Alþjóðlegt ávarp forseta Íslands

esbkyrjur.jpg (kopia)Í ávarpi forseta Íslands, Höllu Tómasdóttur, við setningu Alþingis þann 9. september ræddi hún eingöngu um tvö mál: Annars vegar Alþingi og hins vegar gervigreind. Mestur hluti ræðunnar fjallaði um störf Alþingis og þingmanna og þá staðreynd að virðing þingsins hefur fölnað í ásjón þjóðarinnar. Enginn þjóðlegur blær var í ræðunni, engin saga, engin tunga, engin menning. Engin hvatningarorð til íslensku þjóðarinnar sem býr við vaxandi erfiðleika vegna opinna landamæra. Ekkert traust til fátækra nýstofnaðra fjölskyldna sem berjast í bökkum að koma þaki yfir höfuðið. Engin vörn fyrir íslenska tungu sem er stödd á hrakhólum vegna alþjóðlegrar menningar sem streymir inn í landið í umboði Alþingis. Engin hvatningarorð til þjóðarinnar að standa saman gegn ásælni erlends stórríkis í auðlindir Íslands, sjávarútveg, raforku m.fl. Sem sagt ekkert Ó Guð vors lands, ó land vors guðs.

Þar sem enginn skortur er á málefnum almennings þá hefði forsetinn hæglega getað hvatt þingmenn til dáða á þjóðlegum grunni. En forsetinn valdi þá leið að tala til þingmanna eins og mamma sem er að sussa á börnin um að vanda málfarið. Eiginlega var boðskapurinn að ef þið krakkar hættið ekki þessu bulli, þá verður mamma að loka ykkur inni og þið megið ekki fara út á götu að leika við hina krakkana.

Orð forsetans voru þessi:

„Hugsanlega er tímabært að hugleiða breytingar á þingskapalögum, jafnvel á stjórnarskránni. Það má og á ekki að vera keppikefli háttvirts Alþingis að halda áfram að setja met í málþófi.“ 

Hvað hefur forsetinn fyrir sér í því að það sé keppikefli háttvirts Alþingis að setja met í málþófi?

Á Alþingi er ríkisstjórn sem nýlega hefur þvingað í gegn stærstu árás á undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar frá stofnun lýðveldisins 1944. Stjórnarandstaðan hefur beitt sínu ýtrasta innan ramma þingskapa og lýðræðis til að stöðva og í leiðinni upplýsa þjóðina um hörmulegar afleiðingar laganna. Stjórnarliðar beittu svo kölluðu „kjarnorkuákvæði“ til að stöðva áframhaldandi umræðu og þvinga atkvæðagreiðslu um málið. Meirihluti Alþingis samþykkti þá meðferð. Ríkisstjórnin mun ekki hika við að beita ákvæðinu aftur í innlimunarferli landsins í Evrópusambandið án þess að þjóðin komi þar nærri.

Með fullyrðingu sinni um „met í málþófi“ tekur forseti Íslands afstöðu með vinstri ríkisstjórn Íslands og leggur blessun sína á áframhaldandi skerðingu málfrelsis með tillögu um breytingu á þingsköpum og sjálfri stjórnarskránni. Þar sem Halla Tómasdóttir kemur með þessa beinu íhlutun í stjórnmálin, þá verður hún að svara spurningunni hvaða breytingar á þingsköpum og stjórnarskrá hún er að tala um. Geri hún það ekki mun hennar eigin virðing einnig fölna meðal almennings.

Ríkisstjórnin mun koma með svarið í eflingu alræðistilburða, skerðingu málfrelsis og beinni ritskoðun. Halla Tómasdóttir og vinstri viðreisnarstjórn jafnaðarmanna vita nákvæmlega, hvaða málfrelsisskerðingar eru framkvæmdar í nafni góðmennskunnar. Starfsbróðir Kristrúnar Frostadóttur í Bretlandi er búinn að missa allt niður um sig eftir að hafa fetað þá ritskoðunarleið sem forseti Íslands og ríkisstjórn Íslands boða. Þar er fólk handtekið til hægri og vinstri fyrir að tjá sig á samfélagsmiðlum.

Fyrir utan að framkvæma ritskoðun og banna rússneska fjölmiðla þá hefur Evrópusambandið samþykkt stafrænt eftirlit með öllum samskiptum einstaklinga innan ESB, Chat control ásamt Digital Services Act, DSA. Hinni hatrömmu leynilögreglu Stasi í Austur-Þýskalandi gat aðeins dreymt um þvílíkt eftirlit. Evrópusambandið stendur í málaferlum gegn þeim aðildarríkjum hjá Evrópudómstólnum sem neita að innleiða ritskoðunina hjá sér. Það mun ESB ekki þurfa að gera gagnvart Íslandi með núverandi forseta og ríkisstjórn.

Kannski eru hugmyndir Höllu Tómasdóttur um stjórnarskrárbreytingar fólgnar í því að koma í veg fyrir að góða fólkið á Íslandi þurfi á heimsstyrjöld að halda til að lýsa yfir neyðarástandi og fá lagalegan grundvöll til að viðhalda völdum án kosninga eins og Zelenský í Úkraínu. Allar leiðir góða fólksins í Evrópu að Íslandi meðtöldu liggja beint í heimsstyrjöld við Rússland. Þar má hvorki gefa eftir tommu né viðurkenna hernaðarlegar staðreyndir.

Hvort sem er, þá skuldar forsetinn þjóðinni skýringu á því hvað hún hefur í huga með hvatningu sinni um breytingu á stjórnarskrá og þingsköpum. Það er engan veginn hlutverk þjóðhöfðingjans að grípa inn í stjórnmálin með slíkum hætti og núna verður Halla Tómasdóttir að standa sitt kast.


mbl.is Orð forsetanna við þingsetningu vekja undrun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband