úr kútnum eftir öll vindhöggin sem þeir hafa látið vaða.
Svíþjóðardemókratar nýfasískur flokkur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 19:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Veik kratastjórn fallin eftir sögulegt afhroð á sænska þinginu
4.12.2014 | 00:15
Stefan Löfven tilkynnti 3.des. að sænska ríkisstjórnin áætlaði að taka ákvörðun um auka þingkosningar í Svíþjóð 22. mars n.k. Sósíaldemókratar og vinstri og grænir kenna fyrri ríkisstjórnarflokkum um að hafa svikið þingræðið og lýðræðið með því að greiða atkvæði með eigin fjárlagafrumvarpi, þegar fréttist að Svíþjóðardemókratar bættust í hópinn og felldu þar með fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar. Krafa sósíaldemókrata um hlífiskjöld stjórnarandstöðunnar er bæði fáranleg og hrokafull. Hún afhjúpar stjórnmálamenn sem lifa einungis fyrir formleg völd án annars innihalds en vera sjálfir við völd, sem er dæmigerður kratismi.
Sannleikurinn er sá, að stefna Sósíaldemókrata, sem þeim hefur tekist að fá samstöðu annarra flokka fyrir, um að frysta Svíþjóðardemókrata úr umræðu og þáttöku í venjulegum störfum þingsins, hefur slegið til baka á þá sjálfa og þá flokka, sem fylgt hafa sömu stefnu. Árangurinn er að Svíþjóðardemókratar hafa stóraukið fylgi sitt og eru nú þriðji stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar. Svíþjóðardemókratar vonast til að verða næst stærsti flokkur Svíþjóðar eftir næstu kosningar. Ef aðrir stjórnmálaflokkar taka sig ekki saman og byrja að ræða við kjósendur um þau málefni sem þeir hafa vanrækt og gefið hafa Svíþjóðardemókrötum frítt svigrúm, þá mun sigurganga Svíþjóðardemókrata halda áfram.
Móderatarnir skilgreindu fylgismissi síðustu kosninga með því að kerfisstjórn og uppífrá sjónarmið höfðu tekið yfir opinskáa stjórnmálaumræðu þar sem sjónarmið grasrótarinnar næðu fram. Þetta er skynsamleg skilgreining sem eykur vonir um að Móderötum takist að auka fylgi sitt, þrátt fyrir missi flokksleiðtoganna Fredriks Reinfeldts og Anders Borgs.
Menn eru að byrja að átta sig á því, að með því að leggja lokið á Svíþjóðardemókrata, þá útiloka þeir eigin þáttöku í umræðu kjósenda um innflytjendamál og aðbúnað og aðlögun innfluttra í sænska samfélaginu. Evrópumálin fylgja einnig uppífrásjónarmiðum og margir af ESB andstæðingum borgaralegu flokkanna greiddu atkvæði með Svíþjóðardemókrötum til að lýsa óánægju sinni með skort á ESB umræðu eða "umræðu" í skorðum uppífrá stjórnenda. Svíþjóðardemókratar eru ESB skeptískir og að því leytinu skilur sig ástandið í Svíþjóð í engu frá ástandinu í öðrum ESB-ríkjum með vaxandi gagnrýni á Evrópusambandið og hörmungum evrunnar. Páfinn segir að ESB sé fangi í "einsnúmera efnahagsflík" sem grafi undan lýðræðinu.
Enginn veit með vissu, hvort ríkisstjórn Stefans Löfvens muni ákveða aukakosningar þann 22. mars, þótt slíkt sé sagt nú. Ríkisstjórnin getur fyrst tekið ákvörðun um aukakosningar þann 29. desember og eftirtektarvert er, að Stefan Löfven baðst ekki lausnar fyrir ríkisstjórnina eftir fullkomlega niðurlægingu, þegar fjárlagafrumvarpið var fellt á þingi með 182 atkvæðum stjórnarandstöðunnar gegn 153 atkvæðum ríkisstjórnarinnar.
Búast má við, að sósíaldemókratar noti tímann fram að áramótum og reyni til þrauta að sundra stjórnarandstöðuflokkunum enda hafa stærstu rök þeirra um svik stjórnarandstöðunnar með því að "fá Svíþjóðardemókrata til liðs við sig" þegar verið lögð fram. Þau rök geta snúist í höndum Sósíaldemókrata sjálfra og dregið úr fylgi þeirra, þótt digurbarkalega sé talað nú.
Ljóst er, að Svíar eru mun hreyfanlegri og sjálfstæðari en oftast áður og veltur niðurstaða væntanlegra þingkosninga alfarið á umræðunni við kjósendur fram að kosningum.
Boðað til þingkosninga í Svíþjóð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 03:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)