Áskorun um formleg aðlögunarslit við ESB
22.5.2013 | 13:28
39 einstaklingar (ég er einn af þeim) haf sent áskorun til væntanlegrar ríkisstjórnar að binda endi á aðlögunarferli Íslands að ESB með formlegum hætti:
Reykjavík, 22. maí 2013
Við undirrituð skorum á ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks að binda enda á frekari aðlögun Íslands að Evrópusambandinu með formlegum hætti og standa þannig við síðustu landsfundarályktanir um stefnu flokkanna í utanríkismálum.
Greinargerð:
Eitt þeirra atriða sem má lesa út úr niðurstöðu nýafstaðinna alþingiskosninga, þar sem 51,1% kjósenda greiddu núverandi ríkisstjórnarflokkum atkvæði sitt, eru skýr skilaboð um aðrar málefnaáherslur en fyrrverandi ríkisstjórnar; m.a. varðandi Evrópusambandsaðild.
Evrópusambandið glímir sjálft við gjaldmiðils- og skuldaskreppu sem ekki er séð fyrir endann á. Í þessu sambandi er vert að draga það fram að fyrrverandi fjármálaráðherrar bæði Bretlands og Þýskalands, sem mæltu með og stuðluðu að aðild landa sinna að Evrópusambandinu á sínum tíma, hafa lýst yfir þungum áhyggjum af stefnu ESB og þeirri áherslu sem sambandið leggur á viðhald evrunnar.
Nigel Lawson, fyrrverandi fjármálaráðherra Breta, staðhæfir að efnahag Bretlands sé betur komið utan ESB auk þess sem útganga úr sambandinu muni hafa jákvæðar afleiðingar innanlands í lýðræðisátt. Oskar Lafontaine, fyrrverandi fjármálaráðhera Þýskalands, gengur sínu lengra þar sem hann hefur hvatt til þess að evrusamstarfið verði leyst upp til að forða frekari efnahags- og samfélagshörmungum ýmissa ríkja Suður Evrópu (sjá hér).
Afstaða fyrrverandi fjármálaráðherra er í fullu samræmi við viðvörun Yves Daccord, framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs Rauða krossins, frá upphafi ársins. Í viðtali við danska blaðiðPolitiken varaði hann við vaxandi fátækt í löndum Suður- og Austur-Evrópu vegna efnahags-kreppunnar (sjá hér). Með orðum sínum staðfestir Oskar Lafontaine ekki aðeins það sem kemur fram hjá framkvæmdastjóra Alþjóðaráðs Rauða krossins heldur dregur hann myntbandalagið fram sem orsakavald.
Aðlögunarferli Íslands að Evrópusambandinu hefur dregið dýrmætan tíma, fjármuni og orku fráfarandi stjórnvalda frá brýnni verkefnum. Nú er tækifæri til að snúa þessu við með því að binda endi á aðlögunina og byggja upp samstöðu um uppbyggingu fullvalda ríkis sem tekur sjálfstæðar ákvarðanir um grundvallarmálefni eins og efnahagsmál og milliríkjaviðskipti.
Undirskriftir:
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.