Trompaðir taparar neita að sjá hverju Trump hefur áorkað

Skärmavbild 2018-01-06 kl. 19.27.20Það jók á Þrettándagsfagnaðinn að lesa Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins. Höfundur raðaði upp meginrökum gegn þeirri nýtilkomnu stefnu Íslands að ákveða fyrir Bandaríkjamenn, hvar sendiráð þeirra eiga að vera. Undirlægjuháttur Íslands að taka þátt í mótmælum Sameinuðu Þjóðanna gegn Bandaríkjunum er með öllu óskiljanlegur í ljósi samskipta Íslands og Bandaríkjanna í gegnum tíðina. Full ástæða er því til að taka undir spurningar bréfahöfundar um hvers vegna íslenska utanríkisráðuneytið telji það þýðingarmikið að fylkja sér í félagsskap þjóða sem líklegri eru til að óska árásarherjum á Ísrael velgengni og vilja fremur þóknast hryðjuverkasamtökunum Hamas en Ísraelsmönnum. Ég hvet alla eindregið til að lesa Reykjavíkurbréfið 6. jan. 18.

Trump er varnar verðugurÁróðursdrifið gegn Trump nær nýjum hæðum með bókinni "Fire & Fury". Í grein í Mbl. s.l. föstudag sagði ég frá árásum fv. forsætisráðherra Svíþjóðar, Carl Bildt og Fredrik Reinfeldts á Trump en Bildt segir að vegna þess "að valdatímabili þjóðríkja sé lokið í Evrópu" þá þýði lítið fyrir "Trump að dreyma um fullvalda ríki". Reinfeldt ásakar Trump fyrir "testósterón" hegðun gagnvart einræðisherranum Kim Jong-un, þannig að hugsanleg kjarnorkuárás Norður-Kóreu á Bandaríkin verði örugglega Trump að kenna. 

Fyrir utan að styðja andstæðinga lýðræðis og sjálfsákvörðunarréttar þjóða, sem Donald Trump vill varðveita, þá er þessu moldviðri m.a. ætlað að fela góðan árangur af starfi Trumps í embætti forseta sbr. þessa samantekt Fox News m.m.  

Nokkur dæmi:

  • 250 þúsund ný atvinnutækifæri urðu til í desember 2017 (það mesta á 9 mán. tímabili)
  • Uppsagnir með minnsta móti síðan 1990
  • Atvinnuleysi það lægsta í 17 ár
  • 2,1 milljón ný störf sköpuð í valdatíð Trumps 
  • Framleiðsla í Bandaríkjunum er nú sú mesta síðan 2004
  • Matarmiðar með minnsta móti í 7 ár, hefur fækkað um 2 milljónir manns síðan Trump tók við
  • Opnað fyrir olíuborun á hafssvæðum sem lið í að Bandaríkin verði óháð öðrum með orku
  • Einfaldara regluverk, fyrir hverja nýja lagagrein eru 16 gamlar skornar niður.
  • Yfir 3% hagvöxtur tvo ársfjórðunga í röð

Árangurinn ofan kom í ljós ÁÐUR en skattaniðurskurður ríkisstjórnar Donald Trumps upp á 1,5 billjónir dollara var ákveðinn.

Til samanburðar má bera árangur Trumps við afrekaskrá Obama:

  • Lægsta vinnuframboð síðan 1970
  • Um 95 milljónir manns misstu atvinnuna
  • Versti hagvöxtur síðan 1940
  • Minnsta eignarhald á húsnæði í 51 ár
  • Um 13 milljónir fleiri Bandaríkjamenn á matarmiðum
  • Um 43 milljónir Bandaríkjamanna í fátækt

Kannski koma þessar upplýsingar að notum til að skilja ástæðuna fyrir kjöri Donald Trumps sem forseta Bandaríkjanna. 

 


mbl.is Falskar fréttir og nú „fölsk bók“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Vel mælt sem endranær Gústaf.

Því miður eru allt of margir og það jafnvel stjórnmálamenn sem fylkja liði bak við heims elítuna sem getur ekki heilum á sér tekið að hafa misst tökin í Hvíta húsinu. Þeir þola ekki að hafa orðið undir eins og viðbrögð Clinton og Obama gefa glöggt til kynna.

Það hefur t.d. aldrei áður gerst að fyrrum Bandaríkjaforseti skuli elta sitjandi forseta eins og skugginn er hann er á ferðum erlendis og reynir að níða af honum skóinn. Þetta gerðist þegar Trump fór til Evrópu hitti páfa, Merkel og aðra ESB leiðtoga, Obama kom í kjölfarið og lét eins og hann væri enn forseti BNA. Það sama gerðist þegar Trump fór í Asíuför sína í haust.

Íslenskir fjölmiðlar og stjórnmálamenn virðast halda að Obama sé enn forseti. Ódrengileg heit vestrænna leiðtoga í garð Trumps eiga eftir að koma í bakið á þeim, samanber: "Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.

Tómas Ibsen Halldórsson, 7.1.2018 kl. 22:09

2 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gústaf.

Ekki skal ég gera lítið úr væntingum um að Trump nái að byggja upp bandarískan iðnað, eftir hamfaraáratugi útvistunar stórfyrirtækja á störfum og framleiðslu til láglaunalanda.  Og ef hann nær að skera niður reglugerðarfrumskóginn, þá fær hann reista af sér styttu sem mun lengi standa.

Og ekki skal ég efast um áreiðanleika Fox News í samantekt sinni á fyrsta heila stjórnarári Trumps, reikna með að það sem orki tvímælis megi skrifa á þýðingu þína.

En þessi ágæti árangur, þú eykur ekki ágæti hans með að bulla um Obama árin, sem nokkurn veginn framfylgdi svipaðri stefnu og fyrirrennarar hans.  Því þó hann væri demókrati þá sést enginn stefnubreyting í forsetatíð hans, frá því sem var hjá allavega þremur síðustu fyrirrennurum hans.

Þú veist Gústaf, ég allavega trúi því ekki að þú sért búinn að gleyma því, að fjármálakerfi hins vestræna heims hrundi haustið 2008, og þó  Obama væri í framboði til forseta, þá þarf mikla ímyndarveiki til að kenna honum um þá kreppu, eða þær hagtölur sem urðu fyrst á eftir, bæði í Bandaríkjunum sem og í Evrópu.  Munurinn  á Bandaríkjunum og Evrópu var sá, að hagvöxtur tók við sér þar á ný en hann er vart hafinn í Evrópu.

Það er öruggt að ef Trump nær að kalla bandarískan iðnað aftur heim, þá mun hagvöxtur aukast, og störfum fjölga.

En jafnvel þó hann sé göldróttur, þá markast fyrstu embættismánuðir hans af ferlum sem hann ræður engu um.

Í mörg ár hefur bæði atvinnuþátttaka af heildarvinnuafli, sem og atvinnuleysi mælt af þeim sem eru skráðir á vinnumarkaði sýnt leitni þar sem annars vegar atvinnuþátttakan er að aukast, og atvinnuleysi að minnka.

Ég veit ekki Gústaf hver bjó til listann um afreksskrá Obama, vonandi hefur það ekki verið þú.

En þú ættir að sýna sjálfum þér þá virðingu, sem og þeim áherslum sem þú berst fyrir, að fjarlægja hann.

Pistill þinn verður mun betri á eftir, og gæði eru alveg óháð fjölda þeirra sem trúa allri vitleysunni sem þeir eru mataðir á.

Það er svo einfalt að tékka á opinberum tölum í netheimum.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2018 kl. 00:40

3 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakka innlit og athugasemdir. Óvenjulegt eins og þú skrifar Tómas að forseti Bandaríkjanna fari í ferðalög til þess eins að sverta niður þann sem tók við embættinu og sýnir á hvaða plani Obama er. Ómar, afrekalisti Obama er fenginn úr sömu uppsprettu og afrekalisti Trumps og hann stendur. 

Gústaf Adolf Skúlason, 8.1.2018 kl. 05:39

4 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Fox News er ekki áreiðanlegasti miðillinn og ég fer oftast í raunverulegar tölur en ekki eitthvað sem fjölmiðlar eru búnir að meðhöndla og rúlla út í einhverja þvælu.  

Svo hér er svona smá "fact check" á þessu - alltaf gott að lesa sér til um hlutina!

Trump:

1.  250 þúsund ný atvinnutækifæri urðu til í desember 2017 (það mesta á 9 mán. tímabili)

Rangt.  Í desember voru 148 þúsund ný störf.  Í Nóvember voru þau 252 þúsund.  Árið 2017 urðu til 2.055 þúsund ný störf.  2013 voru þau rétt rúmar 2,3 milljónir, 2014 voru þau rétt tæpar þrjár milljónir, 2015 voru þau 2,7 milljónir og 2,24 milljónir árið 2016.  Niðurstaðan er að talsvert færri störf hafa orðið til fyrsta ár Trumps í embætti á hverju ári á síðasta kjörtímabili Obama.  

- https://data.bls.gov/timeseries/CES0000000001?output_view=net_1mth

2.  Færri uppsagnir.  

Þær tölur sem Bandaríska Hagstofan hefur núna benda til MEIRI uppsagna nú.  Í október 2016 voru þær 1.593 þúsund en í október 2017 voru þær 1.631 þúsund.  Skv. því er þessi staðhæfing röng.

- https://www.bls.gov/news.release/jolts.t05.htm

3.  Atvinnuleysi lægtsta í 17 ár.  

Atvinnuleysi hefur farið minnkandi síðan það náði hámarki eftir 2008 kreppuna sem var í lárslok 2009 or ársbyrjun 2010 og fór hæst í 10.0% í október 2009.  

4.  Matarmiðar með minnsta móti í 7 ár, hefur fækkað um 2 milljónir manns síðan Trump tók við

Þetta er umdeilanlegt.  Þrengt hefur verið að hjálp við fátæka, sem hefur fækkað þeim sem eiga rétt á aðstoð.  Ný skattalög bæta milljónum manna við þá sem ekki hafa heilbrigðistryggingar og hafa ekki efni á þeim.  Sumir kalla það sjálfsagt framför að fólk geti bara drepis ef það verður veikt, en einhvern veginn finnst með það farið aftan að hlutunum!

5.  Opnað fyrir olíuborun á hafssvæðum sem lið í að Bandaríkin verði óháð öðrum með orku

Þetta er veik staðhæfing.  Olíunotkun hefur farið minnkandi ár frá ári og notkun á bensín hefur minnkað umtalsvert og mun halda áfram að minnka.  Mikið af þeirri olíu sem er unnin núna er erfitt og dýrt að vinna í léttari olíutegundir s.s. bensín og talsvert af þessu er flutt út.  Opnun hafsvæða t.d. í íshafinu mun hafa mjög lítil áhrif þar sem gífurlega erfitt og dýrt er að vinna olíu þar.  Shell hefur undanfarin ár prófað djúpsjávarboranir undan norður strönd Alaska en ekki haft mikið upp úr því þrátt fyrir mikinn kostnað.  Síðast var reynt 2015 með Hollenskum djúpsjávarbor, sem fór um höfnina hér, en það kom lítið út úr því. 

Margir Repúblikanar telja þessa ákvörðun mistök ásamt strandríkjum.

6.  Einfaldara regluverk, fyrir hverja nýja lagagrein eru 16 gamlar skornar niður.

Þetta er nú hálf hlægileg staðhæfing þar sem þingið var nánast óstarfhæft allt síðasta ár vegna innbyrðist deilna forsetans, forseta þingsins og þingmeirihluta Repúblikana!  Lítið sem ekkert af stefnumálum Repúblikana komst á koppinn, því það var engin samstaða í þingflokknum um hvernig ætti að framkvæma þau! 

7.  Yfir 3% hagvöxtur.

Hagvöxturinn hefur rólað í kringum 3% síðan í ársbyrjun 2010.  Trump hefur engin áhrif á hagvöxtinn frekar en aðrir forsetar.

- https://tradingeconomics.com/united-states/gdp-growth

Obama:
1.  Lægsta vinnuframboð síðan 1970

Vinnuframboð hrapaði í efnahagshruninu 2008.  Það hafði náð sér á strik á seinna kjörtímabili George W. Bush, en kreppan keyrði það niður í um 2 milljónir starfa.  Síðan um mitt ár 2009 hefur atvinnuframboð farið vaxandi jafnt og þétt.  Það verður að hafa í huga að efnahagshrunið var seinni part sumars 2008, áður en Obama var kosinn en hann tók við embætti í janúar 2009.  

- https://data.bls.gov/timeseries/JTS00000000JOL

2.  Um 95 milljónir manns misstu atvinnuna

Ég þekki ekki þessar tölur og finn engin gögn um heildartölur þeirra sem missa vinnuna.  Mjög margir urðu atvinnulausir eftir hrunið 2008.  Mér finnst þessi tala há miðað við að vinnumarkaðurinn hér telur um 140 milljónir.  Umtalsverður hluti þeirra er í hlutastörfum eða skammtíma störfum sem fólk missir mun oftar en þeir sem eru í fullu starfi.  

3.  Versti hagvöxtur síðan 1940

Rangt.  Ég finn ekki tölur aftur til 1940, en hagvöxtur hefur iðulega verið minni.  Hann var lægstur rétt fyrir 1960 í kringum -10% en hæstur um 1980 í kringum 17%  2008-9 fór hann niður í -9% eða svo en hékk milli -1% og 5% í stjórnartíð Obama.  

- https://tradingeconomics.com/united-states/gdp-growth

4.  Minnsta eignarhald á húsnæði í 51 ár

Ef hér er átt við "Home Ownership" þá er þetta rangt.  Í húsnæðisbólunni rauk eignarhald upp í rúm 69% en féll svo niður í 62,9% í júní - júlí 2016 og hefur tosast svolítið upp síðan þá.  

- https://tradingeconomics.com/united-states/home-ownership-rate

5.  Um 13 milljónir fleiri Bandaríkjamenn á matarmiðum

Þetta er rétt en það er svolítið meira í þessu.  Í stjórnartíð GWB var aukið við rétt fólks til að sækja um aðstoð, sérstaklega eftir að kreppan harðnaði um mitt ár 2008.  Kreppann lét marga illa og margt fólk sá sig tilneytt til að fá aðstoð.  Það hefði sjálfsagt verið betra ef þetta fólk hefði bara fengið að svelta í friði.

6.  Um 43 milljónir Bandaríkjamanna í fátækt

Þessi tala er skelfileg, en því miður rétt og það bætist við dag frá degi og á eftir að aukast enn meira á næstu árum þegar niðurskurður til heilbrigðistrygginga fyrir milljónir barna fer að koma niður á foreldrum, sem geta ekki keypt rándýrar tryggingar.  Fólk, sem er með $20K á ári hefur ekki efni á að borga $10K á ári í heilbrigðistryggingar!  

Það verður að hafa í huga að Obama tók við mjög slæmri stöðu þjóðarbúsins eftir kreppuna 2008.  Það hefur tekist vel að rétta úr þeirri stöðu og efnahagur Bandaríkjanna er góður.  Í stjórnartíð Bush var þrýst á fyrirtæki að flytja starfsemi úr landi, outsource, þar sem hægt var að sinna þjónustu mun ódýrari en í Bandaríkjunum, sem hefur komið illilega í bakið á okkur undanfarinn áratug.  

Það er barnalegt að koma með svona pistla um forseta því þeir hafa lítil áhrif á efnahag, þó að þeir geti fylgt eftir ákveðinni undiröldu.  Því miður hefur það sem hefur komið frá Trump, ekki verið sérlega gott viðbit og það hefur lítið gerst í mikilvægum málum vegna rugls og barnaláta forsetans.

Ég bið þig um að skoða raunvereulegar tölur og upplýsingar, ekki bara éta það sem fastistamiðlar og aðrir óvandaðir bullustrokkar matreiða fyrir lýðinn.

Kveðja,

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 8.1.2018 kl. 06:40

5 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Gústaf, takk fyrir svar þitt og ábendingu um heimild þína.

Veistu, ég trúði ekki þá heimsku hjá Fox, að sjónvarpa fölsunum sem hægt væri að hrekja á einfaldan hátt.  Ég meir að segja trúði ekki uppá þá að fullyrða að fjölgun starfa á 9 mánaða tímabili væri sú mesta sem sést hefur, það er einfaldlega þvættingur.  Það er einkenni á hagkerfum sem ganga í gegnum djúpa niðursveiflu með stórauknu atvinnuleysi, að þegar þau taka við sér, þá snarfjölgar störfum.  Það er þá sem við fáum 9 mánaða metin.

Afrekaskrá Obama er síðan hrein fölsun miðað við staðreyndir hlutanna.  Hið alþjóðlega hagkerfi hefur verið í beinni kreppu frá fjármálahruninu 2009, sum árin varla mælst heildarhagvöxtur, annars hefur hann verið mjög lítill í sögulegu samhengi.  Ljósi punkturinn hefur verið að Bandaríkin hafa haldið þokkalegum hagvexti miðað við önnur vestræn hagkerfi, mun betur en Japan og lönd Evrópusambandsins. Það væri hægt að tala um lélegan árangur Obama ef hann væri ekki á pari við önnur vestræn hagkerfi, en því er þveröfugu farið.

Bein lygi er síðan þetta með fækkun starfa um 95 milljónir, það eiga allir að hafa þá heilbrigðu skynsemi að vita að ef störfum hjá 330 milljóna þjóð fækkar um 95 milljónir, þar sem fjöldi á vinnumarkaði er áætlaður kringum 140 milljónir, að þá væri um algjört hrun að ræða, kreppa af áður óþekktri stærðargráðu. 

Hvað fær fólk til að bulla svona, og hvað fær fólk til að trúa svona?

Aðrar fullyrðingar eru mishæpnar, en það er rétt að hagvöxtur hefur farið lækkandi frá 1950, og síðustu átta ár eru hluti af því trendi.  En þetta er ekki bara bundið við USA, heldur öll þróuð hagkerfi. Það hafa komið erfið krepputímabil í fortíðinni, eins og fyrri og síðari olíukreppan.  Það er samt ekki hægt að persónugera þær kreppur við þá forseta sem þá sátu.  Gerald Ford upplifði 2 ár af tæpum 4 með neikvæðan hagvöxt og þó seinni olíukreppan hefði komið á kjörtímabil tveggja forseta, Cartes og Reagan, þá voru þar 4 ár með minni hagvöxt en meðal hagvöxtur seinna Obama tímabilsins.  Bush eldri var síðan á pari við Obama.  Verri ef tekið er mið af trendinum um minnkandi hagvöxt þróaðra hagkerfa.

Fullyrðingin um vinnumarkaðinn er síðan röng, væri rétt ef annað ártal væri tekið, til dæmis 1985.

Vinnumarkaðurinn hjá Obama var á stöðugri uppleið, það er bara staðreynd.  Og um það og hinn meinta árangur Trumps, ætla ég a fjalla um með gögnum og tilvitnunum í öðru innslagi hér að neðan.

En mig langar að lokum að ítreka, að Obama starfaði eftir sama hagmódeli og síðustu 3 fyrirrennarar hans, þeir Bush eldri, Clinton og Bush yngri. Trump hins vegar ætlar að breyta þessu módeli, gera eins og hann segir America great again.  Vonandi tekst honum það því alþjóðvæðingin með útvistun starfa og framleiðslu til þrælabúða er að ganga að vestrænum hagkerfum dauðum.

Og það var engin tilviljun að hann náði kjöri, hann náði að sameina hinar meintu lágstéttir, hið vinnandi fólk Bandaríkjanna, fórnarlömb globalvæðingu yfirstéttarinnar, að baki sér.

Það er alveg hárrétt hjá þér Gústaf, en það þarf ekki að falsa raunveruleikann til að halda því fram. 

Það er alveg hægt að halda sig við hann án þess að það hvorki stækki eða minnki Trump. 

Hagfræðingar, hallir undir globalvæðinguna, telja að módel hans gangi ekki upp.  Má rétt vera, en þá munum við upplifa endalok hins vestræna heims, því ekkert hagkerfi getur til lengdar byggt lífskjör sín uppá þrælum fátækari landa, menn verða að byggja á sínu, og viðskipti verða að vera á heiðarlegum grundvelli.

Það veit enginn hvernig staðan væri í vestrænum hagkerfum í dag, ef menn hefðu haldið áfram að þróa framleiðsluna út frá tækni og hagkvæmni, í stað þess að flytja hana í þrælabúðir þar sem ekkert er virt, hvorki aðbúnaður og kjör starfsfólk, mengun eða umgengni um náttúruna.

Hvort Trump er rétti maðurinn til að snúa þessari þróun við, má guð vita.

Og eigum við ekki að leyfa honum að vita það, og halda okkur við raunveruleikann á meðan.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2018 kl. 09:46

6 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur.

Fyrst ætla ég að birta línurit yfir hagvöxt undangenginna áratuga þar sem trend línan er sýnd. 

Síðan langar mig að benda á að hagvöxtur á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs var 1,2% og hann er áætlaður um 3% á síðasta ársfjórðungi, sem gera um 2,6% hagvöxt.  Athyglisvert því á skjámynd í umfjöllun Fox má lesa um Obama úttektina; "History of this country to never reach 3% GDP growth".  Dálítið hlálegt.

Og um hið meinta afrek Trumps þessi ánægjulegi árangur á þriðja ársfjórðundi, að fara yfir 3% aðeins "it is the highest growth rate since the first quarter of 2015".  eða í rúm 2 ár.  En mun slakari en annar og þriðji ársfjórðungur 2014, þar sem hann fór í 4,6% og 5,2%.

Hvert er þá afrekið enn sem komið er, og af hverju er reynt að fegra það með því að skíta niður það sem var??

Trump er ekkert að skora hærra á en Obama, og í sögulegum samanburði álíka illa.  Nema að sá sögulegi samanburður er einfaldlega ósanngjarn.

Þó má segja Trump það til afsökunar, að hans áhrif eru að litli leiti komin fram, flest það sem gerist á fyrsta kjörtímabili má rekja til áhrifa næstu ára á undan.

Það má vera að Trump skori hærra, það á bara eftir að koma í ljós.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2018 kl. 10:19

7 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður aftur, þá er það lokaábendingin.

Og það er þessi niðurlægjandi fölsun um þróun vinnumarkaðarins undir stjórn Obama.

Staðreyndin er að það er stöðug leitni um aukna atvinnuþátttöku og minnkun atvinnuleysis.

Leitni sem breyttist ekkert á síðasta ári.

Fyrst er það línurit yfir atvinnuþátttöku.

Vöxturinn var fyrst hægt vaxandi frá kreppunni 2008, síðan stöðug aukning. 

Loks er það línurit yfir atvinnuleysi, þar er sama sagan.

Allt til betri vegar.

Það er heiðarlegt Gústaf að viðurkenna að Fox er ekki áreiðanlegur fréttamiðill, ef þessi fölsun er þeirra.

Þetta kallast fake news og er nútíma fjölmiðlum til vansa.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 8.1.2018 kl. 10:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband