"Það versta á eftir að koma." Leggja til að samkeppnishæfari löndin yfirgefi evruna.
25.1.2013 | 16:50
Í gær héldu hugveiturnar Open Europe og New Direction athyglisverðan fund í Brussel þar sem samstöðustefnuyfirlýsing fyrir Evrópu var undirrituð af framámönnum og sérfræðingum. Þar er lagt til að evrusvæðinu verði skipt á skipulegan hátt og löndin í suðri skilin eftir með evruna, sem hægt væri þá að gengisfella. Án slíks möguleika er spáð a.m.k. 10 ára versnandi kreppu á evrusvæðinu. Þeir sem settu nöfn sín á skjalið eru m.a. fyrri fjármálaráðherra Póllands Stefan Kawalec, fyrri forseta iðnaðarsamtaka Þýskalands Hans-Olaf Henkel, fyrri yfirhagfræðingur Evrópska Fjárfestingarbankans Alfred Steinherr, hagfræðiprófessor Brigitte Granville og fyrri yfirmaður Ítalíudeildar Deutsche Bank. Þau ásamt fleirum sérfræðingum skrifuðu undir skjalið "Stefnuyfirlýsing um samstöðu Evrópu" þar sem lagt er til að evrusvæðinu verði "skipulega skipt upp" og evran verði einungis notuð í löndunum Suður-Evrópu svo hægt sé að gjaldfella hana og koma þannig verst settu evruríkjunum til hjálpar. Fyrrum forseti Iðnaðarsamtaka Þýzkalands sagði "Við trúum því, að það versta sé eftir." Hann meinar, að verði ekki gripið til aðgerða til að fá hjólin að snúast í verst settu evruríkjunum muni það hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir Evrópu alla, sem halda mun áfram að hrapa í hyldýpið í heiminum.
Hér fyrir neðan er stefnuyfirlýsingin í lausri þýðingu.
"Samstaða Evrópu gegn kreppu evrusvæðisins
Skipulögð uppskipting evrusvæðisins til að varðveita mikilvægasta árangur af sameiningu Evrópu
Kreppa evrusvæðisins grefur undan tilveru Evrópusambandsins og sameiginlega markaðsins.
Myndun Evrópusambandsins og sameiginlega markaðsins er einn veigamesti árangur á sviði stjórnmála og efnahagsmála í Evrópu eftir stríð. Þessi góði árangur af sameiningu Evrópu er afleiðing þess fyrirmyndarsamstarfs sem gagnaði öllum aðildarríkjum en ógnaði engu.
Reiknað var með að evran yrði annað mikilvægt skref á vegferð betri velferðar í Evrópu. Þess í stað hefur evrusvæðið í núverandi mynd breyst í alvarlega ógnun gegn sameiningu Evrópu. Lönd evrusvæðisins í suðri eru föst í gildru efnahagslægðar og geta ekki endurheimt samkeppnisstöðu sína með gengisfellingu. Löndin í norðri eru á hinn bóginn beðin um að gefa eftir fjármálaleg gildi og virka sem "djúpir vasar" sem endalaust er hægt að ganga í og sækja fjármagn til björgunaraðgerða suðurríkjanna. Þessi staða felur í sér áhættu á þjóðfélagslegum átökum í Suður-Evrópu og grefur djúpt undan stuðningi almennings við sameiningu Evrópu í löndum Norður-Evrópu. Í stað þess að styrkja Evrópu skapar evran sundrungu og átök sem grafa undan Evrópusambandinu sjálfu og hinum sameiginlega markaði.
Skoðun okkar er að sú stefna, sem best tryggir björgun Evrópusambandsins og verðmætan árangur af sameiningu Evrópu, er skipulögð uppskipting evrusvæðisins með sameiginlegri ákvörðun um útgöngu samkeppnishæfustu þjóðanna. Evran verður þá eftir - um stundarsakir - sem sameiginlegur gjaldmiðill þjóða með minni samkeppnishæfni. Þetta myndi óhjákvæmilega þýða afturhvarf til þjóðlegra gjaldmiðla eða ólíkra gjaldmiðla þeirra ríkjahópa, sem eru í efnahagssamstarfi.
Þessi lausn yrði tákn um samstöðu í Evrópu. Veikari evra myndi auka samkeppnisstöðu landanna í Suður-Evrópu og hjálpa þeim að flýja frá efnahagslægðinni og endurreisa efnahagsvöxt. Það drægi einnig úr hættu á bankaáhlaupi og hruni bankakerfis i löndum Suður-Evrópu, sem óhjákvæmilega yrði reyndin ef löndin neyddust til að yfirgefa evrusvæðið eða myndu ákveða að gera það vegna þrýstings almennings heima fyrir áður en samkeppnishæfustu löndin gengju út úr evrusvæðinu.
Samstaða Evrópu yrði betrumbætt með samkomulagi um nýtt gjaldmiðilskerfi í Evrópu í því skyni að koma í veg bæði fyrir gjaldmiðlastríð og gjaldmiðlasveiflur milli landa í Evrópu.
Það er augljóst að afskrifa verður skuldir (haircut) a.m.k. í nokkrum löndum í suðri. Stærð slíkra afskrifta og kostnaður skuldareigenda yrði samt minni en ef löndin verða áfram á evrusvæðinu og efnahagur þeirra þjáist af efnahagslægð og miklu atvinnuleysi. Þessi leið þýðir ekki að samkeppnishæfustu löndin beri ekki kostnaðinn við skuldaminnkun kreppulandanna. Það mun gerast en slík aðstoð hjálpar ríkjunum að koma efnahagsvexti í gang í stað núverandi björgunaraðgerða, sem skila okkur ekkert áfram.
Hvers vegna er þessi leið svo mikilvæg?
Það er næstum óþarfi að benda á það en það eru hagsmunir okkar allra, að Evrópusambandið hefji hagvöxt á nýjan leik, sem er besta tryggingin fyrir stöðuleika og velferð í Evrópu. Leið skipulagðrar uppskiptingu evrusvæðisins gerir þann árangur mögulegan á stytstan máta."
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag, Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 17:08 | Facebook
Athugasemdir
Þetta hljómar sem fremur skynsamleg leið úr því sem komið er. Það virðist vera að evran, eins og hún er í dag, eigi enga framtíð og að allar mögulegar leiðir til að halda öllum þeim núverandi ríkjum innan myntsamstarfsins séu dauðadæmdar til lengri tíma litið.
Flowell (IP-tala skráð) 26.1.2013 kl. 10:32
Þetta er sú leið, sem ýmsir vilja fara, að skipta upp evrusvæðinu áður en allt fer í bál og brand. Mér fannst þetta athyglisvert, því það gefur til kynna á hvaða nótum umræðan er á meginlandinu, sem hægt er að bera saman við umræðuna á Íslandi og lofsöng aðildarsinna um ágæti evrunnar. Hins vegar er ég ekki bjartsýnn á að þessi leið verði farin, því ég tel málin vera komin of langt til að "skipuleg" skipting sé framkvæmanleg. Það sést best af viðbrögðum ráðamanna ESB við lýðræðisákalli forsætisráðherra Breta, David Cameron. Eins og í Icesave gegn Íslendingum, sem sagðir voru "hlaupa frá nótunni" eru Bretar lagðir í einelti sem gráðugur eiginhagsmunaseggir, sem bara vilja plokka rúsínuna úr kökunni. Sem er alfarið rangt.
Gústaf Adolf Skúlason, 27.1.2013 kl. 12:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.