Veiki punkturinn er sjálft Alþingi
4.10.2025 | 15:11
Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, varar íslenska þjóð við glötun sjálfstæðis og fullveldis, vegna vinnubragða sem alþingismenn hafa innleitt undanfarin 30 ár með því að hafa sjálfkrafa samþykkt allt það regluverk sem skrifstofuveldinu í Brussel hefur þóknast að senda Alþingi til innleiðingar í íslenskan rétt. Arnar Þór spyr réttilega í grein í Morgunblaðinu í dag, hvort íslenskt stjórnarfar sé komið í öngstræti? Hann bendir á að Alþingi og framtíð þess tilheyrir ekki þeim sem nú sitja á Alþingi heldur fólkinu í landinu, íslenskri þjóð. Hann segir einnig að áhættan sé raunveruleg og alvarleg, að þjóðarskútan sigli í strand með núverandi skorti á sjálfstæðu stjórnarfari.
Vert er að taka undir hvert einasta orð í þessari viðvörun Arnar Þórs, sem eytt hefur miklum tíma í hjartans mál sitt að upplýsa og ræða við landsmenn sem unna landi sínu og þjóð. Hann fór út fyrir þægindaramma fastrar atvinnu í frelsisbaráttu fyrir þjóðina og fórnaði einkahagsmunum fyrir þjóðleg málefni. En honum var ekki vel tekið af stjórnmálaelítu þessa lands, sem hefur komið sér vel fyrir í eigin afkomukerfi á kostnað skattgreiðenda og keyrir þjóðarskútuna á sjálfstýringu samkvæmt leiðakerfi Brussel. Fyrir þetta fólk eru ábendingar Arnar Þórs eitur í beinum og skiptir þá engu, hvaða flokki viðkomandi tilheyrir. Frjálslyndir Sjálfstæðismenn hafa í samstarfi við vinstri flokkað lagt götu þeirrar þróunar að fullveldisstefnan sem var grundvöllur við stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur verið yfirgefin og sífellt meiri undirgefni sýnd Brusselvaldinu sem ekki má andmæla. Vinstri mönnum hefur einnig tekist að sundra Sjálfstæðisflokknum samanber Viðreisn, þannig að flokkurinn er í einni af sinni verstu krísu frá stofnun flokksins miðað við fylgið.
Ef Sjálfstæðisflokkurinn nýtir ekki tækifærið til leiðréttingar á mistökum sínum núna með því að berjast og greiða atkvæði gegn Bókun 35, þá er flokkurinn búinn að vera mörg ár fram í tímann. Allt síðan Davíð Oddsson lét af störfum sem formaður flokksins hefur kjörfylgið minnkað jafnt og þétt. Guðrúnu Hafsteinsdóttur er mikill vandi fyrir höndum en tækifærið er núna og hennar að taka það.
Arnar Þór skýrir grundvöll stjórnarskrárinnar og lýsir ástandinu í dag:
Í samræmi við þetta byggist íslensk stjórnskipun á því grundvallarsjónarmiði að allt vald ríkisins stafi frá þjóðinni sjálfri. Þess vegna er frelsið horfið og sjálfstæðið tapað þegar handhafar framkvæmdavalds eða erlends valds eru í reynd farnir að stýra daglegu lífi, en ekki handhafar löggjafarvalds þjóðarinnar. Með slíku fyrirkomulagi er skorið á taugina sem gefur lögunum festu og gildi, þ.e. að þjóðin hafi veitt umboð sitt.
Arnar Þór segir greinina vera skrifaða:
til áminningar um þá staðreynd, að í rúmlega 30 ár hefur Alþingi samþykkt allt það regluverk sem skrifstofuveldinu í Brussel hefur þóknast að senda Alþingi til innleiðingar í íslenskan rétt. Allir sem þekkja til starfa Alþingis vita, að fæstir þingmenn lesa þessa þykku bunka af reglugerðum og tilskipunum frá Brussel.
Arnar Þór heldur áfram:
Tímabundið umboð þingmanna innan marka stjórnarskrárinnar er besta trygging almennings gegn ofríki. Alþingismenn hafa enga heimild til að gefa þetta umboð frá sér til stofnana í fjarskalandinu, hvorki með hugsunarlausri framkvæmd né með beinum stuðningi við frumvarpið um bókun 35, því enginn hefur veitt þeim heimild til að höggva í þær rætur fullveldis, sjálfstæðis, lýðræðis og lifandi lagasetningar sem Alþingi var stofnsett til að verja. Alþingi og framtíð þess tilheyrir ekki þeim sem nú sitja á Alþingi, heldur fólkinu í landinu, íslenskri þjóð. Áhættan er raunveruleg og alvarleg.
Sú ríkisstjórn fullveldissvikara sem nú er við völd mun taka málfrelsið af stjórnarandstöðunni til að keyra Bókun 35 í gegn. Bæði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra og Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra vinna samkvæmt áætlun Evrópusambandsins um að taka völdin af landsmönnum og komast yfir fiskimiðin og orkuna. Þeim er meira í mun að fá myndir af sér með leiðtogum heims en að standa vörð um hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Árás ríkisstjórnarinnar á sjávarútveginn er nærtækt dæmi, það næsta er Bókun 35. Arnar Þór skrifar:
Verði það frumvarp að lögum er raunveruleg og alvarleg hætta á að í meðförum Alþingis verði valdið yfir þjóðinni afhent erlendum stjórnvöldum.
Vonandi tekst þjóðinni að sjá gegnum svik ríkisstjórnarinnar áður en allt verður um seinan og þjóðin glati sjálfstæði sínu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Skil ekki XD. Það er eins og þeir þrái ekkert heitar en að hafa sama fylgi og VG hafa núna.
Ásgrímur Hartmannsson, 4.10.2025 kl. 16:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning