Farsælt komandi ár með betri tíð og blóm í haga fyrir Ísland

julistockh

Þessi fallega mynd er tekin af jólaskreytingu á Sergels torg í hjarta Stokkhólmsborgar. Jólaskreytingarnar setja mikinn svip á miðbæinn og auka gleði vegfarenda.

Ég óska öllum landsmönnum Farsæls komandi árs og þakka Morgunblaðinu fyrir gott og málefnalegt blað á árinu, sem er að líða. Ég hef verið að prófa bloggið hér og eignast nokkra góða bloggvini. Lifandi umræða er frískleikamerki, þótt umræðustíllinn sé ekki alltaf fullkominn í bloggheimum. Þá eru síður Morgunblaðsins betri og áhrifameiri og full ástæða til að gleðjast með lesendum blaðsins yfir aldarafmæli Morgunblaðsins 2. nóvember n.k. Morgunblaðinu hefur tekist í heila öld að vera "áreiðanlegt, skemtilegt og lipurt ritað fréttablað," svo vitnað sé í tilgang blaðsins í fyrsta tölublaði þess. Þar birtist einnig skáldsagan Svörtu gammarnir eftir Övre Richter Frich, þar sem sagt er frá dulafullu undirskriftarlausu skeyti frá Hamborg með textanum: Beware of the vultures. Gætið yðar við gömmunum.

Það jákvæðasta við 2013 fyrir Íslendinga er að þá verða alþingiskosningar og hægt að setja eina alræmdustu ríkisstjórn landsins í möppu sögunnar. Það er bráðnauðsynlegt til að þjóðin fái komið málum sínum í lag á ný og hægt verði að hefja raunverulega endurreisn efnahagslífsins. Raus Jóhönnu Sigurðardóttur í Morgunblaði dagsins er byggð á blindu hatri hennar gegn sjálfstæðismönnum og lýsir vel því einkenni "vinstri" manna, að snúa öllu á hvolf og kenna sjálfstæðismönnum um allt sem slæmt er undir sólinni. Fyrst og fremst fyrir að koma í veg fyrir áframhaldandi setu sósíalista í ríkisstjórn. Hatrið er svo blint að venjulegt verkafólk, sem vill lifa í frjálsu landi með eigin hugsun og sköpun lífsmöguleika af eigin dugnaði, er ásakað um að vera svartasta íhald og auðvald. Á sama tíma er raunveruleikinn sá, að þeir sem þykjast í orði vera málsvarar lítilmagnans, vinna sleitulaust fyrir skjólstæðinga sína í bönkum og fjármálafyrirtækjum. Þannig er því víða farið á fleiri stöðum en á Íslandi. T.d. er einn af aðaltalsmönnum sósíaldemókrata Svíþjóðar, Thomas Östros núverandi formaður Bankafélags Svíþjóðar og sem slíkur verjandi hærri arðs til bankastjóra og eigenda sænsku bankanna. Þar tala sænskir sósíaldemókratar gegn ríkisstjórn Fredrik Reinfelds, sem vill lækka og stöðva um sinn bankastjórabónusa. Þrátt fyrir þessar staðreyndir halda sænskir sósíaldemókratar áfram að ráðast á stjórnarandstæðinga sína, sem "kolsvart íhald og auðhyggjufólk".

Allt er því ekki sem sýnist samkvæmt orðanna hljóðan. T.d. segir danski Evrópuþingmaðurinn Morten Messerschmidt í nýarsávarpi sínu, að:

"Grundvallargildum okkar er ógnað. Við erum undir því, sem ég vil kalla "borgaralegt valdarán". Ekki árás með ofbeldi og ofurveldi eins og við höfum áður séð í sögunni. Heldur valdaráni, sem framkvæmt er með sáttmálum undirskrifuðum með pennum kjörinna fulltrúa okkar."

Morten Messerschmidt líkir Evrópuþinginu við Rómarríkið:

"Það sem er að gerast í augnablikinu í Brussel, ... er stöðug aðför til að tæma land okkar af lýðræðiskrafti sínum. Ekki síðan á tímum Rómarríkis hafa svo mikil völd verið í höndum svo fárra eins og málum er háttað í Brussel í dag. Búið er að aftengja almenning í Evrópu."

Messerschmidt heldur áfram:

"Barroso og Rumpoy hafa lýst því skýrt yfir, að markmiðið er sambandsríki. Og okkar eigin forsætisráðherra lýsti því nýverið yfir, að Danmörk er 18. evrulandið. Er hægt að hugsa sér stærri niðurlægingu frá nokkrum forsætisráðherra en að sniðganga nei dansks almennings við sameiginlegu myntinni?"

Svo mörg voru þau orð. Sem betur fer sjá sífellt fleiri, að Fjórða Ríkið er ekki það sem íbúar evruríkjanna vilja. Kratastjórnir Evrópusambandsins hafa leikið þjóðir sínar grátt með því að framfylgja fyrirmælum Charles Dallara, forstjóra Alþjóðlegu Fjármálastofnunarinnar IIF (Institute of International Finance), sem "ráðlagt" hefur þjóðum heims í fjármálakröggum að bjarga bönkunum, hvað svo sem það kostar. Núna, þegar ESB er á hraðferð með evruland í hyldýpi kreppunnar vegna bankabjörgunarstarfsins vakna ýmsir upp og segja hingað og ekki lengra.

Það er auðvelt að sveiflast milli vonar og ótta um, hvað nýja árið færir fólki í okkar heimshluta. Fyrir Ísland gengur best að kjósa sér nýja ríkisstjórn og halda sér fyrir utan efnahagsstríðið og fylkingamyndun "hinna stóru" í heiminum. Best að vera lítill og ráða eigin för en kasta sér í faðminn með öflum, sem skyndilega geta breyst í öfga og vopnuð átök. Ég mun kjósa Sjálfstæðisflokkinn vegna stjórnmálastefnu flokksins um frelsi einstaklingsins til skoðana og athafna. Ég vona, að sem flestir Íslendingar geti sameinast undir merki þess flokks, sem samofin er sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar í aldanna rás. Tímabil smælkisstefnuhópa eins og Hreyfingarinnar er liðinn. Hægri Græn, Kristni flokkurinn, Björt framtíð, Besti flokkurinn og hvað þetta heitir nú allt saman ristir ekki djúpt í hina raunverulega stjórnmálaáru, sem umlykur þjóðarsálina. Þetta eru aðeins efasemdarraddir augnabliksins, sem skipta álíka miklu máli og hrukka í morgunsárið, þegar kíkt er í spegilinn.

Evran hefur sundrað Evrópu. Evrópusambandið er að riðlast sundur. Það hindrar samt ekki sósíalista nútímans frá þeirri heimsvaldastefnu sinni að sameinast með fjármálaöflunum til að byggja upp 4.a ríkið. Ég spái því, að hópur ríkja mun ganga í sæng með Þýzkalandi og 4.a ríkið verða að veruleika á meðan önnur ríki Evrópusambandsins verða látin sigla sinn sjó. Margir af 6 þúsund bönkum Evrópu eru gjaldþrota en haldið í gangi á fölskum forsendum. Mörg ríki ESB eru gjaldþrota en fá ekki að fara í gjaldþrot enn þá. Sú leið sem Alþjóðlega Fjármálastofnunin fer, er að breyta fólki í skuldaþræla, sem lifa bara til að draga andann og borga vexti og afborganir svo hægt sé að framlengja lífi gjaldþrota banka. Íslendingar kannast við þetta í gegnum Icesave. Eurosave er sami hluturinn bara svo hrikalega miklu stærri og með svo skelfilegum afleiðingum, að nýnazisminn veðrar morgunloft og vex með ógurhraða.

Þess vegna á boðskapur hins dularfulla símskeytis í fyrsta tölublaði Morgunblaðsins svo vel við í dag:

Gætið yðar við gömmunum! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já það gerum við eins vel og við getum.  Gleðilegt nýtt ár

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.12.2012 kl. 16:16

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Gleðilegt nýtt ár sömuleiðis Ásthildur!

Gústaf Adolf Skúlason, 31.12.2012 kl. 22:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband