Heimsvaldakeisarinn ekki af baki dottinn. Plan C - ný stórstyrjöld
8.11.2014 | 12:41
Pútín heldur áfram að stækka landamæri Rússlands, þrátt fyrir "friðarsamning" við Úkraínu. Skv. samhljóma fréttum fleiri óháðra fréttamiðla í gær keyrði herdeild rússneska hersins með 32 skriðdreka, flutningabíla með þungum vopnum, færanlegar radarstöðvar m.fl. inn í Úkraínu í átt til Lúhansk og Dónetsk.
Kemur innrásin í kjölfar kosningafarsa í sjálfútnefndu alþýðulýðveldunum Dónetsk og Lúhansk. Munstrið er hið sama og á Krímskaga, þegar Rússar réðust inn og hertóku skagann eftir s.k. kosningar, þar sem lýst var yfir að Krím ætti að sameinast Rússlandi. Í þetta sinn er ekki verið að fela, að rússneskir hermenn eru á ferðinni.
Kosningarnar í Lúhansk og Dónetsk voru endemisfarsi og skv. fréttaritara sænska sjónvarpsins á staðnum gátu menn farið milli kjörstaða og kosið mörgum sinnum án þess að þurfa sýna nokkur skilríki. Fékk fréttaritarinn Elín Jönsson hríðskotabyssu í andlitið þegar hún spurðist fyrir og varð að hverfa á braut. Kjörstaðirnir voru leikhús heimsvaldakeisarans undir vopnaðri gæslu hermanna.
Friðurinn í Úkraínu er enginn friður. Aðeins pása á meðan Rússar undirbúa enn eina nýja herferðina.
NATO hefur aukið herafla á austurslóð og búast má við mikilli spennuaukningu, þegar Rússar hefja á nýju sókn að markmiði sínu sem er að innlima a.m.k. austurhluta Úkraínu í Rússland.
Helstu stuðningsmenn Evrópusambandsins, sem vilja eitt ríki meginlandsins, stendur stuggur af uppgangi Pútíns og nota ástandið óspart til að egna till enn frekara hervæðingar til að fara í "úrslitastríðið" við Rússland. Fjármálamaðurinn George Soros skrifaði nýverið greinina Vaknið, Evrópa, þar sem hann skilgreinir ástandið þannig, að hvorki stjórnmálamenn né almenningur gerði sér grein fyrir hættunni sem stafaði frá Pútín. Telur Soros að líf allrar Evrópu liggi undir. Telur hann sveigjanleika Rússlands langt umfram getu Evrópusambandsins sem sé stirt og seint í snúningum. Telur Soros að sjálfstæð Úkraína sé lykillinn að framtíðinni, því gjaldþrota Úkraína í bitum, sem Rússar réðu a.m.k að hluta til yfir þýddi svo stórt skarð í efnahag og varnir Vesturlanda að bæði ESB og Bandaríkin gætu ekki lengur forðast að grípa til vopna gegn Rússum. Hvetur Soros ESB til sjálfsgagnrýni og segir að ESB bjargi sjálfu sér með því að bjarga Úkraínu.
Þessi tónn heyrist víða að frá stuðningsmönnum sambandsins um þessar mundir. Látið er líta svo út að ESB sé friðarsamband og saga Evrópu sé sagan um friðartíma sambandsins. Sleppt er þá að minnast á NATO og bandalag þjóða í stríði gegn Hitler og Stalín. Nú er Pútín notaður sem ógn til að ganga með í ESB og taka upp evruna og eru Ísland, Noregur, Sviss og Lichtenstein á skrá yfir lönd sem ESB hyggst innlima.
Heimsvaldastefna burtséð frá þeim sem framkvæmir hana, þarf óvini til eigin réttlætingar. Að þessu leyti er heimurinn kominn í tíma myrkurs þar sem plan C er ný stórstyrjöld.
Meginflokkur: Evrópumál | Aukaflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 13:01 | Facebook
Athugasemdir
Rússar leika sér að eldinum í skjóli andvaraleysis Vesturlanda. Bandaríkin, og þar með Vesturlönd, eru forystulaus. Evrópa er getulaus. Auðvitað ganga Rússar á lagið. Eina vonin er, að rússneska stjórnin hrynji, því að efnahagur Rússlands veikist nú hratt. Slíku er ekki hægt að bæta úr með því að senda skriðdreka inn í gjaldþrota land.
Bjarni Jónsson, 8.11.2014 kl. 13:58
Enga trú hef ég á því, að ný stórstyrjöld með þátttöku NATO, Bandaríkjanna og Evrópusambandsins dynji yfir Evrópu í bráð, a.m.k. ekki viljandi (en slys gætu átt sér stað). Ég er ósammála George Soros í því áliti hans "að sjálfstæð Úkraína sé lykillinn að framtíðinni, því gjaldþrota Úkraína í bitum, sem Rússar réðu a.m.k að hluta til yfir þýddi svo stórt skarð í efnahag og varnir Vesturlanda að bæði ESB og Bandaríkin gætu ekki lengur forðast að grípa til vopna gegn Rússum." Þetta hljómar of mikið sem nauðhyggja – menn hafa nú meiri gát á sjálfum sér en svo, að þeir ani út í stórstyrjöld gegn kjarnorkuveldi.
En ef aðskilnaðarsinnar í Úkraínu hefðu viljað hafa trygg áhrif kosninga, hefðu þeir átt að fara að eðlilegum leikreglum og bjóða líka ÖSE að senda inn eftirlitsmenn á kjörstaði og við talningu. Nú er ekkert á ljósu um heildarafstöðu fólksins.
Jón Valur Jensson, 8.11.2014 kl. 15:15
Sælir og þakkir fyrir athugasemdir. George Soros telur árásir Rússa á Úkraínu vera óbeinar árásir á Evrópusambandið og stjórnargrundvöll þess. Hann telur framtíð NATO og ESB vera í hættu. Soros telur efnahagsþvinganir bitlausar og slæmar, þar sem þær slá til baka t.d. á útflutning Þýzkalands. Hann vill "vekja" þjóðir ESB til að skilja að þær séu undir ásásum Rússa og að betra sé að vopna Úkraínu í stríðinu en beita efnahagsþvingunum. George Soros vill "eyða" mismuni milli efnahagsþvingana og beinna stríðsátaka. Ég túlka þetta sem að Soros segi að eina leiðin fram á við fyrir ESB er að hervæðast og taka stríðið við Rússa í Úkraínu. Soros hefur efnahagslegra hagsmuna að gæta og hann talar um, að búrókratar ESB hafi ekki einkarétt á ástandinu (=efnahagsþvingunum). Ég túlka það sem möguleika þess, að hann fjármagni her til að skerast í leikinn, þótt hann sjálfur sé á bak við tjöldin. Það þarf þá ekki mikið að bera út af til að af stórstyrjöld verði og NATO og ESB neyðist til að taka þátt.
Gústaf Adolf Skúlason, 8.11.2014 kl. 15:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.