Gott mál hjá Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formanni Sjálfstæðisflokksins, að taka upp greiðslur ríkisstjórnarinnar úr ríkissjóði til að greiða fyrir réttar skoðanir um aðild Íslands að ESB. Ríkisstjórnin notar peninga landsmanna til að efla ESB-áróðurinn á Íslandi fyrir komandi þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í ESB. Flokkur fólksins mótmælir engu enda sjálfur á kafi í eigin fjármálasvindli. Markmið ríkisstjórnarinnar er að landsmenn segi já í þeirri trú að verið sé að kanna afstöðu þeirra til hvort taka eigi upp aðildarumræður að nýju. Það er ósvífin blekking. Aðildarviðræðurnar eru þegar hafnar eftir heimsókn forsætis- og utanríkisráðherra til Brussel strax eftir kosningar.
Ríkisstjórnin vinnur samkvæmt áætlun ESB um að taka yfir Ísland á bak við landsmenn. Í raun starfar ríkisstjórnin eins og skipuð bráðabirgðastjórn Evrópusambandsins, þar til önnur verður skipuð eftir að búið er að véla Ísland inn í sambandið. Í aðdraganda kosninganna sögðu kratar og Viðreisn að aðild að ESB yrði ekki á dagskrá. Það hefur sýnt sig, að innganga Íslands í ESB er aðalmál ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Jafnaðarmenn kunna að blekkja og svíkja. Það kunna líka peningaþvottamenn útrásarvíkinga sem tókst að næla í milljarða króna úr vösum landsmanna á hlaupum eftir hrun.
Enginn skal halda að komandi þjóðaratkvæðagreiðsla sé um eða verði tekin sem neitt annað en svar Íslendinga um hvort þeir vilja ganga með í ESB eða ekki. Svari Íslendingar já, verður dreginn upp tilbúinn samningur við ESB og lagður fyrir Alþingi og forseta Íslands til samþykktar. Svari Íslendingar nei verður samningnum breytt lítils háttar og kosið aftur. Og aftur og aftur þar til niðurstaðan verður já.
Guðrún Hafsteinsdóttir bendir réttilega á að kjörnir embættismenn eiga að gæta sameiginlegra hagsmuna landsmanna:
Við erum komin á þann stað að ríkisstjórnin ætlar að ausa peningum úr ríkissjóði í stéttarfélög og önnur samtök, mörg hver með milljarða í sínum sjóðum, til að halda uppi áróðri fyrir sínu helsta stefnumáli. Ef ríkisstjórnin væri að veita sömu fjármuni til atvinnurekendasamtaka til að tala gegn ESB-aðild, væri þá ekki litið á það sem pólitíska misnotkun? Hvers vegna er þetta ásættanlegt þegar sjónarmiðin falla að stefnu ríkisstjórnarinnar? Með þessu er verið að stíga yfir mörk sem eiga að skilja stjórnmál og opinbera fjárveitingu.
Þetta eru orð að sönnu. Þegar stjórnmálaflokkar sjá ekki mun á fjármálum landsmanna og eigin flokks, þá eru málin komin á hættulega braut. Lýðræðið víkur fyrir alræði. Guðrún spurði:
Hvernig getur það talist forsvaranleg meðferð á opinberu fé að ríkisvaldið beiti fjármagni almennings til að styðja pólitíska umræðu sem beinlínis fellur að stefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar?
Svar Þorgerðar Katrínar um að hætta standi af utanaðkomandi öflum vekur spurningar. Af hverju segir ekki ráðherrann hreint út Rússar og Bandaríkjamenn?
Guðrún Hafsteinsdóttir hittir beint í mark, þegar hún bendir á það afl sem er þjóðinni hættulegast:
Það er ekki hlutverk stjórnvalda að greiða fyrir rétt svar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
![]() |
Ekki hlutverk stjórnvalda að greiða fyrir rétt svar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.