Bloggfærslur mánaðarins, október 2012
"Lýðræðisveisla" stjórnlagaráðs - snaran eða fallöxin
20.10.2012 | 11:06
Nú rennur upp fallegur dagur fyrir það, sem stjórnlagaráð kallar "lýðræðisveislu". Líkja má veislukostum við skoðunarferð þjóðarinnar á aftökupall og þegar þangað er komið gerir ríkisstjórnin mönnum ljóst, að leiðin tilbaka er gegnum snöruna eða fallöxina.
Þrátt fyrir allt lýðræðisblaðrið og fagurgalann hefur meiningin aldrei verið önnur en að afnema fullveldisákvæði stjórnarskrárinnar okkar til að landsölufólkið í Samfylkingunni og Vinstri grænum geti bolað Íslandi inn í ESB. Þannig var t.d. þegar ákveðið í lögum um stjórnlagaþing í júní 2010 3.gr 6. og 7. lið að þingið skyldi sérstaklega taka fyrir fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu og framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Ríkisstjórnin hefur og fengið hrós framkvæmdastjórnar ESB fyrir breytingartillögur ráðsins um afnám fullveldisákvæða núverandi stjórnarskrár.
Þegar kosningar til stjórnlagaþings voru dæmdar ólöglegar, skákaði ríkisstjórnin Hæstarétti og sjálfri stjórnarskránni með stofnun stjórnlagaráðs með forgangsréttindum umfram Alþingi. Störfum nefndarinnar hefur verið haldið utanvið löglega kjörna þingmenn og þjóðin situr uppi með ríkisstjórn, sem brýtur ákvæði stjórnarskrár og niðurstöður Hæstaréttar. Þessi leið var að sjálfsögðu valin til að tefja ekki mikilvæga skerðingu fullveldisins með viðkomu löglegra embættismanna þjóðarinnar. Sama hver útkoma dagsins í dag verður, forsætisráðherrann hefur lofað landsmönnum, að nauðsynlegar breytingar munu ganga fram, hvað svo sem þjóðin og þingið segir.
Ég hlustaði á útvarpsþátt með "formanninum" Þorvaldi Gylfasyni, ásamt þremur öðrum ráðsmönnum og aðra eins sjálfsaðdáunarmunnræpu hef ég aldrei heyrt áður. Þetta fólk hefur gengist svo upp í "valdahlutverki" sínu vegna tilskipunar ráðherra, að þau trúa því, að þau ein hafi vit fyrir þjóðinni. Klárt mál að þau tala fyrir þá peninga, sem þeim hefur verið borgað í laun fyrir að vera í hlutverki aftökusveitar stjórnarskrárinnar. Þegar á aftökupallinn er komið er þjóðinni sagt, að hún fái vængi með því annað hvort að setja snöruna um hálsinn eða leggja höfuðið undir fallöxina.
Það er skiljanlegt að búrókratarnir brosi í Brussel. Forðabúrið þeirra bíður eftir áfyllingu frá Íslandsmiðum.
Dagurinn í dag er fallegur dagur. Góður dagur til að segja já við fullveldið okkar og stjórnarskrána og nei við tillögum uppblásinna, veruleikafirrtra einstaklinga, sem selt hafa sálu sína ódýrt í von um feitan bitling í Brussel.
Gústaf Adolf Skúlason
Kosningaveðrið: Víða léttskýjað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.10.2012 kl. 18:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Skrái mig á blog.is
19.10.2012 | 22:38
Ég hef prófað aðeins að skrifa hér á blog.is undir fullveldi.blog.is um tíma.
Tek nú skrefið að opna eigið blog hér.
Ég mun mest skrifa um Evrópumál, alþjóðamál og málefni Íslands. Sem Íslending er mér ekki sama, hvað verður um landið okkar. Miklir óvissutímar eru framundan og það skiptir máli, að þjóðin sameinist um stefnu sína og varðveiti lýðræði og sjálfstæði sitt.
Ég er andstæðingur núverandi ríkisstjórnar, sem dag og nótt, leynt og ljóst er að véla valdið úr höndum landsmanna og koma því í hendur búrókrata í Brussel. Þar vilja menn komast yfir auðlindir landsins sérstaklega gjöful fiskimið Íslendinga.
Þessi svik við almenning grundvallast á alþjóðlegu samstarfi krata og vinstrimanna, sem telja, að almenningi sé aðeins borgið í þeirra höndum í nýju heimsveldi ESB. Barroso og félagar hans í framkvæmdastjórn ESB vinna eins og flokkssystkini þeirra á Íslandi í nánu bandalagi við spillt fjármálaöfl og eru að afnema sjálfsákvörðunarrétt þjóða og færa völdin yfir í eigin hendur í Brussel. Evran, sem ekki er sprottin úr efnahagslegu samstarfi, heldur er stjórnmálaákvörðun, er nú notuð sem svipa til að knýja þróun evruríkja til alríkis Evrópusambandsins. Við Íslendingar höfðum gæfu til að hafna Icesave en evrulöndin eru nú að taka á sig byrðar "Eurosave", þar sem ógrynni fjár skattgreiðenda er flutt til banka og fjármálafyrirtækja.
Þessi þróun er orðin mjög háskaleg og þegar byrjuð að kosta mannslíf í suðlægari hluta álfunnar.
Íslendingar þurfa hið allra fyrsta að losa sig við valdagráðuga og spillta embættismenn og kjósa sér heiðarlega fulltrúa, sem skilja að hlutverk þeirra er að framfylgja stjórnarskrá og lögum og vinna fyrir hagsmuni landsmanna.
Ísland hefur tækifæri til sjálfstæðisstefnu til framtíðar, sem gerir þjóðina óháða valda- og stórveldabrölti umheimsins. Þótt núverandi ríkisstjórn hafi eyðilagt mörg tækifærin munu nýjir möguleikar birtast og með réttri stjórn og nýjum leiðtogum mun þjóðinni takast að rífa sig upp úr lægðinni.
Ég er núna að læra á blogkerfið og bið lesendur velvirðingar ef allt virkar ekki fullkomlega á meðan ég er að ná tökum á þessu.
Gústaf Adolf Skúlason
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)