Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

Atvinnan mikilvægust í komandi kosningum í Svíþjóð

Friðrik Reinfeldt forsætisráðherra Svíþjóðar og Anders Borg fjármálaráðherra Svíþjóðar skrifuðu í grein, sem birtist í Expressen aðfangadag jóla, að atvinnumálin séu mikilvægust fyrir Svíþjóð í nálægustu framtíð. 

skaermavbild_2013-12-28_kl._04.18

"Veik batamerki umheimsins eru engin lyftistöng fyrir sænskt efnahagslíf. Samt sem áður þróast vinnumarkaðurinn betur en búist var við og störfum fjölgar. Eftirspurn innanlands leiðir hagvöxtinn. Blanda kerfisumbóta og hvetjandi aðgerða, sem framkvæmdar hafa verið í krísunni, hafa heppnast vel. Að leiða Svíþjóð með hallalausum fjárlögum, halda áfram umbótum vinnumarkaðsins ásamt mikilvægum framkvæmdum á sviði þekkingar eru þrjú mikilvægustu framtíðarverkefnin samtímis sem þörf hvetjandi aðgerða minnkar á næsta ári, þegar búast má við að batinn verði meiri og skilmerkilegri.

Svíþjóð hefur sýnt meiri viðspyrnukraft gegn kreppunni en flest önnur sambærileg lönd. Yfir 200 þúsund fleiri vinna í dag og þeim, sem eru fyrir utan vinnumarkaðinn hefur fækkað um 200 þúsund miðað við 2006. Svíþjóð er meðal þeirra ríkja, er hafa hvað sterkustu opinber fjárlög með litlum taprekstri og lágum skuldum.

Með mótsvarandi helmingi þjóðartekna af útflutningi höfum við engu að síður þurft að þola langdregna efnahagslægð. Áframhaldandi veik eftirspurn og aukin samkeppni frá löndum með stækkandi efnahag skapar þrýsting á stjórnmálin. Stærsta málefni Svíþjóðar er stuðningur við atvinnuuppbygginguna. Í takt með minnkandi þörf á hvetjandi aðgerðum, þegar efnahagurinn réttir smám saman úr kútnum, er mikilvægt að halda áfram að styðja við atvinnulífið og mennta börn og ungmenni fyrir kröfuharðan vinnumarkaðinn."

Seinna í greininni skrifa ráðherrarnir: "Þegar vinnumarkaðurinn tekur núna betur við sér en fyrri spár fjármálaráðuneytisins gerðu ráð fyrir, er mikilvægt að atvinnuumbæturnar verði ekki rifnar upp heldur að áfram verði hlúð að atvinnulífinu. Þar sem Sósíaldemókratarnir leggja til umtalsverðar skattahækkanir á laun og fyrirtæki til að fjármagna stóraukið bótakerfi, þá eru þetta mikilvægustu skilin í sænskri pólitík."

"Verkefnin eru mörg og kröfurnar skýrar um ábyrgðafulla stjórnmálastefnu. Það sýnir sig einna skýrast í aukningu starfa, þrátt fyrir kreppuna. Núna standa yfir sögulegar framfarir í samgöngumálum og íbúðarbyggingar hafa aukist. Það skilar sér í fleiri störfum og betri vinnumarkaði. Aðhald í fjármálum, áframhaldandi umbætur fyrir atvinnulífið og fjárfesting í hugviti eru skref fyrir skref í áttina til betri Svíþjóðar. Núna er enginn tími til að snúa af braut til baka til gömlu stjórnmálastefnunnar sem leiddi til geysilegrar einangrunar frá vinnumarkaðinum og er í grundvallaratriðum uppfull af átökum. Atvinnumálin og hæfileikinn að taka ábyrgð á þróun Svíþjóðar munu ráða úrslitum kosninganna."

Alla greinina má lesa á sænsku hér 


Auðmjúkur Svíakonungur þakkar landsmönnum 40 ár á krúnunni

Svíakonungur hélt fertugustu jólaræðu sína á jóladag og þakkaði Svíum fyrir góða samfylgd í þau fjörtíu ár, sem hann hefur setið á krúnunni í Svíþjóð. Þetta var innileg ræða, full af þakklæti og aðdáun á þróttmiklu starfi þjóðarinnar, sem gert hefur Svíþjóð að virtri þjóð í heiminum á sviði rannsóknarstarfa og uppfinninga. Carl XVI Svíakonungur óskaði öllum áframhaldandi góðra jóla og beindi orðum sínum sérstaklega til einstæðra: "Ég beini sérstökum og hjartanlegum óskum til allra þeirra, sem ekki hafa neinn til að deila jólunum með. Ég vona, að þær tilfinningar sem tengdar eru jólunum nái einnig fram til ykkar."

Konungen

Konungshjónin hafa ferðast um Svíþjóð á árinu og konungurinn þakkaði sérstaklega öllu því fólki, sem hafði gert ferðalögin svo eftirminnileg: "Það hefur verið svo margt sem vakið hefur aðdáun og fyrir augum hefur borið. En allt fólkið, sem við höfum mætt á ferðalögunum er eftirminnilegast. Við höfum mætt þvílíkri hlýju, umhugsun og framsóknaranda. Þessi mannamót hafa auðveldað skilning á því, hvers vegna augu umheimsins beinast svo oft að Svíþjóð. Þessu landi lengst í norðri, sem vekur svo oft mikla athygli. Mörgum sinnum sjáum við að þessi athygli kemur fram í eftirspurn á Svíþjóð í heiminum. Það varðar vörur og þjónustu vora en einnig land vort sem slíkt."  

Konungur minntist ferðalaga erlendis t.d. þegar konungshjónin heimsóttu Delaware í USA til að halda upp á 375 ára afmæli fyrstu Svíanna sem komu til Ameríku. Konungurinn nefndi heimsókn Barack Obama Bandaríkjaforseta í Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi: "Forsetinn heimsótti einnig Konunglega Tækniháskólann í Stokkhólmi. Til að kynnast því, hvernig við vinnum með endurnýjanlega orku och allt henni tengt. Land vort er talið eitt af fremstu ríkjum heims á þessu sviði. Við erum í fararbroddi starfsemi, sem finnur vistvænar lausnir á vandamálum tengdum orku, umhverfi og veðurfari."

Carl XVI Gustav minntist einnig á stórt ESB-verkefni hjá Chalmers tækniháskóla Gautaborgar, þar sem unnið er að þróun nýs ofurefnis. 126 rannsóknarhópar háskóla og iðnaðarfyrirtækja í 17 Evrópulöndum starfa saman í verkefninu m.a. fjórir Nóbelsverðlaunahafar. 

"Svíþjóð er land, sem áfram stendur fyrir nafni sínu sem heimili rannsóknar- og uppfinningastarfsemi. Ég finn til mikils stolts yfir þessu og þetta er afar mikilvægt fyrir þá mynd, sem heimurinn hefur af Svíþjóð. Mér finnst það mikilvægt, að við byggjum land vort með skynbragði á mikilvægi þekkingar og uppfinningastarfsemi. Þannig tryggjum við ekki einungis þau jákvæðu viðhorf sem tengjast Svíþjóð heldur getum við einnig sameiginlega styrkt og þróað áfram þjóð vora."

Síðar í ræðunni sagði Svíakonungur: "Við erum afar lítið land á jörð vorri en aftur og enn á ný sýnum við, að sameiginlega megnum við að skapa stóra hluti. Þetta hefur getað gerst með sameiningu verðmæta, sem byggjast á harðri vinnu, tillitssemi og áhuga. Þessu hef ég fengið að kynnast á þeim fjörtíu árum, sem mér hefur verið kleyft og ég fengið að njóta þess að fara með umboð Svíþjóðar. Ég færi þess vegna öllum þeim, sem vinna fyrir land vort miklar þakkir." 

Í lokaorðum jólaræðu sinnar sagði Svíakonungur: "Á næsta ári höldum við hátíðlegan einstæðan hlut þegar á heiminn og sögu heimsins er litið. Svíþjóð hefur þá notið þess að hafa upplifað frið í 200 ár. Það höfum við ástæðu til að halda hátíðlegt og við munum einnig minnast allra þeirra, sem ekki eru á lífi til að njóta þessa mögulega eins stærsta kosts mannkyns. Samtvinnaður frelsi er friðurinn eitt það stærsta sem landsmenn geta upplifað. Bindum vonir við að geta deilt sögu vorri af friði og frelsi með heimsálfri allri í framtíðinni."

Jólaræðu Svíakonungs má lesa hér

 


Jólapistill frá Stokkhólmi

3Tignarlegir standa hirtirnir á Sergelstorgi í Stokkhólmi og minna á jólahátíðina. Búist er við að nýtt met verði slegið í jólaverslun Svíþjóðar í ár. 

Friðarfundur gegn nýnazisma í Stokkhólmi

S.l. sunnudag sóttu um 20 þúsund borgarbúar mótmælafund gegn nazisma í suðurhverfi Stokkólms, Kärrtorp. Helgina áður réðust nazistar öllum að óvörum á friðargöngu í Kärrtorp. Lögreglan varð að kalla út aukalið til að stöðva árásina. Nokkrir særðust í átökunum þar sem einhverjir öfgamenn bæði til vinstri og hægri beittu eggvopnum. Til að sýna að götur borgarinnar eru fyrir meðborgarana en ekki nýnazista safnaðist fólk saman á fundi um lýðræði og frið. Allir stjórnmálaflokkar fyrir utan Svíþjóðademókrata tóku þátt, ráðherrar m.fl.

document1

 

Gävlehafurinn brenndur enn á ný

13 metra hái og 3,6 tonna þungi geithafurinn í Gävle varð eldslogum að bráð og lifði ekki fram að þessum jólum. Í 49 ár hefur hafurinn lifað jólin í 24 skipti. Grímuklæddir menn sáust hlaupa burtu eftir að hafa kveikt í hafrinum um fjöguleytið aðfaranótt s.l. laugardags. Hafurinn á sér skrautlega sögu t.d. reyndu tveir menn að múta öryggisvörðum til að yfirgefa svæðið 2010. Sagan segir að þessir óprúttnu náungar hafi ætlað að ræna geithafrinum og flytja með þyrlu til Stokkhólmsborgar. Síðan 1988 er hægt að veðja á veðstofum, hvort hafurinn lifi af jólin eða ekki. 2001 kveikti amerískur ferðamaður í hafrinum og við yfirheyrslur sagði hann, að hann héldi að þetta væri árlegur jólasiður í Svíþjóð. Það gagnaði lítið og dómurinn hljóðaði upp á eins mánaða fangelsi og 100 þús sænskar í sekt.

Skärmavbild 2013-12-24 kl. 11.15.32

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Drottning Silvia 70 ára

Drottning Silvia varð sjötug á Þorláksmessu. Hún heldur sér sérstaklega vel og vinnur ötullega að líknarmálum barna í heiminum. Hún vakti heimsathygli, þegar hún tók upp baráttu gegn barnakynferðisglæpum, barnaþrælkun m.fl. Í afmælisgjöf fékk hún m.a. myndarlegan sjóð frá sænskum fyrirtækjum í baráttunni fyrir betri heimi barnanna. Eitt stærsta klikk konungsveldisins var þegar H.M. Carl 16. Gustav Svíakonungur hitti Silvíu á Ólympíuleikjunum í Munchen 1972. Síðan þá hefur ekkert klikkað hjá konungsfjölskyldunni. Nýjar kannanir sýna auknar langanir Svía til að sjá H.K.H. krónprinsessuna taka við embætti krúnunnar og krýnast til drottningar Svíþjóðar. Það eru jákvæð teikn og sýna hollustu við konungsríkið og alls óskylt fyrirsögnum nokkurra blaða um, að Svíar vilji yfirgefa konungsríkið fyrir annað stjórnarform. Einungis andstæðingar konungsríkisins reyna að villa um þá staðreynd að fylgni Svía við konungsríkið er milli 70 - 80%. 

drottningen2013

 

Þórarni Eldjárn veitt verðlaun sænsku akademíunnar 

Verðlaunin eru veitt þeim, er skarað hafa fram úr í kynningu á sænskri menningu utanlands. Þórarinn Eldjárn hefur þýtt fjölda bóka frá sænsku á íslensku m.a. eftir Ulf Nilsson, Ágúst Strindberg, Göran Tunström, Sven Wernström og Jujja Wieslander. 

Þórarinn Eldjárn hefur unnið hjarta íslensku þjóðarinnar. Hann kann málið betur en nokkur annar og ótrúlega skondinn á stundum. Af því að það eru jól og fornar remsur um Grýlu lifa:

Grýla píla appelsína

missti skóinn ofan í sjóinn.

Þegar hún kom að landi

var hann fullur af sandi. 

(Höf. óþekktur) 

Þórarinn Eldjárn orti um Grýlu og Leppalúða öllum börnum til ánægju og yndis:

Í Háskólann þau héldu inn

er höfðu klárað öldunginn.

Innrituð þau eru bæði

í uppeldis og kennslufræði.

 

Kannski er það til sanns um framsýni Þórarins um íslenska þjóð, heilræðisvísa hans sem birtist í Mbl. 22. ágúst 2009

 

Styðja á startara

stara á það bjartara,

hafa séð það svartara,

sussa á kvartara. 

 

Gleðileg jól og farsælt komandi ár!


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband