Hvað má fremja mörg landráð án þess að sæta refsingu?
5.8.2025 | 10:26
Það á ekki af íslensku þjóðinni að ganga. Með loforði ríkisstjórnarflokkanna um að umsóknin að ESB yrði ekki endurvakin nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu, þá fengu ríkisstjórnarflokkarnir brautargengi í síðustu alþingiskosningum. Þakkirnar fyrir traustið er síðan rýtingur í bakið.
Hjörtur J. Guðmundsson sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur skrifar grein í Morgunblaði dagsins, þar sem hann leggur fram haldbærar sannanir fyrir því að aðildarferli umsóknar Íslands að ESB sé þegar hafið með samningi utanríkisráðherra við ESB um aðlögun utanríkisstefnu Íslands að utanríkisstefnu ESB og undirskrift atvinnuráðherra að aðlögun Íslands að sjávarútvegsstefnu ESB. Ríkisstjórnin kemur fram með þessum hætti sem valdníðingur gegn þingi og þjóð. Ekkert var upplýst eða haft samráð um fyrirhugaða samninga áður en þingið fór í sumarleyfi. Í æsingnum að komast sem fyrst í himnaríki von der Leyen, þá hunsa ríkisstjórnarflokkarnir kjósendur.
Með þessum rýting í bak þjóðarinnar sýnir ríkisstjórnin að hún er alfarið í taumi framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins. Með svikum ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur við landsmenn hefur framkvæmdastjórn ESB verið hleypt inn í sjálft stjórnarráðið. Hjörtur J. skrifar:
Deginum ljósara er að slíkt samkomulag getur á engan hátt samrýmst sjálfstæðri utanríkisstefnu. Með því er í reynd verið að færa vald yfir íslenskum utanríkismálum til Evrópusambandsins. Ekkert umboð er til þess. Hvorki frá Alþingi né kjósendum.
Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa ítrekað slegið um sig með þeim orðum að þeir treysti þjóðinni til þess að ákveða í þjóðaratkvæði hvort hefja eigi á nýjan leik umsóknarferli að Evrópusambandinu. Hins vegar er á sama tíma ljóst að ríkisstjórnin hefur þegar hafizt handa við að hrinda ferlinu óformlega af stað áður en þjóðin hefur kosið um málið og áður en fyrir liggur hvort hún leggi blessun sína yfir það. Nokkuð sem er væntanlega aðeins forsmekkurinn.
Með grein sinni hefur Hjörtur J. Guðmundsson afhjúpað lygina um komandi atkvæðagreiðslu sem ríkisstjórnin reynir að blekkja landsmenn með að sé spurning um heimild til að fara í aðlögunarferli sem þegar er hafið. Á meðan þjóðinni verður talin trú um að hún sé að veita heimild til aðlögunarviðræðna, þá er hún í reynd að greiða atkvæði um inngöngu þjóðarinnar í ESB. Komandi atkvæðagreiðsla verður eins og sjálft ESB túlkar það, einungis spurning um hvort Ísland samþykki inngönguna í ESB: já eða nei. Svari þjóðin nei, þá verður smáatriði breytt og þjóðin látin kjósa aftur og aftur þar til já fæst og Ísland orðinn fullgildur meðlimur Evrópusambandsins.
Með áformum ríkisstjórnarinnar er enginn annar valkostur í boði fyrir framtíð Íslands en að afhenda ESB auðlindir landsmanna og þeir látnir þræla fyrir Brusselhirðina það sem eftir er.
Í samanburði við þá framtíðarsýn var nýlendukúgun Danmerkur eins og fjölskylduskemmtun á Arnarhóli.
![]() |
Umsóknarferlið óformlega hafið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:30 | Facebook
Athugasemdir
Vandamál Íslendinga felst fyrst og fremst í svikum Sjálfstæðisflokksins við fullveldi þjóðarinnar.
Þau svik voru afdrifarík og komu aftan að mörgum.
Júlíus Valsson, 5.8.2025 kl. 11:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning