Með Pútín verður föstudagur alla daga

putin3Stundum eru mál það mikilvæg, að það sem skrifað er á föstudegi stendur gjarnan daginn eftir sem og aðra daga. Þannig er það með grein Björns Bjarnasonar um Rússaviðskipti, sem birtist í miðopnu Morgunblaðsins á föstudegi og var endurtekin á laugardegi alla vega í netupplagi blaðsins. Stundum ber svo við, að mál verða svo yfirþyrmileg að dagarnir allir, mánuðir og jafnvel heilu árin fara í að breyta stöðunni svo venjulegir vikudagar hverfa allir í eitt mál og önnur bíða á meðan. Þannig er það með styrjaldir og er hið nýja kalda stríð engin undantekning. Pútín hefur stolið friðardögum heimsins og sýnir alla tilburði til að þróa hið nýja kalda stríð yfir í stórstyrjöld. 

Morgunblaðið hefur áður vakið athygli fyrir nýstárlegar aðferðir, t.d. þegar blaðið skipti endum, sem bar með sér boðskapinn "í uppahafi skal endirinn skoðaður". Passar það framar öllu við starfsstíl opinberra embættismanna, sem til þess eru kosnir að fara með stefnu Íslendinga í utanríkis- sem og öðrum málum að gera áhættugreiningu áður en ákvörðun er tekin. Bæði Björn Bjarnason og Morgunblaðið vekja athygli á skorti á minnisblöðum, sem sýnir að lítið sjálfstætt mat á eðli viðskiptabanns Bandaríkjamanna og ESB við Rússa og þróun þess hafi átt sér stað. Skal Morgunblaðið hafa þakkir fyrir hafa riðið á vaðið einn íslenskra fjölmiðla með skilgreiningu á viðskiptabanninu og einfaldri samlíkingu við teygjubyssuframleiðslu, sem varpar skýru ljósi á eðli þess. Björn Bjarnason segir í grein sinni föstudaginn 21. ágúst, sem endurtekin var laugardaginn 22. ágúst, að "Viðskiptaþvinganir ESB/EES-ríkjanna sem boðaðar voru eftir innlimun Krímskaga snérust um þáttöku Rússa í G8-samstarfinu, ferðabann á nokkra tugi lykilmanna í Rússlandi, bann við nánar skilgreindum fjármálasamskiptum og sölu á vopnabúnaði til Rússlands. Allt er þetta utan við hefðbundin viðskipti Íslendinga og Rússa." 

Það eru Rússar, sem eru að beita Íslandi viðskiptaþvingunum til að hafa áhrif á Íslendinga og rjúfa samstöðu þeirra með lýðræðislegum öflum sem sætta sig ekki við rof Pútíns á heimsfriðinum. Er Rússum eflaust skemmt að sjá vel heppnaða aðgerð gegn Íslandi sem leiðir til náðarbónar forseta Íslands fyrir makrílútflytjendur við sendiherra Rússa. Það eru að sjálfsögðu Rússar en ekki Íslendingar sem ákveða, hvort matvæli skulu flutt inn til Rússlands. Viðskiptabannið gagnvart Rússum er eins og Morgunblaðið og Björn Bjarnason benda á "utanvið hefðbundin viðskipti Íslendinga og Rússa" og því eru Rússar hér einungis að sýna mátt sinn og marka skref í baráttunni um Norðurslóðir.

Það er mjög gott að þessi umræða á sér stað. Við þurfum að hjálpa embættismönnum okkar að hafa fæturna á jörðinni. Vonandi verða vinnubrögðin endurskoðuð svo stjórnsýslan verði virkari og við komumst í framtíðinni hjá neyðarlegum eftiráviðbrögðum sem ekki leysa eitt eða neitt. 

Eðli málsins krefst þess. Burtséð frá hættunni á að stórstyrjöld brjótist út, þá verða Íslendingar að hafa á hreinu, hvernig hagsmunum landsins skuli stýrt. Það er svo miklu meira sem hægt er að fleygja í hafið en 35 makrílmiljörðum. Ungu forystumennirnir okkar Sigmundur Davið Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hafa á skömmum tíma náð góðum árangri á sviði ríkisfjármála og eru nú að sjóast sem forystumenn í þjóðmálum. Ég trúi ekki öðru en að ríkisstjórnin taki á utanríkismálunum með festu eftir þetta og þá mun makrílmissirinn þrátt fyrir allt koma einhverju góðu til leiðar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband