Stjórnmálavændið
5.5.2025 | 08:38
Það er ömurlegt að fylgjast með hnignun íslensks samfélags. Þrátt fyrir sífellt menntaðri þjóð samkvæmt pappírnum, þá hrakar lestrar- og stærðfræðikunnáttu barna í grunnskólum. Breiðholtsskóli með fagurgala á pappír heldur ekki vatni í raun. Þjóðin má þakka fyrir einstaklinga eins og Hermann Austmar faðir stúlku í skólanum, sem óskaði eftir að námsmatið yrði lagt fyrir hópinn þar sem hann taldi öruggt að nemendurnir hefðu ekki fengið viðunandi kennslu vegna ofbeldisvanda sem hefur þrifist í skólanum."
Niðurstöður matsins sýna ofmat stjórnenda og kennara skólans miðað við raunverulega kunnáttu nemenda og þannig reynt að hylma yfir raunveruleikann. Ef Hermann Austmar hefði ekki farið sjálfur af stað til að fá fram sannleikann, er óvíst að nokkur annar hefði gert það. Með sömu úrkynjun menntunar og skóla á landinu í dag verður Ísland þriðja heims ríki eftir nokkur misseri.
Fölsun staðreynda með opinberum yfirlýsingum eins og í Breiðholtsskóla eru ekkert einsdæmi heldur dæmigert fyrir þá tækifærisstefnu sem trónar á Íslandi og hefur gert í áratugi.
Allt er til sölu, ekkert hefur gildi ef ekki er hægt að setja verðmiða á það. Þannig er menntunin orðin annars flokks söluvarningur þar sem árangurinn skiptir ekki lengur neinu máli. Öll stjórnmálastéttin er undirlögð svindlmenningu útrásarvíkinganna forðum sem rændu landsmenn og aðra í mörgum löndum Evrópu. Uppgjörið við hrunið var að ljúka skuldadæmi fjárglæframanna með lagalegri leið en vitundarhliðin var aldrei gerð upp. Stjórnmálastéttin hefur því miður tekið upp verstu glæfrasiðina og verðlaunar sjálfa sig og einstaklinga sem hafa skaðað þjóðina með opinberum embættum á Alþingi og í utanríkisþjónustunni.
Allt er gert að söluvarningi, menntun, náttúra, tungumál, auðlindir, menning....sjálft Ísland er til sölu. Gleymt er að af aurum verður margur api og bestu hlutirnir fást ekki keyptir eins og raunverulegur kærleikur, góð fjölskyldubönd og gott heimili. Landsmenn þurfa að fara að vakna upp úr menningarroti útrásarvíkinganna og klára dæmið með því að fara að fordæmi Hermanns Austmar og krefjast árangurs af þeim sem eru í stjórn, hvort svo sem það er í grunnskóla, sveitarfélagi eða ríkisstjórn. Örlög íslensku þjóðarinnar verða aðeins söluvarningur á meðan almenningur sefur.
Breiðholtsskóli stendur líka fyrir það vandamál sem ábyrgðarlaus stjórnmálastétt hefur þvingað á landsmenn með niðurlagningu landamæra Íslands og allir boðnir velkomnir til landsins í boði skattgreiðenda. Peningagræðgin er slík að íslensk tunga er í útrýmingarhættu. Þjóðin er orðin að leiguliða í eigin landi og vændiskonur stjórnmálastéttarinnar þeysa á fundi hirðarinnar í Brussel til að selja út það sem eftir er af Íslandi.
Vændið er aðalburðarstoð íslenskrar menningar nútímans.
![]() |
Einkunnir gáfu allt aðra mynd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:06 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning