Ríkisvæðing sjávarútvegs eyðileggur greinina

Sérfræðingarugludallar ríkisstjórnarinnar í stjórnlagaráði og ekki síst ráðherrarnir sjálfir, hafa þvælt öllum hugtökum út í hraun. Í tillögu stjórnlagaráðs, sem Steingrímur J er svo ánægður að geta vitnað í segir, að

"náttúruauðlindir, sem ekki eru í einkaeign skulu lýstar þjóðareign." 

Ekki-sjávarútvegsráðherrann túlkar það, sem hefur verið markmið ríkisstjórnarinnar allan tímann:

" að fiskistofnarnir við Ísland væru ævarandi sameign þjóðarinnar og þar með væri það ríkið fyrir hennar hönd, sem ráðstafaði henni með tilteknum hætti."

Skýrari getur ekki yfirlýsingin um áætlanir ríkisstjórnarinnar að ríkisvæða sjávarútveginn verið.

Í fyrsta lagi þarf að athuga hugtökin einkaeign og þjóðareign. Að ríkisstjórnin meinar ríkiseign í stað þjóðareignar er augljóst, þegar sá réttur getur einungis náð yfir allar aðrar eignir en þær, sem þegar eru í einkaeign. 

Það er með því fáránlegasta, sem sést hefur og heyrst að hrópa það út að fiskimiðin séu ekki þjóðareign.

Hverjir ráða yfir sjávarlögsögunni? Hverjir fá að veiða á Íslandsmiðum? Hvernig stendur á því, að litið er á það, sem árás á Ísland, þjóðina sjálfa, ef erlendir togarar koma í leyfisleysi og veiða innan sjávarlögsögunnar? Varla væri það árás á þjóðina, ef verið væri að stelast í fisk í einkaeigu? 

Fiskurinn í sjónum í lögsögu Íslands hefur alltaf verið þjóðareign. Sú eign hefur stækkað með útvíkkun landhelgi frá 3 upp í 200 mílur, sem ekki hefur gerst átakalaust. Voru það einstakir "greifar" sem stóðu fyrir því? Eru það "kvótakóngar" sem kosta og manna varðskipin okkar? Hlutur útgerðamanna í nýja Þór er eflaust meiri en annarra landsmanna, sem stafar af sköttum útgerðarfélaga og sjómanna og annarra aðila, sem störf hafa af sjávarútveginum, sem dregur svo mikið í þjóðarbúið. En að halda því fram að fiskurinn í sjónum sé í dag "einkaeign", þótt það kerfi hafi rutt sér rúms að kaupa og selja kvóta, er algjör fásinna.

Í raun ætti ekkert auðlindagjald að leggjast á greinina. Þetta er ekkert annað en auka- og ofurskattur á best rekna sjávarútveg í heimi og skiptir engu máli, hvað hann er kallaður. Eins og ekki sé skatturinn þegar nógu stór, sem þetta dugmikla fólk greiðir af arðbærri vinnu sinni. Öfundsýkin er algjör hjá ríkisstjórninni og hefur hún dag og nótt frá því hún komst til valda alið á öfundsýki meðal þjóðarinnar með því að væla um gróða útgerðarmanna. Á meðan sjávarútvegur og ferðaiðnaður halda uppi landinu eftir stærstu efnahagsörðuleika nútímans, ræðst ríkisstjórn jafnaðar- og vinstrimanna með offorsi og frekju á undirstöður greinanna og kippir fótunum undan þeim. Betur færi í staðinn að hlúa að þessum undirstöðum, sem bjargað hafa þjóðinni.

Þjóðareign er ekki sama og ríkiseign. Fiskurinn er þjóðareign en ekki ríkiseign. Ef ríkisstjórnin vill fara að veiða fisk á hún að gera það á sama grundvelli, sem greinin stendur á: kaupa kvóta. Gætu þá allir séð og fengið beinan samanburð á  aumingjahætti ráðherra, sem þykjast vera sjómenn við þá raunverulegu, sem skapa verðmætin daglega. (Færi sjálfsagt í heimsmetabók Guinnes ef ráðherrarnir gætu dregið bröndu úr sjó, sem dygði fyrir tíu dropum af olíu á togara þeirra).

Útgerðarmenn og sjómenn hafa alveg rétt fyrir sér með viðvörunum sínum um eyðileggingu rekstrargrundvallar greinarinnar og hótunum ríkisstjórnarinnar um eignaupptökku greinarinnar. Áætlanir ríkisstjórnarinnar eru hönd dauðans á fjöreggi þjóðarinnar.

Þannig hugsa og framkvæma engir, sem í alvöru er annt um þjóð sína og föðurland. Þetta er eignaupptaka ríkisvaldsins og eyðilegging sjávarútvegsins, hvorki meira né minna. Koma á greininni í hendur ESB og leggja niður íslenska útgerð nema þær útgerðir, sem í framtíðinni vilja vera á sambandsstyrk frá Brussel.

Þjóðin þarf að standa við bakið á verðmætaframleiðendum Íslands til að bjarga sjálfri sér gegn þessarri árás. 

Ríkisstjórnin er bókstaflega "gengin af göflunum." Sjómenn þurfa annan dag á Austurvelli og rugga verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar með kröftugri áminningu um, hverjir skapa verðmætin á Íslandi. 

Það gera ekki kverúlantar Samfylkingarinnar, 101 akademían í Reykjavík.


mbl.is Segja Steingrím hóta útgerðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Níels A. Ársælsson.

Gef lítið fyrir þessi skrif þín.

Níels A. Ársælsson., 30.10.2012 kl. 11:30

2 Smámynd: Ólafur Örn Jónsson

Ég hef nú hvergi heyrt nefna að það eigi að ríkisvæða sjávarútveginn og fæ ekki séð hvar þú Gústa færð þá hugmynd. En hvað er næst verst við ríkisvæðingu? Jú jú það er EINOKUN sem er kannski ekki næst verst heldu lang verst það sem útgerðin er að enda í höndunum á landeyðum í stað þess að menn sem kunna, geta og nenna kom að veiðum og vinnslu á jafnréttis grunni.

Ólafur Örn Jónsson, 31.10.2012 kl. 00:22

3 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Ólafur, ríkisvæðingin fer fram með eftirfarandi aðferðum eins og ég sé það (fyrirgefðu hvað þetta varð langt):

Í fyrsta lagi vill ríkisstjórnin fá hlutdeild í fiskveiðistjórnunarkerfinu með því að koma upp "potti" þar sem ráðherrar deili út kvótum í stað kvótaviðskipta á frjálsum markaði. Það er að mínu viti ríkisvæðing kvótamarkaðarins, þar sem ríkið þvingar með lögum æ stærri hluta kvótans í pottinn og frjáls kvótamarkaður hverfur smám saman. Að endingu verða allir háðir ekki-sjávarútvegsráðuneytinu í Reykjvík til að fá kvóta, svona rétt eins og útgerðamenn í ESB-löndunum eru háðir kvótaúthlutun framkvæmdarstjórnarinnar í Brussel.

Ef þetta kemst í gegn er síðan bara fyrir ríkisstjórnina að afhenda ríkiskvótakerfið til Brussel við inngöngu Íslands í ESB.

Í öðru lagi með sérstöku auðlindagjaldi á starfandi einkafyrirtæki í greininni, sem eru nýjar skattaklyfjar, sem eyðileggja starfsgrundvöll greinarinnar með víðtækum þjóðfélagslegum neikvæðum áhrifum, þegar minni og meðalstórar útgerðir orka ekki lengur að bera kostnaðinn og fara á höfuðið. Við erum þegar byrjuð að sjá dæmi um þetta sbr gamalgróna útgerð í Vestmannaeyjum, sem lagði niður. Árangurinn af þessarri stefnu er félagsmálavæðing sjómanna og annarra, sem verða hreppsómagar og fara á atvinnuleysisstyrk í stað þess að vera leyft að bjarga sér sjálfir.

Í þriðja lagi er eins og ég skrifa algjör ruglandaháttur með hugtök eins og ríkiseign, einkaeign og þjóðareign. Þjóðin á sjávarútvegslögsöguna og lífríki hafsins með völdin að halda útlendingum fyrir utan hagnýtingu fiskimiða þeirra eins og núna gildir. Það sem Stjórnlagaráð meinar og ríkisstjórnin túlkar sbr Steingrím: ríkið ráðstafar fiskimiðunum fyrir hönd þjóðarinnar, er að ríkið ætlar að stjórna fiskveiðum í stað einkaaðila, sem best eru til þess fallnir. Lyga- og öfundsáróður ríkisstjórnarinnar í garð útgerðarmanna og sjómanna er til þess fallinn að vinna stuðning við að gera greinina ríkisrekna.

Ég er fylgismaður frjálsrar verslunar og viðskipta og því sjálfur á móti einokun og er ekki að verja vankanta á kvótakerfinu eða dæmi um slæm viðskipti/rangar fjárfestingar einstakra aðila. En að notfæra sér það til að réttlæta ríkisvæðingu greinarinnar er rangt.

Athafnafrelsi einstaklinga og frjáls markaður í höndum fiskveiðiaðila sjálfra hefur lagt grundvöllinn að best rekna sjávarútveg í heimi. Ég sé með engu móti neina réttlætingu í því, að eyðileggja þann árangur. Sjávarútvegurinn er einn stærsti gjaldeyrisskapari landsmanna með fjölda starfa í og kringum greinina. Af hverju má fólk ekki fá að njóta árangurs af vinnu sinni?

kkv

Gústaf Adolf Skúlason, 31.10.2012 kl. 16:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband