Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2025
Hversdagslygar ríkisstjórnarinnar
8.4.2025 | 08:49
Þakka ber Ólöfu Björnsdóttur, tengdamóður Eiríks Ásmundssonar, barnsföður Áshildar Lóu Þórsdóttur fyrrverandi menntamálaráðherra, fyrir bréf sitt í Vísi, að hafa hugrekki til að segja sannleikann í tengdamömmumálinu. Í bréfinu lýsir hún málavöxtum varðandi samskipti Ásthildar og Eiríks sem hófst þegar Eiríkur var 15 ára og Ásthildur 22 ára. Ólöf Björnsdóttir hefur þekkt Eirík í yfir 30 ár. Hún skrifar:
Þess vegna veit ég að Ásthildur Lóa og Eiríkur Ásmundsson áttu sannarlega í sambandi þegar Ásthildur Lóa var 22 ára og Eiríkur 15 ára, jafnvel þó hann væri nýorðinn 16 ára þegar barn kom undir. Þetta viðurkenndi Ásthildur Lóa þegar hún hringdi í mig í fyrsta sinn til að ræða þetta mál. Það gerði hún í vitna viðurvist mín megin sem geta staðfest það.
Þetta er fyrsta lygin sem Ólöf hrekur hjá Ásthildi Lóu. Síðan hrekur hún hverja lygi Ásthildar á fætur annarri. Ólöf skrifar:
Hún (Ásthildur) hafnar því að hafa verið í hlutverki einhvers konar leiðbeinanda. Hvað svo sem safnaðarmeðlimur á fullorðinsaldri hefur verið að gera á vikulegum unglingasamkomum, án þess að unglingar teldu hana þar í hlutverki leiðbeinanda og fulltrúa eldri safnaðarmeðlima, fæ ég illa skilið."
Ólöf segir sér hafa brugðið, þegar hún skoðaði vefsíðu Alþingis, þar sem Áshildur Lóa segist eiga tvö börn með eiginmanni sínum:
Það er einfaldlega ekki rétt. Eldra barnið á hún með Eiríki Ásmundssyni, sem fékk hvorki að hitta barn sitt né umgangast."
Með þessum orðum nefnir Ólöf tvenn ósannindi en Ásthildur fór mikinn í opnu varnarbréfi til að réttlæta hegðun sína og gusaði yfir þjóðina sem ber vott um þvílíkt dómgreindarleysi fv. barnamálaráðherra að trúverðugleiki hennar til að geta gegnt opinberum embættum á Íslandi er að engu orðinn.
Ólöf skrifar að Eiríkur hafi ekki verið gefið tækifæri til að umgangast barn sitt:
Krafa Ásthildar Lóu á umræddum sáttafundi fólst í því að Eiríkur fengi ekki meiri umgengni við son sinn en fælist í því að Eiríkur kæmi inn á hennar heimili í tvo klukkutíma fyrsta sunnudag hvers mánaðar.
Þegar svo á reyndi, gekk Eiríki illa að fá samkomulagið efnt. Þegar fyrsta sunnudag mánaðar bar upp á tíma sem ekki hentaði Ásthildi Lóu, tók hún ekki í mál að leyfa Eiríki og syni hans að hittast helgina á eftir. Eftir nokkrar slíkar skyndilegar afboðanir varð Eiríki ljóst að barnsmóðir hans, hefði lítinn ef nokkurn áhuga á því að hann væri partur af lífi sonar síns og stæði beinlínis í vegi fyrir því.
Honum var ekki einu sinni gefið tækifæri."
Ólöf Björnsdóttir gagnrýnir vinnubrögð forsætisráðuneytisins harðlega eftir að ráðuneytið sveik loforð um að fara með málið sem trúnaðarmál en Ólöf ætlaðist aldrei til að málið færi um borg og bý. Í ofanálag laug forsætisráðherra því úr pontu Alþingis ásamt yfirlýsingu til fjölmiðla að trúnaði hafi aldrei verið lofað. Í viðtali við Morgunblaðið segir Ólöf að hún vilji
að forsætisráðherra biðjist afsökunar vegna þessa, helst úr ræðupúlti Alþingis þar sem orð hennar féllu upphaflega."
Það versta fyrir forsætisráðherra Samfylkingarinnar er að hér talar einn af kjósendum Samfylkingarinnar sem segir satt og heiðarlega frá málavöxtum. Hætt er við að mörgum fleiri kjósendum Samfylkingarinnar sé brugðið, þegar æðsta jafnaðarkona landsins, jafnframt forsætisráðherra, notar lygar sem stjórntæki við stjórn landsins.
Frásögn barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur er trúverðugur, varnarbréf Ásthildar dæmigert lygabréf til að fegra eigin glæp að hafa notfært sér barn sem leitaði hjálpar 15 ára gamall.
Þetta mál afhjúpar ekki bara viðkvæmni margra á Íslandi til að ræða hugtakið barnaníð. Það afhjúpar samtímis forherðingu spilltra stjórnmálamanna sem eru reiðubúnir að ljúga því framan í alþjóð að allt sé í lagi hjá Ásthildi Lóu sem sé eiginlega fórnarlamb illviljaðra fréttamiðla og núna ljúgandi tengdamömmu barnsföður hennar.
Það kemur þó ekki í veg fyrir að bæði forsætisráðherrann og Ásthildur sjálf noti sömu fréttamiðla til að dreifa lygum sínum.
Trúverðugleiki ríkisstjórnarinnar er horfinn.
![]() |
Misboðið og vill afsökunarbeiðni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Hafa Íslendingar gleymt landhelgisbaráttunni?
5.4.2025 | 08:50
Myndin sýnir varðskipið Þór í einu af þorskastríðum Íslands á fyrri öld. Fyrir utan þjófaveiðar breskra togara í íslenskri landhelgi, þá voru freigátur hennar hátignar sendar á vettvang til að sigla á varðskip Landhelgisgæslunnar.
Það er ótrúlegt að horfa upp á það andvara- og sinnuleysi sem niðurrifsstjórn jafnaðarmanna notfærir sér sem skautasvell til að fremja eitt stærsta skemmdarverk í sögu þjóðarinnar á árangri Íslands í sjálfstæðisbaráttunni. Barátta Íslendinga um yfirráðin yfir sjónum og verðmætum hafsins er óaðskiljanlegur þáttur í þeirri velmegun sem aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi færði þjóðinni. Án stækkunar landhelginnar sem landsmenn þurftu að heyja að minnsta kosti þrjú þorskastríð til að yrði að veruleika, þá væru landsmenn enn að hluta til í torfkofum og braggahreysum.
Jafnaðarmenn á Íslandi hafa þvílíkt löðrandi orðbragð um eigin hjartagæsku að jafnvel Kim Jong Un roðnar í samanburði. Í nafni góðmennsku við lítilmagnann á að eyðileggja áratuga störf og baráttu fyrri kynslóða við að byggja upp einn besta sjávarútveg í heimi. Með botnlausu stalínísku hatri á útgerðareigendum og sjómönnum á að ræna sjávarútveginn afkomunni og steypa landinu beint í hyldýpi efnahagslegrar óreiðu og rústun velferðar.
Útgerðarmenn og sjómenn eru brautryðjendur velferðar á Íslandi
Landsmenn ættu að íhuga vandlega, hvað það er sem nærir allt þetta hatur á þessum framtakssömu einstaklingum sem hafa lagt líf og sál að veði til að þróa og reka arðbæra atvinnugrein við jafn erfið skilyrði og sjávarútvegurinn er. Hvað hefur þetta dugmikla fólk gert annað en verið brautryðjendur velferðar á Íslandi? Í staðinn fyrir eitraða öfundsýki ætti að verðlauna þessar hetjur sjávarins. Þegar stjórnmálamenn eru eins og uppásnúnar, uppþornaðar kleinur gagnvart sjómönnum væri ekki úr vegi að Flokkur fólksins leggði fram frumvarp um að enginn stjórnmálamaður sé þingtækur nema eftir eina vetrarvertíð á íslenskum togara. Slíkt vertíðarpróf þingmanna myndi kannski aðeins lækka mesta ofstækið gagnvart stærstu verðmætasköpurum landsmanna.
