Enginn misskilningur með atkvæðagreiðsluna um ESB
14.4.2025 | 09:54
Það er misskilningur hjá íslenskum stjórnmálamönnum að ætla sér að fara að leiðrétta misskilning hjá norrænum og evrópskum stjórnmálamönnum sem túlka boðaða þjóðaratkvæðagreiðslu íslensku ríkisstjórnarinnar sem þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið. Þrátt fyrir orð um annað, þá er boðuð atkvæðagreiðsla túlkuð þannig af öllum öðrum ekki síst framkvæmdastjórn ESB. Það eru einungis Íslendingar sem eiga að gleypa þá blekkingu að kjósa eigi um hvort halda eigi aðildarviðræðum áfram um inngöngu Íslands í ESB.
Skoðanakannanir og þjóðaratkvæði eru tveir gjörólíkir hlutir. Að ríkisstjórnin sé að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslu til að kanna hvort hún hafi meiri hluta á bak við sig fyrir inngöngu Íslands í ESB verður af utanaðkomandi aðeins túlkað á þann veg að um þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Íslands í ESB sé að ræða. Láti Íslendingar blekkjast til að halda að um skoðanakönnun sé að ræða og að þeir fái síðar að greiða atkvæði um hvort Ísland eigi að vera meðlimur í ESB, þá mun það ekki gerast, því ef útkoman verður jákvæð í atkvæðagreiðslunni, þá dugir það til að sýna vilja þjóðarinnar og umsóknin verður send inn og aðildarferlinu lokið eftir það.
Áframhald Össurarblekkingarinnar
Þetta er áframhald á sömu blekkingu og Össur Skarphéðinsson og Samfylkingin komu með með því að segja að umsóknarferlið væri að kíkja í pakkann og sjá hvað hægt væri að semja um og síðan leggja uppgjafarsamning Íslands í dóm kjósenda. Sama blekking á ferðinni núna í afstöðu til þjóðaratkvæðisins.
Ef Íslendingar láta Samfylkinguna með aðstoð Viðreisnar blekkja sig í annað sinn með þjóðaratkvæðagreiðslu sem sýnir vilja Íslands til að halda áfram umsóknarferlinu þá verður það notað sem sýndur vilji þjóðarinnar að ganga með í ESB. Síðan verður gengið formlega frá aðildarsamningi Íslands og ekkert vantar upp á annað en staðfesting alþingis og forseta Íslands til að Ísland verði aðildarríki ESB.
Ætla þeir sem enn unna ættjörðinni einhvers, þá að fara að mæta fyrir utan Alþingi með búsáhöld og hafa áhrif á ríkisstjórnina um að hætta við formlega staðfestingu sem hún er þegar búin að skrifa upp á í Brussel?
Ætla menn þá að fara bænaleið að Bessastöðum til að grátbiðja forsetann um að neita að samþykkja lög sem hann eflaust þyrstir í að skrifa undir? Halla Tómasdóttir hefur hingað til ekki andmælt yfirþjóðlegum stofnunum heldur hefur hún brosað sjálfa sig inn í innsta hring alþjóðlegra ráðamanna sem nota þessar sömu stofnanir til að tryggja eigin völd á kostnað almennings og þjóðríkja.
Vaknið!
Það er misskilningur að vera að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að gera ekkert til að leiðrétta þá almennu og viðteknu túlkun erlendis að Ísland sé á leiðinni í ESB. Hvað haldið þið að ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafi verið að gera í Brussel? Bjóða góðan daginn, drekka te og spjalla um veðrið?
Ríkisstjórnin gortir sig af því að hún muni koma Íslandi inn í ESB. Ráðherrarnir eru stoltir af því að koma Íslandi með góðu eða illu inn í ESB. Það er það sem þeir segja vinum sínum og hafa þegar samið um að tjaldabaki í Brussel. Á Íslandi blekkir ríkisstjórnin landsmenn með þykjustu atkvæðagreiðslu sem sé eiginlega ekki atkvæðagreiðsla um ESB heldur bara könnun um hvort hún eigi að taka upp aðildarviðræður við ESB. Slík blekking selur inn þau ósannindi til Íslendinga að þeir eigi von á annarri þjóðaratkvæðagreiðslu síðar um inngöngu Íslands í ESB.
Ríkisstjórnin er á leiðinni með þjóðina í ESB. Það skiptir engu máli hvaða nafni þjóðaratkvæðagreiðslunni er gefið, hún er og verður atkvæðagreiðsla um inngöngu Íslands í ESB. Verði útkoman jákvæð verður ekkert eftir nema formleg staðfesting Alþingis og forsetans og refskákin heppnaðist. Verði útkoman neikvæð fyrir ESB, þá mun hefjast grimmileg valdabarátta um að kæfa niður alla andstöðu á Íslandi fyrir seinni atkvæðagreiðslu til að tryggja að Ísland segi já að lokum.
ESB er ekki þekkt fyrir að virða vilja kjósenda. Af hverju ætti sambandið að fara að breyta þeirri framkomu fyrir Ísland?
![]() |
Misskilningur um afstöðuna til ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:16 | Facebook
Athugasemdir
Stjórnarskráin leyfir ekki ESB aðild.
Guðmundur Ásgeirsson, 14.4.2025 kl. 16:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.