Borgarstjórinn sé með yður...

 

bjargvætturborgarinnarReykjavík hlýtur að vera paradís allra borga á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað. Stórhýsin rjúka upp, hafnarútsýnið slær met á verðbréfamörkuðum, bankahallir kikna undan gulli og gersemum. Borgarbúar baða sig í allsnægtum, hamingjuklukkur gjalla og endalaus tilfinning velmegunar, ánægju og gleði ríkir. Börnin svífa á skýjum sem litlir englar, öll kynin brosa svo breitt að væri það ekki vegna eyrnanna færi brosið allan hringinn. Á slíkum velmegunarárum sem núna ríkja í Reykjavík og allir borgarbúar njóta góðs af geta bæði þeir og borgarstjórnin tekið út þau laun sem þeim langar í. Að sjálfsögðu á borgarstjórinn, drottning hunangsbúsins, að njóta verðlauna sem sérstaklega mikilvægur einstaklingur æðstur allra annarra.

Jafnaðarmenn kunna listina að skapa allsnægtir. Úr engu tekst þeim að búa til verðbréfamarkaði þar sem milljónirnar streyma og allir geta sótt gull í greipar sínar. 3,8 milljónir eru smáaurar og hégóminn sjálfur að einhver sé svo spældur, fullur af hatri og villutrú, að vera að minnast á slíkt. Engin tala, sama hversu há hún er, er nógu há til að borga fyrir þá dýrð, þann ljóma sem borgarstjórinn lætur skína á borgina með nærveru sinni. Bara að fá að anda inn broti af sama andrúmslofti og borgarstjórinn andar út er svo óendanlega dýrmætt að jafnvel þótt mánaðarútsvarið væri hærra en árslaun dagverkamannsins, þá dygði það ekki til.

Borgarbúar geta því bæði fagnað og þakkað samtímis fyrir að hafa svo hógværan borgarstjóra sem ekki fer fram á nema brotabrot af raunverulegu gildi ómetanlegrar ábyrgðar sinnar. Eiginlega ættu borgarbúar að sýna vinstri mönnum Ali Baba endalausa lotningu fyrir að geta opnað vegginn lokaða svo ekkert sjáist nema gull.

Sænski forsætisráðherrann rúmur hálfdrættingur borgarstjórans í Reykjavík

Núna kemur réttilega í ljós hversu lítil hin svo kölluðu stórmenni og þjóðhöfðingjar ýmissa þjóða eru miðað við borgarstjórann í Reykjavík. Sænski forsætisráðherrann hefur 190.000 sænskar krónur í mánaðarlaun sem gera 2,5 milljónir íslenskar. Það eru tæplega tveir þriðju hlutar af mánaðarlaunum reykvíska borgarstjórans. Ulf Kristersson hefur ekki lykil jafnaðarmanna að gullna hliði himnaríkis og þess vegna eru laun hans í raun ofreiknuð og ættu í mesta lagi að vera bara þriðjungur af launum borgarstjórans.

Hér er dæmi um fallega daglega bæn Reykvíkinga:

„Góði borgarstjóri. Þakka þér fyrir nýjan Dag. Þakka þér fyrir að þú veist allt. Þú veist hvað hefur drifið á daga mína, hvernig mér líður og hvað á eftir að henda mig. Þú veist hvað ég hugsa, hvað ég geri og hvert ég fer. Þakka þér fyrir að þú eykur skuldir mínar og elskar mig. Ég bið þig að leiða mig eftir vilja þínum alla daga. Megi jafnaðarandi þinn hvíla yfir mér. Vertu í verki með mér og hjálpaðu mér að vera í verki með þér. Þín er jöfnuð dýrðin að eilífu."

Borgarstjóri Reykjavíkur sé með yður.....


mbl.is Nýr borgarstjóri með 3,8 milljónir í mánaðarlaun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband