Veiðigjaldafrumvarpið keyrt í gegn til að þóknast Ursulu von der Leyen

 

2islandesb (kopia)Það er engin tilviljun að forsprakki hins ólýðræðislega ESB, Ursula von der Leyen, leggur leið sína til Íslands á fund með Kristrúnu Frostadóttur, forsætisráðherra og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, utanríkisráðherra síðar í vikunni. Heimsóknin er ákveðin þáttur í innlimunarferli Íslands í sambandið þar sem fagnað er áfangasigri í slagi við íslenska sjómenn með lögleiðingu veiðigjaldafrumvarpsins. 

Lögin draga úr áhrifum sjávarútvegsins sem er stór árangur á þeirri leið að ESB yfirtaki fiskveiðilögsögu Íslendinga. Sjálfstæðir sjómenn og bændur sem vilja fullvalda ríki á Íslandi eru eitur í beinum ESB og því þarf að greiða götu yfirtökunnar á Íslandi með því að draga úr áhrifum og skaða afkomumöguleika þessara aðila. Ef veiðigjaldafrumvarpið hefði ekki farið í gegn, þá kæmi Ursula von der Leyen ekki til Íslands. 

Nú skal merkum áfanga fagnað og næstu drög ákveðin í þeim blekkingarleik að láta landsmenn trúa því að þeir eigi að kjósa um hvort ríkisstjórnin eigi að taka upp aðildarviðræður eða ekki. Sú kosning verður aldrei neitt annað en kosning um að þjóðin samþykki inngöngu í ESB. Verði útkoman já, þá mun ríkisstjórn Íslands og ESB skrifa undir inngildingarsamning sem þing og forseti verða látin staðfesta. Ef útkoman verður nei, þá gefur ESB eitthvað sýndarmál eftir svo ríkisstjórnin geti komið með sigurfang til baka og kosið verður aftur til að fá jáið. 

Ríkisstjórnin er með samningum á bak við landsmenn, þegar á bólakafi í aðildarferlinu enda lítur ESB svo á að Ísland sé formlegur umsóknaraðili, þótt umsóknin hafi verið sett í bið um hríð. Ríkisstjórn Kristrúnar er stærsta svikastjórn landsmanna á lýðveldistímanum, því þótt fyrsta „alvöru“ vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi áður slegið met í svikum varðandi Icesave og kíkja í pakkann ruglið, þá eru svikin stærri hjá núverandi stjórn sem orðin er framlengd hönd framkvæmdastjórnar ESB. Enginn Íslendingur hefur kosið Ursulu von der Leyen en samt er hún farin að stjórna sem yfirmaður Íslands. 

Málið snýst einnig um gamalkunnugt mál: Stórveldadraum á meginlandinu að sigrast bæði á Rússlandi og Bandaríkjunum. ESB rekur úkraínska ríkið með fjárframlögum skattgreiðenda sambandsins og hefur breyst í hernaðarbandalag með ótrúlegum fjármunum til hernaðaruppbyggingar fyrir komandi stríð gegn Rússum. 

Gústaf Níelsson, sagnfræðingur vekur athygli á hernaðarlegri hlið málsins og bendir réttilega á að Íslendingar eigi að rækta samband sitt við sögulegan vin okkar, Bandaríkin, í stað þess að skríða á hnjánum undir yfirvaldið í Brussel. Gústaf skrifar á Facebook:

„Það ætti enginn að velkjast í vafa um það, að á bak við tjöldin, hefur verið tekin ákvörðun um það, bæði á vettvangi ESB og ríkisstjórnar Íslands, að keyra Ísland undir Brusselvaldið, með góðu eða illu. Heimsókn af þessu tagi undirstrikar það. Ég vænti þess að nú fari fé að streyma frá Brussel í margvísleg verkefni til þess að aðlaga Ísland að bandalagi í hnignunarferli. Undir er landið og miðin; fólkið í landinu skiptir engu máli í stóra samhenginu.

Áhugaverð í fréttinni eru þessi orð: „Þessi vinnu­heim­sókn er til marks um aukið sam­starf Íslands og Evr­ópu­sam­bands­ins á vett­vangi ör­ygg­is­mála og er liður í stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar um að skerpa sýn helstu banda­manna okk­ar á viðvar­andi ör­ygg­is­áskor­an­ir á norður­slóðum og í Norður-Atlants­hafi.“

Evrópusambandið er í engum færum til þess að treysta öryggi Íslands, hvorki hernaðarlega né efnahagslega. Íslendingar hafa haft ágætan varnarsamning við Bandaríkin frá 1951 og hafa þau verið helsta vinaþjóð Íslendina allt frá lýðveldisstofnun og aldrei gert neinar kröfur um aðlögun að nokkru tagi. Nær væri núna að bjóða Bandaríkjunum að reisa stóra flota- og björgunarmiðstöð í Finnafirði fyrir austan og byggingu flugvallar á Melrakkasléttu til þess að treysta öryggishagsmuni á norðurslóðum. Slík ráðstöfun myndi hagnast allri Evrópu.“


mbl.is Ursula von der Leyen á leið til landsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband