Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur

fiskvinnslukonur-1910-1920-kirkjusandurÍ dag er veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar til umræðu á Alþingi. Hraða á för gegnum þingið svo „leiðréttingin" nái fram að ganga. Það sem verið er að „leiðrétta" er verðmætasköpun liðinna kynslóða og barátta forfeðranna að fá að ráða sjálfir yfir sjómennsku og landhelgi. Saga sjómennskunnar er órofa samtvinnuð sögu íslensku þjóðarinnar. Núna er í lagi að vaða yfir árangurinn á skítugum skóm háskólamenntaðs fólks sem telur eigin raunheim úr tengslum við veruleikann æðri dugnaði Íslendinga í aldanna skaut. 

Stefna ríkisstjórnarinnar er morð á mikilvægustu undirstöðugrein atvinnulífsins. Það mun ekki líða langur tími þar til árangur „leiðréttingarinnar" kemur í ljós. Útgerðir munu fara á hausinn og hætta störfum. Sjómenn munu hætta sjósókn og leita eftir vinnu í landi. Afskipti fákunnugs fólks með ríkisvald í höndum mun leggja efnahagslíf þjóðarinnar í rúst. Því miður skilja ekki barnalegir mennta- og háskælingar öll umsvif og störf kringum sjóinn sem hefur svo mikil áhrif á velferð landsmanna. Það eru ekki bara sjómennirnir og útgerðarmennirnir sem fara og vinna afrekið að ná þorskinum upp úr hafinu, heldur allur sá skari manna sem kemur því í kring að gera það mögulegt. Skipasmíðar, hátæknibúnaður, netfæraframleiðsla, viðhald, fasteignir og fiskverkunarstöðvar í landi, flutningar innanlands og á erlenda markaði og svo má lengi halda áfram að telja þau jákvæðu áhrif sem sjómennskan hefur á allt líf þjóðarbúsins.

Íslenskur fiskur er einn sá besti ef ekki sá besti sem til er í heimi. Ísland gegnir mikilvægu hlutverki í matarkeðju miklu fleiri en Íslendinga sjálfra. Allt þetta hefur áunnist með gríðarlegum dugnaði sjóvíkinga sem skapað hafa verðmætin á heiðarlegan hátt og þjóðin hefur notið góðs en ekki þurft að súpa seyðið af eins og þarf eftir útrásarvíkinga. 

Það sem verið er að „leiðrétta" er að ríkið eignar sér afrakstur sjómanna sem núna verður ríkiseign. Ísköld hönd kommúnismans drepur allan þrótt einstaklingsins, jarðar frjálsa samkeppni og innlært bókavit fræðikenninga stjórnar för „þeirra gáfuðu" sem allir aðrir eiga umsvifalaust að falla á kné fyrir og tilbiðja. Núna eiga sjómenn að vinna sex daga af sjö fyrir valkyrjustjórnina og fá fyrst laun í eigin vasa á sjöunda degi sjósóknar.

Með hatri og ósvífnum, óréttlætanlegum árásum á sjómenn beitir valkyrjustjórnin sér fyrir því að rústa árangri sjálfstæðisbaráttu Íslendinga í meira en 100 ár, þar sem stækkun landhelginnar lagði grunninn að þróun fiskveiðiflota landsmanna og auknum afla. Þegar allt efnahagskerfið hrynur á nýjan leik eftir störf þessara nýju innrásarvíkinga verður of seint að bjarga sér. Litið er á fiskveiðikerfið sem svik og þjófnað sjómanna í stað þess að skilja að það er einstakt á heimsmælikvarða og örugg trygging fyrir velferð þjóðarinnar. 

Efnahagssérfræðingum valkyrjustjórnarinnar verður eflaust hampað af ríkisstjórn Norður-Kóreu, svo vel hefur þeim tekist að fara fram úr snillingum kommúnismans þar. Það mun ekki líða langur tími þangað til fólk fer að flýja land í matarleit eins og einungis þeim stálheppnu tekst að gera í Norður-Kóreu. Hinir verða að lepja dauðann úr skel og tilbiðja valdhafa sem mata eigin krók á striti annarra.

Það verður dýr missir fyrir þjóðina að sjá á eftir sjávarútveginum. Sú reynsla og þekking sem þar hefur varðveist og þroskast verður ekki endursköpuð eftir að sjávarútveginum hefur verið rústað. Markmið ríkisstjórnarinnar er að tróna með inngöngu í ESB sem lausn á því neyðarástandi sem hún skapar.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.  

 


mbl.is Þórunn: Ljúka umræðunni á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Nauðsynlegt er að skrá sig inn til að setja inn athugasemd.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband