Hanna Birna Kristjánsdóttir verðugur forsætisráðherra í næstu ríkisstjórn Íslands

imagesÁsmundur Einar Daðason bendir réttilega á vinnubrögð Samfylkingarinnar, sem notfærði sér bankahrun og efnahagsörðuleika íslensku þjóðarinnar til að þvinga skoðun sinni um ESB sem allsherjarlausn á vandamálum Íslendinga upp á þjóðina.

Það er einnig rétt hjá Asmundi Daðasyni, að þegar nú er orðið ljóst með jafn tryggum hætti og er, að um 54% þjóðarinnar vill afturkalla umsókn Íslands til ESB en tæplega 37% vill halda umsókninni til streitu, þá eru það svik við þjóðarviljann að halda áfram uppteknum hætti eins og ekkert sé og aðlaga íslenskt stjórnkerfi og samfélag að aðildarkjörum Evrópusambandsins. Engu er líkara en Samfylkingin vilji skaða landið eins mikið og hún getur áorkað fyrir næstu alþingiskosningar. 

Ef heiðarlegt fólk hefði ráðið för hefði allur þessi ESB-pakki ríkisstjórnarinnar fyrir löngu síðan verið lagður til hliðar fyrir mikilvægari verkefnum. Uppbygging atvinnulífs og afkomumöguleikar fólks ásamt skuldaleiðréttingu heimila og fyrirtækja hafa alla tíð verið mikilvægustu málaflokkar þjóðarinnar sjálfrar skv. skoðanakönnunum. Þannig töldu færri en 2% þjóðarinnar stjórnarskrármálið vera mikilvægt í skoðanakönnunum eftir hrun. En Samfylkingin ber ekki hag þjóðarinnar fyrir brjósti. Hennar hagur er að næla í fáein embætti í Brussel fyrir leiðtoga sína og stýra þaðan hruni sambandsins.

Sósíaldemókratar nútímans hafa tekið við af bólsévíkum Sovét og gegnum alþjóðasamtök sín byggja þeir upp ESB sem heimsveldi, sem á að verða voldugra en bæði Kína og USA. Enginn kjósandi neins staðar í aðildarríkjunum hefur gefið framkvæmdastjórninni umboð að stofna sambandsríki. Stjórnarskrártilraun ESB var felld í Hollandi og Frakklandi. En siður ESB og umboðsaðila þeirra á Íslandi er ekki að hlusta á venjulegt fólk. Þeir fara sínu fram meðvitaðir um, að fólk vill annað og traðka þar með lýðræðið fótum niður. Þetta er átakanlega skýrt í ESB og á Íslandi.

HannaBirna_2

Sem betur fer heldur íslenska þjóðin sínu striki. Styrkur þjóðarinnar í Icesave-málinu er okkur öllum hvatning til frekari lýðræðisdáða. Prófkjör stjórnmálaflokka er einnig tákn um styrkleika, að kjósendum er gefinn beinn kostur á að raða fólki á framboðslistana, sem síðan verður kosið um. Stórglæsileg útkoma Hönnu Birnu Kristjánsdóttur hjá Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík gefur góða von um leiðtoga til að takast á við þau stóru verkefni, sem þjóðin stendur frammi fyrir. Í stað þess að draga úr þjóðinni allan kjark og trú á sig sjálfa, stappa góðir leiðtogar stálinu í fólk til að takast í sameiningu á við verkefnin. Án þess að halla á neinn stjórnmálaflokk eða leiðtoga er mitt mat og ósk að sjá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem næsta forsætisráðherra Íslands. Hún talar máli fólksins og skapar samstöðu um verkefnin. Önnur góð kona á einnig skilyrðislaust sæti í næstu ríkisstjórn Íslands og það er Vigdís Hauksdóttir m.a. vegna vasklegrar framgöngu í utanríkismálum þjóðarinnar. Þarmeð hef ég sagt, hverjum ég treysti best að leiða þjóðina úr ógöngunum: Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Í afstöðu til ESB er Framsóknarflokkurinn falslausastur allra íslenskra stjórnmálaflokka. Grasrót Sjálfstæðisflokksins er líka heil og flokkurinn verður allur heill með Hönnu Birnu við stýrið. Samstarf þessarra flokka var farsælasta uppbyggingarskeið lýðveldisins og það er rangt að kenna stjórnmálamönnum um afbrot fjárglæframanna eða galla peningakerfisins.

Spurning Ásmundar Daða Einarssonar er því mjög þýðingarmikil og það skiptir öllu máli, hverja þjóðin kýs sem leiðtoga. 


mbl.is Hverjir leiða þjóðina út úr ógöngunum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Heyr,heyr,(-:

Helga Kristjánsdóttir, 26.11.2012 kl. 16:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband