Landfræðileg staða Íslands aftur í fókus í átakaferli stórveldanna

UkrainaReykjavíkurbréf Morgunblaðsins 15. ágúst sýnir á einkar skýran hátt, hvernig stjórnkerfið hefur brugðist skyldum sínum við mótun og vinnu sjálfstæðrar utanríkisstefnu Íslendinga. Engu er líkar en að stjórnkerfið hafi farið úr böndunum með hrunstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur enda markvisst unnið að eyðileggingu þess af fyrri ríkisstjórn. Núverandi ríkisstjórn hefur einhverra hluta vegna ekki enn náð að tryggja að nýju haldbær vinnubrögð fyrir sjálfstæða stefnumótun í utanríkismálum Íslands. Vegna þessa "var heldur ekki athugað og kynnt viðeigandi aðilum hvert eðli viðskiptabanns á Rússa er" (Reykjavíkurbréf MBL). Er allt viðskiptabannsmálið hið neyðarlegasta fyrir Íslendinga með mögulegum kostnaði yfir 30 miljarðum króna. Það jákvæða við þessu dýru mistök er, að Íslendingar geta breytt heimatilbúnum forsendum þeirra og lagað stjórnsýsluna að sjálfstæðri stefnumyndun landsins. Mikið hefur áunnist eftir þjóðarbaráttuna gegn Icesave en betur má ef duga skal.

Það sorglegasta í þessu dæmi er sjálf orsökin að hinu gallaða, umdeilda viðskiptabanni Bandaríkjamanna og ESB gagnvart Rússum. Það skiptir engu máli, hvaða rök eru notuð til að réttlæta Rússa, þeir hafa rofið friðarsáttmálann eftir seinni heimsstyrjöldina um að ríki breyti ekki landamærum sínum með hervaldi. Skiptir engu máli, hversu oft Rússar neita að kannast við "grænu mennina" og haldi því fram, að þeir eigi engan þátt í Úkraínustríðinu eða hertöku Krímskagans eða þá að aðrir hafi skotið niður farþegaflugvélina yfir Úkraínu. Sönnunargögnin gegn Rússlandi eru fleiri en nóg og í raun yfirþyrmandi. Gagnvart Úkraínu keyra Rússar með gömul slagorð fósturlandsstríðsins mikla og kalla alla fasista og nazista sem sækjast eftir sjálfstæðri Úkraínu og ríkisstjórn hliðhollari Úkraínumönnum í stað Rússa. Pútín hefur með athöfnum sínum steypt heiminum út í nýtt kallt stríð, sem er stærri ógn við heimsfriðinn en það fyrra og mátti þá stundum muna afar mjóu að ekki yrði úr alvöru stríð.

Fyrir íbúa Eystrarsaltsríkjanna og Finnlands, Svíþjóðar, Noregs, Danmörk, Póllands og annarra nærliggjandi ríkja er stríðsáminningin raunveruleg á hverjum degi. Það er líka skýring á inngöngu fleiri ríkja í Nató og ósk um aukna hernærveru til að vera við því versta búin: árás Rússlands á viðkomandi ríki. Í Rússlandi hefur áróðursmaskína Pútíns kynnt svo undir hræðslu við yfirvofandi kjarnorkuárás Vesturlanda, aðallega Bandaríkjanna, að íbúar ýmissa bæja í Rússlandi senda síðustu kveðjur til skyldmenna ef þeir sjá sérstaka skýjamyndanir á himni sem minna á sveppaský kjarnorkusprengju. 

Spurningin er, hvort Vesturveldin hafi ekki í raun og veru vaknað of seint. Pútín er að byggja upp eina stærstu stríðsvél veraldar og endurnýjar herbúnað allan t.d. með byggingu tíu nýrra kafbáta sem skotið geta kjarnorkusprengjum á hvaða land sem er í heiminum. Einnig á að framleiða 2300 skriðdreka af nýrri gerð sem nýlega var sýnd á hersýningu í Rússlandi. Þar voru nýju skriðdrekarnir látnir "dansa" í opnunaratriði sem samið var af einum meistara Bolshoi ballettsins. Gömlum Mig herþotum hefur verið skipt út fyrir nýjar Stealthþotur og hafa tvær þeirra m.a. æft sprengjuárásir bæði á Stokkhólm og Gotland. Í Kalíngrad hefur verið komið fyrir birgðum meðaldrægra kjarnorkusprengjueldflauga sem margfalt duga fyrir tortímingu Evrópu. Einnig hafa Rússar þróað háþróað loftvarnakerfi á færanlegum vögnum gegn innkomandi eldflaugum og sprengjum. En það er nýjasta vopnið í höndum Rússa, sem setur reynda Nató-hershöfðingja hljóða. Varnarkerfi sem slær út alla möguleika á fjarskiptum og gerir nútíma vopn ónothæf. T.d. er óvíst hvort hin nýja herþota Bandaríkjamanna F-35 hafi neitt að gera gegn hinni nýju tækni Rússanna. Jafnvel þótt Frakkar hafi rift sölusamningi á flugmóðurskipunum tveimur til Rússa og annar herbúnaður stöðvaður til Rússa, er stóra spurningin engu að síður sú, hvort það skipti Rússa nokkru máli úr því sem komið er. Pútín hefur lagt allt sitt undir nýtt herveldi sem honum hefur að hluta til tekist að byggja upp á meðan Vesturlöndin hafa verið sofandi eða ekki viljað sjá, hvað hann hefur haft fyrir stafni.

Hið nýja vopn Rússa hefur verið reynt í Úkraínu og þar slegið út öll tæknileg samskipti Úkraínuhers og eyðilagt samskipti við herbúnað sem styðst við GPS. Að sögn sænska dagblaðsins segir Pelle Ydstebö á norska Varnarmálaskólanum, að Rússar hafi endurnýjað stríðsbúnað sinn á öflugan hátt eftir Georgíustríðið 2008. Hann bendir einnig á að nútíma hertækni og nákvæmisvopn reiði sig á GPS. "Ef þú hefur andstæðing sem getur slegið út GPS sendiboð og þig skortir vörn gegn slíku, þá verður allt ónýtt" segir Ydstebö.

Það er einkum hið nýja vopnakerfi "Borisoglebsk 2" sem leitar uppi sambönd við gervihnetti og símasamskipti og stöðvar slík samskipti, sem sýnir hversu langt Rússar eru komnir í vopnaþróuninni. Þetta vopn hafa Rússar notað í Úkraínu með svo góðum árangri, að Úkraínuherinn hefur látið herþotur sínar vera á jörðinni, þar sem þær reynast gagnlausar.

Það er ofurtrú á möguleikum embættismanna á Íslandi t.d. forsetans og utanríkisráðherrans að halda, að þeir geti breytt útspilum stórveldanna í átökum sín á milli. Eina þýðingin sem Ísland hefur er landfræðileg staða landsins og mun sá aðili sem hefur möguleika á að notast við Ísland í baráttunni um norðurslóðir njóta þeirrar stöðu.  

Íslendingar verða sem fyrr að miða sína utanríkisstefnu við hagsmuni landsmanna byggða á þeirri staðreynd að landið er herlaust og auðveldur biti fyrir næstum því hvaða herveldi sem er. Það er sjálfsögð krafa, að embættismenn vinni sína heimavinnu og móti stefnu byggða á staðreyndum mála og ætti landið að forðast í lengstu lög að verða að einhverju bitbeini í stórveldaátökunum eins og nú hefur orðið með viðskiptabanni stórveldanna.

Það góða í málinu er að vonandi verður umræðan til þess, að ríkisstjórnin taki af skarið á þessu sviði eins og hún hefur gert í öðrum málum t.d. gert varðandi skuldaleiðréttingu heimilanna. Annars verður eins og höfundur Reykjavíkurbréfs skrifar "eins gott að henda þessum 35 miljörðum króna í hafið án frekari viðhafnar." 


mbl.is Mikið misræmi í áhrifum refsiaðgerða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Á sama tíma og Rússar eru búnir að vera að stórefla herafla sinn og bæta tól sín og búnað, hefur Obama rekið um 2000 reynda hershöfðingja, menn sem eru vel að sér í allri herkænsku, menn sem lesa í aðstæður, sjá hættuna löngu áður en stjórnmálamenn gera sér grein fyrir.  Obama hefur verið, leynt og ljóst, að leggja herafla Bandaríkjanna í rúst.  Þeir eru ekki tilbúnir að mæta þeirri ógn sem af Rússum stafar og hefðu ekkert í þá að segja komi til átaka þeirra í milli.

Tómas Ibsen Halldórsson, 16.8.2015 kl. 16:01

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Tómas, þakkir fyrir athugasemd. Einn vinur í Chicago sagði við mig í vor, að eina afrek Obama væri að hafa orðið fyrsti litaði Bandaríkjaforsetinn. Þar með væri afrekaskrá hans upp talin og engu gleymt. Ég játa, að ég á ekkert sérlega auðvelt með að reyna að halda uppi vörnum fyrir Obama - ástandið bæði heima fyrir í USA og t.d. í Miðausturlöndum sýnir, hvað maðurinn er að gera. Alfred Nóbel hefur sjálfsagt snúist nokkra hringi í gröfinni vegna friðarverðlaunanna til Obama og ESB. Kkv.

Gústaf Adolf Skúlason, 16.8.2015 kl. 18:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband