Arnar Þór Jónsson dómari - maðurinn með frelsiskyndilinn

ArnarþorArnar Þór Jónsson, dómari, skrifar sérdeilis lýsandi grein um þýðingu stjórnarskrár lýðveldisins Íslands 27. feb. 2020 í Morgunblaðið. Ég man ekki eftir því að hafa lesið jafn skýra heilsteypta hugsun í áratugi, framsetta á jafn auðveldan, læsilegan og skiljanlegan hátt af löglærðum manni um málið. Hér fer maður sem veldur er á heldur og ljóst að hjartað slær fyrir lýðræði og frelsi. Skal hann og Morgunblaðið hafa bestu þakkir fyrir birtingu jafn upplýsandi greinar sem bæði vermir og lýsir upp veginn í vetrarmyrkrinu.  

Greinin er djásn alsett perlum og eina leiðin til að hún njóti sannmælis er að lesa hana alla sem ég hvet alla sem unna lýðræði og frelsi að gera. Hér er ein tilvitnun úr kaflanum Aldarfjórðungur í farþegahlutverki:

"Íslendingar standa frammi fyrir þeirri staðreynd að allar reglur EES eiga uppruna sinn hjá ESB. Stofnanir ESB setja reglurnar án aðkomu Íslands eða annarra EFTA-ríkja. Íslendingar áttu því enga aðild að samningu reglna O3. Þeir sem það gerðu unnu ekki í umboði íslenskra kjósenda og við þekkjum engin deili á þeim. Lýðræðisleg ábyrgð þeirra er engin og umræður þeirra um málið fóru fram bak við luktar dyr. Að ferlinu loknu voru gerðirnar sendar fullbúnar til samþykktar í sameiginlegu EES-nefndinni."

Í lokaorðum skrifar Arnar Þór: "Það leysir því engan vanda að afsala sér sjálfsforsjá og sjálfsábyrgð.Þeir sem kasta vilja frá sér þeirri ábyrgð vísa sumir til þess að við þurfum engar áhyggjur að hafa meðan stjórnað sé með lögum. Í því samhengi má minna á að ein skilvirkasta leiðin til að afnema réttarríkið er að gera það með lögum og lagaframkvæmd, þannig að ekkert standi eftir af ríki réttarins annað en skelin – og ásýndin – ein. Saga alræðisríkja á 20. öld sýnir að slíkur veruleiki er ekki fjarlægur eða óraunverulegur. Í Sovétríkjum Stalíns og Þýskalandi Hitlers geymdu stjórnarskrár fögur fyrirheit sem allir máttu vita að ekkert var að marka."

Þessi umræða er dýrmæt fyrir okkur og í skærri andstöðu við þöggun þess kerfisræðis sem tröllríður húsum bæði á Íslandi og á meginlandinu. Það er gaman að vera Íslendingur þegar menn eins og Arnar Þór Jónsson dómari finnast og Morgunblaðið sem sér heiður sinn í málfrelsi og lýðræði. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Tek heilshugar undir allt sem þú, Gústaf og Arnar Þór Jónsson segið, algerar perlur sem frá Arnari kemur. Verst er að við höfum ekki stjórnmálamenn sem komast með tærnar þar sem Arnar Þór hefur hælana í rökfærslum til verndar lýðræði okkar. Því miður leikur mér svo hugur að ýmsir frammámenn séu keyptir af búrókrötum í Brussel og séu því ekki að hugsa um hag íslensku þjóðarinnar.

Tómas Ibsen Halldórsson, 29.2.2020 kl. 14:59

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakka góð orð þín Tómas og fyllilega sammála um keypta stjórnmálamenn, því miður. En það finnast aðrir og þeir þurfa að komast að svo hægt sé að snúa dæminu við. 

Gústaf Adolf Skúlason, 29.2.2020 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband