Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2013

RÚV og Landsdómur

Hér koma hugsanir mínar um RÚV og Landsdómsmálið/Geir Haarde.

 

ska_776_rmavbild_2013-07-16_kl_12_17_22.pngimages-1_1208581.jpgHneisa ríkisútvarpsins er mikil, þegar sjálfur forsætisráðherra landsins sér sig knúinn að benda á takmarkanir RÚV í fréttamiðlun, sem oftar en ekki leggur stein í götu frjálsrar rökræðu á Íslandi. Pólitísk hlutdrægni ríkisútvarpsins hefur verið svo yfirgengileg síðustu árin og úrvötnun raka svo afgerandi að ríkisútvarpið hefur glatað hlutverki og stöðu sinni sem faglegur upplýsingamiðill. Orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar lýsa vel sorglegu ástandi ríkisútvarpsins: "Engin brella virðist svo aum og enginn útúrsnúningur svo augljós, að hann verði ekki að stórfrétt."

 

Því miður hafa starfsmenn RÚV innleitt "skoðana"útvarp í stað faglegs hlutleysis. Innlegg í pólitískum tilgangi hafa haft forgang en staðreyndir setið á hakanum. Ríkisútvarpið er orðið svo litað einni stjórnmálaskoðun, að það getur ekki lengur umgengist lýðræðislega kjörna fulltrúa landsins - hvorki forsetann, forsætiráðherrann né aðra á grundvelli starfsins heldur spilar RÚV stöðugt stjórnmálaskoðanir, sem landsmenn gáfu langt nef í alþingiskosningunum. Að þessu leytinu er ríkisútvarpið tímaskekkja sem þarf að lagfæra.

 

T.d. vekur "frétt" ríkisútvarpsins um sænska konunginn sem "skattsvindlara" spurningu, hvort ríkisútvarpið hafi tekið afstöðu gegn konungsveldi yfirleitt eða hvort það er bara um sænska konungshúsið sem RÚV dreifir órökstuddum fullyrðingum? Starfsmönnum ríkisútvarpsins á að vera kunnugt um, að sænska sjónvarpið var fellt af hlutleysisnefnd sjónvarpsins fyrir hlutdrægni gegn sænska konungshúsinu og hefðu þess vegna átt að vera sérstaklega á verði gagnvart "fréttum" sem framreiddar eru af andstæðingum konungsveldis í Svíþjóð. Það hlýtur að vera lágmarkskrafa, að fréttamenn gæti hlutleysis með því að kanna sjálfir staðreyndir við fréttaflutning. Ríkisútvarpið hefði með einu samtali til yfirmanna Stenhammar hallarinnar fengið allt aðra mynd en þá, sem landsmönnum var boðið upp á og gekk út á að gera sænska konunginn tortryggilegan í augum Íslendinga.

 

Breytinga er þörf og ég fagna lagabreytingu Alþingis á skipulagi ríkisútvarpsins. Verði ekki hægt að tryggja lágmarks faglegan fréttaflutning ríkisútvarpsins verður að setja fram þá kröfu, að stofnunin verði lögð niður, því ósanngjarnt er að þvinga útvarpsnotendur að greiða fyrir stjórnmálalegan, hlutdrægan miðil.

 

Önnur stofnun _ sjálft Alþingi _ hefur verið til umræðu vegna eiðsbrota hluta þingliðs við stjórnarskrá lýðveldisins. Virkjun Landsdóms í stjórnmálalegum tilgangi til að ná sér niður á stjórnmálandstæðingum er skýrt dæmi, hunsun á niðurstöðum Hæstaréttar og stofnun stjórnmálaráðs utan þings er annað. Virðingarleysi við aldagamla lýðræðislega starfshætti einkenndi fráfarandi ríkisstjórn, sem hafði það eina kappsmál, að gera Ísland að amti í ESB. Vegna stjórnmálaofsókna gegn Sjálfstæðisflokknum mun Ísland nú komast í bækur sögunnar sem ólýðræðislegur mannréttindaþrjótur í stíl við einræðisríki, sem fótum troða rétt einstaklinga, frjálsa skoðanamyndun og lýðræðislega umræðu. Geir Haarde hefur verið útmálaður um heim allan sem "embættis- og fjárglæpamaður", ég var t.d. beðinn um að upplýsa um þennan "skúrk" í Ástralíu og gat þá komið upplýsingum um stjórnmálaástandið á framfæri og leiðrétt að hluta þær tröllasögur, sem gengu um þennan ágætismann. Þótt íslenska ríkið verði skaðabótaskylt geta engar fjárhæðir leiðrétt eyðilagðan orðstír Geirs Haarde á heimsvísu. Hins vegar getur þjóðin veitt Geir Haarde æðstu orðu fyrir neyðarlögin, sem vörðu landsmenn frá ólögmætum skuldakröfum óreiðumanna og er þekkt um veröld víða sem "do Iceland", þ.e.a.s. að láta bankana sjálfa bera ábyrgð á viðskiptum sínum.

 

Ég fagna hugmynd Bjarna Benediktssonar um Landsdóm, sem miðar að því að afnema úrelt og ónothæft tæki, sem var misnotað í pólitískum tilgangi. Forsætisráðherrann hefur einnig lýst því yfir, að haldbær lausn verði fundin, sem kemur í veg fyrir stjórnmálalega misbeitingu valds eins og fyrri ríkisstjórn gerði sig seka um. Virðist full þörf vera fyrir eftirlits- og aðhaldsnefnd Alþingis sjálfs, sem getur kallað til sín sérfræðinga úr réttar- og dómskerfinu og rannsakað innri mál þings þegar vafi leikur á um sakhæfi mála. Í Svíþjóð er sérstök stjórnarskrárþingnefnd sem úrskurðar um valdsvið ráðherra og þingsköp og geta þingmenn kært misbeitingu valds til nefndarinnar, sem þá rannsakar málið og heldur yfirheyrslur.

 

Umræðan um aðhald í stjórnmálum og eftirlit með ríkisstofnunum er þörf og sýnir, að lýðræðið virkar. Nýir embættismenn, sem ræða málin á opinskáan og hispurslausan hátt við kjósendur eru styrkur fyrir lýðræðið, sem við skulum öll hlúa að. Breyttir stjórnarhættir, virðing fyrir einstaklingnum og einstaklingsfrelsi eru mikill léttir miðað við valdbeitingu fyrri ríkisstjórnar. Ríkisstjórnin á ekki létt verk fyrir höndum að venda skútunni eftir vinstri óstjórnina og fjármálasukkið en embættismenn, sem skilja að völdin eru til að þjóna landsmönnum, eru forsenda þess að þjóðin geti einbeitt sér að endurreisn sem fullvalda og sjálfstætt ríki.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband