Landsfundur Sjálfstæðismanna lofar góðu
22.2.2013 | 22:18
Engir aðrir stjórnmálaflokkar geta státað af sama styrk og Landsfundur Sjálfstæðisflokksins gerir. Kemst Framsóknarflokkurinn næst Sjálfstæðisflokknum í vegsemd og virðingu og enginn flokkur fram að þessu jafn heill í afstöðu sinni til Evrópumála og Framsóknarflokkurinn hefur verið. Það fór því afar vel í upphafi Landsfundar Sjálfstæðisflokksins, að formaður flokksins Bjarni Benediktsson tók af allan vafa um grundvöll flokksins í þeim málum með yfirlýsingu um að Sjálfstæðisflokkurinn telji hagsmunum þjóðarinnar best borgið utan ESB. Þar með eru tveir þýðingarmestu stjórnmálaflokkarnir í íslenskum stjórnmálum samhentir í forsvari kjósenda sinna og landsmanna allra að marka nýja framsókn Íslands á sjálfstæðum grundvelli lýðveldisins, sem stofnað var og grundvöllur lagður að með núverandi stjórnarskrá á Þingvöllum 17. júní 1944.
Bjarni Benediktsson tók einnig af allan vafa um, að Sjálfstæðisflokkurinn hugsi um annað en íslensku krónuna sem gjaldmiðil okkar í nánustu framtíð. Þetta eru afar mikilvæg skilaboð frá stærsta flokki þjóðarinnar og ættu að lægja áróðursöldur frá aðildarsinnum og yfirborðskenndum og veruleikafirrtum áróðri þeirra um að evran "leysi" efnahagsmál Íslendinga. Það er bæði þökkunarefni og ánægjuefni, að stærstu stjórnmálaöfl landsins stilli saman strengi sína til að takast á við komandi verkefni að rífa landið upp úr volæðiseymd vinstri vofunnar, sem hótað hefur allt að því "heimsendi" á eyju okkar, ef landsmenn krjúpi ekki á hnjánum inn fyrir dyr ESB sem með réttu ætti að heita Eilífa SkuldaBandalagið.
Sjómenn, bændur og annað harðduglegt verðmætaskapandi fólk er kjarni þjóðarinnar og mjög svo treystandi fyrir málefnum okkar eins og ítrekað hefur komið í ljós s.l. fjögur ár. Skessutímabili Samfylkingar gegn Íslandi fer nú að ljúka og þjóðin mun endurheimta sjálfstraust og trú á eigin mátt og framtíð eins og fyrr. Verður gott að fylgjast með Landsfundi Sjálfstæðismanna þessa helgi, stjórnmálaákvörðunum fundarins og kjöri foringja flokksins.
Ég óska Sjálfstæðismönnum alls heilla í þýðingarmiklu starfi fyrir Ísland og betra kjörorð hefði ekki verið hægt að velja í núverandi ástandi en kjörorðið: Í þágu heimilanna. Tek undir ósk ýmissa fundargesta að hafa íslenska fánann á sviðinu svo fallegi fáninn okkar megi minna á hagsmuni þjóðarinnar á örlagatímum. Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur allra landsmanna sem vinna saman hlið við hlið úr öllum stéttum samfélagsins og marka sameiginlegum málum okkar brautargengi.
Best borgið utan Evrópusambandsins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Dægurmál, Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:29 | Facebook
Athugasemdir
Góður punktur áminningin um fánann,hef svo oft óskað þess að sjá hann blakta á hverju húsi á fullveldis og þjóðhátíðardegi okkar.
Helga Kristjánsdóttir, 23.2.2013 kl. 01:17
Gústav Adolf þetta er kjarnyrt grein hjá þér en þú sneyðir framhjá skömm þessarra tveggja flokka og sérstaklega Sjálfstæðisflokksins.
EINOKUN Í ÁTVINNULÍFINU! Hvernig geta sjálfstæðismenn látið það viðgangast að flokkurinn sé í heljagreipum græðgis afla kvótans sem búin er að valda hruni efnahagskerfisins einu sinni og mun sannarlega gera það aftur verði haldið áfram með þessa endaleysu.
Ólafur Örn Jónsson, 23.2.2013 kl. 01:55
Takk Helga, fyllilega sammála.
Það er merkilegt að sjá þann áróður að kenna mestu útflutningsverðmætasköpurum þjóðarinnar um hrun efnahagskerfisins. Gerir Ólafur Örn Jónsson engan greinarmun á hagnaði við verðmætasköpun og bankaráni frömdu innan frá? Skildi ekki Jón Ásgeir Jóhannesson eftir sig ca 1000 miljarða kr skuldir í þrotabúi Kaupþings og Baugs? Án hinna duglegu sjávarútvegsfyrirtækja okkar hefði kreppan lent af miklu meiri þunga á landsmönnum en raunin varð og þykir öllum nóg um samt.
Góðir peningar verða til í framleiðslu til viðskiptavina, vondir innistæðulausir peningar verða til í píramídaspili fjárglæframanna. Það er því að snúa öllu á haus að kenna framleiðendum um svik féflétta, sem allflestir ættu að manna fangelsin, ef fullu réttlæti væri fylgt eftir að mínu mati. Skömm Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna með báðar fætur í raunefnahagskerfinu er því engin en skömm Samfylkingar og VG er hins vegar stór, sem stutt hafa fjárglæframenn með ráðum og dáðum að setja þjóðina í skuldabönd og vinna nú að daglegri skuldaþrælkun heillar kynslóðar ungra Íslendinga.
Öðrum flokksbrotabrotum líki ég við þaraslitur í fjöruborði, sem eina sekúndu kastast til hægri, þá næstu til vinstri og sogast svo alfarið burtu í næstu öldu.
Gústaf Adolf Skúlason, 23.2.2013 kl. 07:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.