Sex þingflokkar í Svíþjóð í bandalagi gegn Svíþjóðardemókrötum

Það hefur verið með eindæmum að fylgjast með fréttum dagsins í Svíþjóð, fyrst blaðamannafundi núverandi ríkisstjórnarflokka Sósíaldemókrata og Umhverfisflokksins ásamt fyrri ríkisstjórnarflokkum Móderata, Miðflokksins, Kristdemokrata og Alþýðuflokksins og síðar umræðum í fjölmiðlum og á félagsrásum. 

Tvö kjörtímabil
Með samkomulagi flokkanna undir heitinu Desembersamkomulagið binda flokkarnir sig til að standa ekki í vegi fyrir fjárlagafrumvarpi minnihluta ríkisstjórna, hvort sem um hægri eða vinstri stjórn er að ræða. Það sem vekur furðu margra er, að samkomulagið er tímasett tvö kjörtímabil fram í tímann, þ.e.a.s. fram til kosninganna árið 2022. Þýðir samkomulagið, að núverandi stjórnarandstöðuflokkar að undanskildum Svíþjóðardemókrötum tryggja áframhaldandi setu ríkisstjórnar vinstri stjórnar Löfvens út kjörtímabilið og gert er ráð fyrir að ný minnihlutastjórn taki við eftir kosningarnar 2018. Vinstri stjórnin mun leggja fram nýtt fjárlagafrumvarp næsta vor, sem tekur gildi frá áramótum 2015-16 en verður að fylgja fjárlögum stjórnarandstöðunnar 2015. 

Að mínu mati er þetta merkilegasti stjórnmálkollhnís þessarra sex flokka í áraraðir og í reynd ekkert annað en samkomulag um að halda Svíþjóðardemókrötum utan við þingræðislega þáttöku, þótt þeir séu þriðji stærsti stjórnmálaflokkur Svíþjóðar. Býst ég við, að fylgi Svíþjóðardemókrata stóraukist í kjölfar Desembersamkomulagsins.

riksdagen

 

 

 

 

 

 

 

 

Ótti við nýjar þingkosningar og fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata
Tveir af fjórum flokkum fyrri ríkisstjórnar, Kristdemókratar og Miðflokkurinn, hafa rokkað í skoðanakönnunum um og yfir 4% lágmarkið, sem lög krefja að stjórnmálahreyfingar hafi til að vera gjaldgengar til þings. Ótti þessarra flokka við nýjar kosningar og jafnframt ótti við fylgisaukningu Svíþjóðardemókrata hefur ráðið afstöðu þeirra til að koma í veg fyrir aukakosningar. Það sama gildir Umhverfisflokkinn en hins vegar er það með öllu óskiljanlegt, að Móderatar binda hendur sínar gagnvart sósíaldemókrötum, þar sem ekki virðist vera tekið tillit til hvaða niðurstaða muni fást í næstu alþingiskosningum. Hér virðist hræðslufókus vera á framgangi Svíþjóðardemókrata í stað þess að fókusera á þau málefni sem kjósendur vilja að tekin séu fyrir á sænska þinginu eins og t.d. vaxandi áhyggjur af getu Svíþjóðar að taka á móti stórum og stríðum straumi flóttafólks. Mörg sveitarfélög Svíþjóðar hafa sagt að mælirinn sé fullur og þau geti ekki tekið við fleirum en mjög er misskipt milli sveitarfélaganna hér eins og ríkja ESB, hversu mörgum er hleypt inn og hvort hurðir standi opnar. Má allt eins búast við að ásetningur flokkanna sex um að halda Svíþjóðardemókrötum utan fyrir þingræðislegar ákvarðanir virki í staðinn eins og olía á eld og stórir skarar kjósenda flykki sér um Svíþjóðardemókrata í næstu kosningum til að mótmæla einelti og þeim ólýðræðislegum vinnubrögðum sem birtast í nafni lýðræðis í Desembersamkomulaginu. 

Vantrauststillaga á Stefan Löfven
Talsmaður Svíþjóðardemókrata Björn Söder sagði í fréttatíma sænska sjónvarpsins í kvöld, að Svíþjóðardemókratar væru orðnir einir í stjórnarandstöðu eftir Desembersamkomulagið. Hann sagði, að þeir mundu axla það verkefni og það fyrsta, sem þeir myndu gera, er þing kemur saman eftir jólahelgina væri að leggja fram vantrauststillögu á forseta Svíþjóðar Stefan Löfven. Heyrst hefur frá talsmönnum Miðflokksins, að slík tillaga muni ekki ná fram að ganga, þar sem aðrir stjórnarandstöðuflokkar muni leggja niður atkvæði og tillagan þá vera felld með meirihlutaatkvæðum ríkisstjórnarflokkanna. En þar sem ástandið er svo sérkennilegt á líðandi stundu er eins gott að halda engu fram í þeim málum. Fyrrum ríkisstjórnarflokkar lögðu áherslu á, að samkomulagið fæli einungis í sér samkomulag um þá stjórnarfarslegu reglu, að minnihlutastjórnir gætu stjórnað og komið fjárlagafrumvörpum í gegn fram til 2022 í Svíþjóð. Tekið var fram, að þetta væri ekki samkomulag gegn Svíþjóðardemókrötum heldur væri verið að tryggja hefðbundið fyrirkomulag minnihlutastjórna í Svíþjóð. Samtímis á að koma á fót þingnefnd til að athuga með breytingu á stjórnarskrá til samræmingar við samkomulagið. Að auki var sagt að flokkarnir sex ætli að vinna saman í varnarmálum, málum ellilífeyrisþega og orkumálum. Það eru engin nýmæli, þar sem hefð er fyrir breiðum sáttum í þessum málaflokkum.

Stjórnarandstaðan hefur gefist upp
Fyrrum formaður Móderata Ulf Adelsson gagnrýndi Desembersamkomulagið harðlega. Í viðtali við Aftonbladet sagði hann: "Vogaraflið hefur verið afhent Vinstriflokknum með útréttri hönd en þeir hafa rætur í kommúnismanum. Stjórnarandstaðan hefur gefist upp. Þetta er stórkostlegur ávinningur fyrir Sósíaldemókratana og Löfven." Á samskiptarásum Sænska Dagblaðsins höfðu nokkrir lesendur á orði að þingkosningar í Svíþjóð væru óþarfar eftir þetta samkomulag.  


mbl.is Kosningum afstýrt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Beztu þakkir fyrir góða fréttarskýringu. Merkilegir atburðir!

Ég er sammála þeirri ályktun þinni og áliti, "að ásetningur flokkanna sex um að halda Svíþjóðardemókrötum utan fyrir þingræðislegar ákvarðanir virki í staðinn eins og olía á eld og stórir skarar kjósenda flykki sér um Svíþjóðardemókrata í næstu kosningum til að mótmæla einelti og þeim ólýðræðislegum vinnubrögðum sem birtast í nafni lýðræðis í Desembersamkomulaginu."

Jón Valur Jensson, 27.12.2014 kl. 23:56

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Jón, þakkir fyrir athugasemd, já skrýtin er hún stundum tíkin arna, pólitíkin. 

Gústaf Adolf Skúlason, 28.12.2014 kl. 02:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband