Skógareldarnir í Svíþjóð verstu náttúruhamfarir í manna minnum

Sweden-991541Skógareldarnir í Svíþjóð eru þeir verstu í manna minnum. Langvarandi samfelldur hiti oftast yfir 30 gráður og þurrkar hafa breytt gróðri, grasi og skógi í þurrt skrælnað brennsluefni sem fuðrar auðveldlega upp. Gerir það allt slökkvistarf erfitt og illsótt og þegar logar á a.m.k. 60 stöðum, þar af 15 stóreldar sem enginn hefur stjórn á, þá reynir það mjög á allan mannskap sem berst við að hefta og stöðva útbreiðslu eldanna. Skv. neyðarlínu SOS hafa aldrei áður jafn margar viðvaranir verið sendar til fólks á jafn stuttum tíma og síðan brunarnir hófust.

Miklar umræður eiga sér stað um viðbúnað slökkviliða, almannavarna og hersins fyrir hamförum sem þessum og þykir mörgum Svíum skömm vera að því, að Svíar verða að biðja um neyðaraðstoð m.a. frá Evrópusambandinu til að slökkva skógarelda. Er mikið rætt um að Svíar ættu sjálfir að eiga slökkviliðsflugvélar eins og þær tvær ítölsku sem notaðar eru í dag. Tekur vélina 12 sekúndur að tanka inn 6 tonnum af vatni á flugi og fer vélin a.m.k. 3 ferðir án þess að þurfa að taka eldsneyti. Ein slík vél kostar 200 milljónir sek og er verðið t.d. borið saman við 1,2 milljarða sek niðurgreiðslu ríkisstjórnarinnar á rafmagnsreiðhjólum með eitruðum rafhlöðum og alls kyns fáranlegum þróunarverkefnum sem eru tekin sem dæmi um sóun ríkisstjórnarinnar á almannafé í eigin pólitísk gæluverkefni.

Dan Elíasson góðhestur sósíaldemókrata sem þurfti að hrökklast úr embætti ríkislögreglustjóra vegna getuleysis fékk í staðinn stöðu sem forstjóri almannavarna í Svíþjóð og ummæli hans um að það sé svo dýrt að eiga slökkviflugvélar hafa kynnt undir umræður um þessi mál. Samtök slökkvliðsmanna benda á niðurskurð fjár til slökkviliða á undanförnum árum en í dag vantar a.m.k. 2 500 slökkviliðsmenn að þeirra mati. Á litlum slökkviliðsstöðum er ekki einu sinni til tankbílar og núna þegar öll tæki og mannskapur er nýttur til hins ítrasta sjá margir skýrar, hvað vantar í viðbúnaðinn til að mæta skógareldum.

70% af yfirborði Svíþjóðar er skóglendi. Gríðarlegt magn trjáa eða yfir tvær milljónir kúbikmetra hafa brunnið og er sjáanlegt tjón núna vel yfir 600 milljónir sek miðað við að trén hefðu verið nýtt í timburvinnslu. Yfir 20 þúsund hektarar landssvæðis loga og vindar gera slökkviliðsstörf nær óviðráðanleg þar sem neistaflugið berst með vindinum og breiðir út eldinn. Noregur hefur sent fólk og tug þyrla til slökkvistarfa og tvær slökkiflugvélar frá Frakklandi komu til landsins í gær. Sjónvarpið hefur ekki við að senda út viðvaranir til fólks og fyrirmæli um að yfirgefa hús sín og flýja í skjól. Vegir lokast og upplýsingar gefnar í sífellu um undankomuleiðir á meðan hægt er. Hafa viðtöl verið tekin við fólk sem bara tók með sér smávegis fatnað og svo það dýrmætasta: myndaalbúmið með fjölskyldumyndunum.

Ástandið er skelfilegt. Enginn veit hversu mikið tjón þessir risastóru eldar valda. Sem betur fer hefur enginn mannsskaði orðið enn en einnig er óttast um afkomu dýralífs á eldsvæðunum. Bændur hafa þurft að slátra búfé vegna þurrka og aðrir þurfa að gefa fóður innandyra um hásumar vegna þess að ekkert finnst utandyra. 

Það er bókstaflega rétt að segja að Svíþjóð logar.


mbl.is Svíar biðja um meiri aðstoð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband