Hið raunverulega valdarán
26.7.2025 | 06:57
Blaðrandi skessur væri kannski meira réttnefni en valkyrjur en eins og Íris Erlingsdóttir, fjölmiðlafræðingur hefur bent á með tilvísun í Njáls sögu á sú lýsing í reynd betur við um þann örlagavef sem forystukonur ríkisstjórnarflokkanna vefa landsmönnum sínum.
Ísland er komið á ný í bullandi aðlögunarferli inngöngu í ESB samtímis og verið er að skylmast um hver sagði hvað varðandi afturköllun aðildarumsóknar Íslands. Það verður að teljast harla merkilegt að sendinefnd Íslands neiti að svara spurningu Morgunblaðsins um hver afstaða hennar er um stöðu íslenska ríkisins, þegar blaðið vitnar í fyrri ummæli nefndarinnar um að Ísland er ekki lengur á skrá yfir umsóknarríki. Það er í algjörri mótsögn við umsögn framkvæmdastjórnar ESB og sendinefndar ESB á Íslandi.
Þá er það ekki síður merkilegt, að utanríkisráðuneytið neiti að láta Morgunblaðinu í té upplýsingar um kröfu ESB um fyrir fram afhentar spurningar blaðamanna til Ursulu von der Leyen á þeirri forsendum að halda verði samskiptum ríkjanna leyndum. Fyrir lýðræðislega stjórnarhætti er þetta að sjálfsögðu ekkert annað en ritskoðun sem er passandi fyrir það dramb, þann hroka og einræðisstíl sem ESB iðkar. Evrópusambandið er með þessari ritskoðun einnar spurningar lýðræði fyrir fáa útvalda í Einnar Spurningar Bandalaginu.
Vefstóll valkyrja nýtir mannshöfuð í kljána og mannsþarma í viftu og garn sem er passandi lýsing á því sem kemur út, þegar vættum lýðveldisins, skjaldarmerki og sjálfri fjallkonunni er fargað fyrir Brusselveldið. ESB vefurinn er bútasaumsteppi gert úr afgöngum dugmikilla fyrirtækja og vitsmuna landsmanna í kjölfar skemmdarstarfs og skattpíningar ríkisstjórnarinnar.
Yfirlýsingar ráðherra um samstarf ESB og Íslands í fiskveiðimálum segir það sem segja þarf. Gerður hefur verið nýr samningur um fiskveiðar og hafmál milli Íslands og ESB. Ætlunin er að tryggja náið samstarf um stjórnun fiskveiða og auðlindir Íslands sem ESB tekur yfir og verða auðlindir ESB.
Að segja stjórn eigin fiskimiða vera sameiginlegt verkefni með ESB innan 200 mílna landhelgi Íslands er uppgjöf þjóðarinnar á heimavelli ESB án þess að neinn leikur hefur verið kynntur. ESB fær auðlindir landsmanna fyrir fram sem gjöf áður en dómarinn flautar til leiks.
Þessi leikur án leikreglna og dómara er kúgun þess stóra og sterka á þeim sem minna má sín. Valkyrjurnar hefðu átt að hafa stærri orð um valdarán"stjórnarandstöðunnar sem vildi ræða málin en fékk ekki. Valdarán er réttnefni á framferði ríkisstjórnarinnar sjálfrar sem laumast með aðild að ESB að baki þingheims og þjóðarinnar og segir frá þegar orðnum hlut þegar búið er að loka þingi vegna sumarleyfa!
Á svo að nota hinn fyrirhugaða ESB-her íslenskra Almannavarna til að berja niður ósammála, óhlýðna Íslendinga? 30 manna hópur sem kærði Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir fyrir landráð getur bætt fleiri nöfnum á listann.
Bandaríkjamenn hafa alla vega hlutina á hreinu með Evrópusambandið og segja stafræn ritskoðunarlög ESB vera sett til að vernda stjórnendur sambandsins frá eigin landsmönnum. Hið sama gildir um Ísland og valkyrjurnar sem fremja valdarán um hábjartan dag og neita að ræða við blaðamenn til að tryggja eigin hag gegn Íslendingum.
![]() |
Segja Ísland ekki aðlaga sig að sjávarútvegsstefnu ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning