Hvað gerum við þegar lýðræðisosturinn klárast?
18.7.2018 | 09:56
"Dagur er upp kominn,
dynja hana fjaðrar,
mál er vilmögum
að vinna erfiði."
Þannig hefst hugvekja Jóns Sigurðssonar til Íslendinga 1848.
Jón Sigurðsson grunaði ekki, að eftir þá sjálfstæðisbaráttu sem færði Íslandi fullveldið fyrir 100 árum, þá væri einfaldlega hægt árið 2018 að setja orðið Evrópusambandið í staðinn fyrir orðið Danmörk í hluta texta hugvekjunnar sem þá upplýsti í einni svipan kjarna sjálfstæðisbaráttunnar árið 2018 :
"Á þessu yrði sami galli og nú er, og hefir lengi verið, að málefnum Íslands er ekki stjórnað svo mjög eptir því sem Íslandi er hagkvæmast, einsog eptir því, hvernig öllu hagar til í Evrópusambandinu. Evrópusambandið teymir Ísland eptir sér í bandi, og skamtar því réttindi, frelsi og mentun eptir því, sem því þykir hagkvæmast og bezt við eiga."
"Á fundum Evrópusambandsins verða fulltrúar vorir sárfáir, eptir tiltölunni, og allt er undir hælinn lagt hvort þeim tekst að sannfæra meira hlutann um það sem réttast væri, þó þeim væri það fullljóst sjálfum."
"....verðum vér að senda fulltrúa að tiltölu á ríkissamkomuna, og þeir eiga að sjá um réttindi landsins eins og hinir..; en þá yrði alþing oss að öllu ónýtt."
"En þessir menn, eða að minnsta kosti nokkrir þeirra, munu hafa meðfram þann skoðunarmáta, sem vér áður gátum um, að Ísland sé partur af Evrópusambandinu og Íslendingar með ríkisfang Evrópusambandsins, eða að minnsta kosti að það ætti svo að vera. Af því þeim þykir ofur vænt um Evrópusambandið þá hugsa þeir að allir aðrir sé eins, og það sé þverhöfðaskapur vor eða einþykkni þegar vér getum ekki fylgt þeim í öllu eða þegar vér verðum að segja að vér elskum Ísland meira en Evrópusambandið...".
Lýðræði tryggir fullveldið, en án fullveldis glatast lýðræðið:
"Þjóðin er ekki til handa embættismönnum sínum, heldur eru þeir handa henni; hún á því með að krefja þá reikningskapar fyrir stjórn þeirra, og þeir eiga að svara; en hér verður þjóðin öldúngis þýðingarlaus, nema ef það gæti verið embættismönnunum til æfingar, að stjórna viljalausum skepnum, og sýna þeim hversu miklir þeir væri. Þar sem þjóðirnar taka sjálfar þátt í stjórn sinni er þessu öðruvísi varið."
Íslenskir ráðherrar sumir kvarta yfir því, að sjálfstæði Íslendinga fari í taugarnar á Evrópusambandinu. Slíkar kvartanir koma þó ekki í veg fyrir á sama tíma að þeir samþykki lög á alþingi sem sífellt sneiða bita af fullveldi Íslands, ein lítil sneið hér, ein lítil sneið þar. Bera ráðherrar því við að Evrópusambandið breyti einhliða tvíhliða EES-samning og að alþingi og ráðherrar hafi sífellt minna að segja um hag Íslands. Til þess að leysa þann vanda á að hefla af vanköntum stjórnarskrár íslenska lýðveldisins svo hún stangist ekki lengur á við valdboð Evrópusambandsins.
Slík vinnubrögð fara engan veginn í taugarnar á Evrópusambandinu sem fyrir langalöngu hefur hannað innlimunarferli Íslands í samstarfi við þá menn sem vilja selja frelsi þjóðar sinnar fyrir vesæla nafnbót og gefa það síðan fyrir minna en ekkert.
Blásið til hátíðarfundar á Þingvöllum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Evrópumál | Facebook
Athugasemdir
Ég er sammála þér Gústaf en er ansi hræddur við þessa stjórn sem virðist nálgast ESB óðfluga. Ég hefði allaveganna vilja sjá minni leyndarhyggju varðandi þetta mál en þessi ríkisstjórn vill ekki samlagast fólkinu í landinu en þeir sjá stóla sína á þingi ESB og hátt kaup þar sem engin nær til þeirra með málefni hvað þá þeir sjálfir með mál fyrir Íslendinga.
Valdimar Samúelsson, 18.7.2018 kl. 11:43
Sæll Valdimar þakka innlit og athugasemd. Sammála þér að við þurfum meira gagnsæi og fleiri þingmenn sem ekki eru þar bara vegna eigin hagsmuna. Okkur vantar fleiri menn eins og Jón Sigurðsson sem bera þjóðina í hjarta sér. kkv
Gústaf Adolf Skúlason, 18.7.2018 kl. 13:48
Við færumst sífellt nær uppsögn EES samningsins. Hjá henni verður ekki komist.
Þegar sá ólukkans samningur var samþykktur af Alþingi Íslendinga, í upphafi síðasta áratugar síðustu aldar, var andstaða þingmanna töluverð gegn honum og fékkst ekki samþykktur fyrr en þingmenn voru fullvissaðir um að hann færi ekki gegn stjórnarskrá. Vilji landsmanna var hundsaður, enda víst að hefði samningurinn verið lagður í hendur þjóðarinnar, hefðu hann aldrei verið samþykktur.
EES samningurinn hefur þróast nokkuð þá áratugi sem hann hefur verið í gildi og ætið okkur í óhag. Nú er svo komið að viðurkennt er að hann er farinn að brjóta nokkuð freklega á stjórnarskrá okkar, síðasta dæmið samþykkt Alþingis í vor, tilskipun ESB um persónuvernd. Þar var fært úr landi bæði löggjöf og dómsvald á því sviði.
Lausn þeirra kjarklausu þingmanna, sem nú um stundir sitja Alþingi, er að breyta stjórnarskránni til samræmis við brot á henni! Þvílík firra!!
Hætt er við að þeir höfðingjar sem börðust fyrir sjálfstæði þjóðarinnar, á síðari hluta nítjándu aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu, þyki lítill dugur í því fólki sem nú vermir stóla Alþingis!
Gunnar Heiðarsson, 18.7.2018 kl. 20:24
Sæll Gunnar og þakka þér viðkomu hér og góð orð. Já það er vægast sagt undarlegt að menn sækjast eftir því að færa Ísland til svipaðs ástands og ríkti fyrir tilkomu fullveldisins. Og það um leið og verið er að fagna 100 ára afmæli fullveldisins. Það er stundum rætt um viðhorf Jóns og Gunnu til marks um lýðræðið en mér sýnist fyrir löngu síðan búið að hefla þau burtu með ostahnífnum. Ísland er lítill biti fyrir skriffinnskuskrímslið ESB svo við þurfum virkilega á alþingismönnum að halda sem skilja hag þjóðarinnar og virða stjórnarskrá lýðveldisins. Verum á varðbergi gagnvart alþingismönnum sem selja hag þjóðarinnar fyrir eigin stöðu og kauphækkun. Kkv
Gústaf Adolf Skúlason, 18.7.2018 kl. 21:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.