Nei Ísland
9.5.2013 | 11:20
Leiðarahöfundur Morgunblaðsins fer á kostum í dag vegna krafna "Já Íslands" um að ný ríkisstjórn ljúki ESB-viðræðum:
"Samtökin "Já Ísland eru ekki félagsskapur þeirra sem vilja standa vörð um fullveldi landsins og koma í veg fyrir að fleiri þættir fullveldis þess glatist, en orðið er. Í upphafi kynningar þessara samtaka á sjálfum sér segir orðrétt: "Já Ísland er sameiginlegur vettvangur Evrópusinna, einstaklinga og samtaka." Það væri nokkru nær ef þessi samtök kölluðu sig Já Evrópa, en þó væri það heiti aðeins nokkru nær. Ef samtökin vildu að nafnið þeirra eindurspeglaði markmiðin færi best á því að þau hefðu skírt sig Já Evrópusambandið. Hvers vegna gerðu þau það ekki?"
Bendir leiðarahöfundur á að það sé ekkert hræðilegt við það að hafa þá sannfæringu að Íslendingum myndi farnast best ef þýðingarmestu málum tilveru þeirra væri stjórnað af öðrum en þeim sjálfum.
"En þetta trúaða fólk á undursamleg gæði regluverksins forðast samt eins og heitan eld að kenna sig við ESB. Það fer ekki einu sinni í næsta kostinn og berst undir yfirskriftinni Já Evrópa. Nei. Já Ísland skal herferðin gegn fullveldi heimalandsins heita."
Síðan talar leiðarahöfundur um "viðræður" sem miðast að því að Ísland gangi í ESB:
"Og það er ekki aðeins svo, að "viðræðurnar" miði að því að í lok þeirra sjálfra skuli það markmið nást, heldur skuli landið ganga í ESB í áföngum allan þann tíma sem "viðræðurnar" standa!"
Bendir Morgunblaðið réttilega á að íslenzkir talsmenn, stjórnmálamenn og því miður embættismenn utanríkisráðuneytisins einnig hafi komið fram sem fullkomnir ósannindamenn gagnvart sinni eigin þjóð:
Í heil fjögur ár hafa engar samningaviðræður átt sér stað, hvorki hinar venjulegu sem fara fram á jafnréttisgrundvelli á milli ríkis og alþjóðastofnunar né aðrar. Fyrsta verk nýrrar ríkisstjórnar hlýtur að vera að afturkalla hina illa fengnu umsóknarheimild."
Það er bara að taka undir með Morgunblaði og leiðarahöfundi þess. Meirihluti þjóðarinnar og flokkarnir í umræðu um myndun nýrrar ríkisstjórnar hafa engan áhuga á aðild að ESB. En "Já Ísland" sem ætti eiginlega að heita "Já Evrópusambandið" gæti
"þá gert sérstakt átak fyrir áframhaldi viðræðna. Átækið mætti t.d. heita Nei viðræður."
Ég þakka Morgunblaðinu fyrir góðan Uppstigningardagsleiðara, sem lyfti húmornum á topp þennan góða dag.
Meginflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Aukaflokkar: Evrópumál, Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.