Versta hrinan vonandi yfirstaðin

tmp394462893216628738_1202659.jpgUmfangsmiklar skemmdir hafa orðið í ólátum síðustu fimm nætur í úthverfum Stokkhólmsborgar. Sænska dagbladet birtir í dag kort með helstu atburðum og eru þeir nýjustu merktir rauðu en eldri með gulu. Dreifing atburða sýnir að ástæðan sem sögð var í upphafi látanna, þegar lögreglan skaut á vopnaðan mann, sem hafði ógnað íbúum Husby og lokaði sig inni í íbúð með konu með þeim afleiðingum að maðurinn dó, hefur ekkert með skrílslætin að gera. Konunni var bjargað. Einn ungmennanna í óeirðunum sagði í viðtali við fjölmiðla að enginn þáttakandi í skrílslátunum væri neitt að hugsa um manninn sem dó. Sá atburður hefði einungis verið notaður til að æsa til ólátanna.

Hátt atvinnuleysi ungmenna er heldur ekki einhlít skýring, því þá ættu svipaðar óeirðir að hafa brotist út í ýmsum bæjum í Norður-Svíþjóð, sem hafa nær lagst í eyði og íbúarnir fluttir til stórborganna. Aftonbladet tók í vikunni viðtal við tvo unga menn í Husby, sem vissu hverjir áttu upphafið að ólátunum þar og lýstu þeim sem ungum mönnum, sem kenna samfélaginu um allt, neita að taka vinnu þegar hún býðst og velja líf á félagsbótum og í einangrun.

"Þeir spyrja aldrei sjálfan sig, þegar þeir líta í spegilinn, hvað get ég gert til að betrumbæta líf mitt," sagði annar þeirra. Annar ungur maður sagði í viðtali, að hann sæji mikið eftir því að hafa tekið þátt í ólátunum:

"Ég og vinir mínir fórum til að sjá, hvað væri að gerast. Svo fóru vinir mínir heim en ég varð eftir og byrjaði að kasta grjóti. Ég var tekinn af lögreglunni og verð líklega dæmdur fyrir ofbeldi gegn lögreglumönnum og morðíkveikju. Mig dreymdi um að verða slökkviliðsmaður, það get ég ekki orðið núna."

Lögregla breytti um aðferð, þegar hún komst að því, að hún var plötuð með bílaíkveikjum og setið fyrir henni í launsátri af hópi unglinga, sem kastaði steinum í hana. Lögreglan leggur höfuðáherslu að finna upphafsmenn ólátanna, sem dregið hafa með sér unglinga allt niður í 12 ára aldur.

Alexandra Pascalidou skrifaði í grein í Dagens Nyheter í vikunni, að ungir drengir utan við samfélagið "sem ekki sæju möguleika á því að keppa um að vera bestir í góðum málum kepptu í staðinn um að verða bestir í slæmum málum." Margt ungmenna réttlætir aðgerðirnar með þeirri geysimiklu fjölmiðlaeftirtekt, sem þau hafa fengið fyrir ólætin: "Áður þegar við beittum friðsamlegum aðgerðum sá okkur enginn en lítið bara á núna, meira að segja heimspressan kemur hingað til litla Husby."

Mikið af bakgrunninum er sem sagt athyglisþörf ungra drengja, sem margir eru ráðvilltir en ljóst er engu að síður, að öfgaöfl reyna að spila á neikvæðar tilfinningar og æsa upp til óeirða gegn "ríkinu."

Forsætisráðherra Svíþjóðar Fredrik Reinfeldt sagði skýrt og skorinort, þegar hann svaraði gagnrýni Sverigedemókratanna og Sósíaldemókratanna, sem reyndu að slá pólitískar keilur í málinu og gera það að sérstöku innflytjendavandamáli, að hann myndi ekki gera flokkspólitík úr ástandinu. "Við hliðina á ofbeldissinnunum er fólk með nákvæmlega sama bakgrunn í sömu stöðu, sem hvorki kastar steinum né brennir bíla."

Í Dagens Nyheter sagði blaðakonan Jessica Ritzén: "Af 12 þúsund íbúum Husby kasta ekki 11975 steinum í lögreglu eða slökkviliðsmenn."

Skaðinn beinist fremst að íbúum svæðanna sjálfra, sem missa bíla, skóla fyrir börnin og kaupmiðstöðvar/neðanjarðarlestarstöðvar með brotnum rúðum. Tryggingafélögin hafa varað við hækkandi iðgjöldum í kjölfar óeirðanna. Lögreglan í Stokkhólmi hefur beðið um varalið frá lögreglu landsins: "Við ætlum ekki að taka okkur frí, þótt það sé komin helgi." Lögreglan hefur fengið mikið af blómum, þakkarbréfum og jafnvel tertum frá íbúum Stokkhólms og margir innflytjendur hafa lýst reiði sinni yfir skemmdunum.

Bæði bandaríska og breska sendiráðið hafa sent út viðvörun til ríkisborgara sinna og varað við að vistast í úthverfum Stokkhólms að kvöldi til og halda sér frá mannfylkingum. 

Slökkviliðsmaðurinn Mattias Lassén er orðin þjóðfrægur eftir að hann fékk stein í hjálminn, sem brotnaði, þegar 20 til 30 unglingar köstuðu grjóti á slökkviliðsmenn. Þegar hann kom heim skrifaði hann eftirfarandi bréf sem farið hefur sem eldur í sinu á fésbókinni:

"Af hverju gerið þið þetta á móti mér?
Ég er hér ef pabbi þinn þarfnast hjálpar, ef hann lendir í árekstri á bílnum sínum, ég hjálpa systur þinni ef það byrjar að loga í eldhúsinu hennar. Ég syndi í ísköldu vatni til að hjálpa litla bróður þínum ef hann dettur úr báti út í vatnið, jafnvel þótt það sé ískallt. Ég hjálpa ömmu þinni ef hún fær hjartaáfall og ég mun einnig hjálpa ÞÉR ef ísinn brestur einn sólardag í mars. Af hverju ert þú að gera mér þetta? Ég á líka fjölskyldu, sem vill fá mig heim aftur, alveg eins og þú."

Þessi sjón mætti mér á fimmtudagsmorgni á bílastæðinu. Minn bíll kláraði sig óskemmdur. Ég bý í Sollentuna, næsta granna við Kista og Husby.

575683_10151476128947725_352900869_n.jpg969731_10151476129102725_897929653_n.jpg


mbl.is Enn loga úthverfi Stokkhólms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Heill og sæll Gústaf Adolf; æfinlega !

Hætt er við; að Svíar séu ekki, nándar nærri enn, búnir að bíta úr nálinni, með þennan Steinaldar lýð, sem þeir eru nú að kljást við, fornvinur góður.

Undirokaðir; af undirlægju skálftanum gagnvart Merkel kerlingunni / og Berlínar - Brussel öxli hennar, þora þeir varla, að taka á sínum málum, eins og þeim er þó brýnast, eigi ekki verr að fara, Gústaf.

Með beztu kveðjum; sem jafnan /

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 24.5.2013 kl. 21:24

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Óskar, lögreglan er búin að greina þrjá hópa að baki uppþotunum: Þekkta glæpamenn úr sögu lögreglunnar, vinstri anarkista/aktívista, sem skipuleggja steinkast m.a. með því að fara á undan á staðina og brjóta upp götusteina svo og villuráfandi ungmenni, sem láta tæla sig af glæpamönnum og gerast nú brotleg í fyrsta skipti. Ólætin héldu áfram en ekki í sama mæli í Stokkhólmi í dag og einnig í Örebro og Linköping.

Gústaf Adolf Skúlason, 25.5.2013 kl. 09:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband