Ísland öruggara án Schengen
24.11.2015 | 10:41
Grein Morgunblaðsins og leiðari í dag "Hryðjuverkamenn boðnir velkomnir" um gagnrýni fyrrverandi forstjóra Interpol, Ronald K. Noble, á Schengen-samstarfið er þarft og gott innlegg í varnarmálaumræðuna á Íslandi. Ronald segir, að Schengen hafi gert 26 lönd og landamæri þeirra opin án landamæraeftirlits, sem geri hryðjuverk eins og árásirnar nýverið í París mögulegar.
Mbl. skrifar:
"Hér á landi hafa umræður um Schengen verið á villigötum og byggst á þeirri tálsýn að ytri landamæri svæðisins séu varin. Nú er komið í ljós með óyggjandi hætti að svo hefur ekki verið og litlar líkur á að svo verði nokkurn tímann, í það minnsta ekki í náinni framtíð.
Þá hefur því verið haldið fram að aðild að Schengen sé forsenda þess að geta haldið uppi nauðsynlegu eftirliti með glæpamönnum, en það hafa því miður reynst öfugmæli. Og eins og fram kemur í skrifum fyrrverandi forstjóra Interpol er aðgangur að gagnabanka þeirrar alþjóðlegu löggæslustofnunar fjarri því að vera háður því skilyrði að ríki séu í Schengen-samstarfinu."
Reynsla Svía er að holskefla misyndismanna frá Austur-Evrópu gat komið vegabréfalaust til Svíþjóðar vegna Schengen og þar sem ekkert eftirlit mátti vera, varð sænska lögreglan að horfa á glæpamenn koma sem að öðrum kosti hefði verið stuggað frá eða gert erfiðara um för.
Hanna Birna á hálum Schengen-ís
Mér brá, þegar ég heyrði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur segja, að hún tryði því að Ísland væri öruggara í Schengen en utan. Aðalrök hennar voru, að við hefðum aðgang að upplýsingum sem annars væru ekki á boðstólum. Þetta er ekki rétt. Europol og Interpol vinna saman með lögreglum ríkja, óháð hver þau eru. Það var til alþjóðlegt samstarf fyrir Schengen og núna utan við Schengen.
Í staðinn má líta svo á, að aðildarríki Schengen séu gerð háð miðstýrðum upplýsingum sem er liður í áróðursmaskínu ESB um ágæti sambandsins. Ég vona, að Hanna Birna sjái að sér og láti það ekki villa sér sýn, ég veit að hún vill að varnir og öryggismál Íslands séu í góðum höndum Íslendinga sjálfra.
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins og fyrrverandi forstjóri Interpol, Ronald K. Noble hafa alveg rétt fyrir sér um Schengenhættuna: Landamæraeftirlit 26 ríkja leyst upp sem hryðjuverkamenn og aðrir glæpamenn nýta sér út í æsar.
Deilurnar innan ESB koma í veg fyrir að Schengen geti nokkurn tímann tryggt "ytri landamæri" þar sem ríkin 26 geta ekki komið sér saman um afleiðingar, skipulag, skiptingu verka eða flóttamanna sem koma yfir landamærin.
ESB er raunverulega að liðast sundur og er að breytast í hermaskínu undir forystu Þjóðverja, sem breyta grundvallarafstöðu sinni eftir seinni heimsstyrjöldina. Merkel situr á veikum stól vegna allra flóttamanna en um ein miljón manns koma til Þýzkalands í ár.
Schengensamningurinn tryggir ekki einu sinni öryggi þeirra 500 íbúa sem búa í Schengen.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:02 | Facebook
Athugasemdir
Mjög góðar ábendingar hjá þér hér sem oftar, Gústaf, þetta er hin þarfasta grein í alla staði, og skemmtilega fyndin er líka þessi lokasetning þín!
Mér brá líka að hlusta á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur tala eins og hún gerði um þetta Schengen- og Interpol-mál. Óttalega er hún fáfróð þrátt fyrir að sjálfstraustið heyrist um hnöttinn þveran og endilangan af tali hennar.
En hún hefur líka lengi verið allt of meðvirk með okkar vanhæfu vinstri mönnum, í borgarstjórn og ekki sízt sem innanríkisráðherra með því að semja af sér út í bláinn í flugvallarmálinu. Það er eins gott að hún situr ekki þann ráðherrastól lengur!
En Guð gefi þér og þínum góðan daginn og alla daga, Gústaf.
Jón Valur Jensson, 24.11.2015 kl. 13:24
Kærar þakkir góði Jón fyrir hugsun þína og kristilega kveðju sem vermir inn í hjartarætur og full þörf er á á þessum tíma vaxandi myrkrarafla í heiminum. Hanna Birna Kristjánsdóttir vann hjarta mitt, þegar hún talaði í framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins. Það var áhrifamikil og tilfinningarík ræða. Mér finnst ekki hæfa góðri konu eins og henni að "láta undan" ef það er bara til að halda friðinn. Þá vinnur sá sem frekari er en ekki endilega sá sem hefur meira til síns máls eins og sést svo vel í flugvallarmálinu sem þú nefnir. Kær kveðja og sömu hjartans kveðjur til þín og þinna Jón.
Gústaf Adolf Skúlason, 24.11.2015 kl. 16:27
Jón Valur Jensson, 24.11.2015 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.