Sannleikurinn er sá að íslenskir jafnaðarmenn hafa keyrt sína eigin lest út af sporinu og eru fastir í stalínískri gröf Evrópusambandsins. Þannig vinnur forsætisráðherra Íslands, Kristrún Frostadóttir, að því allan sólarhringinn að snúast eins og skopparakringla í kringum hirðina í Brussel. Snérist hún 10% allra hringjanna í kringum eigin þjóð væri það kraftaverk. En hún mun ekki gera það, því stalínískt stjórnarfar er greipt í steingervingsandlit hennar. Íslenski forsætisráðherrann vinnur sem þegar tilsettur amtstjóri yfir Íslandi að formlegri innlimun Íslands í ESB.
Lygar ríkisstjórnarflokkanna - löðrungur framan í landsmenn
Allt sem jafnaðarmenn Samfylkingar og Viðreisnar að ekki sé minnst á Flokk fólksins sögðu fyrir kosningar hefur sannast vera helber ósannindi. Það er til of mikils ætlast að jafnaðarmenn læri af gegnsæi Bandaríkjaforseta og gæðum hans sem stjórnmálamanns sem segir það sem hann ætlar að gera og gerir það sem hann segist ætla að gera.
Íslenskir jafnaðarmenn eru fimmta herdeildin á Íslandi og ef landsmenn taka ekki í taumana munu þeir glata þeim árangri sem fyrri kynslóðir hafa í aldanna rás byggt upp. Markmið þessarar ríkisstjórnar er að rústa sjávarútveginum svo Evrópusambandið geti komið inn og tekið yfir sjóinn í efnahagslögsögu okkar með öllu sem í honum er. Búið er með stórfelldum árásum á farsæla fyrrum vatnsorkustefnu landsmanna að eyðileggja orkumál landsins og áfram er haldið á þeirri braut með byggingu óhaldbærra vindmyllugarða.
Öfundsýki jafnaðarmanna
Öfundsýki jafnaðarmanna er engin venjuleg öfund. Hún er móðir allrar öfundar þess fólks sem sjaldnast hefur sjálft gert eitt ærlegt handtak um ævina. Ný grenjandi kröfukynslóð sér ofsjónum yfir dugnaði annarra og það eina sem þeim dettur í hug er að ráðast á þá sem vinna ötullega og skapa verðmætin og stela árangrinum. Halda menn virkilega að vegir landsins verði holuminni við þennan þjófnað og eyðileggingu á efnahagslegum grundvelli Íslands?
Jafnaðarmenn eru haldnir þeim misskilningi að það séu stjórnmálamenn sem skapi verðmæti. Jafnaðarmenn byggja upp ríkisvald, þar sem einstaklingurinn og fávís lýðurinn" sem fyrrverandi forseti kallar almenning, mega sín einskis. Samfylkingin, Viðreisn og Flokkur fólksins eru talsmenn sama ójöfnuðar og svínið, kötturinn og hundurinn í sögunni um litlu gulu hænuna. Komu hvergi nærri framleiðslunni en heimtuðu að fá að borða kökuna þegar hún var tilbúin.
Næsta skref, eftir að sjávarútvegurinn verður eyðilagður, verður að greiða atkvæði um að fangelsa útgerðarmenn og talsmenn sjómanna og láta möppudýr sjávarútvegsmálaráðuneytisins sökkva þeim fiskiflota sem eftir er.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)