Blaðamannafélag ríkisins

0 (kopia)Stefán E. Stefánsson gerir að umtalsefni í þættinum Spursmál, að Blaðamannafélag Íslands hafi sent frá sér bréf til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þar sem þess er krafist að nefndin hætti tafarlaust að rannsaka þátt blaðamanna RÚV í byrlunarmálinu, þegar afritaður var sími Páls skipstjóra Steingrímssonar en honum var byrlað eitur og lá milli heims og helju og kraftaverk að lifði af tilræðið. Fréttir með vísun í gögn símans voru með leynd fluttar frá RÚV til annarra fjölmiðla til að hylja slóðina. Blaðamannafélagið tekur með þessu bréfi enn eitt skrefið til að hindra framgang réttvísinnar í þessu glæpamáli RÚV og fer fram á að Alþingi ritskoði lögregluna.

Blaðamannafélag Íslands fer mikinn og lexar upp Alþingi um hvert hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er. Samtímis ásakar félagið lögregluna sem vann að rannsókn málsins um að hafa brotið stjórnarskrána með rannsókninni. Krefst Blaðamannafélagið að nefndin rannsaki hlut lögreglunnar og grípi til viðeigandi aðgerða gegn henni fyrir meint stjórnarskrárbrot. Blaðamannafélagið skrifar í bréfinu:

„Félagið telur tilefni til að árétta það sérstaklega að hlutverk stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar er að hafa eftirlit með störfum framkvæmdarvaldsins í þágu almennings. Nefndin hefur ekki eftirlit með fjölmiðlum og það er ekki hlutverk hennar að hafa skoðun á efnistökum þeirra. Hins vegar á nefndin að gæta að því að handhafar framkvæmdarvalds, þ.m.t. lögregla, haldi sig innan marka stjórnarskrárinnar. Eins og Blaðamannafélagið hefur bent á leikur verulegur vafi á því að það hafi lögregla gert í þessu máli. Félagið telur því fulla ástæðu til að þessi þáttur málsins sæti athugun nefndarinnar í samræmi við það hlutverk sem hún fer með samkvæmt lögum."

Blaðamannafélaginu yfirsést að hér er verið að ræða um Ríkisfjölmiðilinn með stóru R-i, þann einokunarmiðil sem trónar á auglýsingamarkaði og heldur öllum einkareknum fjölmiðlum í skák vegna einokunaraðstöðu sinnar. Ofstækisvarnir Blaðamannafélagsins eru slíkar fyrir starfsmenn RÚV sem sjálfir hafa flækt sér í sakamál og orðið sakborningar, að ekki er hægt að líta á félagið sem fulltrúa blaðamanna almennt á Íslandi. Væri réttara að segja að Blaðamannafélagið sé félag starfandi blaðamanna hjá RÚV og kalla mætti félagið Félag ríkisblaðamanna, Blaðamannafélag ríkisins osfrv.

Ábyrgð alþingis á RÚV er hafin yfir vafa

Páll Vilhjálmsson hefur manna lengst og best fylgst með byrlunarmálinu. Í grein á blog.is 18. mars skrifar Páll Vilhjálmsson:

„RÚV er ríkisstofnun, ekki fjölmiðill út í bæ. Árlega fær RÚV um 6,5 milljarða króna frá almenningi, fjárveitingu sem alþingi samþykkir. Stjórn RÚV er tilnefnd af alþingi. Ábyrgð alþingis á RÚV er hafin yfir vafa."

Það verður að telja Blaðamannafélagi Íslands til trafala að hvorki sjá né skilja þennan mun á blaðamönnum ríkisins og öðrum blaðamönnum á Íslandi. Svo djúpt er félagið sokkið í spillingu þeirra sem viðriðnir eru byrlunarmálið, að félagið setur sig sjálft yfir löggjafarvald Alþingis og skipar þinginu að vinna gegn lögreglu landsmanna. Fyrir utan yfirgengilegan hrokann, þá yrði það brot á stjórnarskránni út af fyrir sig ef kjörnir alþingismenn ættu að fara að lúta fyrirskipunum félagssamtaka sem almenningur hefur engin ítök í. Fyrirskipun Blaðamannafélagsins til Alþingis um að ráðast á störf lögreglunnar eru því gróf inngrip til að reyna að koma í veg fyrir að réttarskipan fáist í byrlunarmálinu. Slíkt er með öllu óásættanlegt hverjum þeim blaðamanni sem vinnur heilshugar að störfum sínum. Blaðamenn Íslands ættu því að skipta út stjórn Blaðamannafélagsins eða stofna alvöru blaðamannafélag sem ekki er í fjötrum klíkunnar í Efstaleiti.

Ríki í ríkinu

Áfram segir í bréfi Blaðamannafélagsins:

„Eins og kunnugt er ákvað lögregla að hefja rannsókn á þeim sex blaðamönnum sem töldust tengjast umfjölluninni með einum eða öðrum hætti. Sú rannsókn var tilhæfulaus með öllu og beindist að þeirri háttsemi blaðamanna að taka við upplýsingum frá heimildarmönnum um samfélagslega mikilvæg málefni og miðla þeim til almennings með ábyrgum hætti. Líkt og Blaðamannafélagið hefur margítrekað bent á felst ekki refsiverð háttsemi blaðamanna í því, heldur þvert á móti stjórnarskrárvarin frumskylda blaðamanna í lýðræðislegu þjóðfélagi."

Það sem félagið segir að sé ekki refsiverð háttsemi blaðamanna og ábyrgur háttur þeirra er að afrita stolinn síma sem tekinn var frá manni sem byrlað hafði verið eitur. Þóra Arnórsdóttir fv. forsetaframbjóðandi sá til þess að keyptur var sími með næstum sama númeri og stolni síminn til þess að afrita stolna símann yfir á símann sem keyptur var opinberlega fyrir fé skattgreiðenda. Blinda auganu er snúið að lögum landsins til að reyna að koma hneyksli af stað um íslenskan sjávarútveg og ríkisblaðamönnunum virðist sjálfsagt og eðlilegt að brjóta lögin fyrir „málstaðinn." RÚV og meðreiðarsveinarnir í Blaðamannafélagi Íslands mæla eins og ríki í ríkinu með sértúlkun á stjórnlögum landsins, upphefja sig yfir löggjafarvald, framkvæmdarvald og að sjálfsögðu dómsvaldið líka.

Blaðamannafélag Íslands lýgur

Blaðamannafélagið fullyrðir að fréttaumfjöllun byrlunarmálsins hafi aldrei verið hrakin eða neinar efnislegar athugasemdir verið gerðar við hana. Það er lygi. Páll Vilhjálmsson hefur fjallað um málið misserum saman og rakið haldleysi og svindl á fréttaflutningi til að koma höggi á útgerðarfélag á Íslandi. Stefán E. Stefánsson hjá Morgunblaðinu hefur tekið upp málið og fylgt því eftir meðal annars með viðtali við Pál Steingrímsson skipstjóra. Komið hefur í ljós að nær allar tilraunir RÚV til að búa til hneyksli íslensks sjávarútvegs erlendis hafa runnið á rassinn sem haldlaus rógburður. Blaðamannafélagið skrifar í framhaldinu:

„Leiðin að því að styrkja stöðu tjáningarfrelsis – og þar með lýðræðis – liggur í því að rannsaka þá framgöngu lögreglu gagnvart blaðamönnum sem bent hefur verið á sem eina af ástæðum fyrir versnandi stöðu tjáningarfrelsis blaðamanna á Íslandi á undanförnum árum."

Blaðamannafélagið gerir sig samsekt sakborningum á grófan hátt með inngripum í lýðræðislegt ferli og tilraun til valdatöku yfir kjörnum embættismönnum í því skyni að hindra að þeir seku í málinu fái réttarfarslega meðferð og refsingu. Þar með gerist félagið sjálft málsvari ritskoðunar á öðrum en ríkisblaðamönnum félagsins.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis ber að sinna eftirliti með að stofnanir á vegum ríkisins starfi samkvæmt lögum og góðu velsæmi. Að reyna að hindra nefndina frá því að vinna þau störf er með öllu siðlaust.

Vonandi tekur nefndin þetta mál til rækilegar skoðunar og umfjöllunar á gegnsæjan hátt, þannig að landsmenn geti fylgst með því hvernig alþingi starfar samkvæmt stjórnlögum landsins.

Á meðan mætti að ósekju víkja stjórn og viðkomandi starfsmönnum RÚV frá störfum, þar til niðurstaða er fengin.


mbl.is #70. - Fellir mál Ásthildar Lóu ríkisstjórnina?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Kristján Hjaltested

Er ekki skattsvikari formaður félagsins.?

Þetta félag er fyrir löngu komið í ruslflokk

og heiðarlegir blaðamenn ættu að stofna nýtt

félag sem fólk myndi bera virðing fyrir.

Eins og staðan er í dag er hún enginn. 

Sigurður Kristján Hjaltested, 23.3.2025 kl. 21:53

2 Smámynd: Gústaf Adolf Skúlason

Sæll Sigurður og þakkir fyrir athugasemd. Sammála að heiðarlegir blaðamenn þurfa að stofna nýtt félag, þekki ekki alveg til mála með formanninn en er ekkert hissa á því ef hún væri viðriðin eitthvað slíkt. Frekjutónninn í bréfi félagsins til Alþingis er slíkur, ég hef aldrei séð neitt annað eins.......

Gústaf Adolf Skúlason, 24.3.2025 kl. 07:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband