Ísland eina lýðræðisríkið

Skärmavbild 2015-07-29 kl. 08.05.15Í fyrri viku náði ég tali við Dr. Paul Craig Roberts fyrrum aðstoðarráðherra efnahagsmála í ríkisstjórn Ronald Reagans 1981 - 1982. Var efni samtalsins og hluti þess fluttur í morgunþætti útvarps SÖGU þriðjudagsmorgun 28. júli.

Dr. Paul Craig Roberts var viðkunnanlegur og svaraði góðfúslega spurningum mínum um ástandið í Grikklandi og Evrópu en hann hefur sent frá sér mikið magn greina um þessi mál og er tíður gestur í útvarps- og sjónvarpsviðtölum um efnahagsmál og stjórnmál. Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir greinarskrif, var einn af ritstjórum Wall Street Journal um tíma, talinn einn af 7 færustu blaðamönnum Bandaríkjanna af Forbes á tímabili og hefur skrifað fjölda bóka um efnahags- og stjórnmál m.a. ”Einræði góðu markmiðanna” um skriffinnskuveldi sem tærir sundur lýðræðið og ”Afglöp Laissez Faire kapítalismans og efnahagsleg upplausn Vesturlanda” þar sem hann gagnrýnir útflutning starfa frá Bandaríkjunum sem hann telur að hafi eyðilagt tekjuaukningu neytenda heima fyrir. Nánari upplýsingar um Dr. Paul Craig Roberts má finna hér  Ég læt mestan hluta viðtalsins fylgja hér fyrir neðan.

Á Íslandi er mikil umræða í gangi um kreppuna í Evrópu og það sem er að gerast varðandi Grikkland sérstaklega. Hvert er álit þitt á þessum málum?

Þetta hefur ekkert að gera með með ríkisskuldir Grikklands. Ástæðan fyrir því, að Grikkir hafa svo miklar skuldir er vegna þess, að Grikkir eru aðilar að ESB og nota evruna. Það þýðir að þeir hafa ekki eigin gjaldmiðil né Seðlabanka sem getur fjármagnað þá sjálfa. Flest allir meðlimir ESB fyrir utan Breta og eitt eða tvö önnur ríki sem gengu í EU en héldu í gjaldmiðil sinn, töpuðu sjálfræði sínu við inngönguna í ESB. Ef þú hefur ekki eigin gjaldmiðil og seðlabanka mun ríkisstjórnin ekki geta fjármagnað sig og er háð einkabönkum. Þessi háttur er orsakavaldurinn að evrukreppinni og stórkostlegt fíaskó fyrir sjálft ESB.

Um hvað er gríska kreppan?

Hún fjallar raunverulega um tvo hluti:

1) Hún er notuð til að koma á fót þeirri skipan, að lánardrottnar verði ekki ábyrgir gjörða sinna, þegar þeir lánuðu ógætilega til annarra landa og þurfa ekki að standa skil á mistökum sínum. Í staðinn eru íbúar ríkjanna látnir standa skil og taka ábyrgð á gjörðum lánardrottnanna. Þetta er fyrsti hlutinn sem málið fjallar um.

2) Hinn hluturinn er að ESB notar kreppuna í Grikklandi til að staðfesta það skipulag, að skuldugu löndin séu ekki lengur í þeirri stöðu að geta ráðið peningamálum sínum sjálf. Peningamál þeirra, þ.e.a.s. skattar og útgjöld verða núna í höndum miðstýrðrar stjórnar ESB sjálfs í stað landanna. Eins og Jean-Claude Trichet, fyrrum seðlabankastjóri SE lýsti yfir: ”það er tími kominn til að yfirgefa þjóðlega hugmynd ríkisvaldsins.” Kreppan í ESB er því notuð til að að koma á auknu miðstýrðu afli innan ESB. Þetta eru ástæðurnar fyrir því hvers vegna ESB er svo óhreyfanlegt, sýnir enga miskunn og er hjartalaust gagnvart ríkisstjórn eins meðlima sinna. Verið er að festa í gildi, að bankar eru ekki lengur ábyrgir á útlánamistökum sínum og skuldug lönd stjórna ekki lengur peningastefnu sinni. Þetta eru hinar raunverulegu ástæður kreppunnar en þær eru aldrei ræddar á þennan hátt.

Við höfðum tvær þjóðaratkvæðagreiðslur á Íslandi gegn þeirri óáran, að skattgreiðendur yrðu látnir greiða fyrir skuldir óreiðumanna. Þáverandi ríkisstjórn reyndi að troða þessu upp á fólkið sem veitti andspyrnu og forsetinn neitaði í tvígang að skrifa undir lögin. Núverandi forsætisráðherra hefur lýst því yfir að vera landsins fyrir utan ESB hafi hjálpað landinu að ná sér aftur á strik og að krónan hafi, þrátt fyrir smæð þjóðarinnar, bjargað landinu í fjármálakreppunni. Hvað viltu segja um þetta?

Já, það er augljóst. Ef Ísland hefði verið meðlimur ESB, hefði verið farið með landið eins og Grikkland, sem er ESB meðlimur. Þannig, að vera óháður ESB þýðir, að þið komust hjá að mæta sama pólitíska valdi og beitt var gegn Grikklandi og mun einnig verða beitt gegn Spáni, Ítalíu og Portúgal og þegar hefur einnig verið beitt gegn Írlandi.

Já, að vera ekki með í ESB var afar vitur ákvörðun. Einnig skiptir máli, að íslenskur almenningur gerði sér grein fyrir því, að mörg af þessum lánum voru svik og að bankarnir sjálfir voru viðriðnir svikin.

Á Íslandi höfum við handtekið nokkra helstu bankastjórana, sem núna afplána dóm í fangelsi.

Sem er rétti staðurinn fyrir þá! Svo það sem ég get hugsað núna er, að Ísland er líklega eini staðurinn, þar sem lýðræðið virkar. Fólkinu var kleyft að láta ríkisstjórnina gjalda gjörða sinna við sig í stað erlendra banka eða erlendra ríkisstjórna.

Er það ekki einkennilegt í vöggu lýðræðisins Grikklandi, að fyrst er haldin þjóðaratkvæðagreiðsla, þar sem fólkið segir NEI og síðan snýr ríkisstjórnin sér í hring og gerir akkúrat hið gagnstæða?

Það er afskaplega vel skýrt sem svik, að ríkisstjórnin sveik þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem eru svik við lýðræðið. Þetta er þó í mínum huga of hart. Ég held að ríkisstjórnin hafi hugsað, að efnahagsleg rök hennar myndu hafa áhrif á Þýzkaland, á framkvæmdastjórn ESB, Seðlabanka Evrópu og Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins. Gríska ríkisstjórnin treysti á styrkinn í röksemdafærslu sinni til þess að tekið yrði skynsamlega á málunum. Ríkisstjórnin áttaði sig ekki á því, að markmið ESB var að taka yfir stjórn peningamála í landinu og innleiða þá reglu, að bankarnir eru ekki ábyrgir lána sinna. Gríska ríkisstjórnin var ekki undir það búin að hafa varaáætlun - plan B, svo þegar þeir voru skyndilega settir í þá stöðu að horfast í augun við að fara út úr ESB eða samþykkja skilmála ESB, þá höfðu þeir enga aðferð til að yfirgefa ESB. Þeir vissu ekki hvernig átti að opna bankana aftur, þeir voru ekki með áætlun um að taka upp eigin gjaldmiðil sem yrði verðsettur og varinn gegn árásum. Þeir voru ekki að undirbúa sig, því þeir áttu ekki von á þessu miskunnarleysi sem þeim var sýnt. Þeir voru ekki viðbúnir eða með öðrum orðum þeir gerðu þau afgerandi mistök að treysta ESB fyrir að koma með góðan ásetning gagnvart Grikkjum. Það var hins vegar enginn góður vilji til staðar gagnvart Grikklandi og þess vegna hafði ríkisstjórnin enga valkosti. Ef þeim hefði skilist við hvaða öfl þeir væru að eiga og hefðu gert starfsáætlun: þetta er það sem við þurfum að gera ef við förum úr ESB, til þess að viðhalda bankakerfi og gjaldmiðli, þá þurfum við að taka þessi og þessi skref, við verðum að vita hvað við þurfum að gera, ef við förum út úr ESB. En þeir voru algjörlega óundirbúnir fyrir þetta. Þess vegna samþykkti ríkisstjórnin skilmála ESB, þrátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þeir héldu að þjóðaratkvæðagreiðslan myndi gefa þeim aukinn styrkleika í samningunum við ESB og að ESB hefði einhvern góðan ásetning gagnvart Grikklandi og myndi samþykkja rök Grikkja.

Þú sérð, - allir lifandi hagfræðingar vita það, að niðurskurðaraðgerðirnar sem Grikkir hafa verið beittir, geta engan veginn gengið upp. Þær stríða gegn allri þekkingu efnahagsmála síðan 1836, þegar John Maynard Keynes skrifaði hina almennu kenningu.

Við sjáum það núna, að sjálfur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn tekur eftir þessu og hefur skrifað skýrslu, þar sem segir að niðurskurðarstefnan gagnvart Grikklandi sé röng og hefði aldrei átt að framfylgja. Það verður að sjá málin í þessu ljósi, gríska ríkisstjórnin hélt að ástæður og vitnisburður um efnahaginn myndi ná árangri gagnvart góðum vilja. En það var enginn góður vilji til staðar.

Nú segja Þjóðverjar, Angela Merkel og Dr. Schauble að þau munu aldrei samþykkja neinar skuldaafskrifter sem AGS boðar. Heldur þú að það verði nokkur þriðji neyðarpakki?

Þeir fá þá alla vega einhvern tíma til undirbúnings. Þú sérð, Grikkir fá ekkert af peningunum, þeir fara til eigenda grísku skuldanna. Og í mörgum tilvikum eru það ekki lengur lánardrottnarnir, vegna þess að stór hluti skuldanna var keyptur á lágu verði af hrægammasjóðum í New York sem veðjuðu á úrslit mála og héldu að með því að kaupa skuldirnar á hálfvirði mundu þeir samt fá þær að fullu greiddar. Þannig að mikill hluti skuldanna er ekki lengur í eigu lánardrottnanna. Annar hluti skuldanna hefur verið keyptur af Seðlabanka Evrópu. Bankinn prentar núna 60 miljarði evra í hverjum mánuði og peningarnir eru notaðir til að kaupa skuldir af lánardrottnum grískra skulda. Þannig er áhætta lánardrottnanna horfin, þar sem þeir eiga ekki lengur skuldir Grikkja, sem í dag er í eigu Seðlabanka Evrópu og hrægammasjóða. Þetta eru allt saman svik.

Þetta er þriðja umferðin í niðurskurðaraðgerðum. Hvað höfum við séð frá fyrri tveimur niðurskurðaraðgerðum? Við höfum séð að skuldakreppan hefur versnað vegna þess að niðurskurðaraðgerðirnar hafa dregið efnahaginn niður um 27%. Þetta er kreppuástand komið að hruni og þegar efnahagurinn skreppur saman verður hlutfall skulda hærra sem prósentutala af þjóðarframleiðslunni. Niðurskurðaraðgerðirnar hafa verið í gangi síðan 2010 og hafa gert ástandið verra, það vita allir. Niðurskurðaraðgerðirnar hafa ekki virkað og geta ekki virkað, allir vita um það. Svo burtséð frá því hvort Grikkir fái þriðja pakkann til að greiða af skuldum sínum eða ekki, þá verður ástandið bara verra. Svo allt málið er á byrjandareit vandamálsins eða með öðrum orðum: þriðji neyðarpakkinn leysir ekki vandann frekar en fyrsti eða annar neyðarpakkinn og mun bara gera vandmálið stærra og þess vegna ættu Grikkir að vera að undirbúa sig fyrir að yfirgefa ESB.

Heldur þú að þetta sé allt saman þáttur í áætlun ESB að búa til risaríki á meginlandinu?

Já. Það er einmitt það sem ég sagði. Þetta er miðstýringarvaldið, stjórnmálavaldið saman safnað í Brussel. Þessu var sérstaklega lýst af fyrri seðlabankastjóra Seðlabanka Evrópu sem útskýrði markmiðið með gríska ástandinu. Við förum í átt að enn frekari pólitískri miðstýringu, vegna þess að verið er að fjarlægja peningastefnuna frá aðildarríkjunum.

Þú ert í Bandaríkjunum en í Evrópu segja ýmsir að Grikkir séu bara 2% af íbúum Evrópu og þar af leiðandi sé vandamálið hverfandi. En augljóslega er það stórt, þar sem fjármálaráðherra ykkar Jack Lew tekur sér ferð til Evrópu til að ræða við ráðamenn ESB og seðlabankastjórann. Af hverju er staðan í Evrópu svona þýðingarmikil fyrir Bandaríkin?

Ástæðan fyrir því, að fjármálaráðherran Jack Lew fór til Evrópu, var að kynna algjöra andstöðu Washington gagnvart því, að Grikkir yrðu neyddir til að fara út úr ESB. Hættan sem Washington sér hér er, að ef Grikkland fer úr ESB, sérstaklega ef Grikkland endar uppi með stuðning frá Rússlandi og Kína, þá munu Ítalía, Spánn og Portúgal gera slíkt hið sama líka. Og ef ESB leysist upp mun NATO einnig leysast upp en NATO er mekanismi Washington til að eiga í útistöðum við Rússland. Markmið Washington er Rússland, það verður að einangra Rússland frá Evrópu, það þarf að ógna Rússlandi með herstöðvum til að Rússland verði meðfærilegra Washington. Þess vegna er litla Grikkland svo mikilvægt. Ef Grikkland yfirgefur ESB munu önnur lönd í svipaðri stöðu sjá að hér er fundin útgönguleið. Þess vegna er Jack Lew í Evrópu, hann setti hinum ósveigjanlegu Þjóðverjum úrslitakosti og sagði: ”Undir engum kringumstæðum munu Bandaríkin láta það viðgangast, að þið gerið Grikkland að fórnarlambi". Með öðrum orðum, þá hótaði hann Þjóðverjum og Bandaríkin eru tilbúin til að framfylgja hótun sinni. Afstaða ESB var: Hafið engar áhyggjur, Grikkir hafa enga valkosti. Þeir geta ekki yfirgefið ESB, þeir verða að samþykkja tillögur okkar burtséð frá því hversu ósveigjanleg við erum, vegna þess að þeir hafa ekkert að koma með í staðinn fyrir evruna og geta ekki opnað bankana. Þess vegna höfnuðu þeir tillögu Bandaríkjanna um að létta á álaginu á Grikklandi. Bandaríkjamenn töldu, að það þyrfti að létta um fyrir Grikkjum svo þeir færu ekki úr evrunni. Þjóðverjar vissu hins vegar, að Grikkir gátu ekki farið úr evrunni, vegna þess að þeir höfðu enga varaáætlun.

Hefur þetta eitthvað með stöðuna í Úkraínu að gera? Er Úkraína hernaðarleg áhætta sem getur eyðilagt stöðu mála í heiminum?

Ef Bandaríkjamenn koma Úkraínu inn í NATO – já, vegna þess að Rússarnir geta ekki þolað það. Ef Bandaríkjamenn koma upp herstöðvum í Úkraínu – já og ef Bandaríkin halda áfram að vopna og þjálfa Úkraínubúa sem draga áfram úr áhrifum Minsk samninganna og halda áfram ofbeldi gegn þeim sem hafa brotist út úr Úkraínu, þá kemur að því fyrr en síðar, að Rússland bregðist við. Flestir af íbúum svæðisins eru Rússar og til þess að viðhalda stuðningi í Rússlandi, þá verður Pútín að verja þetta fólk. Svo ég held að það sé mjög sterkur möguleiki á því, að Bandaríkjamenn dragi ástandið í átt að styrjöld og mér finnst afar heimskulegt af Evrópumönnum að hlýðast Washington á þennan hátt. Þeir hafa hlustað á allan áróðurinn og leyft sjálfum sér að undirgangast viðskiptaþvinganir sem skaða Evrópu miklu meira en þær skaða Rússland. Þeir hafa leyft Bandaríkjamönnum að hætta við efnahagsleg og stjórnmálaleg tengsl við Rússland, svo í mínum huga eru það Evrópubúar sem þá verða orsakavaldurinn að þriðju heimsstyrjöldinni. Þeir hegða sér svo heimskulega og eru svo miklar skræfur, að þeir leyfa Bandaríkjamönnum að búa til deilu milli Rússlands og Evrópu. Þetta þjónar hagsmunum Washington en ekki Evrópu. Á meðan Evrópubúar halda áfram að horfa fram hjá þessu eykst styrjaldaráhættan.

 


mbl.is Varoufakis svarar fyrir „plan B“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

þessi leikflétta ESB var Coup d'Etat á mega mælikvarða.

Ragnhildur Kolka, 29.7.2015 kl. 10:25

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Algjörlega sammála þér Ragnhildur.

Gústaf Adolf Skúlason, 29.7.2015 kl. 10:52

3 Smámynd: Dante

 Afsakið fáfræðina en hvað þýðir "Coup d'Etat"? 

Dante, 29.7.2015 kl. 12:51

4 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Dante, það þýðir ríkisvaldarán.

Gústaf Adolf Skúlason, 29.7.2015 kl. 15:58

5 Smámynd: Snorri Hansson

Greinin er afburða góð og Dr. Paul Craig Roberts er einn af þeim sem  kann svo sannarlega að útskíra hlutina á mannamáli.

Það vantar svo mikið uppá umræðuna um hvað Samfylkingin var raunverulega að gera með þessari tilraun að koma okkur íslendingum í ESB.

 Það var nefnilega ekki verið að útskýra samrunaferlið sem alltaf hefur staðið til að framfylgja . Það var einungis verið að tala um hugsanleg fjármálalega kosti og að við fengjum  að hafa áhrif og rödd í samfélaginu .Svona gaman saman.

Ekki að hér var hreinlega verið að framkvæma  Coup d'Etat.

Snorri Hansson, 29.7.2015 kl. 17:36

6 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Þakkir Snorri fyrir góð orð þín. Dr. Paul Craig Roberts er einstaklega skýr og ekki hægt að misskilja það sem hann segir. Þetta gaman saman hefur heldur betur breyst í ekki lengur gaman. Samfylkingin hefur verið duglegri við að afrita stefnu alþjóðlegra sósíaldemókrata en að móta sína eigin og er veikari fyrir heilaþvotti en fólk almennt, sem reynir að hugsa sjálft. Samfylkingin blindaðist af áróðri aðallega sænskra krata um himnaríkið ESB. Einhverjir virðast vera að rumska af svefninum. Þetta s.k. "félagshyggju"fólk gerir sér meira far um að vera sérstakir vinir ábyrgðarlausra fjárglæframanna en venjulegs fólks. Sem betur fer hafa margir av bankavinum þeirra fengið fangelsisdóm.

Gústaf Adolf Skúlason, 29.7.2015 kl. 18:53

7 Smámynd: Dante

Þakka fyrir þýðinguna á orðinu. 

Þetta er óhugnalegt orð sem á vel við það sem um er rætt í þessari mjög svo vel skrifuðu grein. 

Snorri er ekki einn um það að vilja vita hvað Samfylkingin var raunverulega að gera með þessari tilraun að koma okkur íslendingum í ESB en ætli við verðum ekki allir dauðir áður en Samfylkingin verður spurð þessara spurningar :( 

Dante, 29.7.2015 kl. 20:32

8 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Dante og þakka góð orð. Á meðan við lifum skulum við krefja Samfylkingarfólkið svars. Þjóðin á það skilið, að þeir sem voru svo nærri að eyðileggja sjálfstæði okkar, geri það upp við sig, hvað þeim gengur eiginlega til verka.

Gústaf Adolf Skúlason, 29.7.2015 kl. 21:15

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband